Hoppa yfir valmynd
10. október 2019 Innviðaráðuneytið, Úrskurðir samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis frá 2017

Úrskurður í máli nr. SRN18120060

Ár 2019, þann 10. október, er í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

ú r s k u r ð u r

í máli nr. SRN18120060

 

Kæra X

á ákvörðun

 Reykjavíkurborgar

 

I.         Kröfur og kæruheimild

Þann 19. desember 2018, barst ráðuneytinu stjórnsýslukæra A, B og C (hér eftir nefnd kærendur), vegna ákvörðunar Reykjavíkurborgar (hér eftir nefnd R) um álagningu viðbótargatnagerðargjalds vegna fasteignarinnar að X, Reykjavík.

Þess er krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Kæran er fram borin á grundvelli 11. gr. laga um gatnagerðargjald nr. 153/2006.

 

II.        Málsatvik og málsmeðferð

Kærendur málsins eru eigendur fasteignarinnar að X í Reykjavík. Í september 2017 var þeim gert af hálfu R að greiða viðbótargatnagerðargjald að fjárhæð kr. 1.571.750,- vegna fasteignarinnar. Af gögnum málsins verður ráðið að með bréfi kærenda til R dags. 12. apríl 2018 hafi þeir farið fram á að álögð gatnagerðargjöld vegna samþykktar byggingarleyfis þann 29. ágúst 2017 yrðu felld niður og umsókn um byggingarleyfi samþykkt eins og hún lægi fyrir, sem og ný eignaskiptayfirlýsing sem byggð væri á breyttum eignarhlutföllum í húsinu. Var umsókn kærenda synjað með ákvörðun umhverfis- og skipulagssviðs dags. 16. apríl 2018. Í kjölfarið fóru kærendur þess á leit við R að borgarráð tæki til umfjöllunar ákvörðun um álagningu gatnagerðargjalds vegna eignarinnar að X. Með bréfi R dags. 20. september 2018 var kærendum tilkynnt að borgarráð hefði staðfest ákvörðun umhverfis- og skipulagssviðs á fundi þann sama dag.

Ákvörðun R var kærð til ráðuneytisins með bréfi kærenda mótteknu 19. desember 2018.

Með bréfi ráðuneytisins, dags. 29. janúar 2019, var R gefinn kostur á að koma að sjónarmiðum sínum varðandi kæruna. Bárust þau sjónarmið ráðuneytinu með bréfi R mótteknu þann 28. febrúar 2019.

Með bréfi ráðuneytisins, dags. 1. mars 2019, var kærendum gefinn kostur á að gæta andmælaréttar gagnvart sjónarmiðum R. Bárust þær athugasemdir ráðuneytinu með bréfi kærenda mótteknu þann 22. mars 2019.

 

III.      Málsástæður og rök kærenda

Kærendur lýsa forsögu málsins á þann hátt að eigendur efri hæðar hafi fengið þá fasteign afhenta 1. júlí 1985. Eigendur neðri hæðar hafi keypt þá eign 13. júní 2005. Á milli aðila hafi verið gerður kaupsamningur um þann hluta neðri hæðar, 67,5 fm., sem verið hafi í eigu A, eiganda efri hæðar. Samtals hafi því neðri hæðin orðið 143,6 fm. Þeim samningi hafi ekki verið unnt að þinglýsa vegna þeirrar deilu sem eigendur eigi í við R. Samtals stærð eignanna hafi verið frá þeim tíma sem A eignaðist sinn hluta alls 316,3 fm. samkvæmt opinberri skráningu. Í framhaldi af kaupum hafi eigendur neðri hæðar ráðist í að breyta rýminu í eina heildstæða íbúð. Að breytingum loknum haustið 2016 hafi eigendur ákveðið að óska eftir nýjum eignaskiptasamningi sem endurspeglaði þau kaup sem farið hafi fram. Ekki hafi verið hægt að þinglýsa eignaskiptasamningi þar sem skort hafi byggingarleyfi fyrir breytingum. Í kjölfarið hafi verið sótt um slíkt leyfi til R sem hafi verið samþykkt með bréfi dags. 1. september 2017. Hins vegar hafi samþykkið verið bundið því skilyrði að viðbótargatnagerðargjald yrði greitt af því rými sem um ræðir, þ.e. 67,1 fm. Af hálfu R hafi verið fullyrt að fasteignagjöld væru innheimt samkvæmt skráningu Þjóðaskrár Íslands og hafi stærðir í raun ekkert með samþykktir byggingafulltrúa að gera. Sé þetta tekið fram vegna mótbáru eins kærenda um að fasteignagjöld hafi verið greidd af birtri stærð eignarinnar, samtals 240,2 fm. Þá vísi R til lagnateikninga frá júní 1976, staðfestum af byggingafulltrúa 14. október 1975, þar sem augljóst sé að ekki sé um óútgrafið rými að ræða í kjallara. Samkvæmt upplýsingum þjóðskrár frá 1982 sé X óskipt fasteign, samtals 316,3 fm. að stærð. Árið 1985 sé húseignin að X skilgreind sem annars vegar 143,6 fm. íbúð á hæð, 67,5 fm. íbúð í kjallara og 29,1 fm. bílskúr í séreign, eða samtals 240, 2 fm., og hins vegar 76,1 fm. íbúð í kjallara. Grundvöllur þeirrar skráningar sé verðmætaflokkun rýma og telja kærendur ljóst að á þeim tíma hafi ekki verið um óútgrafið rými að ræða, enda skuli ekki telja slíkt með í birtu flatarmáli fasteigna. Hafi núverandi eigendur eignar með fnr. 000-0000 staðið í þeirri trú, sem staðfest sé með opinberri skráningu frá 1982, að um sé að ræða íbúðarherbergi í kjallara og hafi sá hluti sem um ræðir verið nýttur sem slíkur frá því þeir keyptu eignina, auk þess sem ljóst megi vera samkvæmt skoðunarblaði Fasteignamats ríkisins frá því ári að stærð eignarinnar sé sú sama og þá. Hafi R innheimt fasteignagjöld á þessum grundvelli frá þeim tíma sem núverandi eigendur eignuðust fasteignirnar og hafi R borið ábyrgð á því að réttar upplýsingar væru notaðar við innheimtu fasteignagjalda. Þá benda kærendur á að telji R að gatnagerðargjöld hafi átt að greiða hefði það átt að vera í síðasta lagi þegar FMR hafi gefið út stærð eignarinnar árið 1982 og sú krafa átt að beinast að þáverandi eigendum en ekki þeim sem á eftir koma.

Kærendur byggja á því að stærð fasteignanna hafi ekki breyst frá því núverandi eigandi fasteignar 000-0000 keypti þá eign árið 1985 og í þeirra tíð hafi aldrei verið um óútgrafið rými að ræða, að undanskilinni stækkun vegna lokunar stigaops. Samkvæmt 1. mgr. 33. gr. þinglýsingarlaga nr. 39/1978 þurfi sá er hlýtur réttindi með samningi við þinglýstan eiganda að eign ekki að hlýta þeirri mótbáru að heimildarbréf fyrirrennara hans sé ógilt, ef hann er grandlaus um ógildisatvikið er hann öðlaðist réttindin. Skráð stærð eignarinnar þegar kaupin fóru fram og núverandi eigandi eignaðist efri hæðina og hluta kjallara hafi verið 240,2 fm. og hafi sú stærð ekki breyst síðan samkvæmt opinberum skráningum. Samkvæmt úrskurði FMR dags. 24. maí 1985 sé eignarhald og skipting hússins að X samþykkt og staðfest. Þar komi fram að annars vegar sé um ræða íbúð í kjallara sem sé 76, fm. að stærð, og hins vegar íbúð sem er 240,2 fm. að stærð. Því sé ljóst að árið 1985 séu fasteignirnar tvær skráðar fullur 316,3 fm. og því ekki um óútgrafið rými að ræða sem skerði stærð þeirra. Lagnateikningar frá 1975 renni stoðum undir þá ályktun sem og skoðunarblað FMR frá 1982. Forsendur R þess efnis að um óútgrafið rými sé að ræða standist því ekki.

Kærendur benda á að í 2. mgr. 3. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga nr. 4/1995 komi fram að stofn til álagningar fasteignaskatts á allar fasteignir skuli vera fasteignamat þeirra. Í 1.  – 2. mgr. 19. gr. laga um skráningu og mat fasteigna nr. 6/2001 segi að viðkomandi sveitarstjórn sé ábyrg fyrir að Þjóðskrá Íslands berist upplýsingar um lönd og lóðir og breytingar á þeim, svo og um öll mannvirki sem gerð eru í umdæmum þeirra hvers um sig, og um breytingar á þeim og eyðingu þeirra. Sveitarstjórn skuli að jafnaði fela byggingafulltrúa viðkomandi sveitarfélags upplýsingagjöf um fyrrgreind atriði. Af þessum sökum sé ljóst að grundvöllur að skráningu fasteignamats liggi hjá byggingafulltrúa R og geti hann ekki skotið sér undan ábyrgð á því að upplýsingar um fasteignir séu rétt skráðar hjá Þjóðskrá. Telja kærendur ljóst að opinber skráning fasteignanna hafi verið orðin 316,3 fm áður en núverandi eigendur eignuðust þær, eða a.m.k. frá árinu 1982. Samkvæmt 10. gr. reglugerðar um gatnagerðargjald nr. 543/1996 sé sveitarfélagi heimilt að innheimta viðbótargatnagerðargjald sé um að ræða breytta notkun þannig að húseignin færist í hærri gjaldflokk. Skuli húseigandi þá greiða gatnagerðargjald af hinu breytta húsnæði sem nemur mismun á gjaldinu reiknuðu af hinu breytta húsnæði fyrir og eftir breytinguna. Benda kærendur á að ákvörðun um fasteignamat, sem byggð er á upplýsingum frá byggingafulltrúa, skuli taka tillit til notkunar rýmis. Ekki verði annað séð en að verðmætaflokkun rýma að X hafi verið þannig háttað á tímabilinu 1985 til 2018 sem rakið hafi verið. Þar sem umrætt rými nr. 00-02, sem nú sé óskað eftir að verði sameinað fnr. 000-0000, hafi verið skráð sem herbergi í kjallara frá 1985 sé ljóst að ekki séu forsendur til að krefjast viðbótargatnagerðargjalda á grundvelli 10. gr. reglugerðarinnar.

Þá benda kærendur á að R hafi innheimt fasteignagjöld af þessum tveimur eignum sem byggist á því að samanlögð heildarstærð sé 316,3 fm. Liggi fyrir að engar breytingar hafi verið gerðar á nýtingu húsnæðis auk þess sem það hafi ekki verið stækkað. Fáist því ekki séð að R geti borið fyrir sig 10. gr. reglugerðar um gatnagerðargjald. Mistök byggingafulltrúa árið 1982 um að innheimta ekki gatnagerðargjald á þeim tíma leiði ekki til þess að R sé nú heimilt að innheimta þau hjá aðila sem hvorki beri ábyrgð á né geti borið ábyrgð á upplýsingagjöf til byggingafulltrúa á þeim tíma. Hafi kærendur mátt gera ráð fyrir að skráning stærðar hússins hjá R væri rétt og í samræmi við birta stærð og notkun þess. Telji R að fasteignirnar hafi verið minni að flatarmáli en R innheimti fasteignagjöld fyrir beri R að endurgreiða þá röngu álagningu, telji R rök standa til að leggja á gatnagerðargjöld sem byggist á stækkun eignarinnar, sem ekki sé raunin. Telja kærendur að R hafi borið að láta FMR og síðar Þjóðskrá í té réttar upplýsingar um stærð eignanna. Þá hafi R borið að gera athugasemd við skráninguna þegar árið 1982 þegar fasteignin var skráð hjá FMR samtals 316,3 fm. Hafi R athugasemdalaust innheimt fasteignagjöld samkvæmt þeirri skráningu í 33 ár og hljóti þá að hafa fyrirgert rétti sínum til að krefjast gatnagerðargjalda, enda hafi byggingafulltrúa mátt vera ljóst að ekki hafi verið samræmi milli teikninga og skráðra stærða. Sé það skylda byggingafulltrúa að sjá til þess að samræmi sé á milli opinberrar skráningar og raunstærðar samkvæmt lögum um skráningu og mat fasteigna, sbr. 1. og 2. mgr. 19. gr. Þá árétta kærendur að fasteignagjöld vegna eignarinnar hafi verið innheimt í samræmi við opinbera skráningu frá árinu 1985. Einnig telja kærendur að krafa um gatnagerðargjald ætti að beinast að fyrri eiganda fasteignarinnar sem seldi hana árið 1985, þar sem skráningin það ár beri með sér að þá sé húsið samtals 316,3 fm., og fasteignagjöld innheimt í samræmi við það frá þeim tíma. Fyrri eigandi selji núverandi eiganda efri hæðar eignina með fnr. 000-0000 sem 240,2 fm. og síðan þá hafi hvorki stærð né notkun eignanna breyst.

Í athugasemdum kærenda frá 21. mars 2019 árétta þeir engin breyting hafi orðið á stærð eignarinnar frá því núverandi eigendur eignuðust þær, og sé það staðfest í opinberri skráningu eignarinnar hjá Þjóðskrá sem og FMR áður. Þá taka kærendur fram að reyndarteikningar hafi verið byggðar á röngum teikningum R og hafi bæði kærendum og þeim er gerði teikningarnar verið ljóst að ekki hafi verið um óútfyllt rými að ræða, en talið eftir samtöl við R að byggja yrði á þeim teikningum sem til hafi verið hjá byggingafulltrúa. Í því felist engin viðurkenning á því að nokkurn tíma hafi verið um óútfyllt rými að ræða frá því eignirnar komust í eigu núverandi eigenda, enda staðfesti opinber skráning að svo sé ekki og hafi ekki verið a.m.k. frá árinu 1982. Telja kærendur ágreiningslaust að X hafi ekki stækkað síðan núverandi eigendur eignuðust fasteignarnar árin 1985 og 2005 og á þeim tíma hafi aldrei verið um að ræða óútgrafið rými. Telja kærendur að þar með bresti R forsendur til að leggja á viðbótargatnagerðargjald enda séu þeir grandlausir um ranga skráningu R á stærð fasteignanna. X hafi verið keypt á grundvelli opinberrar skráningar um stærð sem kaupendur hafi mátt treysta að væri rétt. Samanlagt verðmæti fasteignanna tveggja aukist ekki við breytt eignarhlutföll enda enn um sömu heildarstærð að ræða og óbreytta notkun. Mistök R eigi ekki að bitna á grandlausum eigendum fasteignanna að X.

 

IV.  Málsástæður og rök Reykjavíkurborgar

Í umsögn R kemur fram að með bréfi byggingafulltrúa dags. 16. apríl 2018 hafi kærendum verið synjað um niðurfellingu viðbótargatnagerðargjalda vegna samþykktar byggingarleyfis. Nánar tiltekið hafi verið um að ræða samþykkt á umsókn um leyfi fyrir áður gerðum breytingum sem m.a. hafi falist í að stigi milli hæða hafi verið fjarlægður og óútgrafið sökkulrými tekið í notkun í húsi á lóðinni við X. Um sé að ræða stækkun sem nemi 67,1 fm. Í samþykktinni hafi falist að óuppfyllt rými sé samþykkt og þar með stækkun hússins og séu viðbótargatnagerðargjöldin vegna þeirrar stækkunar. Að öðru leyti vísar R til rökstuðnings byggingafulltrúa frá 16. apríl 2018 auk annarra gagna.

Í bréfi byggingafulltrúa frá 16. apríl 2018 kemur fram að embættið fallist ekki á sjónarmið kærenda. Í tölvubréfi frá R þann 3. apríl 2018 komi m.a. skýrt fram að forsendur lokaúttektar og þess að eignaskiptayfirlýsing verði samþykkt séu að gjöldin verði greidd. Þinglýsing eignaskiptayfirlýsingar sé svo aftur forsenda þess að unnt sé að selja annan matshlutann eða báða. Greidd hafi verið gatnagerðargjöld vegna samþykktra teikninga árið 1975 með síðari breytingum árið 1983 þegar íbúð á jarðhæð var samþykkt. Í afsali frá 13. júní 2005 sé íbúð með fnr. 000-0000 tilgreind 76,1 fm og stemmi það við skráningu Þjóðskrár. Sú íbúð sé hins vegar 67,1 fm stærri samkvæmt reyndarteikningum sem lagðar hafi verið inn til byggingafulltrúa. Efri hæðin, með fnr. 000-0000, sé tilgreind 240,2 fm hjá Þjóðskrá en hún minnki um þess sömu 67,1 fm samkvæmt áður nefndum reyndarteikningum. Á uppdráttum frá 1975 og 1983 sé sýnt óútfyllt rými sem samþykkt hafi verið í ágúst 2017 og gatnagerðargjöld lögð á í samræmi við stækkunina. Það að Þjóðskrá hafi skráð stærð hússins með rýminu árið 1985 hafi ekkert með embætti byggingafulltrúa að gera, enda séu einungis innheimt fasteignagjöld samkvæmt skráningu Þjóðskrár. Það hafi því alltaf verið á hendi eigenda á hverjum tíma að sækja um að fá rýmið samþykkt og þar með getað vænst þess að þurfa að greiða gatnagerðargjöld til samræmis við stækkunina. Séu umrædd gjöld því réttilega álögð og í samræmi við núverandi stærð hússins.

 

V.      Niðurstaða ráðuneytisins

Til umfjöllunar er ákvörðun R um álagningu gatnagerðargjalds vegna framkvæmda við fasteignina að X, Reykjavík. Er um að ræða viðbótargatnagerðargjald að fjárhæð kr. 1.571.750,- samkvæmt bréfi R dags. 1. september 2017. Krefjast kærendur þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og lagt verði fyrir R að samþykkja umsókn þeirra um byggingarleyfi án álagningar gatnagerðargjaldsins, sem og einnig að samþykkja nýja eignaskiptayfirlýsingu fyrir fasteignina.

Til að byrja með telur ráðuneytið rétt að víka stuttlega að kærufresti, en samkvæmt 1. mgr. 11. gr. laga um gatnagerðargjald er kærufrestur þrír mánuðir frá því aðili fékk vitneskju um ákvörðunina. Upphaflega var gatnagerðargjaldið lagt á í september 2017. Í kjölfarið fóru kærendur þess á leit við R að gjöldin yrðu felld niður en var synjað um þá beiðni með ákvörðun umhverfis- og skipulagssviðs þann 16. apríl 2018. Var sú ákvörðun síðan staðfest af borgarráði þann 20. september 2018. Telur ráðuneytið rétt að miða upphaf kærufrests við þá dagsetningu. Kæra málsins barst ráðuneytinu þann 19. desember 2018 og því innan þriggja mánaða kærufrests samkvæmt framangreindu.

Um gatnagerðargjald gilda lög með því sama nafni nr. 153/2006. Í 1. mgr. 3. gr. laganna kemur fram að sveitarstjórnir skuli innheimta gatnagerðargjald af fasteignum í þéttbýli. Í 2. mgr. 3. gr. segir að stofn til álagningar gatnagerðargjalds sé fermetrafjöldi byggingar á tiltekinni lóð og geti sveitarstjórn ákveðið hann á þann hátt sem rakið er í a og b-lið ákvæðisins, sbr. 12. gr. laganna. Í a-lið 2. mgr. 3. gr. segir að þegar sveitarstjórn úthlutar eða selur lóð eða byggingarrétt á lóð skuli leggja á gatnagerðargjald í samræmi við fermetrafjölda þeirra bygginga sem heimilt er að reisa á viðkomandi lóð samkvæmt gildandi deiliskipulagi. Í b-lið 2. mgr. 3. gr. segir síðan að verði ekki lagt á gatnagerðargjald samkvæmt a-lið eða ef veitt er byggingarleyfi fyrir stærri byggingu en álagning samkvæmt a-lið var upphaflega miðuð við, skuli við útgáfu byggingarleyfis leggja á gatnagerðargjald í samræmi við fermetrafjölda þeirrar byggingar sem byggingarleyfi tekur til. Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. laganna skal gatnagerðargjald innheimt vegna stækkunar byggingar sem nemur fermetrafjölda stækkunar, sbr. þó ákvæði 3. mgr. 5. gr. Samkvæmt 4. mgr. 3. gr. skal gatnagerðargjald innheimt ef reist er ný og stærri bygging í stað annarrar á sömu lóð sem stækkuninni nemur. Gildir þessi regla um byggingar sem samþykkt er byggingarleyfi fyrir allt að fimm árum eftir að leyfi er gefið fyrir niðurrifi byggingar en að öðrum kosti skal greiða fullt gatnagerðargjald. Ef hin nýja bygging er annarrar tegundar eða til annarrar notkunar en hið eldra húsnæði gilda ákvæði 5. mgr. Í 5. mgr. 3. gr. segir að þegar veitt er byggingarleyfi fyrir endurbyggingu, breytingu eða breyttri notkun byggingar þannig að hún færist í hærri gjaldflokk samkvæmt samþykkt sveitarfélagsins, sbr. 4. gr., skuli greiða gatnagerðargjald af fermetrafjölda viðkomandi húsnæðis sem svarar til mismunar hærri og lægri gjaldflokksins. Lóðarhafi, eða byggingarleyfishafi þar sem það á við, á ekki rétt á endurgreiðslu ef bygging færist í lægri gjaldflokk við slíka breytingu. Um lækkunarheimild sveitarstjórnar er síðan fjallað í 5. gr. laga um gatnagerðargjald, en samkvæmt ákvæðinu getur sveitarstjórn í samþykkt sinni ákveðið að mishátt gatnagerðargjald skuli greiða eftir tegund húsnæðis. Í 12. gr. laganna kemur loks fram að sveitarstjórn skuli setja samþykkt um gatnagerðargjald fyrir sveitarfélagið þar sem eftir atvikum er kveðið á um álagningu gjaldsins, undanþágur frá því og afslætti, gjalddaga og eindaga gjaldsins, greiðslufyrirkomulag og annað er varðar innheimtu þess. Þá er í gildi reglugerð um gatnagerðargjald nr. 543/1996. Segir þar m.a. í 10. gr. að þegar veitt er byggingarleyfi fyrir breytingu eða endurbyggingu húsnæðis, sem felur í sér breytta notkun þess þannig að húseignin færist í hærri gjaldflokk samkvæmt gjaldskrá sveitarfélagsins, þá skuli húseigandi greiða gatnagerðargjald af hinu breytta húsnæði sem nemur mismun á gjaldinu af hinu breytta húsnæði fyrir og eftir breytinguna.

Núgildandi samþykkt R um gatnagerðargjald er nr. 725/2007, með síðari breytingum, frá 12. júlí 2007. Um gjaldstofn gatnagerðargjalds er fjallað í 4. gr. samþykktarinnar. Þar segir að stofn til álagningar gatnagerðargjalds sé flatarmál byggingar á tiltekinni lóð. Ráðist gatnagerðargjald af brúttófermetrafjölda byggingar á tiltekinni lóð og skuli ákveðið samkvæmt a eða b-lið ákvæðisins. Í a-lið 4. gr. segir að þegar R úthlutar eða selur lóð eða byggingarrétt á lóð skuli gatnagerðargjald ákveðið í samræmi við flatarmál þeirra bygginga sem heimilt er að reisa á viðkomandi lóð samkvæmt deiliskipulagi. Sé það jafnframt lágmarksgjald. Í b-lið segir að verði ekki lagt á gatnagerðargjald samkvæmt a-lið eða ef veitt er byggingarleyfi fyrir stærri byggingu en álagning samkvæmt a-lið var upphaflega miðuð við, skuli vegna útgáfu byggingarleyfis leggja á gatnagerðargjald í samræmi við flatarmál þeirrar byggingar sem byggingarleyfi tekur til. Um gatnagerðargjald vegna viðbygginga, endurbyggingar húsa og breyttrar notkunar er fjallað í 5. gr. samþykktarinnar. Segir þar í 1. mgr. að ef veitt er leyfi til stækkunar byggingar skuli greiða gatnagerðargjald vegna flatarmálsaukningar sem af því leiðir, sbr. þó 6. gr. Í 2. mgr. 5. gr. kemur fram að greiða skuli gatnagerðargjald ef reist er ný bygging í stað annarrar á sömu lóð að því er nemur flatarmálsaukningu. Gildi þessi regla um byggingar sem samþykkt er byggingarleyfi fyrir, allt að fimm árum eftir að leyfi var gefið fyrir niðurrifi eldri byggingar á sömu lóð, en að öðrum kosti greiðist fullt gatnagerðargjald. Í 3. mgr. 6. gr. segir síðan að þegar veitt er leyfi fyrir endurbyggingu, breytingu eða breyttri notkun byggingar þannig að hún eigi undir hærri gjaldflokk samkvæmt 6. gr., skuli greiða gatnagerðargjald af flatarmáli viðkomandi húsnæðis sem svarar til mismunar hærri og lægri gjaldflokksins. Lóðarhafi eða byggingarleyfishafi eigi ekki rétt á endurgreiðslu ef bygging færist í lægri gjaldflokk við slíka breytingu.

Ráðuneytið telur ljóst að ágreiningur aðila lúti eingöngu að skyldu kærenda til greiðslu viðbótargatnagerðargjalds en ekki um fjárhæð þess. Kærendur vísa fyrst og fremst til þess að stærð fasteignanna hafi ekki breyst frá því núverandi eigandi fasteignar nr. 000-0000 keypti þá eign árið 1985. Telja kærendur þannig ljóst að frá því ári hafi fasteignarnar tvær verið skráðar fullir 316,3 fermetrar og því ekki um óútgrafið rými að ræða. Af hálfu R er hins vegar vísað til þess að um sé ræða stækkun sem nemur 67,1 fermetra sem áður hafi verið óútgrafið rými. Séu viðbótargatnagerðargjöldin vegna umræddrar stækkunar og séu því réttilega álögð og í samræmi við núverandi stærð hússins. Þá bendir R á að það að Þjóðskrá Íslands hafi skráð stærð hússins með rýminu á árinu 1985 hafi ekkert með embætti byggingafulltrúa að gera. Það hafi alltaf verið á hendi eiganda hverju sinni að sækja um að fá rýmið samþykkt og greiða gatnagerðargjöld til samræmis við stækkunina.

Ráðuneytið telur ljóst að misræmi hafi verið í skráningu á stærð eignarinnar hjá Fasteignamati ríkisins, síðar Þjóðskrá Íslands, og hjá byggingarfulltrúa R. Af gögnum málsins leiði að taka beri undir það með kærendum að frá árinu 1985 hafi heildarstærð hússins verið skráð alls 316,3 fermetrar hjá Fasteignamati ríkisins og síðar Þjóðskrá Íslands. Hafi þannig í raun engin breyting orðið á stærð hússins frá þeim tíma. Þrátt fyrir ákvæði b-liðar 2. mgr. og 3. mgr. 3. gr. laga um gatnagerðargjald, sem og sambærileg ákvæði í b-lið 4. gr. og 1. mgr. 5. gr. samþykktar R um gatnagerðargjald sem rakin voru hér að framan, er það mat ráðuneytisins eins og máli þessu er háttað að R verði að bera hallann af því misræmi í skráningu á stærð eignarinnar sem vísað hefur verið til. Í því ljósi er það mat ráðuneytisins að kærendur hafi mátt vænta þess að stærð hússins hafi verið rétt skráð og öll gjöld vegna eignarinnar greidd í samræmi við það, þar á meðal gatnagerðargjöld. Er það mat ráðuneytisins að þau sjónarmið sem vísað hefur verið til af hálfu R í málinu geti í engu breytt framangreindri afstöðu þess. Að þessu sögðu er það niðurstaða ráðuneytisins að fallast beri á kröfu kærenda þess efnis að álagning R á viðbótargatnagerðargjaldi vegna fasteignarinnar að X hafi verið ólögmæt. Hvað varðar kröfu kærenda um að lagt verði fyrir R að gefa út byggingarleyfi bendir ráðuneytið á að um slíkt leyfi fer eftir skipulagslögum nr. 123/2010, en ákvarðanir samkvæmt þeim lögum sæta kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála en ekki ráðuneytisins. Er ráðuneytið því ekki bært til að leggja fyrir R að gefa slíkt leyfi út.

Vegna mikilla anna í ráðuneytinu hefur dregist að kveða upp úrskurð í máli þessu og er beðist velvirðingar á því.

Úrskurðarorð

Fallist er á kröfu kærenda þess efnis að álagning Reykjavíkurborgar á viðbótargatnagerðargjaldi vegna fasteignarinnar að X, Reykjavík, hafi verið ólögmæt.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum