Hoppa yfir valmynd
4. apríl 2001 Innviðaráðuneytið

Raufarhafnarhreppur - Heimildir sveitarfélaga til þátttöku í rekstri fyrirtækja í samkeppnisrekstri

Raufarhafnarhreppur                                        4. apríl 2001                              FEL00100056/1001

Reynir Þorsteinsson, sveitarstjóri

Aðalbraut 2

675 RAUFARHÖFN

 

Vitnað er til bréfs yðar, dags. 6. mars sl., sem er svar við bréfi sem ráðuneytið ritaði sveitarstjórn Raufarhafnarhrepps 21. febrúar sl., þar sem óskað var upplýsinga um ákveðin atriði varðandi þátttöku Raufarhafnarhrepps í atvinnuuppbyggingu á svæðinu. Einnig óskaði ráðuneytið upplýsinga um ráðstöfun fjármuna sem Raufarhafnarhreppur eignaðist við sölu á hlutabréfum í Jökli hf. Ráðuneytið telur ástæðu til að þakka greinargóð svör við öllum þeim spurningum sem settar voru fram í fyrrgreindu bréfi ráðuneytisins.

 

I. Svör Raufarhafnarhrepps:

Í fyrrgreindu bréfi ráðuneytisins var óskað svara við eftirfarandi spurningum:

1.      Með hvaða hætti vörðuðu umræddar ráðstafanir íbúa Raufarhafnarhrepps?

2.      Hvaða gögn voru kynnt sveitarstjórnarmönnum áður en ákvarðanir voru teknar í umræddum málum?

3.      Var gerð breyting á fjárhagsáætlun Raufarhafnarhrepps í samræmi við 62. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998 vegna umræddra ráðstafana?

4.      Hvaða áhrif höfðu ráðstafanirnar á fjárhagsstöðu Raufarhrepps og möguleika sveitarfélagsins á að sinna lögbundnum verkefnum?

5.      Var ákvörðun um aðstoð til umræddra þriggja fyrirtækja tilkynnt Samkeppnisstofnun, sbr. 47. gr. samkeppnislaga nr. 8/1993?

 

Svör sveitarstjóra Raufarhafnarhrepps voru eftirfarandi, en tekið skal fram að í inngangi að svari er einnig að finna ítarlega lýsingu á þeim forsendum sem sveitarstjórn Raufarhafnarhrepps hefur lagt til grundvallar þátttöku  sveitarfélagsins í atvinnuuppbyggingu á svæðinu:

1.      Þrátt fyrir að eitt þeirra fyrirtækja, sem Raufarhafnarhreppur hefur fest kaup á hlutafé í, sé staðsett á Kópaskeri varðar rekstur þess fyrirtækis íbúa Raufarhafnarhrepps miklu, enda hefur fjöldi íbúa Raufarhafnarhrepps af því atvinnu að veiða rækju í Öxarfirði. Ennfremur hafa Öxarfjarðarhreppur og Raufarhafnarhreppur áður haft samvinnu sín á milli og því hafi Raufarhafnarhreppur með þessum hætti m.a. verið að endurgjalda íbúum Kópaskers þá aðstoð sem þeir hafi áður veitt íbúum Raufarhafnar þegar illa hafi árað hjá þeim. Hvað varðar þau fyrirtæki sem hafa starfsstöð á Raufarhöfn telur hreppsnefnd að rekstur þeirra hafi skapað ný störf sem séu lífsnauðsyn fyrir sveitarfélag sem glímir við mikinn fólksflótta.

2.      Í svari sveitarstjóra segir að ársuppgjör Íslenskrar Miðlunar-Raufarhöfn ehf. hafi legið fyrir á sveitarstjórnarfundi og einnig hafi framkvæmdastjóri félagsins mætt á fundinn og gert grein fyrir stöðu félagsins og framtíðarhorfum þess. Viðskiptaáætlun Netvers ehf. hafi verið kynnt sveitarstjórnarmönnum og gátu þeir sem vildu spurt sveitarstjóra um allt er málið varðaði. Þá hafi einn af aðaleigendum Geflu hf. mætt á fund sveitarstjórnar og gert þar grein fyrir stöðu fyrirtækisins og framtíðarhorfum í veiðum og vinnslu á rækju.

3.      Á fundi sveitarstjórnar 23. október sl. var fjárhagsáætlun endurskoðuð með hliðsjón af ákvörðun um hlutafjárframlag til Netvers ehf. á fundi sveitarstjórnar 5. desember sl. var ákveðið að kaupa hluti í Geflu hf. og á sama fundi var sveitarstjóra falið að gera viðeigandi ráðstafanir til þess að fjármagna þessar fjárfestingar, með því að selja húsbréf.

4.      Í umræddum tilvikum hefur verið gengið á höfuðstól eyrnamerktan framkvæmdum og eflingu atvinnulífs. Hefur því ekki verið gengið á skatttekjur sveitarfélagsins og hefur Raufarhafnarhreppur hingað til getað sinnt lögbundnum verkefnum sínum.

5.      Umræddar ráðstafanir hafa ekki verið tilkynntar Samkeppnisstofnun en til stendur að ráða þar bót á.

 

II. Álit ráðuneytisins

Ljóst er að íbúum Raufarhafnarhrepps hefur fækkað mjög undanfarin tvö ár og virðist það vera helsta ástæðan fyrir því að Raufarhafnarhreppur hefur í auknum mæli ákveðið að taka þátt í atvinnuuppbyggingu í sveitarfélaginu. Eins og fram kemur í bréfi ráðuneytisins frá 21. febrúar sl. eru hlutafjárkaup sveitarfélaga, sem eru liður í atvinnuuppbyggingu eða baráttu gegn atvinnuleysi, ekki óheimil samkvæmt sveitarstjórnarlögum nr. 45/1998. Engu að síður verða slíkar ráðstafanir að uppfylla ákveðnar kröfur, að því er varðar undirbúning og form ákvörðunar. Þær spurningar sem lagðar voru fyrir sveitarstjórn Raufarhafnarhrepps miðuðu að því að upplýsa hvort öll skilyrði sveitarstjórnarlaga væru uppfyllt hvað þetta varðar. Jafnframt var minnt á nauðsyn þess að fara að ákvæðum samkeppnislaga og að gæta jafnræðis.

        Ráðuneytið telur ljóst af svörum Raufarhafnarhrepps að nokkuð hafi skort á að undirbúningur að ákvörðunum um hlutafjárkaup væri fullnægjandi. Einkum gildir þetta um ákvörðun um kaup á hlutafé í Netveri ehf., en þar er t.a.m. ljóst að ekki var hugað að því að samþykkja breytingu á fjárhagsáætlun fyrr en tveimur vikum eftir að ákvörðun um hlutafjárkaup var tekin. Þá telur ráðuneytið að þar sem um nýtt fyrirtæki var að ræða hefði verið fullt tilefni til að óska eftir áliti löggilts endurskoðanda sveitarfélagsins eða annars sérfróðs aðila um framtíðarhorfur fyrirtækisins.

        Raunar telur ráðuneytið rétt að árétta mikilvægi þess að sveitarstjórnir gæti ábyrgðar í fjárstjórn sinni, hvort sem um er að ræða ákvarðanir um fjárfestingar eða ávöxtun fjármuna á borð við þá sem Raufarhafnarhreppur eignaðist við sölu á eignarhluta sínum í Jökli hf. Í yfirliti frá löggiltum endurskoðanda sveitarfélagsins kemur fram að þeir fjármunir hafi rýrnað allnokkuð á síðasta ári. Ráðuneytið telur að það sé fyrst og fremst á verksviði löggilts endurskoðanda að benda á það sem betur má fara við ávöxtun þeirra fjármuna. Ráðuneytið telur því engin tilefni til þess að gera athugasemdir við einstakar ákvarðanir vegna ráðstöfunar þeirra fjármuna en bendir einvörðungu á þá miklu ábyrgð sem sveitarstjórnarmönnum er falin að gæta hagsmuna íbúa sveitarfélagsins.

        Telur ráðuneytið því að sveitarstjórn hljóti að verða að horfa til þess að tryggja örugga ávöxtun fjármuna sveitarfélagsins og sneiða eftir megni hjá áhættusömum fjárfestingum, enda þótt alkunna sé að slíkar fjárfestingar skili ríkulegri ávöxtun þegar vel tekst til. Sama sjónarmið á einnig við um þátttöku í atvinnufyrirtækjum í heimabyggð. Þar verður því að gera þá kröfu til sveitarstjórnarmanna að þeir kynni sér eftir föngum rekstrarhorfur viðkomandi atvinnufyrirtækja áður en ákvörðun er tekin um  að leggja fram hlutafé.

        Að fengnum skýringum sveitarstjórnar Raufarhafnarhrepps telur ráðuneytið að ekki séu tilefni til frekari aðgerða af þess hálfu, enda eru ekki svo miklir hnökrar á málsmeðferð við ákvörðun um hlutafjárkaup sveitarfélagsins að varðað geti ógildingu. Einnig telur ráðuneytið að sýnt hafi verið fram á það með nægilega skýrum hætti að möguleikar sveitarfélagsins til að annast lögbundin verkefni sem því eru falin hafi ekki verið á neinn hátt skertir með þeim ráðstöfunum sem hér hefur verið fjallað um. Þá gerir ráðuneytið einnig ráð fyrir því að umræddar ráðstafanir verði tilkynntar Samkeppnisstofnun, í samræmi við ákvæði 47. gr. samkeppnislaga nr. 8/1993, með síðari breytingum, hafi tilkynningar ekki þegar verið sendar.

 

 

F. h. r.

Húnbogi Þorsteinsson (sign.)

Guðjón Bragason (sign.)

 

 

Afrit:

Fulltrúar minni hluta

sveitarstjórnar Raufarhafnarhrepps

 

 

 

 

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum