Hoppa yfir valmynd
12. apríl 2019 Mennta- og barnamálaráðuneytið

57 milljónum kr. úthlutað úr Sprotasjóði mennta- og menningarmálaráðuneytis

Sprotasjóður styður við þróun og nýjungar í skólastarfi í leik- grunn- og framhaldsskólum í samræmi við stefnu stjórnvalda og aðalnámskrá viðkomandi skólastiga. Á dögunum var úthlutað úr sjóðnum og hljóta alls 44 verkefni styrki að þessu sinni. Heildarupphæð styrkjanna eru rúmlega 57 milljónir kr.

Áherslusvið styrkveitinganna nú eru á eflingu íslenskrar tungu, lærdómssamfélag og samvinnu milli skólastiga og færni til framtíðar. Alls bárust 100 umsóknir um styrki úr sjóðnum og var heildarupphæð umsóknanna rúmar 219 milljónir kr.

„Hugmyndin um lærdómssamfélag er að mínu mati afar gagnlegt þegar við hugsum um menntakerfið í heild sinni. Slík samfélög skapast þegar fólk deilir sameiginlegum áhuga og sýn á nám og vinnur saman að því að greina starfshætti sína og innleiða nýjungar sem stuðlað geta að betri árangri nemenda. Við vinnum að því að auka flæði milli skólastiga í íslensku menntakerfi og öflug lærdómssamfélög er frábær leið til þess að styðja við starfsþróun kennara og styrkja skólastarfið í heild sinni,“ segir Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra.

Meðal þeirra verkefna sem hlutu styrk að þessu sinni er samstarfsverkefni Menntaskólans við Sund og Vogaskóla. Höfuðmarkmið fyrsta hluta þess verkefnis er að efla, stækka og formgera sameiginlegt lærdómssamfélag nemenda og starfsmanna Vogaskóla og Menntaskólans við Sund. Stefnt er að því að  afrakstur þess verði meðal annars aukin samfella milli skólastiga, betri nýting á þekkingu og reynslu, bætt samfélagsvitund og uppbyggileg samskipti milli nemenda á ólíku aldursstigi. Þannig verði nemendur meðvitaðri um nágrannaskólann og öðlist tilfinningu fyrir því að vera hluti af sömu heild bæði hverfisins og skólakerfisins.

Nánari upplýsingar um úthlutanir og hlutverk Sprotasjóðs má finna á heimasíðu hans

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum