Hoppa yfir valmynd

Auknum stuðningi við loftslagsmál viðhaldið - Rammagrein 5

Frá undirritun Parísarsamningsins 2015 hefur verið sívaxandi umræða um aðgerðir til að stemma stigu við loftslagsbreytingum. Ríki heimsins hafa sett sér markmið um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda og ráðist í fjölbreyttar aðgerðir til að ná þeim markmiðum. Ríkisstjórn Íslands hefur lagt ríka áherslu á að standa við skuldbindingar sínar í loftslagsmálum sem tengist Parísarsamningnum og birt stefnumörkun þar að lútandi um aðgerðaáætlun í loftslagsmálum. Markmið Íslands er að ná 55% samdrætti í losun fyrir árið 2030 miðað við 1990 í samfloti með Noregi og ESB og að ná kolefnishlutleysi eigi síðar en 2040. Til að vinna að þeim markmiðum hefur ríkisstjórnin tvisvar gefið út aðgerðaráætlun í loftslagsmálum og er nú unnið að þriðju uppfærslunni.

Aðgerðir í loftslagsmálum þurfa ekki allar að krefjast útgjalda úr ríkissjóði heldur er einnig hægt að bregðast við með breytingum á gjöldum, lagabreytingum og fræðslu. Á síðustu árum hefur stefna stjórnvalda um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda þó endurspeglast í auknum framlögum til loftslagsmála. Þessi framlög felast einkum í skattaívilnunum og útgjöldum til að stuðla að fjölbreyttum vistvænum samgöngum, aðgerðum í landbúnaði og landnotkun (AFOLU) og ýmsar aðrar beinar aðgerðir.

Umfang framlaga tengd loftslagsmálum

Á árinu 2023 voru framlög tengd loftslagsmálum yfir 31 ma.kr. sem er þreföldun frá því sem var árið 2017. Helstu sveiflur í framlögum til loftslagsmála skýrast af breytingum á skattstyrkjum og framlögum til samgangna. Það mikla stökk sem varð á árinu 2023 skýrist að verulegu leyti af mikilli eftirspurn almennings á rafbílum, sérstaklega á seinni hluta þess árs. Sú sveifla kann að hafa leitt af þeirri kerfisbreytingu sem varð við afnám virðisaukaskattsívilnana við kaup á rafbílum í lok árs 2023 og upptöku nýs styrkjakerfis úr Orkusjóði.

Helstu ástæður þess að framlög tengd loftslagsmálum fara lækkandi á tíma fjármálaáætlunarinnar eru annars vegar að skattastyrkir eru yfirleitt settir til ákveðins tíma og renna svo út og hins vegar eru veittar fjárheimildir til tímabundinna verkefna. Fjárhæðir fyrri ára á myndinni eru á verðlagi hvers árs.

Stærsti þátturinn í framlögum ríkisins til loftslagsmála hefur falist í hagrænum hvötum í formi skattastyrkja. Þar hafa skattastyrkir vegna bíla vegið þyngst. Á síðustu árum hefur ríkið fellt niður virðisaukaskatt af tengiltvinn- og rafbílum til að stuðla að loftslagsvænum samgöngum. Tengiltvinnbílar gegndu mikilvægu hlutverki við upphaf orkuskiptanna en ívilnunum vegna þeirra lauk á árinu 2022. VSK-ívilnanir vegna rafbíla runnu út í árslok 2023. Auk þess má nefna VSK-ívilnanir vegna hleðslustöðva, hjóla og útleigu bíla, skattfrelsi íblandaðs endurnýjanlegs eldsneytis, fulla fyrningu á kaupári vistvænna bíla, græna fjárfestingarhvata o.fl.

Í upphafi þessa árs var stuðningur við rafbílakaup almennings færður af tekjuhlið yfir á gjaldahlið. Með þeirri breytingu var stuðningi við rafbílakaup almennings breytt úr því að virðisaukaskattur var felldur niður að hámarki 1,32 m.kr. en jafnframt var tekið upp styrkjakerfi sem nemur 900 þ.kr. á hvern bíl sem kostar innan við 10 m.kr. Á myndinni að ofan má sjá hvernig skattstyrkir dragast saman en útgjöld til samgangna aukast. Í stað VSK-endurgreiðslna vegna hreinorkubíla, sem renna út í árslok 2023, er í áætluninni gert ráð fyrir að fjárheimild til Orkusjóðs nemi um 7,5 ma.kr. á ári á árunum 2024–2025 og svo um 5 ma.kr. árin 2026–2030.

Framlög til landbúnaðar og landnotkunar vegna loftslagsmála skiptast með nokkuð jöfnun hætti í skógrækt, landgræðslu og grænmetisframleiðslu. Önnur bein framlög til loftslagsmála eru að stærstum hluta tengd aðgerðaáætlun í loftslagsmálum þar sem framlög eru veitt í ýmis verkefni til að stuðla að samdrætti í losun, stefnumótun og aðlögun að loftslagsbreytingum.

Til baka
Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum