Hoppa yfir valmynd
25. júní 1996 Innviðaráðuneytið

Egilsstaðabær - Ákvörðun bæjarstjórnar um að gerast aðili að hlutafélagi um hótelrekstur

Heimir Sveinsson 25. júní 1996 96020065

Brávöllum 16 1001

700 Egilsstaðir

Hinn 25. júní 1996 var í félagsmálaráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

ú r s k u r ð u r:

Með erindi, dagsettu 14. febrúar 1996, kærði Heimir Sveinsson, Brávöllum 16, Egilsstöðum, til félagsmálaráðuneytisins ákvörðun bæjarstjórnar Egilsstaðabæjar frá 12. febrúar 1996 um að gerast aðili að hlutafélagi um byggingu nýs hótels á Egilsstöðum.

Með bréfi ráðuneytisins, dagsettu 19. febrúar 1996, var bæjarstjórn Egilsstaðabæjar gefinn kostur á að tjá sig um efni framangreindrar kæru. Umsögn bæjarstjórnar barst ráðuneytinu hinn 8. mars 1996 með bréfi, dagsettu 5. sama mánaðar. Jafnframt bárust ráðuneytinu greinargerðir frá bæjarfulltrúunum Einari Rafni Haraldssyni, dagsett 3. mars 1996, og Sveini Jónssyni, dagsett 4. mars 1996.

I. Málavextir og málsástæður.

Á fundi bæjarstjórnar Egilsstaðabæjar þann 12. febrúar 1996 var eftirfarandi tillaga samþykkt með sex atkvæðum gegn einu:

“Bæjarstjórn Egilsstaðabæjar samþ. að gerast aðili að hlutafélagi um byggingu nýs hótels á Egilsstöðum og leggja fram kr. 18.750.000 sem hlutafé og taka til þess nauðsynleg lán.”

Undirbúningur máls þessa hafði áður verið á dagskrá bæjarráðs og bæjarstjórnar á fundum í desember 1995 og janúar og febrúar 1996.

Kærandi gerir þær kröfur að afgreiðsla bæjarstjórnar verði úrskurðuð ógild vegna vanhæfis þriggja bæjarstjórnarfulltrúa. Vanhæfisástæðurnar telur hann vera eftirfarandi:

* Einar Rafn Haraldsson: Stofnandi og hluthafi í Miðvangi ehf. sem er eigandi lóðar að Miðvangi 5-7. Til umræðu hafi verið að byggja hið nýja hótel á þeirri lóð.

* Sveinn Jónsson: Stofnandi og hluthafi í Miðvangi ehf.

* Þuríður Backman: Eiginkona arkitekts sem gert hafði uppdrátt að hótelbyggingu á lóðinni að Miðvangi 5-7.

Einnig gerir kærandi athugasemdir við að á fyrri stigum málsins hafi um það verið fjallað sem trúnaðarmál í bæjarstjórn.

II. Niðurstaða ráðuneytisins.

Um hæfi sveitarstjórnarmanna:

Í 45. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 8/1986 er fjallað um hæfi sveitarstjórnarmanna til að fjalla um einstök mál og í 1. mgr. segir svo:

“Sveitarstjórnarmanni ber að víkja sæti við meðferð og afgreiðslu máls þegar það varðar hann eða nána venslamenn hans svo sérstaklega að almennt má ætla að viljaafstaða hans mótist að einhverju leyti þar af. Honum er þó heimilt að gera stuttlega grein fyrir afstöðu sinni. Sveitarstjórn sker umræðulaust úr hvort mál er svo vaxið. Sveitarstjórnarmaður, sem hlut á að máli, má taka þátt í atkvæðagreiðslu um hæfi sitt. Sveitarstjórnarmanni, sem veit hæfi sitt orka tvímælis, ber að vekja athygli á því.”

Um hæfi fulltrúa í bæjarstjórn Egilsstaðabæjar er jafnframt fjallað í 26. gr. samþykktar um stjórn Egilsstaðabæjar og fundarsköp bæjarstjórnar nr. 214/1987.

Tilgangur 45. gr. sveitarstjórnarlaga er að tryggja málefnalega umfjöllun í sveitarstjórn um þau erindi, sem henni berast, og að almenningur og þeir sem hlut eiga að máli geti treyst því að sveitarstjórn leysi úr málum á hlutlægan hátt. Í 1. mgr. 45. gr. er tekið fram að sveitarstjórnarmanni beri að víkja sæti þegar mál varðar hann eða nána venslamenn hans svo sérstaklega að almennt má ætla að viljaafstaða hans mótist að einhverju leyti þar af.

Í máli þessu ber að leggja til grundvallar að hlutverk bæjarstjórnar Egilsstaðabæjar var að taka ákvörðun um hvort bærinn yrði aðili að hlutafélagi um byggingu nýs hótels á Egilsstöðum. Það var ekki í verkahring bæjarstjórnarinnar að taka ákvörðun um staðsetningu hótelsins. Þá ákvörðun átti stjórn hins væntanlega hlutafélags að taka.

Í gögnum málsins eru vísbendingar um að nokkrir aðilar hafi haft hugmyndir um að reisa hið nýja hótel á lóðinni að Miðvangi 5-7. Þær vísbendingar eru hins vegar ekki grundvallaðar á neinni ákvarðanatöku til þess bærra aðila, heldur einungis hugmyndum nokkurra af þeim sem unnu að undirbúningi málsins. Verður því að líta svo á að hugmyndir um staðsetningu hótelsins á lóðinni að Miðvangi 5-7 hafi verið til upplýsingar sem einn möguleiki um staðsetningu þess, en ekki t.d. forsenda fyrir stofnun hlutafélagsins. Bæjarstjórn setti í samþykkt sinni heldur engin skilyrði í þá átt að það væri forsenda fyrir þátttöku bæjarins í hlutafélaginu að byggð yrði á lóðinni að Miðvangi 5-7.

Þegar af þessum ástæðum verður ekki talið að tengsl einstakra bæjarstjórnarmanna við Miðvang ehf., sem er eigandi að lóðinni að Miðvangi 5-7, geti verið til þess fallin að valda vanhæfi þeirra þegar tekin var ákvörðun í bæjarstjórn um þátttöku í umræddu hlutafélagi um byggingu nýs hótels. Þannig verður ekki talið að málið sem lagt var fyrir bæjarstjórn þann 12. febrúar 1996 hafi varðað einn eða fleiri sveitarstjórnarmenn eða nána venslamenn þeirra svo sérstaklega að almennt hafi mátt ætla að viljaafstaða þeirra hafi mótast að einhverju leyti þar af. Það er því niðurstaða félagsmálaráðuneytisins að ákvæði 45. gr. sveitarstjórnarlaga hafi ekki verið brotin við meðferð málsins í bæjarstjórn og bæjarráði.

Um meðferð málsins sem trúnaðarmáls í bæjarstjórn:

Í 2.-4. mgr. 20. gr. samþykktar um stjórn Egilsstaðabæjar og fundarsköp bæjarstjórnar nr. 214/1987 er svohljóðandi ákvæði:

“Bæjarstjórnarfund skal að jafnaði halda í heyranda hljóði og almenningi heimilaður aðgangur að þeim, eftir því sem húsrúm leyfir.

Bæjarstjórn getur ákveðið, að einstök mál verði rædd fyrir luktum dyrum s.s. viðkvæm einkamál manna eða viðskiptamál, sem æskilegt er vegna hagsmuna bæjarins, að rædd verði fyrir luktum dyrum. Jafnframt getur bæjarstjórn ákveðið, að bæjarstjórnarfundur, þar sem eingöngu er fjallað um slíkt mál, verði haldinn fyrir luktum dyrum. Tillaga um að mál skuli rædd fyrir luktum dyrum skal afgreidd umræðulaust í bæjarstjórn.

Óheimilt er að skýra frá því, sem fram kemur við umræður á lokuðum fundi í bæjarstjórn.”

Ákvæði þetta er í samræmi við 3. mgr. 48. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 8/1986.

Samkvæmt ákvæðum þessum er það alfarið komið undir mati bæjarstjórnar hverju sinni hvort ástæða er til að fjalla um einstök mál sem trúnaðarmál og þá fyrir luktum dyrum, en hafa skal til viðmiðunar þau atriði sem tilgreind eru í 3. mgr. 20. gr. samþykktarinnar. Ráðuneytið telur að umfjöllun um undirbúning að stofnun hlutafélags og fjármálaleg atriði tengd því geti fallið undir ákvæði 3. mgr. 20. gr. samþykktarinnar. Ráðuneytið gerir því ekki athugasemdir við þá ákvörðun bæjarstjórnar að fjalla um undirbúning málsins fyrir luktum dyrum. Rétt er að geta þess að endanleg ákvörðun í málinu var tekin á opnum fundi bæjarstjórnar.

Uppkvaðning úrskurðar þessa hefur dregist vegna mikilla anna í ráðuneytinu.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Hafnað er kröfu um að félagsmálaráðuneytið ógildi ákvörðun bæjarstjórnar Egilsstaðabæjar frá 12. febrúar 1996 um að sveitarfélagið gerðist aðili að hlutafélagi um byggingu nýs hótels á Egilsstöðum.

F. h. r.

Húnbogi Þorsteinsson (sign.)

Sesselja Árnadóttir (sign.)

Ljósrit: Bæjarstjórn Egilsstaðabæjar.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum