Hoppa yfir valmynd
8. júlí 1996 Innviðaráðuneytið

Grindavíkurkaupstaður - Afgreiðsla forseta bæjarstjórnar á tillögum bæjarstjórnarmanna

Kristmundur Ásmundsson                                                                       8. júlí 1996                                              96030116

Leynisbrún 7                                                                                                                                                                        1001

240 Grindavík

 

 

 

 

           Vísað er til erindis yðar til félagsmálaráðuneytisins, dagsett 22. mars 1996, þar sem óskað er eftir að ráðuneytið skoði lögmæti afgreiðslu forseta bæjarstjórnar Grindavíkurkaupstaðar á fundi bæjarstjórnar þann 13. mars 1996 á tillögu Huldu Jóhannsdóttur og Sigurðar Gunnarssonar varðandi S.H.S. og H.S.S.

 

           Erindið var sent til umsagnar forseta bæjarstjórnar Grindavíkurkaupstaðar með bréfi, dagsettu 28. mars 1996. Umsögn barst ráðuneytinu þann 26. apríl 1996 með bréfi, dagsettu 23. sama mánaðar.

 

           Fyrrgreind tillaga bæjarfulltrúanna var svohljóðandi: “Bæjarstjórn Grindavíkur skorar á heilbrigðisyfirvöld að sjá S.H.S. og H.S.S. fyrir nægjanlegu rekstrarfé hverju sinni þannig að hægt verði að halda úti lögboðinni þjónustu heilsugæslu og ásættanlegu þjónustustigi sjúkrahússins við íbúa svæðisins.” Úrskurður forseta vegna tillögunnar hljóðar svo: “Þar sem tillaga Huldu Jóhannsdóttur og Sigurðar Gunnarssonar er ekki rökum studd er ekki hægt að fylgja henni eftir og henni vísað frá.”

 

           Samkvæmt erindi yðar teljið þér að forseti bæjarstjórnar hafi “sniðgengið eðlileg fundarsköp og brotið gróflega á rétti bæjarfulltrúa til að sinna þeim störfum sem þeir eru kjörnir til, með eðlilegum og lýðræðislegum hætti.”

 

           Í umsögn forseta bæjarstjórnar er ítrekað að hann hafi ekki talið vera fyrir hendi rökstuðning af hálfu flutningsmanna tillögunnar fyrir því að bæjarstjórn gerði slíka samþykkt. Því hafi hann talið rétt að vísa tillögunni frá. Engin mótmæli hafi komið fram á fundinum gegn þessari ákvörðun hans. Vitnar hann m.a. til 2. mgr. 32. gr. samþykktar um stjórn Grindavíkurkaupstaðar og fundarsköp bæjarstjórnar.

 

           Um fundarsköp bæjarstjórnar Grindavíkurkaupstaðar er fjallað í III. kafla samþykktar um stjórn Grindavíkurkaupstaðar og fundarsköp bæjarstjórnar nr. 264/1990.

 

           Í 21. er fjallað um hlutverk forseta bæjarstjórnar og segir þar m.a. svo:

           “Forseti bæjarstjórnar stýrir fundum hennar. Hann setur fund, kannar lögmæti hans og stjórnar umræðum og afgreiðslu mála, sér um að fundargerðir séu færðar og slítur fundi, þegar dagskrá hans er tæmd. Forseti úrskurðar um skilning á fundarsköpum, en skjóta má úrskurði hans til úrlausnar bæjarstjórnar. Forseti sér um, að allt fari skipulega og löglega fram á bæjarstjórnarfundum og er bæjarfulltrúum skylt að lúta valdi hans að því er varðar fundarsköp og góða reglu.”

 

           Síðan segir svo um tillöguflutning í bæjarstjórn í 30. gr.:

           “Bæjarfulltrúi getur borið fram breytingartillögu, viðaukatillögu, frávísunartillögu eða frestunartillögu við hvert það mál, sem til umræðu er á fundi. Slíkar tillögur skulu vera skriflegar, ef forseti óskar. Forseti ákveður, í hvaða röð og með hvaða hætti slíkar tillögur eru teknar til afgreiðslu.”

 

           Ennfremur eru ákvæði um afgreiðslu mála í bæjarstjórn í 32. gr. og segir þar svo í 1. og 2. mgr.:

           “Atkvæðagreiðsla á bæjarstjórnarfundi fer að jafnaði fram með handauppréttingu. Forseti biður þá bæjarfulltrúa sem samþykkja mál, að rétta upp hönd sína. Að því búnu leitar forseti mótatkvæða með sama hætti. Loks skýrir forseti frá úrslitum atkvæðagreiðslunnar.

           Ef mál er svo vaxið, að forseti telur ástæðulaust að atkvæðagreiðsla fari fram um það, skýrir hann frá því, að hann telji mál samþykkt eða fellt án atkvæðagreiðslu nema athugasemd verði við það gerð.”

 

           Samkvæmt framangreindum ákvæðum er ljóst að forseti bæjarstjórnar stýrir fundi og ákveður m.a. með hvaða hætti tillögur eru teknar til afgreiðslu í bæjarstjórn. Ennfremur er ljóst að bæjarfulltrúar hafa víðtækan rétt til að bera fram tillögur í bæjarstjórn.

 

           Á umræddum fundi bæjarstjórnar Grindavíkurkaupstaðar taldi forseti bæjarstjórnar rétt að vísa tillögunni frá, þar sem hún hafi að hans mati ekki verið nægjanlega rökstudd. Samkvæmt gögnum málsins (umsögn forseta bæjarstjórnar og fundargerð fundarins) komu engin mótmæli fram við þessum úrskurði (tillögu) forseta bæjarstjórnar og leit hann því svo á að þessi afgreiðsla málsins væri samþykkt.

 

           Ráðuneytið telur ekki ástæðu til að gera athugasemdir við þessa afstöðu forseta bæjarstjórnar, m.a. með vísan til 2. mgr. 32. gr. samþykktarinnar og að engin athugasemd kom fram frá bæjarfulltrúum um þessa afgreiðslu.

 

           Hins vegar vill ráðuneytið sérstaklega vekja athygli á eftirfarandi ákvæði í 21. gr. samþykktarinnar: “Forseti úrskurðar um skilning á fundarsköpum, en skjóta má úrskurði hans til úrlausnar bæjarstjórnar.” (Undirstrikun ráðuneytisins.) Bæjarfulltrúum er því heimilt að leita sérstakrar úrlausnar bæjarstjórnar á ákvörðunum forseta bæjarstjórnar varðandi fundarsköp.

 

 

           Dregist hefur að svara erindi yðar vegna mikilla anna í ráðuneytinu.

 

F. h. r.

 

Húnbogi Þorsteinsson (sign.)

Sesselja Árnadóttir (sign.)

 

 

 

 

 

Afrit:  Hallgrímur Bogason, forseti bæjarstjórnar Grindavíkurkaupstaðar.

 

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum