Hoppa yfir valmynd

1 Áherslur og stefnumið

Markvisst aðhald stuðlar að lækkun verðbólgu

Mikilvægasta verkefni ríkisstjórnarinnar er að skapa aðstæður til að verðbólga lækki enn frekar. Þá skapast forsendur fyrir lækkun vaxta í kjölfarið. Við sjáum skýrt að sú stefna sem ríkisstjórnin hefur markað síðustu misserin er að skila árangri sem birtist okkur í lækkun verðbólgu. Aðhald ríkisfjármálanna með afkomubata frá ári til árs styður við peningastefnuna. Þessari skýru stefnu er fylgt eftir í fjármálaáætlun þar sem aðgerðum til að stuðla að stöðugleika á vinnumarkaði er forgangsraðað samhliða áframhaldandi afkomubata. Þessi áætlun felur í sér efnahagslegt aðhald. Ríkissjóður er sameiginlegur sjóður allra landsmanna og mikilvægt er að almenningur treysti því að fjárfestingar ríkissjóðs í innviðum og fólki, heilsu þess og velferð, sé skynsamleg.

Síðustu ár höfum við búið við töluverðan óstöðugleika sem hefur skapast fyrst vegna heimsfaraldurs og síðar vegna innrásar Rússa í Úkraínu og vaxandi ólgu á alþjóðavettvangi. Sterk staða ríkissjóðs við upphaf heimsfaraldurs gerði það kleift að hægt var að verja hag heimila og fyrirtækja um leið og hlúð var að heilsu landsmanna. Árangurinn af þeim markvissu skrefum sem ríkisstjórnin hefur tekið með auknu aðhaldi er að skila sér eins og við sjáum í vaxandi frumjöfnuði og jákvæðri afkomu ríkissjóðs í lok tímabils fjármálaáætlunar. Mikilvægt er að við missum ekki sjónar á því markmiði að reka ríkissjóð með afgangi. Við þær aðstæður lækka opinberar skuldir á ný. Einungis þannig getum við í framtíðinni tekist á við stór áföll eins og við höfum gert síðustu ár, hvort sem áföllin hafa verið í formi faraldurs eða náttúruhamfara. Ábyrg stjórn ríkisfjármála er mikilvæg fyrir velferð borgaranna.

Mikil verðmæti felast í langtímakjarasamningum 

Gríðarlega mikilvæg skref voru stigin þegar kjarasamningar á almennum markaði voru undirritaðir í mars. Aðilar almenna vinnumarkaðarins sýndu með þessum samningum mikla ábyrgð og framsýni. Aðkoma stjórnvalda, bæði ríkis og sveitarfélaga, skipti sköpum í þeirri samningagerð. Opinberi markaðurinn situr nú við samningaborðið og er nauðsynlegt að þar verði sýnd sama ábyrgð og á almenna markaðinum. Aðkoma stjórnvalda liggur ljós fyrir og verður ekki breytt. Mikil verðmæti felast í því að náðst hafi langtímakjarasamningar sem draga úr óvissu og skapa fyrirsjáanleika sem er til þess fallinn að skapa skilyrði fyrir aukna verðmætasköpun.

Markverð lækkun verðbólgu undanfarið ár, en hún hefur þegar lækkað um meira en 3 prósentustig, og áframhaldandi kaupmáttarvöxtur láglaunahópa samhliða minni þenslu í þjóðarbúinu er staðfesting þess að stefna stjórnvalda í efnahagsmálum er að bera tilætlaðan árangur. Áfram þarf að ríkja festa, aðhald og hagræðing hjá hinu opinbera. Þannig verður dregið markvisst úr hallarekstri hins opinbera samhliða því sem staðinn er vörður um kjör þeirra samfélagshópa sem eru viðkvæmastir fyrir neikvæðum afleiðingum verðbólgu. Niðurstaða kjarasamninga á almennum vinnumarkaði er í takti við peningastefnu Seðlabankans og aðhaldssama fjármálastefnu ríkisins við áframhaldandi lækkun verðbólgu. 

Aðhald í rekstri ríkisins stuðlar að lægri verðbólgu

Hlutverk stjórnvalda er nú að stuðla að því að verðbólga lækki áfram svo þær launahækkanir sem samið var um í kjarasamningunum skili auknum kaupmætti til almennings. Vöxtur kaupmáttar hefur undanfarinn áratug verið langt umfram öll önnur ríki Vestur-Evrópu miðað við samanburðarhæf gögn evrópsku hagstofunnar og sú stefnumörkun sem hér birtist leggur grunn að áframhaldandi kaupmáttarvexti. Þrennt skiptir þar mestu máli.

Í fyrsta lagi þarf áfram að gæta aðhalds í opinberum fjármálum. Það er gert með þeirri fjármálaáætlun sem hér lítur dagsins ljós. Halli ríkissjóðs helmingast þannig á næsta ári, úr 49 ma.kr. í 25 ma.kr., og snýst í afgang árið 2028. Þótt jarðhræringarnar í Grindavík og aðkoma ríkissjóðs að kjarasamningum hafi kallað á nokkuð umfangsmikil bein útgjöld úr ríkissjóði vegur aðhald í öðrum ríkisútgjöldum á móti. Farið er hægar í ný útgjöld eða þeim mætt með aðhaldi í öðrum rekstri með því að vinna að markvissum umbótum í ríkisrekstri. Líkt og kemur fram í umbótakafla fjármálaáætlunar verður settur aukinn kraftur í að auka skilvirkni hins opinbera og endurmeta stofnanaskipulagið við rekstur opinberrar þjónustu. Miklir möguleikar liggja þar við að nýta fjármagn betur og gera stofnanir burðugri til að veita þjónustu sem þörf er á. Nú þegar hefur náðst mikill árangur í að auka framleiðni hins opinbera í gegnum verkefni Stafræns Íslands og hafa sýslumannsembættin t.d. náð að auka hraða afgreiðslunnar markvert með aukinni stafvæðingu á sama tíma og hagrætt hefur verið í rekstrinum. Útgjöld ríkissjóðs og hins opinbera í heild munu því vaxa hóflega í ár og á tímabili fjármálaáætlunar. Með hægfara útgjaldavexti er stefnt að því að hlutfall heildarútgjalda hins opinbera af VLF, sem í ár mun nema um 44%, verði orðið tæplega 41% undir lok tímabilsins. Með þeim hætti auðvelda opinber fjármál það verkefni Seðlabankans að stuðla að stöðugu verðlagi. Þótt aðhaldið og aðlögun hagkerfisins að lægri verðbólgu reyni á heimili og fyrirtæki yrði há og viðvarandi verðbólga enn afdrifaríkari. Efnahagslegur ávinningur af þeirri stefnu sem fylgt hefur verið kemur nú sífellt betur í ljós og snertir allan almenning.

Í öðru lagi munu stjórnvöld ráðast í þær aðgerðir sem tilkynnt var um samhliða gerð kjarasamninga. Aðgerðirnar auka ráðstöfunartekjur heimila með sérstakri áherslu á húsnæðisuppbyggingu, húsnæðisstuðning og málefni barnafjölskyldna. Þökk sé hóflegum vexti annarra útgjalda eins og fram hefur komið og nokkrum áframhaldandi vexti í tekjum ríkissjóðs næst að fjármagna aðgerðir til stuðnings kjarasamningum – sem og tilfallandi útgjöld vegna Grindavíkur – án þess að halli ríkissjóðs aukist að neinu marki í ár.

Gripið verður til sértækra ráðstafana til að fjármagna þau útgjöld sem hér hafa verið reifuð þar sem meginstefið er forgangsröðun fjármuna og hagræðing. Verkefnum sem ekki eru hafin eða hægt er að hliðra í tíma verður frestað. Gert er ráð fyrir að þegar á næsta ári verði þessar ráðstafanir til þess að minnka útgjöld um tæplega 17 ma.kr. frá fyrri áætlun og þar af er varanleg árleg útgjaldalækkun um 10 ma.kr. Auk sértækra ráðstafana verður dregið úr umfangi almenna varasjóðsins. Stærð hans hefur enda verið rífleg með hliðsjón af lögum um opinber fjármál og með gerð langtímakjarasamninga dregur úr þeirri óvissu sem honum er ætlað að mæta. Lögin kveða á um að umfang hans nemi að lágmarki 1% af fjárheimildum og verður það 1,2% á næsta ári en um 2% af fjárheimildum undir lok tímabils. Á tímabili áætlunarinnar skilar þessi breyting á almenna varasjóðinum samtals 37 ma.kr. upp í þann kostnað sem ríkissjóður hefur tekið sér á herðar vegna stöðunnar í Grindavík og til að liðka fyrir kjarasamningum. Jafnframt verður horft meira til efnahagsreiknings ríkissjóðs varðandi tækifæri til að fjármagna fjárfestingar eða lækka skuldbindingar, þ.m.t. að losa um eignarhluti í félögum og öðrum eignum sem ekki nýtast við rekstur ríkisins og skiptir sala hluta ríkisins í Íslandsbanka þar mestu.

Í þriðja lagi leggja stjórnvöld á það ríka áherslu að kjarasamningar á opinberum vinnumarkaði samrýmist þeirri ábyrgu heildarstefnu sem mörkuð hefur verið á almennum vinnumarkaði. Mikilvægt er að um verði að ræða langtímasamninga sem dragi úr óvissu og styðji við lækkun verðbólgu.

Aðgerðir vegna kjarasamninga eru í forgangi og styðja við lífskjör

Aðgerðir stjórnvalda til stuðnings gerð kjarasamninga eru í forgangi í þessari fjármálaáætlun. Aðgerðirnar eru fjölþættar en hafa það allar að markmiði að styðja við lífskjör launafólks. Umfang aðgerðanna nemur 13–23 ma.kr. á hverju ári á tímabili fjármálaáætlunar og alls 83 ma.kr. á tímabilinu.

Aukið framboð íbúðarhúsnæðis til að stuðla að auknu jafnvægi á húsnæðismarkaði og lægri byrði húsnæðiskostnaðar er lykilþáttur í aðgerðunum. Aðhald hagstjórnar, sem nauðsynlegt er til þess að lækka verðbólgu, hefur hægt á framgangi nýrra byggingaverkefna. Eftirspurn eftir íbúðarhúsnæði hefur aukist undanfarið sem endurspeglar mikla uppsafnaða og vaxandi þörf fyrir íbúðir. Einskiptis, en umfangsmikil áhrif af jarðhræringunum í Grindavík á húsnæðismarkað leggjast ofan á þær aðstæður. Brýnast af öllu til að auka uppbyggingu er að vextir geti byrjað að lækka sem fyrst og þar skiptir almennt aðhald í ríkisfjármálum miklu máli. Til að spyrna á móti líklegum eftirspurnarþrýstingi munu stjórnvöld stuðla að því enn frekar að auka framboð húsnæðis með beinum hætti. Það verður gert með bæði sértækum fjárhagslegum stuðningi og aðgerðum til að einfalda og hraða uppbyggingu.

Í þessari fjármálaáætlun er fjármögnun tryggð fyrir byggingu allt að 1.000 hagkvæmra íbúða á ári á gildistíma kjarasamninga í samræmi við yfirlýsingu stjórnvalda. Síðan almenna íbúðakerfið var stofnað árið 2016 hafa 2.600 hagkvæmar íbúðir fyrir lág- og millitekjuhópa verið teknar í notkun í kerfinu og alls 3.500 íbúðir fengið stofnframlög frá ríki og sveitarfélögum. Það jafngildir um það bil allri uppbyggingu húsnæðis hér á landi árið 2023.

Auk fjárhagslegs stuðnings verður stjórnsýsla húsnæðis- og skipulagsmála bætt og gerð einfaldari þannig að uppbygging húsnæðis verði hraðari. Töluverður árangur hefur náðst í því að bæta stjórnsýsluferla, enn eru tækifæri til staðar en þess má geta að unnið er að einföldun á byggingar- og skipulagsreglugerðum sem hefur jákvæð áhrif á uppbyggingu húsnæðis. Loks verður lífeyrissjóðum auðveldað að koma að uppbyggingu á íbúðarhúsnæði til útleigu með því að rýmka heimildir þeirra til fjárfestinga í leigufélögum.

Stuðningur við þau sem standa höllum fæti á húsnæðismarkaði og hafa orðið fyrir aukinni byrði húsnæðiskostnaðar er annar snar þáttur í aðgerðum stjórnvalda. Til að mæta auknum vaxtakostnaði heimilanna síðustu misseri verður á árinu 2024 greiddur út sérstakur vaxtastuðningur til heimila með íbúðalán. Grunnfjárhæðir húsnæðisbóta og eignaskerðingamörk í húsnæðisbótakerfinu hækka 1. júní 2024 auk þess sem aukið tillit verður tekið til fjölskyldustærðar og munu framlög til húsnæðisbóta aukast um 2,5 ma.kr. á ársgrundvelli vegna þessa.

Stuðningur við barnafjölskyldur verður stórefldur. Áfram verður dregið úr tekjuskerðingum barnabóta þannig að mun fleiri foreldrar munu njóta stuðnings. Barnabætur hækka því ríflega og unnið verður að því í samstarfi ríkis og sveitarfélaga að skólamáltíðir grunnskólabarna verði gjaldfrjálsar frá og með hausti 2024. Þá verða hámarksgreiðslur úr Fæðingarorlofssjóði hækkaðar í þremur áföngum á næstu tveimur árum. Þegar breytingar á framlagi til Fæðingarorlofssjóðs verða að fullu komnar til framkvæmda árið 2027 nemur uppsöfnuð hækkun um 5,7 ma.kr. á ársgrundvelli. 

Barnabætur og sérstakar vaxtabætur - einstætt foreldri með 3ja ára barn og einstætt foreldri með 5 og 10 ára börn

Forgangsröðun í hagræðingu

Í þessari fjármálaáætlun er forgangsraðað, hagrætt og verða fjármunir nýttir betur. Sem fyrr eru það útgjöld til heilbrigðismála og félags- og tryggingamála sem vega þyngst á tímabili þessarar fjármálaáætlunar en um helmingi heildarútgjalda ríkissjóðs er varið til þeirra málaflokka. Ekki er almenn aðhaldskrafa á heilbrigðis- og velferðarmál og verður áfram forgangsraðað til þeirra málaflokka en útgjöld verða þar aukin um 80 ma.kr. milli 2024 og 2029 sem svarar til tæplega 12% aukningar að raunvirði. 

Stærstu einstöku verkefnin á sviði velferðarmála eru innleiðing á nýju örorkubótakerfi sem gert er ráð fyrir að verði komið í gagnið á seinni hluta næsta árs. Þá er áfram unnið að byggingu Nýs Landspítala en fyrsti áfangi hans, sem eru m.a. meðferðarkjarni og rannsóknarhús, mun verða tekinn í notkun á tímabili fjármálaáætlunar. Einnig verða rúmlega 600 ný hjúkrunarrými tekin í notkun samkvæmt nýju fyrirkomulagi um fasteignamál hjúkrunarheimila. Ríkið mun hætta að standa í byggingarframkvæmdum en í stað þess leigja af einkaaðilum. Með þessu er vonast til að hægt verði að hraða brýnni þörf á uppbyggingu hjúkrunarheimila. 

Ráðist verður í byggingu Þjóðarhallar, fjölnota mannvirki fyrir íþróttir, menningu, kennslu og viðburði. Forval fyrir útboð er hafið og er vinna sem hófst í byrjun kjörtímabils komin á hönnunar- og framkvæmdarstig. Þá er hús heilbrigðisvísindasviðs á Landspítalalóð  fjármagnað að fullu af Happdrætti Háskóla Íslands, auk þess sem nýtt fangelsi verður reist í stað Litla-Hrauns og bein framlög vegna samgöngusáttmálans aukin.

Fastari tök á útgjöldum til málaflokka útlendinga 

Átök og óstöðugleiki í alþjóðasamfélaginu hefur valdið því að fjöldi fólks er á flótta. Við höfum ekki farið varhluta af þeirri þróun hér á landi. Á árunum 2017–2021 voru útgjöld til málaflokka sem snerta málefni útlendinga nokkuð stöðug. Árið 2022 nærri tvöfölduðust útgjöldin frá árinu 2021. Hið sama gerðist árið 2023. Útgjöld til þessara málaflokka hafa frá árinu 2017 ríflega þrefaldast að raunvirði.

Ríkisstjórnin hefur sammælst um að ná tökum á útgjöldum vegna þessara málaflokka. Afgreiðslutími umsókna um alþjóðlega vernd verður styttur um helming, fyrirkomulagi verði breytt þannig að færri sæki um vernd sem ekki uppfylla skilyrði og ráðist verður í átak til að flýta afgreiðslu umsækjenda frá Venesúela sem beðið hafa niðurstöðu Útlendingastofnunar. Þessar aðgerðir koma til að lækka kostnað hins opinbera verulega.

Samhliða fyrrnefndum aðgerðum verður ráðist í aðgerðir til að jafna tækifæri í íslensku samfélagi til að stuðla að því að fleiri fái blómstrað og samfélagið njóti krafta þeirra. 

Sterkari fjárhagsstaða ríkissjóðs gerir samfélaginu kleift að mæta áföllum

Þótt vextir og verðbólga séu of há er það fagnaðarefni hversu vel árar í íslensku efnahagslífi. Raunar er hækkun verðbólgu og vaxta ekki síst afleiðing þess að efnahagsbatinn eftir heimsfaraldurinn var mun fyrr á ferðinni og sterkari en væntingar stóðu til í honum miðjum.

Á sama tíma verður ekki hjá því komist að draga þá ályktun, miðað við reynslu undanfarinna ára, að áföll og áskoranir af ýmsum toga kunni að verða tíðari til framtíðar en þau voru á árum áður. Jarðhræringarnar á Reykjanesskaga eru skyndilega orðnar óvissuþáttur sem fyrirséð er að verði til staðar næstu ár, jafnvel áratugi. Spennan í alþjóðamálum fer því miður síst minnkandi og það er raunveruleg hætta á því að hún geti leitt til frekari áfalla á næstu árum. Þá virðist gæta áhrifa loftslagsbreytinga í meira mæli. Við þessar aðstæður verður enn brýnna en áður að fjárhagsstaða ríkissjóðs sé traust og skuldir hóflegar. Þannig eru stjórnvöld í stakk búin að verja samfélagið komi til ófyrirséðra áfalla, rétt eins og gert var með áhrifaríkum hætti í heimsfaraldrinum.

Halli ríkissjóðs helmingast 2025

Þrátt fyrir góðan árangur í að bæta afkomu hins opinbera á undanförnum árum er hallinn enn nokkru meiri en samrýmist langtímamarkmiðum um sjálfbærni opinberra fjármála. Verkefnið næstu misserin verður að bæta afkomuna svo hún geti stuðlað með sjálfbærum hætti að lækkun skuldahlutfalla. Stefnumótunin sem hér birtist leggur grunn að því að fjármálareglur laga um opinber fjármál, sem voru teknar tímabundið úr gildi í heimsfaraldrinum, verði innleiddar á ný frá og með árinu 2026 eins og lög kveða á um. Það undirstrikar staðfestu stjórnvalda í því efni að aldrei ríki vafi um sjálfbærni opinberra fjármála. Um leið gefur reynsla undanfarinna ára tilefni til þess að meta á ný hvers konar fjármálareglur stuðla best að markmiðum stjórnvalda um stöðugleika og sjálfbærni.

Kaupmáttur tekjulægri hópa hefur hækkað talsvert

Staða heimila er sterk þrátt fyrir hátt vaxtastig. Þenslan í þjóðarbúinu hefur ekki síst komið fram á vinnumarkaði og eftirspurn eftir vinnuafli er enn nokkru meiri en í venjulegu árferði þótt hún nálgist jafnvægi. Er það þrátt fyrir hægari vöxt í ferðaþjónustu en aðrar greinar standa nú að baki miklum meiri hluta lausra starfa. Laun á hverja vinnustund hafa hækkað um fjórðung á þremur árum. Það er mun meiri vöxtur en í nágrannaríkjum. Að meðaltali var kaupmáttur launa á vinnustund í járnum árið 2023 en hækkaði þó talsvert áfram hjá þeim tekjulægri.

Kaupmáttur launa á samræmdan mælikvarða - Mikill og langvarandi vöxtur kaupmáttar umfram nágrannalönd

Þá birtist aukin efnahagsleg velsæld víðar en í vexti kaupmáttar. Þannig hafa skuldir heimil-anna sjaldan á undanförnum áratugum verið lægri í hlutfalli við hvort heldur ráðstöfunartekjur þeirra eða eignir og eru á þessa mælikvarða hóflegar í samanburði við okkar helstu nágrannalönd.

Eigið fé heimilanna hefur jafnframt aukist mjög á undanförnum árum – nánar tiltekið um 2.000 ma.kr. milli áranna 2020 og 2022. Skuldahlutfall fyrirtækja er einnig almennt með lægsta móti í sögulegum samanburði. Lágar skuldir bæði heimila og fyrirtækja þýða að þau eru í sterkari stöðu en ella til þess að mæta þeim vaxtahækkunum sem orðið hafa og þýða jafnframt að samfélagið er í sterkari stöðu til að mæta mögulegum efnahagslegum áföllum í framtíðinni.

Skuldir heimila eru hóflegar í samanburði við nágrannalönd

Skuldir fyrirtækja eru einnig hóflegar

Vinna, vöxtur, velferð

Án öflugra atvinnuvega er engin velferð. Undanfarin ár hefur ríkisstjórnin lagt mikla áherslu á að skapa upprennandi útflutningsgreinum samkeppnishæft rekstrarumhverfi. Ísland er lítið land þegar litið er til mannfjölda og því mikilvægt að stjórnvöld búi þannig að íslensku atvinnulífi að það geti keppt á alþjóðlegum mörkuðum. Vöxtur útflutningsgreina er undirstaða velsældar í opnu íslensku hagkerfi. Við höfum á síðustu árum náð góðum árangri í því að fjölga stoðum atvinnulífs á Íslandi. Útflutningur vaxandi greina eins og fiskeldis, hugverkaiðnaðar, tæknitengdrar þjónustu og skapandi greina nálgast sjávarútveg að umfangi. Ferðaþjónustan er þó enn langstærsta útflutningsgreinin.

Tækifæri eru víða en mikilvægt er að útflutningur Íslands byggi á næstu árum í auknum mæli á tækni og hugviti. Vöxtur greina eins og kvikmyndagerðar hefur verið hraður og sýnir ný skýrsla að hver króna sem ríkið hefur sett í endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar hefur skilað sér í tæplega sjö krónum fyrir íslenskt efnahagslíf. Þá skiptir fjárfesting í menntun allra aldurshópa miklu máli. Með því er hægt að leysa úr læðingi kraft þekkingar og sköpunar.

Mikilvægt er að okkur auðnist að nýta auðlindir okkar í þágu aukinna lífsgæða á Íslandi. Orkuframleiðslu þarf að auka í sátt við náttúruna til að styðja við orkuskipti og græna atvinnuuppbyggingu um allt land. Samhliða því þarf að bæta nýtingu orkunnar. 

Áhrif af endurskoðun skattlagningar á ökutæki og eldsneyti - Áhrif af endurskoðun á skattlagningu ökutækja og eldsneytis eru stigvaxandi þar sem grunnsviðsmynd tekjuáætlunar gerir ráð fyrir hraðri lækkun eldri skattstofna vegna fjölgunar vistvænna og sparneytinna bíla í umferð

Samgöngur – framtíðartekjuöflun og nýjar leiðir í uppbyggingu

Miklar breytingar eru fram undan með breyttu framtíðartekjuöflunarkerfi vegna umferðar. Sparneytnari ökutæki og fjölgun nýorkubíla hafa gert það að verkum að skattstofnar sem standa að baki uppbyggingu og viðhaldi vega hafa lækkað verulega. Markmiðið með breyttu tekjuöflunarkerfi er að ná 1,7% hlutfalli af vergri landsframleiðslu árið 2027. Meginstefið í breyttu kerfi er að þeir greiði sem njóta í takti við loftlagsmarkmið ríkisstjórnarinnar. Nú þegar hefur kílómetragjald verið lagt á rafmagns- og tengiltvinnbíla og verður næsta skref stigið 1. janúar 2025 með kílómetragjaldi á alla bíla, þar með talið bensín- og dísilbíla. Samhliða verða eldsneytisskattar endurskoðaðir og bensín- og dísilgjöld felld niður en kolefnisgjald hækkað til að viðhalda hvata til orkuskipta.

Í takti við nýtt tekjuöflunarkerfi verður farin ný leið í uppbyggingu einstakra umferðarmannvirkja og er Ölfusárbrú fyrsta verkefnið. Nú þegar hefur hönnun, framkvæmd og fjármögnun verið boðin út vegna Ölfusárbrúar. Áfram er unnið að undirbúningi Sundabrautar. Umhverfismati lýkur í lok sumars 2024. Sundabraut verður síðan boðin út árið 2026. Einnig er vert að minnast á nýja jarðgangaáætlun sem gerir ráð fyrir kraftmikilli uppbyggingu mikilvægra jarðganga á næstu þrjátíu árum sem með eldri fjármögnunarkerfum hefði tekið 80–100 ár í byggingu. Mikilvægt er að umgjörð varðandi fjármögnun, framkvæmd og rekstur umferðarmannvirkja sem falla eiga hér undir sé vel skilgreind með fjárhagslega sjálfbærni í huga og styðji þannig við markmið um að styrkja fjárhagsstöðu hins opinbera.  

Ábyrg fjármálaáætlun og öguð framfylgd

Framtíðin er björt á Íslandi. Stoðum efnahagslífsins fer fjölgandi og samanlagður útflutningur hratt vaxandi atvinnugreina, svo sem fiskeldis og tæknitengdrar þjónustu, nálgast nú sjávarútveg að umfangi. Slíkar greinar, einkum þær sem reiða sig ekki á nýtingu náttúruauðlinda, hafa burði til þess að leiða vöxt lífskjara til framtíðar.

Samhliða örum vexti verðmætasköpunar og aukinni fjölbreytni atvinnulífsins hefur viðnámsþróttur hagkerfisins styrkst enda hefur vöxturinn ekki verið drifinn áfram af skuldsetningu. Þvert á móti hafa skuldir heimila og fyrirtækja lækkað að raunvirði og í hlutfalli við verðmætasköpun eru skuldir þeirra við söguleg lágmörk. Samhliða hafa eignir heimilanna aukist til muna. Viðskiptahalli, sem greiningaraðilar töldu þar til nýlega að væri kominn til að vera, hefur snúist í markverðan viðskiptaafgang. Þar spilar batnandi afkoma ríkissjóðs mikilvægt hlutverk.

Með þessari fjármálaáætlun er áfram haldið á þeirri braut að styrkja áfallaþol ríkissjóðs og þar með samfélagsins í heild. Það verður best gert með því að tryggja að vöxtur opinberra útgjalda verði ekki umfram vöxt verðmætasköpunar hagkerfisins til lengdar. Ábyrg fjármálastefna hins opinbera stuðlar auk þess að minnkun verðbólgu við lægra vaxtastig en ella.

Ábyrg fjármálaáætlun og öguð framfylgd hennar skiptir höfuðmáli þegar kemur að því að skapa umhverfi á Íslandi þar sem öflugar atvinnugreinar vaxa og dafna og fjölskyldur njóta öryggis og velferðar.

Til baka
Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum