Hoppa yfir valmynd
9. ágúst 2001 Innviðaráðuneytið

Austur-Hérað - Málsmeðferð bæjarstjórnar við ákvörðun um sölu eigna, lög um framkvæmd útboða, frávísun

Lögmannsstofa ehf.                                       9. ágúst 2001                              FEL01020070/1001

Gísli M. Auðbergsson, hdl.

Strandgata 53, pósthólf 1

735 ESKIFJÖRÐUR

 

 

Hinn 10. ágúst 2001 var kveðinn upp í félagsmálaráðuneytinu svohljóðandi:

 

úrskurður

 

Með erindi, dags. 7. febrúar sl., barst ráðuneytinu til meðferðar stjórnsýslukæra Gísla M. Auðbergssonar hdl., f.h. Stefáns Jóhannssonar, á hendur bæjarstjórn Austur-Héraðs. Kærð er málsmeðferð bæjarstjórnar við sölu fasteigna sveitarfélagsins Austur-Héraðs að Eiðum og ákvörðun hennar um að ganga til samninga um sölu eignanna við Bakka ehf. Telur kærandi að um útboð hafi verið að ræða í skilningi laga um framkvæmd útboða, nr. 65/1993, og hafi bæjarstjórn því verið skylt að ganga til samninga við kæranda sem átti hæsta tilboð í umræddar eignir.

 

Kærandi gerir þær kröfur að lagt verði fyrir sveitarfélagið að ganga til samninga við umbjóðanda hans um sölu á Eiða-eignunum. Til vara er þess krafist að úrskurðað verði að sölumeðferð sveitarfélagsins hafi verið ólögmæt og því beri að bæta honum kostnað af tilboðsgerðinni.

 

Með símtali, dags. 7. mars sl., óskaði lögmaður kæranda eftir að ráðuneytið frestaði afgreiðslu málsins þar til ósk kæmi fram um annað, enda væri unnið af því af hálfu umbjóðanda hans og fulltrúa bæjarstjórnar að ná sáttum í málinu. Með símbréfi, dags. 27. júlí sl., upplýsti lögmaðurinn að umbjóðandi sinn hefði ekki fengið aðgang að gögnum málsins, án þess að tilgreina nánar um hvaða gögn væri að ræða, og ítrekaði um leið stjórnsýslukæru sína.

 

Um aðalkröfu kæranda

Upphaf máls þessa er að sveitarfélagið Austur-Hérað yfirtók á síðasta ári fasteignir og land jarðanna Grafar og Eiða, en á Eiðum var um árabil rekinn Alþýðuskóli og einnig sumarhótel. Í ágúst 2000 auglýsti bæjarstjórn eignirnar til sölu og var veittur frestur til 11. september til að skila inn tilboðum. Var skipaður starfshópur af hálfu bæjarstjórnar til að annast meðferð málsins og ræddi hópurinn m.a. við kæranda og gaf honum frest til að skila inn viðbótargögnum vegna fjármögnunar tilboðs síns, sem hann og gerði. Þann 26. október var engu að síður undirritaður kaupsamningur við Bakka ehf., með fyrirvara um samþykki bæjarstjórnar. Á fundi bæjarstjórnar 7. nóvember sl. var hins vegar samþykkt tillaga um að hafna öllum tilboðum í umræddar eignir.

 

Mál þetta hefur áður verið til umfjöllunar í ráðuneytinu. Þann 27. nóvember 2000 veitti ráðuneytið álit sitt, að beiðni bæjarstjórnar, á því hvort einn bæjarfulltrúa hefði verið vanhæfur við afgreiðslu málsins og einnig hvort bæjarstjórn hefði verið heimilt að taka ákvörðun um að hafna öllum tilboðum í eignirnar, þ.á m. tilboðum Bakka ehf. og kæranda, Stefáns Jóhannssonar. Álitið var veitt með þeim fyrirvara af hálfu ráðuneytisins að kærufrestur væri ekki liðinn og til að raska ekki málskotsrétti einstakra aðila málsins væri því ekki um bindandi álit að ræða. Síðan hefur það gerst í málinu að gengið hefur verið frá sölu eignanna til aðila sem ekki sendu inn tilboð fyrr en eftir að tilboðsfrestur var liðinn.

 

Með vísan til þess að þær fasteignir sem um er deilt í málinu hafa nú verið seldar, telur ráðuneytið að vísa beri aðalkröfu kæranda frá ráðuneytinu. Að auki skal tekið fram að ráðuneytinu er einvörðungu heimilt, með vísan til 103.gr. og 1. mgr. 1. gr. sveitarstjórnarlaga og 78. gr. stjórnarskrárinnar, að staðfesta eða ógilda ákvarðanir sveitarstjórna. Ráðuneytið getur því aldrei breytt ákvörðun sveitarstjórnar með þeim hætti sem kærandi hefur krafist.

 

Um varakröfu kæranda

Varakrafa kæranda byggir á því að við málsmeðferð bæjarstjórnar Austur-Héraðs hafi ekki verið farið að ákvæðum laga um framkvæmd útboða, nr. 65/1993. Forsenda þess að ráðuneytið geti fjallað um þennan lið kærunnar er að ágreiningur um túlkun og gildissvið fyrrgreindra laga heyri undir úrskurðarvald ráðuneytisins. Samkvæmt 103. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 45/1998, skal ráðuneytið úrskurða um ýmis vafaatriði sem upp kunna að koma við framkvæmd sveitarstjórnarmálefna en það skerðir þó ekki rétt aðila til þess að höfða mál fyrir dómstólum. Hefur ákvæðið verið túlkað á þann veg að ráðuneytið fjalli eingöngu um mál er varða stjórnsýsluákvarðanir. Ákvarðanir sveitarstjórna sem eru eingöngu einkaréttarlegs eðlis falla því almennt utan valdsviðs ráðuneytisins, nema unnt sé að benda á brot gegn meginreglum sveitarstjórnar- og/eða stjórnsýslulaga, svo sem varðandi hæfi einstakra sveitarstjórnarmanna til að koma að afgreiðslu einstakra mála.

 

Rétt er að taka fram að lög nr. 65/1993 kveða ekki á um hvort tiltekin framkvæmd eða samningur skuli boðin út. Þau eru einungis ákveðnar leikreglur sem gilda eftir að ákvörðun hefur verið tekin um að útboð fari fram. Þá skal enn fremur bent á að lög um skipan opinberra framkvæmda, nr. 63/1970, kveða einungis á um útboðsskyldu vegna byggingar eða breytinga á mannvirkjum í eigu ríkis og sveitarfélaga, en ekki vegna sölu slíkra eigna. Með vísan til þessa komst ráðuneytið að þeirri niðurstöðu, í áliti sínu frá 27. nóvember 2000, að bæjarstjórn Austur-Héraðs hefði verið frjálst að ákveða hvort útboð færi fram vegna sölu fasteigna Eiðastaðar.

 

Eins og ráðuneytið benti á í fyrrgreindu áliti eru áhöld um hvort sala fasteigna Eiðastaðar hafi þróast í þann farveg að um útboð væri að ræða. Ljóst virðist að sú var ekki ætlun bæjarstjórnar þegar eignirnar voru auglýstar til sölu. Síðari atvik, svo sem ákvörðun um að tilboð skyldu vera opnuð með formlegum hætti, kunna hins vegar að leiða til annarrar niðurstöðu. Úrlausn þessa atriðis á ekki undir ráðuneytið heldur dómstóla, enda er um að ræða ágreining sem er einkaréttarlegs eðlis og rúmast því ekki innan úrskurðarvalds ráðuneytisins samkvæmt 103. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 45/1998. Verður af þeirri ástæðu einnig að vísa varakröfu kæranda frá ráðuneytinu.

 

ÚRSKURÐARORÐ

 

Kröfu kæranda, Stefáns Jóhannssonar, um að lagt verði fyrir bæjarstjórn Austur-Héraðs að ganga til samninga við kæranda um sölu á fasteignum Eiða-staðar, er vísað frá ráðuneytinu.

 

Kröfu kæranda, Stefáns Jóhannssonar, um að ráðuneytið úrskurði sölumeðferð sveitarfélagsins á fasteignum Eiða-staðar ólögmæta, er vísað frá ráðuneytinu.

 

 

F. h. r.

Húnbogi Þorsteinsson (sign.)

Guðjón Bragason (sign.)

 

 

 

 

 

 

 

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum