Hoppa yfir valmynd
12. ágúst 1998 Innviðaráðuneytið

Bæjarhreppur - Meðferð oddvita á fjármunum sveitarfélagsins

Sigurður Ólafsson                                                 12. ágúst 1998                                                   98050023

Stafafelli                                                                                                                                                 16-7701

781 Höfn

            

 

 

             Vísað er til erindis yðar til ráðuneytisins, dagsett 20. apríl 1998, þar sem kvartað er yfir vinnubrögðum fyrrum oddvita Bæjarhrepps meðal annars varðandi meðferð fjármuna sveitarfélagsins.

 

             Erindið var sent til umsagnar þáverandi oddvita Bæjarhrepps með bréfi, dagsettu 23. júlí 1998. Umsögn barst ráðuneytinu með bréfi, dagsettu 31. júlí 1998.

 

             Af gögnum málsins verður ráðið að meginefni erindisins varði mál sem eru allt frá hálfs árs til nokkurra ára gömul. Samkvæmt 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er almennur kærufrestur í stjórnsýslunni þrír mánuðir. Af þeim sökum er ekki unnt að taka til efnismeðferðar alla þætti erindis yðar. Þó telur ráðuneytið rétt að benda á eftirfarandi reglur sem giltu á síðasta kjörtímabili sveitarstjórna:

 

             Samkvæmt 75. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 8/1986 bar sveitarstjórn að gera fjárhagsáætlun og var sú fjárhagsáætlun meginregla um tekjuöflun, ráðstöfun fjármuna og fjármálastjórn sveitarfélagsins á reikningsárinu.

 

             Í 80. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 8/1986 er svohljóðandi ákvæði: “Til útgjalda, sem ekki eru lögbundin, samningsbundin eða leiðir af fyrri samþykkt sveitarstjórnar, má ekki stofna nema til komi samþykki sveitarstjórnar. Samþykki sveitarstjórn fjárveitingu utan fjárhagsáætlunar skal hún jafnframt kveða á um hvernig útgjöldunum skuli mætt.“

 

             Samkvæmt þessu er ljóst að ekki má inna af hendi neinar greiðslur úr sveitarsjóði eða taka lán í nafni sveitarsjóðs nema til komi formlegt samþykki sveitarstjórnar. Það gildir þó ekki ef tiltekin útgjöld eru lögbundin eða samningsbundin. Umrætt samþykki sveitarstjórnarinnar kemur fyrst og fremst fram í fjárhagsáætlun, en ef fjárhagsáætlun hefur af einhverjum ástæðum ekki verið gerð, þrátt fyrir ákvæði laganna, ber að leita heimildar sveitarstjórnar til allra útgjalda.

 

             Í 88. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 8/1986 voru fyrirmæli um að sveitarstjórn skyldi hafa lokið fullnaðarafgreiðslu ársreikninga sveitarsjóðs og fyrirtækja hans eigi síðar en í júlímánuði. Með fullnaðarafgreiðslu hér var átt við tvær umræður í sveitarstjórn með a.m.k. einnar viku millibili, sbr. b-lið 52. gr. laga nr. 8/1986.

 

             Í 50. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 8/1986 sagði í 1. mgr. að oddvita bæri að boða sveitarstjórnarfundi á þann hátt sem sveitarstjórn ákvað. Í fyrirmynd að samþykkt um stjórn og fundarsköp N.N.hrepps, sem gilti fyrir Bæjarhrepp þar sem sveitarstjórnin hafði ekki samið sérstök fundarsköp, sbr. 49. gr. laga nr. 8/1986 og auglýsingu nr. 106/1987, var gert ráð fyrir að lágmarksfrestur til að boða sveitarstjórnarfundi væri tveir sólarhringar og bar oddvita við boðun fundarins að kynna sveitarstjórnarmönnum dagskrá fundarins.

 

             Að lokum er rétt að benda á ákvæði í 1. mgr. 48. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 8/1986, en þar voru fyrirmæli um að sveitarstjórnarfundi bæri að halda eigi sjaldnar en ársfjórðungslega.

 

             Dregist hefur að afgreiða erindi yðar vegna mikilla anna í ráðuneytinu, meðal annars vegna sveitarstjórnarkosninga í maí sl.

 

F. h. r.

 

Húnbogi Þorsteinsson (sign.)

Sesselja Árnadóttir (sign.)

 

Afrit:  Þorsteinn Geirsson.

 

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum