Hoppa yfir valmynd
7. nóvember 1997 Innviðaráðuneytið

Skaftárhreppur - Kostnaður við heimanakstur barna í skóla

Lögmenn Suðurlandi                                             7. nóvember 1997                                             97070030

Óskar Sigurðsson lögfræðingur                                                                                                         16-8509

Pósthólf 241

802 Selfoss

 

 

             Þann 7. nóvember 1997 var í félagsmálaráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

 

ú r s k u r ð u r:

 

             Með erindi, dagsettu 14. júlí 1997, kærði Óskar Sigurðsson lögfræðingur af hálfu Sigurðar Jónssonar hdl., fyrir hönd umbjóðanda hans Jóns R. Einarssonar, Efri-Steinsmýri, Skaftárhreppi, ákvörðun Skaftárhrepps um að innheimta kostnað við heimanakstur barna Jóns í Kirkjubæjarskóla.

 

             Erindið var sent til umsagnar hreppsnefndar Skaftárhrepps með bréfi, dagsettu 16. júlí 1997. Umsögn barst ráðuneytinu þann 25. ágúst 1997 með bréfi, dagsettu 15. sama mánaðar. Frekari upplýsinga var óskað frá Skaftárhreppi með símbréfi, dagsettu 9. október 1997, og bárust umbeðnar upplýsingar með bréfi, dagsettu 28. október 1997.

 

I.          Málavextir.

 

             Þann 7. febrúar 1997 kvað félagsmálaráðuneytið upp þann úrskurð að ákvörðun hreppsnefndar Skaftárhrepps frá ágúst 1996 um að ráða Sigursvein Guðjónsson til að annast akstur skólabarna úr Landbroti og Meðallandi væri í samræmi við lög. Ráðuneytið tók jafnframt fram í úrskurði sínum að í ljósi gagna um ástæður deilu milli skólabílstjórans annars vegar og íbúanna að Efri-Steinsmýri og Langholti hins vegar væri ekki unnt að skylda þá íbúa til að senda börn sín með skólabíl umrædds skólabílstjóra. Af því tilefni var skorað á hreppsnefnd Skaftárhrepps að leita lausnar í málinu sem þjónaði sem best hagsmunum þeirra barna sem málið varðar.

 

             Í framhaldi af þessu skipulagði Skaftárhreppur akstur fyrir umrædd börn með öðrum skólabílstjóra. Með reikningi, dagsettum 31. maí 1997, krafði Skaftárhreppur Jón R. Einarsson um greiðslu á aukakostnaði við akstur tveggja barna hans til og frá Kirkjubæjarskóla, samtals að fjárhæð kr. 67.000.-

 

             Ákvörðun Skaftárhrepps um að innheimta framangreindan kostnað var síðan kærð til félagsmálaráðuneytisins með bréfi, dagsettu 14. júlí 1997.

 

II.         Málsástæður.

 

             Í kærunni er tekið fram að menntamál séu meðal lögbundinna verkefna sveitarfélaga, sbr. 6. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 8/1986 og lög um grunnskóla nr. 66/1995. Í 1. mgr. 4. gr. grunnskólalaga segi að í strjálbýli skuli miðað við heimanakstur nemenda þar sem því verður við komið en ekki heimavist. Kostnað við slíkan akstur skuli sveitarfélög greiða, sbr. 10. gr. laga um grunnskóla. Einnig er því haldið fram að umrædd innheimta á kostnaði við skólaakstur brjóti gegn “jafnræðisreglu stjórnarfarsréttar og þeim grundvallar mannréttindum að allir skuli eiga jafnan aðgang til menntunar og að börnum skuli tryggð ókeypis grunnmenntun. Er sú regla varin af stjórnarskrá landsins og alþjóðlegum sáttmálum sem Ísland hefur fullgilt. Í því sambandi er vísað til 2. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 14. gr. stjórnskipunarlaga nr. 97/1995, 28. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins frá 1956 og 2. tl. 13. gr. alþjóðasamnings um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi.”

 

             Í umsögn Skaftárhrepps um kæruna er öllum rökum og sjónarmiðum kæranda mótmælt “sérstaklega að því leyti sem fullyrt er að brotið sé gegn jafnréttissjónarmiðum grunnskólalaga.” Skaftárhreppur hafi séð um heimanakstur skólabarna og ráðið til þess hæfa skólabílstjóra og greitt allan kostnað af þeim akstri. “Hins vegar hafi kærendur þessa máls komið af stað eða búið til ágreining um hæfni eins bílstjóranna, Sigursveins Guðjónssonar.” Vísað er til fyrri niðurstöðu félagsmálaráðuneytisins í málinu um lögmæti ráðningar skólabílstjórans. Sveitarfélagið hafi boðið kæranda þá þjónustu sem hann eigi rétt á. “Hins vegar er með máli þessu tekist á um það hvort þegnar geti gert sveitarfélagi sínu þá kröfu að greiða umframferðakostnað barna sinna sem á sér grunn í órökstuddum sérþörfum sem líklegast er að eigi sér einhverjar persónulegar skýringar.”

 

III.        Niðurstaða ráðuneytisins.

 

             Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga um grunnskóla nr. 66/1995 er sveitarfélögum skylt að halda skóla fyrir öll börn og unglinga á aldrinum 6 til 16 ára eftir því sem nánar segir í þeim lögum.

 

             Í 1. mgr. 10. gr. sömu laga segir m.a. svo: “Allur rekstur almennra grunnskóla er á ábyrgð og kostnað sveitarfélaga frá þeim tíma sem lög þessi koma að fullu til framkvæmda sé ekki sérstaklega kveðið á um annað.” Lögin komu að fullu til framkvæmda 1. ágúst 1996, sbr. 57. gr. sömu laga.

 

             Til rekstrarkostnaðar almennra grunnskóla telst meðal annars kostnaður við heimanakstur nemenda, sbr. 1. mgr. 4. gr. laga um grunnskóla. Sveitarfélög með innan við 2.000 íbúa fá framlög til rekstrar grunnskóla á grundvelli 10. gr. reglugerðar um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga nr. 105/1996 og er við útreikning þeirra framlaga meðal annars tekið tillit til akstursvegalengdar milli skóla og heimilis nemenda. Skaftárhreppur er eitt þeirra sveitarfélaga sem fær greiðslur úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga á grundvelli þessa ákvæðis.

 

             Eins og skýrt kemur fram í úrskurði ráðuneytisins frá 7. febrúar 1997 taldi ráðuneytið að ekki hafi verið um að ræða ómálefnaleg sjónarmið þegar ákveðið var að ráða Sigursvein Guðjónsson til starfa sem skólabílstjóra og því voru ekki talin efni til að gera athugasemdir við almennt mat hreppsnefndar Skaftárhrepps á hæfni Sigursveins til starfans.

 

             Jafnframt var tekið fram að ráðuneytið teldi í ljósi gagna um ástæðu deilu þeirrar sem verið hefur milli Sigursveins og íbúanna að Efri-Steinsmýri og Langholts að ekki væri unnt að skylda þá aðila til að senda börn sín í skólabíl sem Sigursveinn ekur. Ráðuneytið taldi því að í þessu tilviki hafi forsaga málsins verið með þeim hætti að ekki væru rök til að líta framhjá ástæðum foreldranna í málinu. Málefnalegar ástæður hafi því verið fyrir hendi til að óska eftir breytingum á skipulagi skólaaksturs.

 

             Rekstur grunnskóla er sérstakt verkefni sem sveitarfélögum er með lögum falið að inna af hendi. Í lögum um grunnskóla er ekki að finna sérstakar heimildir til handa sveitarfélögum til að innheimta kostnað þann sem um ræðir í máli þessu. Ráðuneytið telur því með hliðsjón af ótvíræðum skyldum sveitarfélaga varðandi rekstur grunnskóla á grundvelli 1. mgr. 1. gr. og 1. mgr. 10. gr. laga um grunnskóla og ummælum hér að framan og í úrskurði ráðuneytisins frá 7. febrúar 1997 varðandi deilur þær sem liggja til grundvallar í málinu, að Skaftárhreppur hafi ekki heimild til að krefja kæranda um þá fjárhæð sem sveitarfélagið telur að fallið hafi til vegna breytinga á skipulagi skólaaksturs vegna barna hans.

 

             Uppkvaðning þessa úrskurðar hefur dregist vegna mikilla anna í ráðuneytinu.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

 

             Jóni R. Einarssyni er ekki skylt að greiða reikning frá Skaftárhreppi, dags. 31. maí 1997, vegna kostnaðar við skólaakstur.

 

F. h. r.

 

Húnbogi Þorsteinsson (sign.)

Sesselja Árnadóttir (sign.)

 

 

 

 

Ljósrit:  Hreppsnefnd Skaftárhrepps.

 

 

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum