Hoppa yfir valmynd
14. apríl 1999 Innviðaráðuneytið

Norður-Hérað - Hlutverk og störf skoðunarmanna ársreikninga

Katrín Ásgeirsdóttir                                                              14. apríl 1999                                                                     99040007

Hrólfsstöðum, Norður-Héraði                                                                                                                                                  1001

701 Egilsstaðir

 

 

 

 

          Vísað er til erindis yðar til ráðuneytisins, dagsett 9. þessa mánaðar, þar sem bornar eru fram spurningar varðandi störf kjörinna skoðunarmanna hreppsreikninga.  Hér á eftir fara spurningarnar og svör ráðuneytisins.

 

1.       Hvað á kjörinn skoðunarmaður að gera?

 

          Um hlutverk skoðunarmanna ársreikninga sveitarfélaga, réttindi og skyldur er fjallað í 69.-71. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998.  Má í því sambandi sérstaklega benda á 2. mgr. 69. gr., 3. mgr. 71. gr. og 6. mgr. 71. gr. laganna.  Rétt er að taka fram að skoðunarmönnum er ekki ætlað að endurtaka störf hins löggilta endurskoðanda eða fara sérstaklega yfir störf hans.  Á hinn bóginn notast skoðunarmenn oft við upplýsingar frá löggilta endurskoðandanum í störfum sínum.

 

2.       Eiga eða mega kjörnir skoðunarmenn fylgjast með rekstri sveitarfélagsins og samþykktum þess að staðaldri?

 

          Með hliðsjón af ákvæðum 70. gr. og 6. mgr. 71. gr. sveitarstjórnarlaga telur ráðuneytið að skoðunarmenn hafi víðtæka heimild til að sinna störfum sínum óhindrað og eru þær heimildir sem þar greinir ekki bundnar við tiltekinn tíma ársins.  Verður þannig meðal annars talið að skoðunarmenn geti gert tillögur á grundvelli 6. mgr. 71. gr. til sveitarstjórnar sérstaklega án beinna tengsla við afgreiðslu viðkomandi ársreiknings í sveitarstjórninni.

 

3.       Getur kjörinn skoðunarmaður leitað eftir lögfræðiáliti á kostnað sveitarfélagsins?

 

          Ráðuneytið telur ljóst að ákvæði VI. kafla sveitarstjórnarlaga feli ekki í sér heimild til skoðunarmanns til að skuldbinda sveitarsjóð fjárhagslega án samþykkis viðkomandi sveitarstjórnar.

 

4.       Getur kjörinn skoðunarmaður neitað að skrifa undir hreppsreikninga ef hann er ósáttur við þá?

 

          Ljóst er af 1. mgr. 71. gr. sveitarstjórnarlaga að endurskoðanda og skoðunarmönnum er skylt að árita ársreikning.  Í 3. mgr. 71. gr. er síðan að finna ákvæði um hvað koma skuli fram í áritun skoðunarmanna og ef þeir hafa einhverjar athugasemdir fram að færa geta þeir komið þeim á framfæri í árituninni.  Jafnframt er rétt að benda á ákvæði 4. mgr. 71. gr. um að til viðbótar geti þeir skilað sérstakri greinargerð um það sem þeir telja að skorti á í ársreikningnum.

 

5.       Má maki varamanns í sveitarstjórn vera skoðunarmaður og má varamaður í sveitarstjórn vera skoðunarmaður?

 

          Í áliti ráðuneytisins frá 19. apríl 1996 kemur fram að ráðuneytið telji að á grundvelli almennra hæfisreglna séu makar sveitarstjórnarmanna ekki kjörgengir til starfa skoðunarmanna ársreikninga.  Telur ráðuneytið að sú niðurstaða eigi bæði við um aðal- og varamenn í sveitarstjórnum.

 

          Hvað síðari spurninguna varðar er í 1. mgr. 69. gr. sveitarstjórnarlaga skýrt tekið fram að aðal- og varamenn í sveitarstjórn og starfsmenn sveitarfélagsins séu ekki kjörgengir sem skoðunarmenn hjá sveitarfélaginu.

 

F. h. r.

 

Húnbogi Þorsteinsson (sign.)

Sesselja Árnadóttir (sign.)

 

 

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum