Hoppa yfir valmynd

13 Sjávarútvegur og fiskeldi

Matvælaráðuneytið

Skilgreining málefnasviðs

Starfsemi á þessu málefnasviði er á ábyrgð matvælaráðherra. Það skiptist í tvo málaflokka sem sjá má í eftirfarandi töflu. Þar má jafnframt sjá fjárhagslega þróun málefnasviðsins og einstakra málaflokka á tímabilinu 2022–2024. Helstu áherslum, framtíðarsýn og meginmarkmiðum á málefnasviðinu er lýst í fjármálaáætlun.

Fjárhagsleg þróun málefnasviðsins og einstakra málaflokka á tímabilinu 2022–2024

Útgjaldarammi - heildaryfirlit og breytingar eftir tilefnum

Myndin hér á eftir sýnir sundurliðaðar breytingar á útgjaldaramma málefnasviðsins eftir helstu tilefnum, sem nánar er greint frá í inngangskafla málefnasviða.

Breytingar á ramma milli áranna 2023 og 2024Heildargjöld málefnasviðs 13 Sjávarútvegur og fiskeldi árið 2024 eru áætluð 7.727,5 m.kr. og aukast um 420,7 m.kr. á föstu verðlagi fjárlaga 2023, eða sem svarar til 6,1%. Þegar tekið er tillit til áhrifa af almennum launa- og verðlagsbreytingum hækka útgjöldin um 861,4 m.kr. milli ára, eða sem svarar til 12,5%.

Myndin endurspeglar þá útfærslu og forgangsröðun sem unnin er út frá stefnumótun málefnasviðsins. Sú niðurstaða getur eftir atvikum vikið frá þeim viðmiðum sem sett voru í fjármálaáætlun, t.a.m. þannig að nýju útgjaldasvigrúmi hafi að einhverju leyti verið jafnað á móti aðhaldsmarkmiði. Aðhaldsmarkmiðið felur m.a. í sér sértækar afkomubætandi aðhaldsráðstafanir á málefnasviðum og er nánar fjallað um þær í kafla 5 Gjöld ríkissjóðs.

Útgjaldarammi - hagræn skipting útgjalda

Í eftirfarandi töflu eru útgjöld málefnasviðsins, þróun fjárheimilda og fjármögnun frá árinu 2022 greind í fjóra þætti eftir hagrænni skiptingu, eins og nánar er greint frá í inngangskafla málefnasviða. Hagræn skipting útgjalda niður á málaflokka birtist í fylgiriti með fjárlögum.

Útgjöld málefnasviðsins, þróun fjárheimilda og fjármögnun frá árinu 2022 greind í fjóra þætti eftir hagrænni skiptingu

13.10 Stjórnun sjávarútvegs og fiskeldis

Starfsemi málaflokksins er í höndum Fiskistofu og Verðlagsstofu skiptaverðs og auk þess heyra Fiskræktarsjóður, Umhverfissjóður sjókvíaeldis, Fiskeldissjóður og Alþjóðlegt samstarf í sjávarútvegi undir málaflokkinn. Þá má nefna að Matvælastofnun, sem heyrir undir málefnasvið 12, sinnir ýmsum verkefnum á sviði fiskeldis. Nánar er fjallað um málaflokkinn í fjármálaáætlun, þar á meðal ábyrgðarskiptingu, helstu áskoranir og tækifæri, markmið og mælikvarða um árangur o.fl.

Í eftirfarandi töflu má sjá helstu verkefni málaflokksins árið 2024 og tengingu þeirra við markmið ásamt helstu breytingum sem verða á fjárveitingum á milli ára. Eingöngu eru sýndar breytingar sem verða á fjárveitingum til verkefna frá fjárlögum ársins 2023. Þannig endurspegla fjárhæðir ekki heildarfjárveitingar til verkefna nema í tilvikum þar sem breyting á milli ára felur í sér heildarfjármögnun verkefnisins.

 

Helstu verkefni 2024

Framkvæmdaraðili

Breyting á fjárveitingu til verkefnis

Markmið 1: Skapa sjávarútvegi skilyrði til aukinnar verðmætasköpunar með sjálfbæra nýtingu og vistkerfisnálgun að leiðarljósi

Efling hafrannsókna.

Hafrannsóknastofnun

180 m.kr.

Efling fiskveiðieftirlits.

Fiskistofa

45 m.kr.

Birting niðurstaðna úr „Auðlindin okkar“ og frumvarp í samráðsgátt.

Matvælaráðuneyti

Innan ramma

Útfærsla á verndun viðkvæmra vistkerfa á hafi.

Matvælaráðuneyti

Innan ramma

Bygging á nýju skipi Hafrannsóknastofnunar.

Matvælaráðuneyti og Hafrannsóknastofnun

Innan ramma

Átak í hvalatalningu til að meta stöðu stofnsins og samspil hans við vistkerfið.

Hafrannsóknastofnun

200 m.kr.

Markmið 2: Draga úr losun gróðurhúsalofttegunda við fiskveiðar

Áframhaldandi áhersla á minnkun kolefnisspors við fiskveiðar.

Matvælaráðuneyti

Innan ramma

Markmið 3: Skapa fiskeldi skilyrði til aukinnar verðmætasköpunar með sjálfbæra nýtingu og vistkerfisnálgun að leiðarljósi

Innleiðing aðgerða úr heildarstefnumótun fiskeldis.*

Matvælaráðuneyti

18 m.kr.

Efling vaktana og rannsókna í samræmi við fjármálaáætlun 2024–2028.

Hafrannsóknarstofnun

126 m.kr.

Efling stjórnsýslu og eftirlits í samræmi við fjármálaáætlun 2024–2028.**

Matvælastofnun

126 m.kr.

Fjárframlög til Fiskeldissjóðs hækka.

Matvælaráðuneytið

193 m.kr.

     

* Fjárveiting til verkefnisins kemur fram í málaflokki 12.6 sem aðalskrifstofa matvælaráðuneytisins heyrir undir og er að öðru leyti vísað í umfjöllun þar.

** Fjárveiting til verkefnisins kemur fram í málaflokki 12.1 sem Matvælastofnun heyrir undir og er að öðru leyti vísað í umfjöllun þar.

Heildarfjárheimild til málaflokksins fyrir árið 2024 er áætluð 1.960,3 m.kr. og hækkar um 127,9 m.kr. frá gildandi fjárlögum að frátöldum almennum launa- og verðlagsbreytingum en þær nema 85,4 m.kr.

Rekstrartilfærslur hækka um samtals 186,5 m.kr. að frátöldum launa- og verðlags­breytingum en þar munar mest um 193,1 m.kr. hækkun á framlagi til Fiskeldissjóðs. Að frátöldum aðhaldsráðstöfunum er að öðru leyti ekki um miklar breytingar á hagrænni skiptingu innan málaflokksins að ræða.

Helstu breytingar á fjárheimildum málaflokksins eru eftirtaldar:

  1. Fjárheimild málaflokksins hækkar um 193,1 m.kr. til Fiskeldissjóðs samhliða fyrirhugaðri hækkun verðmætagjalds vegna sjókvíaeldis úr 3,5% í 5%. Miðað er við að 1/3 af gjaldinu fari til Fiskeldissjóðs, sbr. greinargerð með lögum nr. 89/2019 um töku gjalds vegna fiskeldis í sjó og fiskeldissjóð. Markmiðið með hækkun framlagsins er að stuðla að enn frekari uppbyggingu innviða, þar sem fiskeldi í sjókvíum er stundað, og styrkja þar með samfélög og stoðir atvinnulífs á þeim svæðum. Verkefnið er í samræmi við markmið 3 í málaflokki 13.1.
  2. Gert er ráð fyrir að fjárheimild málaflokksins hækki um 45 m.kr. til fjölgunar stöðu­gilda eftirlitsmanna Fiskistofu. Markmiðið er að skapa sjávarútvegi skilyrði til auk­innar verðmætasköpunar með sjálfbæra nýtingu og vistkerfisnálgun að leiðarljósi. Ljóst er að styrkja þarf veiðieftirlitið sem komið er að þolmörkum en gert er ráð fyrir að framlagið hækki á komandi árum og verði nærri 100 m.kr. frá og með árinu 2026. Tillagan er hluti af aðgerðum stjórnvalda til að bregðast við áskorunum í sjávarútvegi og fiskeldi með því að efla stjórnsýslulega umgjörð þessara málaflokka og stuðla þannig að aukinni verðmætasköpun fyrir íslenskt þjóðarbú til framtíðar. Verkefnið er í samræmi við markmið 1 í málaflokki 13.1.
  3. Hlutdeild málaflokksins í aðhaldskröfu málefnasviðsins nemur 81,8 m.kr.

13.20 Rannsóknir, þróun og nýsköpun í sjávarútvegi

Undir málaflokkinn falla verkefni Hafrannsóknastofnunar, bygging hafrannsóknaskips, Verkefnasjóður sjávarútvegsins og framlög til ýmissa samninga og verkefna í sjávarútvegi og fiskeldi, s.s. vegna rannsókna, þróunar og nýsköpunar. Nánar er fjallað um málaflokkinn í fjármálaáætlun, þar á meðal ábyrgðarskiptingu, helstu áskoranir og tækifæri, markmið og mælikvarða um árangur o.fl.

Heildarfjárheimild til málaflokksins fyrir árið 2024 er áætluð 5.767,2 m.kr. og hækkar um 292,8 m.kr. frá gildandi fjárlögum að frátöldum almennum launa- og verðlagsbreytingum en þær nema 355,3 m.kr.

Rekstrarframlög hækka um samtals 301,1 m.kr. að frátöldum launa- og verðlags­breytingum en þar munar mest um 200 m.kr. framlag til hvalatalninga, 180 m.kr. til eflingar hafrannsókna og 126 m.kr. til eflingar stjórnsýslu fiskeldis. Að frátöldum aðhaldsráðstöfunum er að öðru leyti ekki um miklar breytingar á hagrænni skiptingu innan málaflokksins að ræða.

Helstu breytingar á fjárheimildum málaflokksins eru eftirtaldar:

  1. Gert er ráð fyrir 200 m.kr. tímabundinni hækkun fjárheimildar málaflokksins vegna hvalatalninga á árinu 2024. Upphaflega var gert ráð fyrir að talningarnar færu fram 2023 en ákveðið var að fresta þeim um eitt ár með samsvarandi frestun fjárheimildar til verkefnisins. Verkefnið er í samræmi við markmið 1 í málaflokki 13.1.
  2. Fjárheimild málaflokksins hækkar um 180 m.kr. til eflingar hafrannsókna hjá Hafrannsóknastofnun með það að markmiði að skapa sjávarútvegi skilyrði til aukinnar verðmætasköpunar með sjálfbæra nýtingu og vistkerfisnálgun að leiðarljósi. Gert er ráð fyrir að framlagið fari hækkandi á komandi árum og verði komið í kringum 630 m.kr. frá og með árinu 2026. Tillagan er hluti af aðgerðum stjórnvalda til að bregðast við áskorunum í sjávarútvegi og fiskeldi með því að efla stjórnsýslulega umgjörð þessara mikilvægu málaflokka og stuðla þannig að aukinni verðmætasköpun fyrir íslenskt þjóðarbú til framtíðar. Gert er ráð fyrir að framlag þetta til stofnunarinnar verði á tímabilinu í fyrsta lagi notað til að styrkja rekstrargrunn stofnunarinnar. Í öðru lagi verði ráðist í heildræna skoðun á vistkerfum hafs og vatna og verndun þeirra. Í þriðja lagi verði farið í kerfisbundna kortlagningu búsvæða. Í fjórða lagi verði framlag til verkefnis um líffræðilega fjölbreytni innan lykiltegunda tryggt. Í fimmta lagi verði farið í verkefni er snýr að áhrifum loftslagsbreytinga og súrnunar sjávar. Í sjötta lagi er gert ráð fyrir að bæta líkanagerð stofnunarinnar við stofnmat. Í sjöunda lagi verði farið í átak í greiningu á heildstæðum áhrifum manna á vistkerfið, tengsl við alþjóða­samninga um líffræðilega fjölbreytni aukin og áhersla aukin á stjórnsýsluverkefni stofnunarinnar, s.s. við gerð umsagna. Í áttunda lagi er gert ráð fyrir að fjármunirnir verði nýttir til að fjölga úthaldsdögum hafrannsóknaskipa og tryggja betur rekstur skipanna. Verkefnið er í samræmi við markmið 1 í málaflokki 13.1.
  3. Fjárheimild málaflokksins hækkar um 126 m.kr. til að styrkja verkefni Hafrannsókna­stofnunar á sviði burðarþolsmats fjarðakerfa, þ.m.t. eldissvæðaskiptingu, mat á umhverfisáhrifum sjókvíaeldis, áhættumat erfðablöndunar og rannsóknir á dreifingu laxa- og fiskilúsar. Gert er ráð fyrir að framlagið fari hækkandi á komandi árum og verði komið í kringum 226 m.kr. frá og með árinu 2026. Tillagan er hluti af aðgerðum stjórnvalda til að bregðast við áskorunum í sjávarútvegi og fiskeldi með því að efla stjórnsýslulega umgjörð þessara málaflokka og stuðla þannig að aukinni verðmætasköpun fyrir íslenskt þjóðarbú til framtíðar. Verkefnið er í samræmi við markmið 3 í málaflokki 13.1.
  4. Gert er ráð fyrir að fjárheimild málaflokksins lækki um 100 m.kr. þar sem tímabundið framlag fellur niður sem veitt var Hafrannsóknastofnun til að koma til móts við þarfir fyrir grunnrannsóknir á lífríki sjávar og til að bæta vöktun á nytjastofnum.
  5. Hlutdeild málaflokksins í aðhaldskröfu málefnasviðsins nemur 223,2 m.kr.
Til baka
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum