Hoppa yfir valmynd
22. júní 1999 Innviðaráðuneytið

Vestmannaeyjabær - Hæfi skoðunarmanns ársreikninga

Oddur Júlíusson                                                               22. júní 1999                                                                    99020063

Brekastíg 7 B                                                                                                                                                                       1001

900 Vestmannaeyjar

 

 

 

          Vísað er til erindis yðar til félagsmálaráðuneytisins, dags. 26. apríl 1999, þar sem óskað er eftir að ráðuneytið kanni hvort Gísli Geir Guðlaugsson sé hæfur til að gegna störfum skoðunarmanns ársreikninga Bæjarveitna Vestmannaeyjabæjar.  Er tekið fram að hann sé starfsmaður Gámaþjónustu Vestmannaeyja ehf. sem leigi rekstur Sorpeyðingarstöðvar Vestmannaeyja af Bæjarveitum Vestmannaeyja.

 

          Ráðuneytið aflaði upplýsinga frá Vestmannaeyjabæ og Gámaþjónustu Vestmannaeyja ehf. um stöðu Gísla Geirs hjá fyrirtækinu.  Í bréfi Vestmannaeyjabæjar kemur fram það álit sveitarfélagsins að hann sé hæfur til að gegna starfinu.  Í bréfi Gámaþjónustu Vestmannaeyja ehf. kemur fram að Gísli Geir vinnur við verklegar framkvæmdir hjá Sorpeyðingastöð Vestmannaeyja auk þess að færa bókhald og sjá um launaútreikning starfsmanna Gámaþjónustu Vestmannaeyja.

 

          Í 1. mgr. 69. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998 segir m.a. svo:  „Aðal- og varamenn í sveitarstjórn og starfsmenn sveitarfélagsins eru eigi kjörgengir sem skoðunarmenn hjá sveitarfélaginu.“

 

          Af gögnum málsins er ljóst að Gísli Geir Guðlaugsson er ekki aðal- eða varamaður í bæjarstjórn Vestmannaeyjabæjar eða í stjórn Bæjarveitna Vestmannaeyja.  Jafnframt telur ráðuneytið ljóst að hann er ekki starfsmaður sveitarfélagsins.  Fyrirtæki það sem hann starfar hjá leigir rekstur sorpeyðingarstöðvar af Bæjarveitunum og er Gísli þar í verklegum framkvæmdum.  Ráðuneytið telur að þessi aðstaða geti ekki leitt til þess að Gísli Geir falli undir vanhæfisákvæði 1. mgr. 69. gr. sveitarstjórnarlaga.  Jafnframt telur ráðuneytið að færsla á bókhaldi og launaútreikningar hjá Gámaþjónustu Vestmannaeyja ehf. hafi ekki áhrif á þá niðurstöðu, en fyrirtækið hefur með höndum fleiri verkefni en rekstur sorpeyðingarstöðvarinnar, og þessi störf vinnur Gísli Geir hjá einkahlutafélaginu en ekki hjá sveitarfélaginu.

 

          Hvað varðar bréf ráðuneytisins frá 15. apríl sl. telur ráðuneytið að engu nýju sé við að bæta þá niðurstöðu sem þar kemur fram, þ.e. að ekki hafi verið tilefni til að gera athugasemdir við kjör Arnar Sigurmundssonar sem skoðunarmanns ársreikninga Vestmannaeyjabæjar.

 

F. h. r.

 

Húnbogi Þorsteinsson (sign.)

Sesselja Árnadóttir (sign.)

 

 

 

 

 

 

Afrit:  Vestmannaeyjabær.

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum