Hoppa yfir valmynd
3. júlí 2003 Innviðaráðuneytið

Grýtubakkahreppur - Beiting heimildar skv. 4. mgr. 5. gr. laga nr. 4/1995, öryrkja synjað um afslátt á fasteignaskatti

Öryrkjabandalag Íslands                                   3. júlí 2003                                      FEL03020062/1110

Jóhannes Albert Sævarsson hrl.

Hátúni 10,

105 Reykjavík

 

 

 

Þann 3. júlí 2003 var kveðinn upp í félagsmálaráðuneytinu svohljóðandi:

 

ú r s k u r ð u r :

 

Með erindi, dags. 12. febrúar 2003, barst ráðuneytinu stjórnsýslukæra Öryrkjabandalagsins f.h. A, hér eftir nefnd kærandi, vegna ákvörðunar Grýtubakkahrepps, hér eftir nefndur kærði, að hafna beiðni hennar um afslátt af álögðum fasteignaskatti vegna íbúðarhúss og útihúsa á jörðinni B í Grýtubakkahreppi fyrir árin 2000-2002. Kærandi krefst þess að ákvörðun kærða um að hafna erindi hennar verði felld úr gildi.

 

Með bréfi, dags. 7. mars 2003, óskaði ráðuneytið eftir umsögn kærða um stjórnsýslukæruna. Umsögnin barst með bréfi lögmanns kærða, dags. 2. apríl 2003. Var umsögnin send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 16. apríl 2003,  þar sem henni var gefinn frestur til 12. maí 2003 að koma á framfæri frekari athugasemdum. Athugasemdir bárust í bréfi kæranda dags. 7. maí 2003 og voru þær sendar kærða til upplýsingar með bréfi dags. 28. maí 2003.

 

I. Málavextir.

Kærandi  er með lögheimili að B í Grýtubakkahreppi. Hún er 75% öryrki og hefur hún mótmælt því að henni sé gert að greiða fullan fasteignaskatt af íbúðarhúsi og útihúsum á jörðinni á meðan ellilífeyrisþegum í sveitarfélaginu sé veittur 50% afsláttur af fasteignaskatti sem lagður er á íbúðarhúsnæði sem þeir búa í, á grundvelli heimildarákvæðis 4. mgr. 5. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga. Óumdeilt er að íbúðarhúsið á jörðinni er óíbúðarhæft og hefur kærandi af þeim sökum dvalist á heimili sonar síns í næsta sveitarfélagi. Kveðst kærandi ekki hafa fjárhagslegt bolmagn til að byggja upp íbúðarhús á jörðinni.

 

Með bréfi, dags. 20. júní 2002, óskaði kærandi eftir því við kærða að álagður fasteignaskattur yrði lækkaður um 50% vegna áranna 2000-2002. Kærði hafnaði erindi kæranda með bréfi dags. 9. júlí 2002. Voru forsendur kærða fyrir höfnuninni þær að aðeins ellilífeyrisþegar ættu rétt á afslætti af fasteignaskatti af íbúðarhúsnæði sem þeir byggju í sjálfir. Með bréfi, dags. 12. nóvember 2002, óskaði kærandi eftir því við kærða að hann endurskoðaði ákvörðun sína. Með tveimur bréfum, sem dagsett eru 26. nóvember 2002 var ósk kæranda hafnað, annars vegar með bréfi sem laut að beiðni um afslátt vegna íbúðarhússins að B og hins vegar vegna útihúsanna á jörðinni. Með bréfi, dags. 1. desember 2002, óskaði kærandi rökstuðnings fyrir umræddum synjunum og sendi kærði rökstuðning sinn í bréfi, dags. 17. desember 2002.

 

II. Málsrök kæranda.

Kærandi heldur því fram að kærði mismuni íbúum sveitarfélagsins eftir því hvort þeir séu örorku- eða ellilífeyrisþegar, þrátt fyrir að þessir aðilar séu jafnsettir samkvæmt lögum nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga. Ákvæði 4. mgr. 5. gr. laga nr. 4/1995 veiti sveitastjórnum fullt sjálfdæmi um að lækka eða fella niður álagðan fasteignaskatt tekjulítilla elli- og örorkulífeyrisþega, enda sé um heimildarákvæði að ræða. Við beitingu ákvæðisins þurfi þó að gæta viðtekinna stjórnsýslureglna, m.a. ákvæða stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í því sambandi bendir kærandi sérstaklega á jafnræðisreglu stjórnsýsluréttar og þá meginreglu að málefnaleg sjónarmið þurfi að liggja til grundvallar stjórnvaldsákvörðunum.

 

Kærandi segir kærða beita 4. mgr. 5. gr. laga nr. 4/1995 með þeim hætti að lækka eingöngu fasteignaskatt hjá ellilífeyrisþegum, en ekki hjá tekjulitlum öryrkjum. Hins vegar séu tekjulitlir ellilífeyrisþegar og öryrkjar lagðir að jöfnu í ákvæðinu varðandi lækkun eða niðurfellingu á fasteignaskatti. Telur kærandi hina kærðu ákvörðun byggða á ómálefnalegum sjónarmiðum og brjóta gegn því jafnræði sem ákvæðið byggi á. Ef heimildarákvæðinu sé á annað borð beitt verði tekjulitlir einstaklingar innan beggja hópanna að njóta sambærilegrar lækkunar fasteignaskatta. Jafnframt verði kærði að setja um það skýrar reglur hvenær heimildinni skuli beitt, m.a. hverjar skuli vera viðmiðunartekjur þeirra sem rétt eigi á afslætti.

 

Einnig byggir kærandi á því að skv. 5. mgr. 5. gr. laga nr. 4/1995 sé heimilt að lækka eða fella niður fasteignaskatt af útihúsum í sveitum ef þau séu einungis nýtt að hluta eða standi ónotuð. Telur kærandi að sömu sjónarmið eigi við um beitingu þessa heimildarákvæðis og 4. mgr. 5. gr. sömu laga. Ákvæðið nái til allra þeirra húsa sem þannig sé ástatt um og skuli beita ákvæðinu óháð elli eða örorku eigenda þeirra.

 

Kærandi fellst ekki á þá málsástæðu kærða að ekki sé hægt að lækka fasteignaskatt afturvirkt. Bendir kærði á að skattayfirvöld lækki álagða skatta þrjú ár aftur í tímann. Einnig bendir kærandi á að af 4. mgr. 5. gr. laga nr. 4/1995 megi ráða að miða beri bæði við tekjur og eignir við ákvörðun um afslátt. Verulega tekjuháir einstaklingar hafi hins vegar notið afsláttar af fasteignasköttum í sveitarfélaginu. Enn fremur telur kærandi venjuhelgaða framkvæmd sveitarfélagsins ekki heimila að brotið sé gegn lögum. Kærandi segir jafnframt að af áliti umboðsmanns Alþingis í máli nr. 2812/1999 verði ekki annað ráðið en að reglum um afslátt beri að beita með samræmdum hætti gagnvart íbúum sveitarfélagsins.

 

III. Málsrök kærða.

Kærði hefur andmælt kröfum kæranda. Bendir hann á að langur tími sé liðinn frá álagningu fasteignaskattsins og telur hann kæranda ekki hafa sett fram kæru sína innan frests stjórnsýslulaga. Auk þess sé ekki mögulegt að veita afslátt af álögðum gjöldum aftur í tímann.

 

Kærði segist ítrekað hafa synjað kæranda um lækkun fasteignaskatts á útihúsum að B. Rökstuðningur kærða fyrir þeirri ákvörðun hafi verið sú staðreynd að heimildarákvæði 5. mgr. 5. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga hafi aldrei verið beitt í sveitarfélaginu. Þar af leiðandi hafi enginn eigandi útihúsa í sveitarfélaginu notið lækkunar eða afsláttar af fasteignasköttum. Þar sem einungis sé um heimildarákvæði að ræða feli það ekki í sér einhliða rétt til fasteignareigenda í sveitarfélaginu.

 

Einnig segist kærði hafa synjað kæranda um lækkun fasteignaskatts af íbúðarhúsi kæranda. Byggist það á því að kærandi hafi verið úrskurðaður 75% öryrki, en öryrkjum hafi aldrei verið veittur afsláttur af fasteignaskatti í sveitarfélaginu, óháð því hvort þeir séu tekjuháir eða tekjulágir. Hinn 20. janúar 1983 hafi hreppsnefnd Grýtubakkahrepps ákveðið að veita ellilífeyrisþegum afslátt af fasteignaskatti á grundvelli þágildandi heimildar í lögum nr. 73/1980, um tekjustofna sveitarfélaga, sem hafi verið samhljóða núverandi ákvæði 4. mgr. 5. gr. laga nr. 4/1995. Í gegnum árin hafi síðan myndast stjórnsýsluvenja um útfærslu afsláttar af fasteignaskatti til ellilífeyrisþega. Stjórnsýsluvenjan sé á þann veg að ellilífeyrisþegum, 67 ára og eldri, sé veittur 50% afsláttur af fasteignasköttum sem lagðir séu á íbúðarhúsnæði þeirra. Þessi afsláttur sé veittur án tekjuviðmiða. Öryrkjar sem ekki séu orðnir ellilífeyrisþegar, hafi því ekki notið afsláttar eða niðurfellingar fasteignaskatts óháð því hverjar tekjur þeirra séu. Fullt jafnræði gildi því meðal þeirra sem njóti afsláttar af fasteignasköttum. Hefði það verið ætlun löggjafans að afsláttarveiting til eins hóps legði ófrávíkjanlega skyldu á sveitarfélag til að veita öðrum hópi samskonar afslátt, hefði það væntanlega verið tekið fram með skýrari hætti í umræddum lögum. Mótmælir kærði því að fyrirkomulag hans brjóti gegn jafnræðisreglum. Jafnframt bendir kærði á að framkvæmd hans sé í samræmi við framkvæmdahátt annarra sveitarfélaga í þessum efnum.

 

Kærði segir þau sveitarfélög sem veiti öryrkjum afslátt af fasteignaskatti notast við reglur sem séu alls ólíkar þeim reglum sem beitt sé þegar afsláttur er veittur ellilífeyrisþegum. Sú staðreynd sýni að það sé oftúlkun kæranda að tilvitnað heimildarákvæði 4. mgr. 5. gr. laga nr. 4/1995, leggi þær skyldur á herðar kærða að veita báðum þeim hópum, sem uppfylla skilyrði ákvæðisins undanþágu eða afslátt. Sé það fyrst og fremst ákvörðun sveitarstjórnar að veita öðrum hópum afslátt. Enn fremur bendir kærði á að háttur hans við veitingu afsláttar til ellilífeyrisþega geti ekki talist ómálefnalegur enda liggi þar að baki sú hugsun að eldri borgurum sveitarfélagsins, sem búi ennþá í eigin húsnæði, sé ívilnað með afslætti enda nýti þeir sér ekki önnur úrræði sem standi þeim til boða af hálfu sveitarfélagsins. Kærði vilji með þessu gera ellilífeyrisþegum kleift að búa sem lengst í eigin húsnæði.

 

Að lokum bendir kærði á að í áliti umboðsmanns Alþingis í máli nr. 2812/1999 komi fram að það sé undir einstökum sveitarfélögum komið hvort þau nýti þá lækkunarheimild sem sé að finna í 4. mgr. 5. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga nr. 4/1995 sem og hvernig lækkunarheimildin sé útfærð. Þó verði útfærslan að vera innan ramma ákvæðisins og byggð á málefnalegum sjónarmiðum. Einnig hafi mismunandi framkvæmd milli sveitarfélaga ekki verið talin fela í sér brot gegn jafnræðisreglu stjórnsýslulaga, heldur væri það samræmd beiting hennar gagnvart íbúum sveitarfélagsins sem máli skipti.

 

IV. Niðurstaða ráðuneytisins

 

A. Um kærufrest

Kærði hefur haldið því fram í málinu að ráðuneytinu beri að vísa þessu máli frá þar sem þriggja mánaða kærufrestur skv. 1. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hafi verið liðinn þegar stjórnsýslukæran barst ráðuneytinu. Hin kærða ákvörðun var tilkynnt kæranda með bréfi, dags. 9. júlí 2002. Verður að reikna kærufrest frá þeim degi sem umrætt bréf var komið til kæranda og rann kærufrestur því út um miðjan október 2002. Kærandi óskaði endurskoðunar hinnar kærðu ákvörðunar með bréfi, dags. 12. nóvember 2002, og barst svar kærða með bréfi dags. 26. sama mánaðar. Í ljósi þess að kærufrestur var þá þegar liðinn rauf endurupptökubeiðni kæranda ekki kærufrest, skv. 4. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Erindi kæranda til ráðuneytisins er dagsett 12. febrúar 2003 og barst það ráðuneytinu eftir að kærufrestur var liðinn.

 

Í 28. gr. stjórnsýslulaga er að finna undanþágureglur frá kærufresti skv. 1. mgr. 27. gr. laganna. Gerir ákvæðið ráð fyrir að ef kæra berst að liðnum kærufresti skuli vísa henni frá, nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr, sbr. 1. tölul. 1. mgr., eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar, sbr. 2. tölul. 1. mgr.

 

Við skýringu á fyrrnefndu undanþágureglunni verður m.a. að líta til þess hvort aðila máls hafi verið leiðbeint með fullnægjandi hætti um kæruheimild. Af gögnum málsins verður ekki ráðið að kæranda hafi verið leiðbeint um kæruheimild til ráðuneytisins eins og skylt er skv. 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga.

 

Síðarnefnda undanþágureglan áskilur að veigamiklar ástæður séu fyrir hendi til þess að heimilt sé að taka mál til meðferðar eftir að kærufrestur er liðinn. Stjórnsýslukæran lýtur einkum að beitingu kærða á heimildarákvæðum 4. og 5. mgr. 5. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga nr. 4/1995. Ráðuneytið hefur undanfarna mánuði kannað á grundvelli 102. gr. sveitastjórnarlaga nr. 45/1998 beitingu sveitarfélaga á umræddu lagaákvæði. Könnunin hefur meðal annars leitt í ljós að skýring og beiting sveitarfélaga á ákvæðinu er ekki einsleit varðandi þau atriði sem deilt er um í málinu. Telur ráðuneytið því mikilvægt að úrskurðað verði um þau ágreiningsefni sem hér er til umfjöllunar.

 

Með vísan til framangreinds telur ráðuneytið að skilyrði 1. og 2. tölul. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga til að víkja frá hinum almenna kærufresti 1. mgr. 27. gr. sömu laga séu uppfyllt í máli þessu. Verður málið því tekið til úrskurðar skv. 103. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 45/1998. 

 

B. Um synjun niðurfellingar fasteignaskatts af útihúsum

Kærandi heldur því fram í málinu að ákvörðun kærða um að hafna erindi kæranda um lækkun eða niðurfellingu á fasteignaskatti af útihúsum að B í Grýtubakkahreppi, sbr. 5. mgr. 5. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga, sé ólögmæt.

 

Ákvæði 5. mgr. 5. gr laga nr. 4/1995  er svohljóðandi: „Heimilt er sveitarstjórn að lækka eða fella niður fasteignaskatt af útihúsum í sveitum ef þau eru einungis nýtt að hluta eða standa ónotuð.“ Er hér um heimildarákvæði að ræða og hafa sveitarfélög val um það hvort þau beita því eður ei. Kjósi þau hins vegar að beita heimildinni eru þau bundin af ákvæðum stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og óskráðum reglum stjórnsýsluréttar við þá framkvæmd.

 

Í greinargerð kærða er fullyrt að umræddu heimildarákvæði hafi ekki verið beitt í sveitarfélaginu og hefur þetta einnig verið staðfest símleiðis af sveitarstjóra kærða. Engar reglur hafa heldur verið settar af sveitarstjórn um beitingu ákvæðisins. Í ljósi þessa er það niðurstaða ráðuneytisins að fullyrðingar kæranda um að ákvæðinu hafi verið beitt með ólögmætum hætti af sveitastjórn Grýtubakkahrepps, eigi ekki við rök að styðjast. Ber því að hafna þessari málsástæðu kæranda.

 

C. Um synjun afsláttar af fasteignaskatti sem öryrkjar greiða

Í synjunarbréfi kærða, dags. 9. júlí 2002, kemur fram að beiðni kæranda um afslátt af fasteignaskatti vegna örorku samrýmist ekki reglum kærða og sé erindinu því hafnað. Síðan segir í bréfinu: „Reglur Grýtubakkahrepps eru þær, að aðeins ellilífeyrisþegar fá 50% afslátt af íbúðarhúsnæði sem þeir búa sjálfir í.“ Umrætt svar er ítrekað í rökstuðningi kærða fyrir ákvörðun sinni dags. 17. desember 2002 og í umsögn kærða til ráðuneytisins, dags. 31. mars 2003. Af gögnum málsins má ráða að þrátt fyrir orðalag fyrrnefnds synjunarbréfs hafi sveitarstjórn ekki sett skriflegar reglur um beitingu 4. mgr. 5. gr. laga nr. 4/1995, heldur hafi stjórnsýsluvenja skapast um hana á grundvelli samþykktar hreppsnefndar frá árinu 1983. Liggur heldur ekki fyrir að reglurnar hafi verið birtar íbúum sveitarfélagsins. Hefur þetta þó ekki efnislega þýðingu við úrlausn málsins.

 

Kærandi heldur því fram í málinu að synjun kærða á ósk hennar um afslátt af fasteignaskatti skv. 4. mgr. 5. gr. laga nr. 4/1995 hafi verið ólögmæt. Telur kærandi að kærða sé óheimilt á grundvelli umrædds lagaákvæðis að veita eingöngu ellilífeyrisþegum í sveitarfélaginu, en ekki öryrkjum, afslátt af fasteignaskatti. Í ákvæðinu er sveitarstjórn heimilað að lækka eða fella niður fasteignaskatt sem tekjulitlum elli- og örorkulífeyrisþegum er gert að greiða. Ákvæðið hefur að stofni til verið í lögum frá árinu 1972, en það var fyrst lögfest með lögum nr. 8/1972 um tekjustofna sveitarfélaga. Þá hljóðaði ákvæðið svo:

 

„Heimilt er sveitastjórn að lækka eða fella niður fasteignaskatt, sem efnalitlum elli- og örorkulífeyrisþegum er gert að greiða. Sama gildir um slíka lífeyrisþega, sem ekki hafa verulegar tekjur umfram elli- og örorkulífeyri.“

 

Í lögskýringargögnum með umræddu ákvæði kemur fram að vegna verulegrar hækkunar á fasteignaskatti, sem af frumvarpinu leiddi, hafi þótt nauðsynlegt að setja ákvæði um heimild handa sveitastjórnum til þess að lækka eða fella niður fasteignaskatt þessara tveggja hópa. Jafnframt segir í greinargerð að heimild þessi sé þröng þar eð hún nái aðeins til elli- og örorkulífeyrisþega og komi því aðeins til greina, að efnahagur þeirra og afkoma sé slík, að þeir geti ekki mætt hækkuðum útgjöldum vegna opinberra gjalda.

 

Með lögum nr. 91/1989 var orðalagi ákvæðisins breytt þannig að heimildin nær til tekjulítilla elli- og örorkulífeyrisþega í stað efnalítilla. Í lögskýringargögnum með umræddri lagabreytingu segir meðal annars að heimildarákvæði frumvarpsins hafi verið miðað við efnalitla elli- og örorkulífeyrisþega, en breytingin gerð sökum þess að í framkvæmd hafi ætíð verið miðað við tekjur en ekki eignir.

 

Ef 4. mgr. 5. gr. laga nr. 4/1995 er skýrð samkvæmt orðanna hljóðan má draga þá ályktun að með orðunum „tekjulitlum elli- og örorkulífeyrisþegum“ sé sú skylda lögð á sveitarfélög að veita hvoru tveggja elli- og örorkulífeyrisþegum afslátt eða niðurfellingu, kjósi þau á annað borð að beita umræddu heimildarákvæði. Einnig verður að álykta að sveitarfélög skuli setja ákveðna tekjuviðmiðun varðandi beitingu ákvæðisins. Lögskýringargögn og forsaga ákvæðsins leiða til sömu niðurstöðu. Eins og áður er rakið var upprunalegt markmið ákvæðisins að koma til móts við tiltekna hópa tekjulágra einstaklinga vegna hækkunar á fasteignskatti og var þar ekki gerður greinarmunur á því hvort um elli- eða örorkulífeyrisþega væri að ræða. Verður ekki annað ráðið af lögskýringargögnum en að ætlun löggjafans hafi verið að þessir hópar yrðu jafnsettir. Er það því niðurstaða ráðuneytisins að óheimilt sé að undanskilja tekjulitla öryrkja frá niðurfellingu eða afslætti af fasteignaskatti sem veittur er tekjulitlum ellilífeyrisþegum á grundvelli 4. mgr. 5. gr. laga nr. 4/1995 og að reglur um afslátt til þessara hópa verði að byggjast á sömu sjónarmiðum, að því leyti sem málefnaleg sjónarmið leiða ekki til annarrar niðurstöðu.

 

Þrátt fyrir framangreinda niðurstöðu er það vitaskuld á valdi viðkomandi sveitarstjórnar að ákveða hvort heimild  4. mgr. 5. gr. laga nr. 4/1995 verði notuð, og með hvaða hætti hún er útfærð, svo fremi sem útfærslan er innan ramma ákvæðisins og byggð á málefnalegum og lögmætum sjónarmiðum, samanber álit umboðsmanns Alþingis í máli nr. 2812/1999. Við túlkun ákvæðisins verður að hafa í huga að sveitarfélög hafa almennt umtalsvert svigrúm til athafna og ákvarðanatöku að því leyti sem þeim eru ekki settar skorður til slíks með lögum, meginreglum stjórnsýsluréttar eða eðli máls, sbr. 1. mgr. 1. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 45/1998. Með vísan til þessara sjónarmiða verður meðal annars að álykta að sveitarstjórn Grýtubakkahrepps hafi verið heimilt að ákveða að afsláttur skv. 4. mgr. 5. gr. laga nr. 4/1995 skyldi einungis veittur af íbúðarhúsnæði, í stað þess t.d. að veita afslátt af öllum fasteignum.

 

D. Niðurstaða

Með vísan til þess sem að framan hefur verið rakið er það niðurstaða ráðuneytisins að kærða hafi verið óheimilt að synja kæranda um afslátt af fasteignaskatti af þeirri ástæðu einni að hún er öryrki en ekki ellilífeyrisþegi. Verður ekki talið að venjubundin framkvæmd kærða sé í samræmi við skýrt orðalag 4. mgr. 5. gr. laga nr. 4/1995 eða þau mörk sem ákvæðið setur sveitarfélögum um beitingu þess. Synjun kærða, dags. 9. júlí 2002, byggðist því á ólögmætum forsendum og verður að fella hana úr gildi. Jafnframt fellst ráðuneytið á þá röksemd kæranda að það sé í andstöðu við skýrt orðalag umrædds lagaákvæðis að ákvörðun um veitingu afsláttar af fasteignaskatti skuli ekki taka mið af tekjum umsækjenda.

 

Beinir ráðuneytið því til kærða að erindi kæranda um afslátt af fasteignaskatti verði endurupptekið og úr því leyst með hliðsjón af þeim sjónarmiðum sem hér hafa verið rakin. Verði niðurstaða við endurupptöku málsins sú að kærandi eigi rétt á afslætti af fasteignaskatti telur ráðuneytið rétt að hafa til hliðsjónar við afgreiðslu málsins ákvæði laga nr. 29/1995, um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda, að því er varðar beiðni kæranda um afslátt af eldri fasteignaskattskuldum. Jafnframt beinir ráðuneytið því til kærða að sveitarstjórn setji reglur um beitingu 4. mgr. 5. gr. laga nr. 4/1995 í samræmi við það sem að framan hefur verið rakið.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

 

 

 

Kröfu kæranda, A, um að félagsmálaráðuneytið felli úr gildi synjun Grýtubakkahrepps, dags. 9. júlí 2002, um niðurfellingu eða afslátt af fasteignaskatti af útihúsum á grundvelli 5. mgr. 5. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga, er hafnað.

 

Ákvörðun Grýtubakkahrepps frá 9. júlí 2002 um að synja beiðni kæranda, A, um niðurfellingu eða afslátt af fasteignaskatti á grundvelli 4. mgr. 5. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga, er felld úr gildi.

 

 

F. h. r.

Sesselja Árnadóttir (sign.)

Guðjón Bragason (sign.)

Afrit:

Grýtubakkahreppur

 

 

 

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum