Hoppa yfir valmynd
19. október 2004 Innviðaráðuneytið

Sandgerðisbær - Skylda til að afla álits sérfróðs aðila vegna verulegra skuldbindinga

Heiðar Ásgeirsson
19. október 2004
FEL03090060/1001

Holtsgötu 44

245 SANDGERÐI

Hinn 19. október 2004 er kveðinn upp í félagsmálaráðuneytinu svohljóðandi

ú r s k u r ð u r:

Með erindi, dags. 5. febrúar 2004, kærði Heiðar Ásgeirsson, bæjarfulltrúi B-listans í Sandgerði,

þá ákvörðun meirihluta bæjarstjórnar Sandgerðisbæjar frá 4. febrúar 2004 að heimila undirritun

samninga um byggingu íbúða- og þjónustukjarna. Um er að ræða rammasamning milli

Sandgerðisbæjar, Búmanna hsf. og Miðnestorgs ehf. um byggingu, rekstur og leigu húss sem í

samningi er nefnt Miðbær við Miðnestorg, og leigusamning milli Sandgerðisbæjar og

Miðnestorgs ehf. um bókasafn, ráðhús og þjónusturými við Miðnestorg, Sandgerðisbæ. Krefst

kærandi þess að báðir samningar verði úrskurðaðir ógildir vegna galla á málsmeðferð

bæjarstjórnar og málið verði afgreitt að nýju í bæjarstjórn í samræmi við lög þar um.

Með bréfi, dags. 7. febrúar 2004, óskaði ráðuneytið eftir afriti af samningum sem getið er um í

stjórnsýslukærunni. Bárust þau gögn ásamt fundargerðum er málið varða með bréfi bæjarstjóra

þann 8. sama mánaðar. Í framhaldi af því óskaði ráðuneytið eftir umsögn bæjarstjórnar um málið

með bréfi, dags. 19. febrúar 2004. Í því bréfi segir m.a. eftirfarandi:

„Með vísan til erindis kæranda, samanber einnig bréf ráðuneytisins til kæranda, dags. 30.

september, sem sent var í afriti til Sandgerðisbæjar, óskar ráðuneytið eftir umsögn meirihluta

bæjarstjórnar Sandgerðisbæjar um málið. Einkum óskar ráðuneytið eftir upplýsingum um

eftirfarandi:

Hvort meirihluti bæjarstjórnar líti svo á að skuldbindingar sveitarfélagsins skv. rammasamningi

nemi lægra hlutfalli af árlegum skatttekjum sveitarfélagsins en tilgreint er í 1. mgr. 65. gr.

sveitarstjórnarlaga.

Hvort meirihluti bæjarstjórnar líti svo á að árlegar skuldbindingar skv. leigusamningi og

rammasamningi teljist ekki verulegar skv. 2. mgr. sömu greinar.

Hvort lögð hafi verið fyrir bæjarstjórn gögn eða útreikningar, ásamt útskýringum starfsmanna

sveitarfélagsins, endurskoðanda eða utanaðkomandi sérfræðinga, sem gefið gátu til kynna á

aðgengilegan hátt áhrif samninganna á fjárhagsafkomu sveitarfélagsins og árlegan

rekstrarkostnað fyrir sveitarfélagið.

Til skýringar telur ráðuneytið rétt að benda á að markmið framangreinds ákvæðis er að tryggja

að kjörnir fulltrúar hafi yfir að ráða greinargóðum upplýsingum um áhrif framkvæmda og

samninga áður en þeir samþykkja slíkar skuldbindingar fyrir hönd sveitarfélagsins. Ekki hefur

verið litið svo á að sérfræðiálit samkvæmt 65. gr. sveitarstjórnarlaga þurfi óhjákvæmilega að

vera unnið af utanaðkomandi aðila heldur geti komið til álita að framkvæmdastjóri eða annar

starfsmaður sveitarfélags vinni slíkt álit. Ráðuneytið telur því mikilvægt að fá upplýsingar um

yfirlit og skýringar sem bæjarfulltrúar áttu kost á að kynna sér áður en hin kærða ákvörðun var

tekin.

Ráðuneytið telur einnig rétt að minna bæjarstjórn Sandgerðisbæjar á að skv. 3. mgr. 65. gr.

sveitarstjórnarlaga ber að tilkynna eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga um sölu fasteigna

sem falla undir 2. mgr. 73. gr. sömu laga. Sama máli gegnir um verulegar skuldbindingar sem

ekki koma fram í fjárhagsáætlun sveitarfélagsins, sbr. 3. mgr. 62. gr. laganna.“

Umsögn bæjarstjórnar barst með bréfi frá lögmanni sveitarfélagsins, dags. 11. mars 2004.

Jafnframt barst ráðuneytinu greinargerð bæjarstjóra um málið, ásamt frekari gögnum, og er hún

dagsett 25. mars 2004. Framangreind gögn voru send kæranda með bréfi, dags. 7. apríl 2004 og

bárust athugasemdir hans með bréfi, dags. 30. sama mánaðar. Þær voru sendar bæjarstjóra þann

3. maí 2004 í símbréfi og bárust viðbótarathugasemdir hans með tölvubréfi sama dag. Frekari

skýringar bárust einnig með tölvubréfi bæjarstjóra frá 4. ágúst 2004.

I. Málavextir

 

Mál þetta er nú öðru sinni komið til afgreiðslu ráðuneytisins. Með bréfi, dags. 30. september

2003, svaraði ráðuneytið fyrirspurn kæranda frá 17. sama mánaðar þar sem óskað var álits

ráðuneytisins á samþykkt bæjarstjórnar Sandgerðisbæjar um að ganga til samninga við Búmenn

hsf. um samstarf um byggingu íbúða- og þjónustukjarna. Í bréfi ráðuneytisins segir m.a.

eftirfarandi:

„Ráðuneytið aflaði upplýsinga um stöðu málsins í símtali við bæjarstjóra Sandgerðisbæjar 27.

september sl. Í máli hans kom fram að viðræður færu nú fram á grundvelli samþykktar

bæjarstjórnar frá umræddum fundi. Lýsti bæjarstjóri þeirri skoðun að þar sem forsendur

samningsins væru enn í mótun væri á þessu stigi ekki unnt að leggja fram álit um áhrif

samningsins á fjárhag sveitarsjóðs.

Með lögum nr. 74/2003 var bætt inn í 65. gr. sveitarstjórnarlaga nýrri málsgrein þar sem mælt er

fyrir um skyldu til að afla álits sérfróðs aðila áður en sveitarstjórn staðfestir samninga um

framkvæmdir eða þjónustu við íbúa sveitarfélags sem gilda eiga til langs tíma og hafa í för með

sér verulegar skuldbindingar fyrir sveitarsjóð. Miðað við þau samningsdrög sem fylgdu erindi

yðar er það mat ráðuneytisins að skuldbindingar vegna fyrirhugaðs miðbæjarkjarna muni að

öllum líkindum hafa veruleg áhrif á fjárhag og rekstur Sandgerðisbæjar á komandi árum og af

þeirri ástæðu sé skylt að afla álits sérfróðs aðila um kostnaðaráætlun og væntanleg áhrif á

fjárhagsafkomu sveitarsjóðs á framkvæmdatíma og gildistíma þeirra samninga sem um er að

ræða. Jafnframt skal gera grein fyrir því hvernig framkvæmdin samræmist þriggja ára áætlun

sveitarfélagsins.

Miðað við framkomnar skýringar telur ráðuneytið að ekki hafi verið skylt að leggja fram umrætt

sérfræðiálit á fundi bæjarstjórnar Sandgerðisbæjar sem haldinn var 10. september sl., þar sem

ákveðið var að ganga til samninga við Búmenn hsf. um fyrirhugaða framkvæmd. Það er hins

vegar mat ráðuneytisins, miðað við þau gögn sem liggja frammi í málinu, að umrætt álit verði að

liggja fyrir áður en aflað verður endanlegrar staðfestingar bæjarstjórnar á samningum um

fyrirhugaðar framkvæmdir.“

Á fundi bæjarstjórnar Sandgerðisbæjar sem haldinn var 4. febrúar 2004 var tekið fyrir undir 12.

lið málið „Samningar við Búmenn“. Í fundargerð kemur fram að meirihluti bæjarstjórnar lagði til

að bæjarstjóra yrði falið að undirrita rammasamning og leigusamning sem lágu frammi á

fundinum. Er bókað að meirihlutinn legði áherslu á nánar tilgreindar breytingar sem náðst hefðu

frá því að ákveðið var á bæjarstjórnarfundi 10. september 2003 að ganga til samninga við

Búmenn.

Á fundinum lögðu tveir bæjarfulltrúar B-lista fram bókun þar sem þeir leggja til að

framkvæmdum við nýjan miðbæ verði frestað um a.m.k. tvö ár. Í bókuninni segir að núverandi

skuldastaða bæjarfélagsins sé það slæm að ekki sé á bætandi og einnig að réttara sé að ljúka þeim

framkvæmdum sem eru í gangi áður en ráðist sé í nýjar. Einnig veki það furðu að meirihlutinn

skuli leggja til að ráðist sé í stórframkvæmdir því stutt sé síðan þingmenn kjördæmisins hafi

verið boðaðir á fund til að ræða ástand í bæjarfélaginu vegna þeirra áfalla sem dunið hafi yfir sl.

tvö ár. Jafnframt sé átalið að ekki skuli vera farið að lögum við afgreiðslu málsins með því að

leggja fyrir bæjarstjórn umsögn sérfróðs aðila um áhrif slíkra samninga á fjárhagsafkomu

sveitarsjóðs.

Báðir samningarnir voru samþykktir með fjórum atkvæðum meirihlutans en þrír fulltrúar

minnihlutans greiddu atkvæði á móti.

Í fundargerð sama bæjarstjórnarfundar kemur einnig fram undir 15. lið að fjárhagsáætlun 2004

verði endurskoðuð þegar fyrir liggi niðurstaða varðandi samninga við Fasteign hf., varðandi sölu

á mannvirkjum í eigu sveitarfélagsins, og Búmenn hsf. og um fasteignaskatta af Leifsstöð.

Jafnframt var samþykkt þriggja ára áætlun 2005–2007.

II. Málsrök kæranda

 

Að sögn kæranda er ágreiningur um hina kærðu ákvörðun innan bæjarstjórnar. Ekki er

ágreiningur um það að ganga til samstarfs við Búmenn heldur telur minnihlutinn að umfang

verksins sé umfram greiðslugetu sveitarsjóðs og lagði hann því til að verkinu yrði frestað um

a.m.k. tvö ár. Við umræður á bæjarstjórnarfundi 4. febrúar 2004 kveðst kærandi hafa bent á að

skylt sé skv. 65. gr. sveitarstjórnarlaga að afla álits sérfróðs aðila um áhrif á fjárhagsafkomu

sveitarsjóðs, áður en bæjarstjórn staðfesti samninga um framkvæmdir sem gilda eiga til langs

tíma og hafa í för með sér verulegar skuldbindingar fyrir bæjarsjóð. Ekkert slíkt álit hafi legið

fyrir við afgreiðslu málsins í bæjarstjórn þann 4. febrúar.

Í athugasemdum kæranda við umsögn kærða, dags. 30. apríl 2004 segir m.a. eftirfarandi:

„Af framangreindum gögnum er ljóst að á fundi bæjarstjórnar 4. febrúar var ekki lagt

fram álit sérfróðs aðila eins og skylt er skv. 65. gr. sveitarstjórnarlaga. Í greinargerð bæjarstjóra

og lögmanns bæjarins er reynt að verja það með því að ekki sé um verulega fjárfestingu að ræða.

Þrátt fyrir miklar tekjur Sandgerðisbæjar eru skuldir á íbúa óvíða hærri, heildarskuldir um s.l.

áramót voru um 960 þús á íbúa, einnig er laust fé til ráðstöfunar ekki í neinu samræmi við miklar

tekjur sveitarfélagsins. Í áliti ráðuneytisins, dags. 30. sept 2003, kemur fram að skylt sé að afla

sérfræðiálits áður en endanleg ákvörðun bæjarstjórnar er tekin. Það var ekki gert og vísaði

meirihluti bæjarstjórnar til álits endurskoðanda bæjarfélagsins um að þess væri að líkindum ekki

þörf. Framangreint álit endurskoðandans var ekki lagt fram skriflega og er ekki að finna í þeim

gögnum sem send hafa verið ráðuneytinu vegna þessa máls, né heldur margumræddur

samningur.

Brúttó byggingarkostnaður þess hluta framkvæmdanna sem eru á ábyrgð

Sandgerðisbæjar er um 289 m.kr. eða sem svarar til um 54 % af áætluðum tekjum sveitarsjóðs

árið 2004. Af framangreindum 289 m.kr. er reiknað með endurgreiðslu á virðisaukaskattti að

upphæð um 51 m.kr. Eftirstöðvar verði að hálfu greiddar með sölu eigna og að hálfu teknar á

leigu. Verðmæti þeirra eigna sem til stendur að selja er í forsendum meirihlutans ofmetið um ca

50 m.kr. Áætluð leiguupphæð er um 16,5 m.kr. á ári. Í ljósi þess að leigusamningurinn er

óuppsegjanlegur til 25 ára og þess að leiguupphæðin ein og sér er á bilinu 25–50% af því fé sem

laust er til ráðstöfunar hlýtur það að teljast veruleg upphæð.“

Kærandi ítrekar loks kröfu sína um að hin kærða ákvörðun verði úrskurðuð ógild, málið verði

tekið fyrir að nýju í bæjarstjórn og það afgreitt í samræmi við lög þar um.

III. Málsrök kærða

 

Í umsögn lögmanns Sandgerðisbæjar, dags. 11. mars 2004, kemur meðal annars fram að leitað

hafi verið til endurskoðenda kærða þegar fjárhagsforsendur verkefnisins lágu fyrir og þeir inntir

álits á því hvort fyrirhugaðar framkvæmdir myndu hafa veruleg áhrif á fjárhag og rekstur

bæjarsjóðs með vísan til 65. gr. sveitarstjórnarlaga. Að mati endurskoðendanna var ljóst að

heildarfjárhæð verkefnisins væri undir viðmiðunarmörkum 1. mgr. 65. gr. laganna og jafnframt

töldu þeir ólíklegt að samningarnir gætu talist hafa verulegar skuldbindingar í för með sér fyrir

sveitarsjóð, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Að þessu virtu hafi verið gengið til samninga við Búmenn

hsf.

Kærði túlkar kæruna svo að kærandi telji málsmeðferð bæjarstjórnar eingöngu fara í bága við 2.

mgr. 65. gr. sveitarstjórnarlaga og takmarkast athugasemdir hans við þá málsástæðu. Bendir hann

á að þar sem ákvæðið sé nýtt í lögum hafi engin reynsla eða fordæmi myndast varðandi túlkun á

því hvað séu „verulegar skuldbindingar“. Kemur fram að kærði lítur svo á að í hinni kærðu

ráðstöfun felist ekki óábyrg ráðstöfun fjármuna sveitarfélagsins. Verið sé að kaupa nýtt húsnæði

með söluandvirði eldra húsnæðis en núverandi stjórnsýsluhús Sandgerðisbæjar hafi aldrei

fyllilega uppfyllt lagakröfur. Hin nauðsynlegu fasteignakaup kærða muni því hafa lítil sem engin

áhrif á sveitarsjóð. Jafnframt sé verið að taka á leigu 824 ferm. rými undir bókasafn,

bæjarskrifstofur og annað þjónusturými til þess að sveitarfélagið geti sinnt með viðunandi hætti

lögbundnum skyldum sínum. Leiguverð sé alls kr. 1.094.344 á mánuði, miðað við núverandi

forsendur. Samtals eru því greiddar 13.132.128 kr. á ári fyrir húsnæðið, sem að mati kærða er

mjög ásættanlegt verð.

Heildartekjur Sandgerðisbæjar eru áætlaðar 538,9 m.kr. á yfirstandandi ári en gert er ráð fyrir

verulegri tekjuaukningu árin 2005 og 2006. Leigugreiðslurnar nemi því einungis 2,4% af tekjum

sveitarsjóðs á ári en að mati kærða telst slík skuldbinding ekki veruleg og í raun smávægileg ef

höfð er til hliðsjónar krafa 1. mgr. 65. gr. sveitarstjórnarlaga um að afla beri sérfræðiálits ef

fjárfesting fer yfir 25% af skatttekjum ársins. Þá beri að geta þess að skuldbindingar kærða

hefjist ekki fyrr en við afhendingu hins leigða, sem er ráðgerð í júlí 2005, og því líklegt að

fyrrgreind hlutfallstala muni lækka með hliðsjón af auknum tekjum komandi ára, sem einmitt

komi til vegna aukinna umsvifa í kringum hinn umdeilda þjónustukjarna, auk hærri

fasteignagjalda sem nemur um 13 m.kr. á ári vegna stækkunar Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar. Sú

aukning nemi einmitt þeirri fjárhæð sem leigusamningurinn við Búmenn hsf. kveði á um og sé

því ljóst að fyrrgreind skuldbinding kærða muni ekki hafa íþyngjandi áhrif í för með sér.

Samkvæmt framansögðu er það mat kærða að staðið hafi verið í einu og öllu við kröfur

sveitarstjórnarlaga. Haft hafi verið fullt samráð við endurskoðendur sveitarfélagsins við

ákvarðanatökuna og málið ítarlega rætt með kæranda á fjölmörgum bæjarstjórnarfundum þar

sem viðstaddir hafi verið sannfærðir um nauðsyn og ágæti þessara framkvæmda. Beri því að

hafna kröfum kæranda.

Í bréfi bæjarstjóra Sandgerðisbæjar til ráðuneytisins, dags. 25. mars 2004, kemur meðal annars

fram að meirihluti bæjarstjórnar telur að hin kærða ákvörðun varði skylduverkefni

sveitarfélagsins. Um sé að ræða aðstöðu fyrir stjórnsýslu bæjarins, mötuneyti fyrir leikskóla,

grunnskóla og aldraða og byggingu félagslegs húsnæðis. Einnig sé vert að hafa í huga að

Búmenn hsf. sé að byggja íbúðir fyrir 50 ára og eldri á svæðinu sem að mati meirihluta

bæjarstjórnar sé grundvallarmál fyrir uppbyggingu miðbæjarsvæðisins. Meirihlutinn leggi einnig

áherslu á fegrun bæjarfélagsins enda sé verslunar- og þjónustukjarni nauðsynlegur fyrir hvern

byggðakjarna.

Varðandi skuldbindingar vísar meirihlutinn til samanburðar á þróun tekna, skulda, eigna og eigin

fjár við nágrannasveitarfélög og einnig til viðmiðunar við önnur sveitarfélög með fleiri en 1.000

íbúa. Við skoðun komi í ljós að fá sveitarfélög hafi eins miklar tekjur og Sandgerðisbær og geta

sveitarfélagsins til að taka að sér aukin verkefni ætti að vera í samræmi við það. Þá eigi fá

sveitarfélög eins miklar eignir og Sandgerðisbær. Það sem leggi hins vegar grunninn að

ákvörðun meirihlutans um uppbyggingu miðbæjarkjarnans séu þær tekjur sem fyrirsjáanlegar eru

á næstu árum og framlegð aðalsjóðs. Einnig vegi þungt sú staðreynd að búið sé að byggja upp

þjónustuþætti á borð við stækkun grunnskóla og leikskóla.

Í bréfinu segir enn fremur að það sé bjargfast mat meirihluta bæjarstjórnar að þeir samningar sem

gerðir hafa verið hafi ekki verulegar skuldbindingar í för með sér heldur muni þeir þvert á móti

auka hagsæld bæjarsjóðs og íbúa bæjarfélagsins.

Með bréfinu fylgja upplýsingar um þær breytingar sem bæjarstjórn óskaði eftir að tekið yrði tillit

til við skoðun og fyrirhugaðar breytingar á þriggja ára áætlun bæjarins á fundi bæjarstjórnar 4.

febrúar 2004. Hafi sú ákvörðun verið samþykkt einróma í bæjarstjórn.

IV. Niðurstaða ráðuneytisins

 

Í úrskurðarvaldi ráðuneytisins samkvæmt 103. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 45/1998, með síðari

breytingum, felst að unnt er að staðfesta eða ógilda ýmsar ákvarðanir sveitarstjórna vegna

formgalla eða vegna þess að efni ákvörðunar er andstætt lögum. Ráðuneytið hefur hins vegar

ekki heimild til að ógilda einkaréttarlega gerninga á borð við samninga Sandgerðisbæjar við

Búmenn hsf. sem eru tilefni þessa máls. Ef hnökrar eru á málsmeðferð eða ákvörðun

sveitarstjórnar getur úrskurðarorð ráðuneytisins því einungis hljóðað á þá leið að hin kærða

ákvörðun fari í bága við ákvæði sveitarstjórnarlaga. Af þessari ástæðu er ekki unnt að fallast á þá

kröfu kæranda að skuldbindingar sem bæjarstjórn Sandgerðisbæjar hefur samþykkt og

undirritaðar hafa verið í hennar umboði verði úrskurðaðar ógildar.

Úrskurðarvald ráðuneytisins sætir enn fremur takmörkunum vegna ákvæða 78. gr.

stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 1. gr. sveitarstjórnarlaga. Hlutverk ráðuneytisins er þannig einkum

að úrskurða um hvort réttra málsmeðferðarreglna hafi verið gætt en ákvarðanir sem byggja á

frjálsu mati sveitarstjórnar sæta ekki endurskoðun við málskot til ráðuneytisins. Af þessari

ástæðu verður ekki tekin afstaða í úrskurði þessum til ágreinings minnihluta og meirihluta

bæjarstjórnar um það hvort skynsamlegra hefði verið að bíða með að ráðast í hinar umdeildu

framkvæmdir. Loks skal tekið fram að skv. 74. gr. sveitarstjórnarlaga heyrir það undir

eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga, sem félagsmálaráðherra skipar, að fylgjast með

fjárhagsstöðu sveitarfélaga.

Umfjöllun ráðuneytisins um kæruefnið mun einskorðast við að athuga hvort málsmeðferð

bæjarstjórnar við afgreiðslu rammasamnings og leigusamnings hafi farið í bága við ákvæði 1. og

2. mgr. 65. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 45/1998, með síðari breytingum. Samkvæmt 1. mgr. 65. gr.

sveitarstjórnarlaga ber að afla álits sérfróðs aðila um kostnaðaráætlun, væntanleg áhrif hennar á

fjárhagsafkomu sveitarsjóðs á fyrirhuguðum verktíma og áætlun um árlegan rekstrarkostnað fyrir

sveitarsjóð, sé um hann að ræða, ef sveitarstjórn hyggst ráðast í fjárfestingu og áætlaður

heildarkostnaður eða hlutur sveitarfélagsins í henni nemur hærri fjárhæð en fjórðungi skatttekna

yfirstandandi reikningsárs.

Með lögum nr. 74/2003, um breytingu á sveitarstjórnarlögum, var bætt við 65. gr. nýrri

málsgrein þar sem mælt er fyrir um skyldu til að afla álits sérfróðs aðila áður en sveitarstjórn

staðfestir samninga um framkvæmdir eða þjónustu við íbúa sveitarfélags sem gilda eiga til langs

tíma og hafa í för með sér verulegar skuldbindingar fyrir sveitarsjóð. Í athugasemdum með

frumvarpi sem varð að umræddum lögum kemur fram að meginmarkmið breytingarinnar sé að

tryggja vandaða málsmeðferð við töku ákvarðana sem haft geti áhrif á fjárhag sveitarfélaga til

lengri tíma litið. Breytingin feli í sér að sveitarstjórn verði ekki aðeins að afla álits sérfróðs aðila

áður en ráðist er í meiri háttar framkvæmdir á vegum sveitarfélagsins heldur gildi sú regla einnig

um ýmsar aðrar ákvarðanir sem gilda eiga til langs tíma og hafa í för með sér verulegar

skuldbindingar fyrir sveitarsjóð.

Ákvæði 1. og 2. mgr. 65. gr. sveitarstjórnarlaga grundvallast á því viðhorfi löggjafans að það sé

bæði réttur og skylda sveitarstjórnarmanna að vera vel upplýstir um forsendur og afleiðingar

mikilsháttar ákvarðana sem koma til umræðu í sveitarstjórn. Ekki er hægt að gera ráð fyrir því að

kjörnir fulltrúar hafi menntun eða reynslu sem gerir þeim kleift að meta flókna samninga eða

kostnaðaráætlanir og álykta um væntanleg áhrif þeirra á fjárhagsafkomu sveitarsjóðs. Löggjafinn

hefur af þeirri ástæðu ákveðið að skylt sé að afla álits eða umsagnar sérfróðs aðila áður en

sveitarstjórn afgreiðir mál sem falla undir framangreind ákvæði. Með sérfróðum aðila er t.d. átt

við viðskipta- eða tæknimenntaðan aðila og getur þar til dæmis verið um að ræða starfsmann

viðkomandi sveitarfélags. Æskilegt er að umsögnin feli í sér mat á einstökum efnisþáttum

samnings eða áætlunar og áhrifum skuldbindingar eða fjárfestingar á rekstur sveitarfélagsins í

náinni framtíð.

Kærandi, sem bæði átti sæti í bæjarstjórn og bæjarráði Sandgerðisbæjar á þeim tíma sem mál

þetta var til umfjöllunar í stjórnkerfi Sandgerðisbæjar, hefur líkt og aðrir bæjarfulltrúar fengið

kynningu á byggingaráformum eftir því sem undirbúningsvinnu hefur miðað áfram. Á

bæjarstjórnarfundi sem haldinn var 4. febrúar 2004 var bæjarstjóra veitt heimild til að undirrita

leigusamning við Miðnestorg ehf. og rammasamning við Búmenn hsf. og Miðnestorg ehf. og fór

undirritun fram tveimur dögum síðar. Það var þó ekki fyrr en eftir að hin kærða ákvörðun var

samþykkt sem kærandi fékk í hendur úttekt endurskoðanda sveitarfélagsins á áhrifum

samninganna á bæjarsjóð, eða á fundi bæjarráðs sem haldinn var 17. febrúar 2004, en til þess

fundar voru allir bæjarfulltrúar boðaðir. Er ljóst að það álit hefði þurft að koma fram fyrr til að

unnt væri að líta svo á að með því hafi skilyrði 65. gr. sveitarstjórnarlaga verið uppfyllt.

Ráðuneytið telur samt sem áður ljóst af framlögðum gögnum að málið hafi fengið ítarlega

meðferð í stjórnkerfi Sandgerðisbæjar. Rammasamningur um uppbyggingu miðbæjar í Sandgerði

var undirritaður 28. janúar 2003 og frá þeim tíma var rætt um framvindu mála á mörgum fundum

innan stjórnkerfis Sandgerðisbæjar. Um þetta vitna meðal annars fundargerðir bæjarstjórnar og

bæjarráðs og byggir kærði á því að kærandi og aðrir bæjarfulltrúar hafi fengið fullnægjandi

upplýsingar um samningaviðræður og fjárhagsleg áhrif fyrirhugaðra ákvarðana á hinum ýmsu

stigum málsins. Á meðal gagna sem kynnt voru bæjarfulltrúum er yfirlit frá maí 2003 um

skiptingu á kostnaði og tafla sem sýnir áætlaðar mánaðarlegar afborganir af lánum vegna

framkvæmdanna. Jafnframt voru lagðar fram áætlanir sem sýna verð fyrir búseturétt í íbúðum á

annarri og þriðju hæð hússins. Á bæjarstjórnarfundi sem haldinn var 8. maí 2003, þar sem málinu

var vísað til húsnæðis-, skipulags- og byggingarráðs til umsagnar, var bókað að bæjarfulltrúar

lýstu yfir ánægju með framsettar hugmyndir og óskuðu eftir frekari upplýsingum á næsta fund

bæjarráðs. Umtalsverðar breytingar hafa orðið á efni samninganna frá því að málið kom fyrst til

umræðu. Helstu breytingar eru raktar í bókun á bæjarstjórnarfundi frá 4. febrúar 2004 og virðist

ekki vera ágreiningur um að þær hafi almennt verið til hagsbóta fyrir Sandgerðisbæ.

Í athugasemdum kæranda frá 30. apríl 2004 er því haldið fram að brúttó byggingarkostnaður þess

hluta framkvæmdanna sem sé á ábyrgð Sandgerðisbæjar sé um 289 m.kr., eða sem svari til um

54% af skatttekjum sveitarfélagsins. Frá dragist endurgreiddur virðisaukaskattur að fjárhæð 51

m.kr. en eftirstöðvar verði annars vegar fjármagnaðar með sölu eigna og hins vegar með því að

Sandgerðisbær taki húsnæði á leigu í 25 ár. Jafnframt er því haldið fram af hálfu kæranda að

leigugreiðslur vegna þess hluta húsnæðisins sem Sandgerðisbær tekur á leigu verði að teljast

verulegar þar sem leigufjárhæðin á samningstímanum sé á bilinu 25–50% af því fé sem

sveitarfélagið hafi laust til ráðstöfunar.

Eins og áður er getið óskaði ráðuneytið í bréfi sem dagsett er 19. febrúar 2004 eftir afstöðu

meirihluta bæjarstjórnar Sandgerðisbæjar til þess hvort hann teldi að skuldbindingar

sveitarfélagsins samkvæmt rammasamningi við Búmenn hsf. og Miðbæjartorg ehf. næmu lægra

hlutfalli af árlegum skatttekjum en fjórðungi skatttekna, sbr. 1. mgr. 65. gr. sveitarstjórnarlaga.

Jafnframt var óskað eftir afstöðu meirihlutans til þess hvort hann liti svo á að árlegar

skuldbindingar samkvæmt leigusamningi við Miðbæjartorg ehf. teldust ekki verulegar í skilningi

2. mgr. sömu greinar. Í umsögn kærða kemur fram að endurskoðendur sveitarfélagsins hafi

komist að þeirri niðurstöðu að heildarfjárhæð verkefnisins væri undir viðmiðunarmörkum 1.

mgr. 65. gr. sveitarstjórnarlaga en ekki hafa verið lögð fram í málinu gögn eða útreikningar því

til stuðnings. Í umsögn kærða kemur hins vegar fram að hann túlki kæruna svo að kærandi byggi

einvörðungu á því að hin kærða ákvörðun fari í bága við 2. mgr. sömu greinar. Verður þó að

skilja svör bæjarstjóra og umsögn lögmanns Sandgerðisbæjar á þann hátt að þeir telji að

skuldbindingar sveitarfélagsins af báðum samningum séu undir þeim viðmiðum sem fram koma í

tilvitnuðum ákvæðum sveitarstjórnarlaga.

Samkvæmt athugun ráðuneytisins er áætlaður byggingarkostnaður þess hluta húss sem í

rammasamningi er nefnt „Miðbær við Miðnestorg“ og verður í eigu Sandgerðisbæjar, og telst þar

með vera fjárfesting í skilningi 1. mgr. 65. gr. sveitarstjórnarlaga, rúmlega 113 m.kr. Er sú

fjárhæð u.þ.b. 30% af skatttekjum Sandgerðisbæjar árið 2003 án framlaga Jöfnunarsjóðs

sveitarfélaga en tæp 24% að þeim framlögum meðtöldum. Að mati ráðuneytisins verður að skilja

umrætt ákvæði svo að líta beri til heildarkostnaðar við framkvæmdina og að sala eigna til að

fjármagna framkvæmdina komi ekki til frádráttar. Hins vegar telur ráðuneytið rétt að

virðisaukaskattur komi til frádráttar reiknuðum heildarkostnaði og að framlög Jöfnunarsjóðs

sveitarfélaga teljist vera hluti af skatttekjum. Þegar litið hefur verið til þessara þátta er kostnaður

Sandgerðisbæjar vegna fjárfestingar undir þeim fjórðungi skatttekna sem miðað er við í

lagaákvæðinu og var af þeirri ástæðu ekki skylt að afla sérfræðiálits um kostnaðaráætlunina eða

áhrif rammasamningsins á fjárhagsafkomu bæjarsjóðs, sbr. 1. mgr. 65. gr. sveitarstjórnarlaga.

Að mati ráðuneytisins ber ekki að túlka ákvæði 2. mgr. 65. gr. sveitarstjórnarlaga þröngt enda er

sú regla sem í því felst fallin til þess að tryggja vandaða afgreiðslu mála í sveitarstjórn og

auðvelda kjörnum fulltrúum ákvarðanatöku. Leigusamningur milli Sandgerðisbæjar og

Miðnestorgs ehf. um bókasafn, bæjarskrifstofur og þjónusturými gildir til 25 ára og er hann

óuppsegjanlegur en leigutaki hefur á fimm ára fresti möguleika á að kaupa eignina. Við beitingu

ákvæðisins er meðal annars unnt að líta til þess hve stór skuldbindingin er í hlutfalli við veltu og

tekjumöguleika viðkomandi sveitarfélags. Áætluð leigufjárhæð er 16,3 m.kr. á ári en rúmlega 13

m.kr. að frádregnum virðisaukaskatti. Miðað við lengd skuldbindingarinnar sem í

leigusamningnum felst telur ráðuneytið ekki útilokað að líta svo á að um verulega skuldbindingu

sé að ræða í skilningi 2. mgr. 65. gr. sveitarstjórnarlaga. Ákvæðið veitir hins vegar litlar

leiðbeiningar í þeim efnum og lítil reynsla er komin á framkvæmd þess. Kærði hefur við meðferð

málsins bent á að fyrirséð tekjuaukning sveitarfélagsins af fasteignaskatti nemi nánast sömu

fjárhæð og skuldbinding vegna leigusamningsins og að af þeirri ástæðu muni þessi útgjöld ekki

hafa áhrif á fjárhag sveitarfélagsins. Ekki verður hins vegar séð af málsgögnum að þetta

sjónarmið hafi komið fram við umfjöllun um málið í bæjarstjórn eða bæjarráði. Að auki byggir

kærði á því, eins og áður er fram komið, að skuldbindingin geti ekki talist veruleg.

Eins og áður er fram komið gera sveitarstjórnarlög ekki kröfu um að mats á fjárhagslegum

áhrifum skuldbindinga sem falla undir umrætt ákvæði sé aflað frá utanaðkomandi sérfræðingum

heldur er til dæmis fullnægjandi að viðskiptamenntaður starfsmaður viðkomandi sveitarfélags

veiti slíkt álit. Af gögnum málsins verður ekki ráðið með skýrum hætti að þess hafi verið gætt að

fullnægjandi upplýsingar hafi verið lagðar fyrir bæjarstjórn Sandgerðisbæjar fyrr en hinn 17.

febrúar 2004 og lítur ráðuneytið svo á að þar hafi verið um að ræða nokkurn annmarka á annars

vandaðri málsmeðferð. Þegar þess er gætt að málið hafði verið til umfjöllunar á mörgum fundum

bæjarstjórnar og bæjarráðs Sandgerðisbæjar og að skýran mælikvarða skortir um það hvað sé

veruleg skuldbinding í skilningi 2. mgr. 65. gr. sveitarstjórnarlaga verður þó ekki talið að

framangreindur annmarki sé svo verulegur að hann leiði til þess að hin kærða ákvörðun sé

ólögmæt.

Með vísan til þess sem að framan er rakið er það niðurstaða ráðuneytisins að ekki hafi verið skylt

að leggja fram sérfræðiálit skv. 1. mgr. 65. gr. sveitarstjórnarlaga áður en bæjarstjórn

Sandgerðisbæjar tók um það ákvörðun á fundi sem haldinn var 4. febrúar 2004 að samþykkja

undirritun rammasamnings við Búmenn hsf. Hins vegar er það mat ráðuneytisins, með vísan til

2. mgr. sömu greinar, að rétt hefði verið að leggja fram slíkt álit vegna leigusamnings við sama

aðila sem einnig var afgreiddur á umræddum fundi. Eins og á stendur verður sá annmarki þó ekki

talinn svo verulegur að hann leiði til þess að hin kærða ákvörðun sé ólögmæt. Kröfu um

ógildingu framangreindra samninga Sandgerðisbæjar við Búmenn hsf. er vísað frá ráðuneytinu.

Beðist er velvirðingar á því að vegna anna í ráðuneytinu hefur afgreiðsla málsins tekið

umtalsvert lengri tíma en mælt er fyrir um í 103. gr. sveitarstjórnarlaga.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

 

Kröfu kæranda, Heiðars Ásgeirssonar, um að ráðuneytið ógildi ákvörðun bæjarstjórnar

Sandgerðisbæjar frá 4. febrúar 2004 að samþykkja undirritun rammasamnings við Búmenn hsf.

og Miðnestorg ehf. og leigusamnings við Miðnestorg ehf., er vísað frá ráðuneytinu.

F. h. r.

Guðjón Bragason (sign.)

G. Dýrleif Kristjánsdóttir (sign.)

Samrit:

Sandgerðisbær

19. október 2004 - Sandgerðisbær - Skylda til að afla álits sérfróðs aðila vegna verulegra skuldbindinga. (PDF)



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum