Hoppa yfir valmynd
3. apríl 1997 Innviðaráðuneytið

Reyðarfjarðarhreppur - Endurmat á fasteignaskatti

Gunnar Hjaltason                                                  3. apríl 1997                                                       97030070

Austurvegi 19                                                                                                                                              1110

730 Reyðarfjörður

            

 

             Vísað er til erindis yðar til ráðuneytisins, dagsett 19. mars 1997, varðandi neitun hreppsnefndar Reyðarfjarðarhrepps um endurmat á fasteignagjöldum á Austurvegi 19, Reyðarfirði.

 

             Í 2. mgr. 3. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga nr. 4/1995, sbr. lög nr. 79/1996, er svohljóðandi ákvæði:

             “Stofn til álagningar skattsins á hús og mannvirki, að undanteknum sumarhúsum og útihúsum í sveitum, skal vera afskrifað endurstofnverð þeirra margfaldað með markaðsstuðli fasteigna í Reykjavík samkvæmt matsreglum Fasteignamats ríkisins. Stofn til álagningar fasteignaskatts á aðrar fasteignir skal vera fasteignamat þeirra.”

 

             Um gjaldflokka fasteignaskatta er fjallað í 3. mgr. 3. gr. laganna og eru þeir tveir, sbr. eftirfarandi:

1.          Íbúðir og íbúðarhús ásamt lóðarréttindum, erfðafestulönd og jarðeignir, sem ekki eru nytjaðar til annars en landbúnaðar, útihús og mannvirki í bújörðum, sem tengd eru landbúnaði, og sumarbústaðir ásamt lóðarréttindum.

2.          Allar aðrar fasteignir.

 

             Síðan segir í 3. mgr. 4. gr. laganna að verði ágreiningur um gjaldstofn skv. 3. gr. skuli vísa honum til úrskurðar Fasteignamats ríkisins. Þeim úrskurði má skjóta til yfirfasteignamatsnefndar ríkisins og úrskurðum nefndarinnar má skjóta til dómstóla.

 

             Samkvæmt framangreindu er fasteignaskattur lagður á fasteignir samkvæmt skrám útbúnum af Fasteignamati ríkisins, en Fasteignamat ríkisins starfar á grundvelli laga um skráningu og mat fasteigna nr. 94/1976 með síðari breytingum. Þau lög heyra undir verksvið fjármálaráðuneytisins og því ber að vísa þangað spurningum um túlkun einstakra ákvæða þeirra laga, m.a. um skyldur sveitarstjórna og Fasteignamats ríkisins.

 

             Skýrt er því samkvæmt lögum um tekjustofna sveitarfélaga nr. 4/1995 að ekki er gert ráð fyrir afskiptum félagsmálaráðuneytisins af ágreiningi varðandi gjaldstofn fasteignaskatta.

 

             Ráðuneytið telur ljóst að mál yðar snúist um rétt á endurmati fasteignarinnar eftir reglum Fasteignamats ríkisins og gildistöku slíks endurmats. Niðurstaða varðandi hugsanlega leiðréttingu á fasteignasköttum kemur einungis til skoðunar eftir að ljóst er með endurmat fasteignarinnar samkvæmt fyrrgreindum reglum.

 

F. h. r.

 

Sigríður Lillý Baldursdóttir (sign.)

Sesselja Árnadóttir (sign.)

 

 

 

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum