Hoppa yfir valmynd
18. september 2002 Innviðaráðuneytið

Kirkjubólshreppur - Framkvæmdir utan fjárhagsáætlunar, sala eigna án samþykkis hreppsnefndar

Guðjón H. Sigurgeirsson                        18. september 2002                            FEL02050029/1001

Heydalsá 2

541 HÓLMAVÍK

 

Með erindi, dags. 2. maí 2002, óskuðu fjórir þáverandi hreppsnefndarmenn Kirkjubólshrepps, þeir Guðjón Sigurgeirsson, Björn H. Karlsson, Hrólfur Guðjónsson og Sigurður Marínósson, álits félagsmálaráðuneytisins á því hvort fyrrverandi oddviti Kirkjubólshrepps, Matthías Lýðsson, hafi verið vanhæfur til að taka þátt í afgreiðslu á styrkbeiðni vegna opnunar sauðfjárseturs í félagsheimilinu Sævangi vegna þátttöku sinnar í undirbúningshópi sem stóð að stofnun félagsins. Jafnframt er óskað álits ráðuneytisins á embættisfærslum fyrrverandi oddvita við stofnun og sölu á vatnsveitu sem gerð var veturinn 2000-2001 í nafni Kirkjubólshrepps, sem þjónar nú lögbýlinu Kirkjubóli og félagsheimilinu Sævangi.

 

Ráðuneytið óskaði eftir umsögn Matthíasar Lýðssonar um málið með bréfi dags. 8. júlí 2002. Umsögnin barst með bréfi dags. 15. ágúst 2002.

 

Málavextir

Fram kemur í gögnum málsins að hreppsnefnd Kirkjubólshrepps samþykkti á fundi sínum 21. janúar 2002 að veita styrk að fjárhæð 1.100.000 kr. til óstofnaðs félags um Sauðfjársetur á Ströndum.  Þáverandi oddviti átti sæti í stjórn Sævangs f.h. Kirkjubólshrepps en jafnframt átti hann sæti í undirbúningshópi að stofnun sauðfjárseturs. Kemur fram í umsögn fyrrverandi oddvita að nokkrar tillögur hafi komið fram í hreppsnefnd og hússtjórn um hvernig bæta mætti rekstur Sævangs, en taprekstur hefur verið á húsinu undanfarin ár. Kveðst oddvitinn hafa tekið þátt í undirbúningi að Sauðfjársetri á Ströndum með Sævang í huga. Á hreppsnefndarfundi þar sem styrkbeiðni var tekin fyrir kveðst hann hafa lýst yfir hugsanlegu vanhæfi sínu en jafnframt sagt að hann teldi sig hafa verið að gæta hagsmuna hreppsins öðru framar þar sem tap af rekstrinum yrði væntanlega mun minna. Hreppsnefndarmenn hafi hvorki tekið undir né tjáð sig á nokkurn hátt um þessar vangaveltur. Tillagan hafi síðan verið tekin til afgreiðslu og hafi styrkveitingin verið samþykkt með fjórum atkvæðum gegn einu.

 

Fyrrverandi oddviti kveðst enga fjárhagslega hagsmuni hafa haft af því að af sauðfjársetrinu yrði, en áhugi hans á málinu hafi verið verulegur, sérstaklega vegna þeirrar atvinnusköpunar sem stofnun þess hefði í för með sér. Þá bendir hann á að atkvæði sitt hafi ekki ráðið úrslitum við afgreiðslu málsins.

 

Í málsgögnum kemur jafnframt fram að á árinu 2000 komu nýir ábúendur að bænum Kirkjubóli en þar er ekki stundaður hefðbundinn búskapur nú. Kaupendum var ekki ljóst að nokkrum árum áður hafði Heilbrigðiseftirlit Vestfjarða komist að þeirri niðurstöðu að neysluvatn á bænum væri ónothæft vegna mengunar. Leituðu þeir ásjár oddvita um úrbætur en eftir könnun málsins lá fyrir að ekki væri möguleiki á opinberum styrkjum til framkvæmda. Sóttu ábúendur þá um að Kirkjubólshreppur legði vatnsveitu. Segir fyrrverandi oddviti málið hafa verið rætt utan dagskrár á hreppsnefndarfundi og hafi hann talið að þar sem einnig þyrfti að leggja nýja vatnsveitu fyrir Sævang væri heppilegt að leggja vatnsveitu í einu lagi fyrir Kirkjuból og Sævang. Þar sem komið var fram í nóvember 2000 hafi þurft að hraða framkvæmdum og segist oddviti hafa talið það í sínum verkahring, líkt og gilti um daglegan rekstur sveitarfélagsins, að sjá til þess að af framkvæmdum gæti orðið. Vatnsveitan var því lögð í fyrsta áfanga að Kirkjubóli en síðar var lokið við hana að Sævangi.

 

Að sögn oddvita stóð upphaflega til að leggja á vatnsgjald en síðan hafi hann talið heppilegra að sveitarfélagið stæði ekki í rekstri vatnsveitu fyrir einn bæ og hafi hann náð samkomulagi um kaup notenda á vatnsveitunni. Hafi Kirkjubólshreppur borið óverulegan kostnað af vatnsveituframkvæmdum utan vinnu oddvita en raunar hafi enn verið eftir að undirrita samning um kaup Sævangs á hluta vatnsveitunnar þegar hann lét af starfi.

 

Álit ráðuneytisins

Framangreind málavaxtalýsing byggir að mestu á umsögn fyrrverandi oddvita en hún er í aðalatriðum í samræmi við þau gögn og röksemdir sem málshefjendur hafa lagt fram.

 

Ráðuneytið telur að út frá þeim málavöxtum sem að framan eru raktir sé ekki sérstök ástæða til að draga í efa þær skýringar fyrrverandi oddvita að aðkoma hans að stofnun Sauðfjárseturs á Ströndum hafi a.m.k. að stórum hluta verið tilkomin vegna rekstrarvanda félagsheimilisins Sævangs. Þar sem oddvitinn var jafnframt framkvæmdastjóri Kirkjubólshrepps telur ráðuneytið að störf hans að undirbúningi málsins leiði ekki ótvírætt til vanhæfis hans, sbr. 1. og 3. mgr. 19. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998. Rétt er að taka fram að ekkert er bókað í fundargerð frá hreppsnefndarfundi 21. janúar 2002 um að þáverandi oddviti hafi vakið máls á hugsanlegu vanhæfi sínu, en samkvæmt frásögn hans virðist hreppsnefnd ekki hafi skorið úr málinu með formlegum hætti eins og kveðið er á um í 5. mgr. 19. gr. Telur ráðuneytið að þessi málsmeðferð hafi ekki verið í samræmi við ákvæði sveitarstjórnarlaga, en samkvæmt sveitarstjórnarlögum er það oddviti sem ber ábyrgð á því að farið sé að réttum fundarsköpum.

 

 Samkvæmt gögnum málsins er ljóst að ekki lá fyrir formleg samþykkt sveitarstjórnar um stofnun vatnsveitu fyrir Kirkjuból og Sævang. Samkvæmt 2. mgr. 62. gr. sveitarstjórnarlaga getur sveitarstjórn ekki samþykkt fjárveitingu sem ekki er gert ráð fyrir í fjárhagsáætlun nema hún ákveði jafnframt hvernig útgjöldum skuli mætt. Samþykkt slíkrar fjárveitingar telst breyting á fjárhagsáætlun. Jafnframt er kveðið á um það í 64. gr. sveitarstjórnarlaga að ekki megi stofna til útgjalda sem ekki eru lögbundin, samningsbundin eða leiða af fyrri samþykkt sveitarstjórnar nema til komi samþykki sveitarstjórnar. Með vísan til fyrrgreindra ákvæða telur ráðuneytið ljóst að ákvörðun oddvita í nóvember 2000 um að leggja nýja vatnsveitu að Kirkjubóli og Sævangi var andstæð sveitarstjórnarlögum.

 

Jafnframt kemur fram í gögnum málsins að sala á 50% hluta vatnsveitunnar til ábúenda að Kirkjubóli, samanber kaupsamning dags. 20. mars 2002, byggðist ekki á samþykkt hreppsnefndar Kirkjubólshrepps. Þáverandi oddviti fór því út fyrir stöðuumboð sitt með því að undirrita umræddan kaupsamning, sbr. 4. mgr. 55. gr. sveitarstjórnarlaga.

 

Ekki verður tekin afstaða til þess í áliti þessu hvort hagsmunir Kirkjubólshrepps hafi borið skaða af ákvörðunum fyrrverandi oddvita sem fóru í bága við ákvæði sveitarstjórnarlaga. Þar sem Kirkjubólshreppur sameinaðist Hólmavíkurhreppi hinn 9. júní 2002 kemur ekki til álita að beita viðurlögum skv. 2. mgr. 102. gr. sveitarstjórnarlaga.

 

Afgreiðsla máls þessa hefur dregist vegna mikils annríkis í ráðuneytinu og sumarleyfa.

 

 

F. h. r.

Hermann Sæmundsson (sign.)

Guðjón Bragason (sign.)

 

 

 

 

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum