Hoppa yfir valmynd
7. ágúst 2002 Innviðaráðuneytið

Húsavíkurbær - Heimildir sveitarfélaga til að innheimta sérstakt gjald vegna gíró-/greiðsluseðla

Húsavíkurbær                                                  7. ágúst 2002                                    FEL02050083/1001

Guðmundur Níelsson, bæjarritari

Ketilsbraut 7-9

640 HÚSAVÍK

 

 

Vísað er til erindis yðar, dags. 24. maí 2002, þar sem óskað er álits ráðuneytisins á því hvort sveitarfélögum sé almennt heimilt að taka sérstakt gjald vegna gíró- eða greiðsluseðla sem þau senda til gjaldenda/viðskiptaaðila, vegna til dæmis fasteignagjalda, leikskólagjalda, hafnargjalda, húsaleigu eða vörusölu. Jafnframt er óskað álits á hvort einhver munur sé á því hvort sveitarfélagið sendir sjálft út slíka seðla eða það er gert af banka eða innheimtufyrirtæki.

 

Í erindi yðar er vísað til álits umboðsmanns Alþingis frá 15. mars 2002 varðandi innheimtu Ríkisútvarpsins á gíróseðlagjöldum (mál nr. 3350/2001) og lögð áhersla á að mikilvægt sé fyrir sveitarfélög að vita hver réttarstaða þeirra er í þessum efnum í ljósi þess álits.

 

Í fyrrgreindu áliti umboðsmanns Alþingis er vísað til svonefndrar lögmætisreglu til stuðnings þeirri niðurstöðu að Ríkisútvarpinu væri óheimilt að innheimta gjald fyrir þann kostnað sem hlýst af innheimtu afnotagjalds útvarps og sjónvarps. Í stuttu máli felur reglan í sér að gjaldtaka fyrir þjónustu stofnana þurfi að eiga sér fullnægjandi stoð í lögum og að ekki skuli innheimt hærra gjald en sem nemur kostnaði við að veita umrædda þjónustu. Fjárhæð afnotagjalds var ákveðin af menntamálaráðherra og var ekki lagaheimild til að leggja að auki á sérstakt gjald vegna kostnaðar við innheimtu gjaldsins. Að auki taldi umboðsmaður að brotið hefði verið gegn jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þar sem þeim sem greiddu gjaldið með greiðslukorti var ekki gert að greiða þann kostnað sem Ríkisútvarpið varð að greiða greiðslukortafyrirtækjum. Í álitinu er vísað til eldri álita umboðsmanns, meðal annars um innheimtu sérstaks gjalds fyrir tollskýrslueyðublöð (mál nr. 610/1992) og um útreikning gjalds fyrir leyfi til hundahalds (mál nr. 1041/1994), til stuðnings þeirri niðurstöðu að krefjast verði lagaheimildar til að leggja á sérstakan innheimtukostnað vegna almennrar innheimtu þjónustugjalda.

 

Í erindi yðar eru tekin dæmi um mismunandi þætti í starfsemi sveitarfélaga, þ.e. innheimtu fasteignagjalda, leikskólagjalda, hafnargjalda, húsaleigu og vörusölu. Verður að telja að síðastnefnda dæmið, þ.e. innheimta áskilins endurgjalds vegna sölu á vörum eða þjónustu sem stofnanir eða fyrirtæki sveitarfélaga veita á einkaréttarlegum grundvelli, falli utan þeirra marka sem stjórnvöldum eru sett af reglum stjórnsýsluréttarins. Er því almennt heimilt að krefjast þess að viðskiptaaðili greiði þann kostnað sem á fellur vegna innheimtu fyrir þjónustuna, enda leiði slík gjaldtaka af ákvæði í þjónustusamningi eða viðskiptavenju. Hins vegar verður ótvírætt að líta svo á, meðal annars í ljósi framangreindra álita umboðsmanns Alþingis, að við almenna innheimtu skatta verði viðkomandi sveitarfélag að bera þann kostnað sem af innheimtunni hlýst, hvort sem það annast innheimtuna sjálft eða felur hana t.d. innheimtuþjónustu banka.

 

Í 6. gr. reglugerðar um bókhald og ársreikninga sveitarfélaga nr. 944/2000 er kveðið á um að þess skuli sérstaklega gætt að tekjur af þjónustugjöldum reynist ekki umfram heildarkostnað rekstrareininga, þegar til lengri tíma er litið. Í 4. og 5. gr. reglugerðarinnar eru reglur sem er ætlað að tryggja að sameiginlegum kostnaði, þ.á m. hlutdeild í beinum rekstrarkostnaði, sé skipt á einstakar rekstrareiningar. Af umræddum ákvæðum leiðir að við útreikning þjónustugjalda getur verið heimilt, að minnsta kosti upp að vissu marki, að taka tillit til kostnaðar sem hlýst af kostnaði við almenna innheimtu þjónustugjalda. Að mati ráðuneytisins ætti sá kostnaður þá að reiknast sem hluti af þjónustugjaldinu en ekki sem sjálfstæð gjaldtaka.

 

Þrátt fyrir það sem að framan er rakið verður að hafa í huga að gjaldtaka vegna innheimtukostnaðar er nokkrum annmörkum háð. Eins og fjallað er um í áliti umboðsmanns Alþingis frá 15. mars 2002 er fyrirtækjum og stofnunum óheimilt samkvæmt almennum skilmálum greiðslukortafyrirtækja að innheimta hjá viðskiptavinum sínum þá þóknun sem þau verða að gjalda greiðslukortafyrirtækjum. Taldi umboðsmaður það fara í bága við jafnræðisreglu að einungis hluti viðskiptavina Ríkisútvarpsins, þ.e. eingöngu þeir sem greiddu afnotagjald með gíróseðli, yrði krafinn um gjald vegna innheimtukostnaðar. Verður ekki betur séð en að það sjónarmið eigi einnig við um sveitarfélög og kann af þeim sökum að reynast vafasamt að taka tillit til innheimtukostnaðar við útreikning þjónustugjalda.

 

Rétt er að taka fram að í áliti umboðsmanns Alþingis í umræddu máli er ekki fjallað um heimildir stjórnvalda til að leggja á kostnað vegna vanskilainnheimtu. Um heimildir sveitarfélaga í þeim efnum er fjallað ítarlega í áliti umboðsmanns Alþingis frá 30. janúar 2001, varðandi innheimtu vangoldinna fasteignagjalda í Hafnarfjarðarkaupstað (mál nr. 2878/1999). Kemur fram í því áliti að sveitarfélögum er heimilt að gera skuldara að greiða áfallinn kostnað og dráttarvexti vegna innheimtuaðgerða. Verður að telja að sú niðurstaða eigi bæði við um innheimtu vangoldinna skatta og þjónustugjalda til sveitarfélaga. Í umræddu máli var innheimta vanskila í höndum starfsmanna Hafnarfjarðarkaupstaðar. Í áliti umboðsmanns Alþingis frá 13. mars 1995 (mál nr. 1041/1994), sem áður hefur verið nefnt, varð niðurstaðan hins vegar skýr um það að ekki væri heimilt að reikna kostnað við vanskilainnheimtu inn í sjálft þjónustugjaldið.

 

Að því er varðar þau dæmi sem tekin eru í fyrirspurn yðar telur ráðuneytið að innheimta fasteignaskatta og þjónustutengdra fasteignagjalda, t.d. vegna sorphirðu, lúti í meginatriðum sömu lögmálum og skattheimta. Verður því ekki annað ráðið en að almennt sé óheimilt að krefja gjaldendur um sérstakan innheimtukostnað í þeim tilvikum. Starfræksla leikskóla og hafna er þjónusta sem mælt er fyrir um í lögum um leikskóla nr. 78/1994 og hafnalögum nr. 23/1994. Það er mat ráðuneytisins að þau sjónarmið umboðsmanns Alþingis sem rakin eru að framan eigi við um innheimtu sveitarfélaga vegna þeirra málaflokka. Varðandi innheimtu húsaleigu kann niðurstaðan að fara eftir því hvort um er að ræða félagslegar íbúðir eða íbúðir á almennum markaði. Samkvæmt 28. gr. reglugerðar um lánveitingar til leiguíbúða, ráðstöfun þeirra og rekstur, nr. 873/2001, er ekki gert ráð fyrir að leigusala sé heimilt að reikna innheimtukostnað sem hluta af leigufjárhæð. Reglugerðin gildir aðeins um leiguíbúðir sem ráðstafað er til einstaklinga sem búa við erfiðar aðstæður og þurfa aðstoð við öflun húsnæðis. Því má væntanlega álykta að við ákvörðun leiguverðs íbúða í eigu sveitarfélaga sem ráðstafað er til annarra aðila sé heimilt að krefja leigutaka um kostnað sem hlýst af innheimtu leigunnar en rétt er að kveða á um heimild til slíkrar gjaldtöku í leigusamningi.

 

Eins og ráða má af þessari umfjöllun getur þurft að skoða hvert tilvik fyrir sig og ræðst niðurstaðan í flestum tilvikum af orðalagi þess lagaákvæðis sem innheimta þjónustugjalds byggist á. Eftir atvikum getur verið heimilt að velta innheimtukostnaði á greiðendur þjónustu sveitarfélaga en ráðuneytið telur eðlilegra að sá kostnaður reiknist sem hluti af þeim heildarkostnaði sem liggur til grundvallar ákvörðun um fjárhæð þjónustugjalds, fremur en að lagt sé á sérstakt "gírógjald". Ef um er að ræða þjónustu sem er algerlega einkaréttarlegs eðlis þarf ekki sérstaka lagaheimild til að krefja notanda þjónustu/kaupanda vöru um innheimtukostnað.

 

Beðist er velvirðingar á að vegna sumarleyfa hefur dregist að svara erindi yðar.

 

 

F. h. r.

Sesselja Árnadóttir (sign.) 

Guðjón Bragason (sign.)

Afrit:

Samband Íslenskra sveitarfélaga

 

 

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum