Hoppa yfir valmynd

Útgjöld vegna málefna útlendinga, umsækjenda um alþjóðlega vernd og flóttafólks - Rammagrein 7

Framan af tímabilinu 2017–2023 voru útgjöld málaflokka sem fara með málefni útlendinga, umsækjenda um alþjóðlega vernd og flóttafólks nokkuð stöðug, eða á bilinu 6–8 ma.kr. á föstu verðlagi. Árið 2022 varð veruleg breyting þegar útgjöldin nærri tvöfölduðust að raunvirði á milli ára. Skýrist það einkum af stórauknum fjölda umsækjenda um alþjóðlega vernd sem komu frá Úkraínu og Venesúela. Fjallað var um efnahagsleg áhrif fjölgunar flóttafólks á bls. 38–40 í fjármálaáætlun 2024–2028.

Árið 2023 héldu útgjöld áfram að aukast, eða um 52% milli ára. Þegar litið er aftur til ársins 2017 höfðu útgjöld til málaflokka 10.50 Útlendingamál og 29.70 Málefni innflytjenda og flótta­manna ríflega þrefaldast að raunvirði. Á sama tímabili nærri fjórfaldaðist fjöldi umsækjenda um alþjóðlega vernd. Þá nærri nífaldaðist fjöldi þeirra sem hlutu vernd og fengu stöðu flóttafólks, sem skýrist einkum af því að umsækjendur frá Úkraínu og Venesúela fengu að stærstum hluta veitta vernd án tafar árin 2022 og 2023. Samanburð má sjá nánar á myndinni hér fyrir neðan:

Raunútgjöld til málefna útlendinga ríflega þrefölduðust og fjöldi umsækjenda um alþjóðlega vernd tæplega fjórfaldaðist frá 2017 til 2023

Merki eru um að farið sé að hægjast á þessari miklu aukningu flóttafólks á þessu ári því að á fyrsta ársfjórðungi höfðu 597 einstaklingar sótt um alþjóðlega vernd hér á landi sem er ríflega helmingsfækkun frá sama tímabili síðasta árs. Ein helsta ástæðan fyrir því er fækkun umsókna frá Venesúelabúum því að á fyrstu þremur mánuðum þessa árs höfðu einungis 90 Venesúelabúar sótt um vernd, samanborið við 636 einstaklinga fyrstu þrjá mánuðina árið áður. Líklegt er að það megi rekja til þess að á sl. ári var fallið frá þeirri ákvörðun að veita fólki frá Venesúela skilyrðislausa viðbótarvernd á grundvelli alvarlegs ástands í landinu. Talið er að umsækjendur um alþjóðlega vernd á yfirstandandi ári verði eftir sem áður mun fleiri en á árum áður og verði á bilinu 2.500–3.500. Hins vegar er gert ráð fyrir að þeim muni fækka smám saman í 1.000 umsækjendur í lok áætlunartímabilsins. 

Stærstan hluta beinna útgjalda vegna málefna útlendinga á undanförnum árum má rekja annars vegar til þjónustu við umsækjendur um alþjóðlega vernd, sem felst í húsnæði, fæði og annarri framfærslu, og hins vegar til endurgreiðslna ríkissjóðs til sveitarfélaga vegna félags­þjónustu og veittrar aðstoðar við erlenda ríkisborgara sem átt hafa lögheimili í landinu skemur en tvö ár. Á árinu 2023 námu þessi útgjöld þremur fjórðu hlutum af heildarútgjöldum til mála­flokka sem fara með málefni útlendinga. Þá eru ótalin óbein útgjöld sem falla undir önnur mál­efnasvið, s.s. í heilbrigðis- og menntakerfinu, sem ætla má að séu umtalsverð þótt umfang þeirra liggi ekki fyrir að svo stöddu.

Umfang útgjalda vegna þjónustu við umsækjendur um alþjóðlega vernd um húsnæði og fæði veltur einkum á fjölda þeirra sem hingað leita að vernd auk afgreiðslutíma umsókna hjá Útlend­ingastofnun og eftir atvikum hjá kærunefnd útlendingamála. Eins og sakir standa tekur máls­meðferð um 180 daga á hvoru stjórnsýslustigi.

Fjárveitingar til málefna útlendinga fara lækkandi á tímabili fjármálaáætlunar

Nýverið sammæltist ríkisstjórnin um víðtækar aðgerðir í málefnum umsækjenda um alþjóð­lega vernd, flóttafólks og innflytjenda. Markmið aðgerðanna er að stuðla að betri, skilvirkari og skýrari framkvæmd innan málaflokksins og bættri þjónustu í því skyni að renna styrkari stoðum undir stjórn útlendingamála. Ein af aðgerðunum miðar að því að stytta afgreiðslutíma umsókna um alþjóðlega vernd um helming, eða í 90 daga að meðaltali á hvoru stjórnsýslustigi. Nái að­gerðin tilætluðum árangri má gera ráð fyrir að frá árinu 2025 fari kostnaður vegna þjónustu við umsækjendur um alþjóðlega vernd lækkandi. Jafnframt miðar breytt fyrirkomulag að því að færri sæki um alþjóðlega vernd sem ekki uppfylla skilyrði til þess. Þá verður ráðist í tímabundið átak til að flýta afgreiðslu umsækjenda frá Venesúela sem beðið hafa niðurstöðu hjá Útlendinga­stofnun. Náist þessi markmið má gera ráð fyrir að aðgerðirnar leiði til enn frekari lækkunar útgjalda vegna þjónustu við umsækjendur um alþjóðlega vernd og er gert ráð fyrir því í fjármála­áætluninni.

Ríkisstjórnin ákvað einnig að ráðast í aðgerðir sem miða að því að jafna tækifæri í íslensku samfélagi, stuðla að betri nýtingu mannauðs, samræma löggjöf og framkvæmd með það að markmiði að leggja áherslu á að verndarkerfið þjóni betur þeim sem búa við mesta neyð, sem m.a. verður gert með því að setja móttöku kvótaflóttafólks í forgang.

Er því einnig gert ráð fyrir hækkun framlaga í þessari fjármálaáætlun miðað við gildandi fjármálaáætlun fyrir árin 2024–2028 til að styðja ofangreindar aðgerðir og mæta áskorunum í málefnum útlendinga, s.s. styttingu málsmeðferðartíma og inngildingu. Annars vegar er gert ráð fyrir fjármunum í almennum varasjóði til mál­efnisins sem nemur 1,6 ma.kr. árið 2025 og 0,6 ma.kr. árið 2026. Gert er ráð fyrir að fjármunum verði dreift á viðeigandi málaflokka í frumvarpi til fjárlaga 2025. Hins vegar er veitt 1 ma.kr. tímabundið framlag til að mæta útgjöldum vegna þjónustu við umsækjendur um alþjóðlega vernd um húsnæði og fæði, en framlagið kemur á móti 5 ma.kr. framlagi sem veitt var í fjárlögum 2024 tímabundið í tvö ár.

Til baka
Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum