Hoppa yfir valmynd
6. júní 2003 Innviðaráðuneytið

Kópavogsbær - Skylda bæjarstjórnarfulltrúa til að undirrita ársreikning

Flosi Eiríksson, bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar         6. júní 2003                FEL03060004/1101

Melgerði 34

200 KÓPAVOGI

 

 

 

Vísað er til bréfs yðar, dags. 3. júní 2003, varðandi afgreiðslu ársreiknings Kópavogsbæjar fyrir árið 2002. Í bréfinu eru gerðar athugasemdir við að í ársreikninginn, sem ræddur var á fundi bæjarstjórnar 29. maí 2003, vanti efnahags- og rekstrarreikning vegna Tónlistarhúss Kópavogs. Hlutur bæjarsjóðs í stofnfé hússins er 77,95% en húsið er í sameign bæjarins og Tónlistarfélags Kópavogs.  Er í bréfi yðar vitnað til þess að í skýrslu löggilts endurskoðanda sveitarfélagsins vegna ársreiknings 2001 hafi verið bent á að reikningurinn væri haldinn sama ágalla. Fram kemur í bréfinu að á fundi í stjórn Tónlistarhúss Kópavogs sem haldinn var 30. maí 2003 hafi verið lagðir fram ársreikningar hússins fyrir árin 1999-2000 og 2001 en von sé á ársreikningi fyrir árið 2002 í þessari viku. Hins vegar sé augljóst að sá ársreikningur verði ekki inni í ársreikningi fyrir samstæðu sveitarfélagsins fyrir árið 2002 þó hann komi fram nú. Í bréfi yðar kemur fram að næsti bæjarstjórnarfundur í Kópavogsbæ verður haldinn 10. júní nk. og fer þá fram síðari umræða um ársreikninginn sveitarfélagsins. Er í bréfinu leitað leiðsagnar ráðuneytisins varðandi afgreiðslu og áritun eða staðfestingu ársreikningsins. Spurt er hvort það sé ófrávíkjanleg skylda allra bæjarfulltrúa að árita ársreikninginn, jafnvel þótt vitað sé að hann gefi ekki rétta mynd af fjárhagslegri stöðu sveitarfélagsins í lok árs 2002.

 

Um afgreiðslu sveitarstjórnar á ársreikningi sveitarfélagsins fer skv. 72. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 45/1998, með síðari breytingum. Þar er kveðið á um að sveitarstjórn skuli hafa lokið fullnaðarafgreiðslu ársreikninga sveitarsjóðs og fyrirtækja hans eigi síðar en 1. júní. Í áliti ráðuneytisins frá 18. maí 1998 varðandi Vestur-Landeyjahrepp (ÚFS 1998:68) kemur fram að með fullnaðarafgreiðslu er átt við tvær umræður í sveitarstjórn um ársreikninginn, sbr. b-lið 21. gr. sveitarstjórnarlaga, og í framhaldi af því undirritun sveitarstjórnarmanna. Gert er því ráð fyrir undirritun allra sveitarstjórnarmanna að lokinni lögformlegri afgreiðslu í hreppsnefnd. Ef einhver sveitarstjórnarmanna hefur athugasemdir fram að færa við ársreikninginn er honum heimilt að undirrita ársreikninginn með fyrirvara og vísa til greinargerðar sinnar um málið eða bókunar í hreppsnefnd.

F. h. r.

Garðar Jónsson (sign.)

Guðjón Bragason (sign.)



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum