Hoppa yfir valmynd
02.12.2023 Forsætisráðuneytið

Saman á fullveldisdegi - grein Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra í Morgunblaðinu 1. desember 2023

Í dag fögnum við fullveldinu en 105 ár eru nú liðin síðan Ísland varð fullvalda ríki. Fullveldið hefur reynst ótrúlegur aflvaki framfara á þessari rúmu öld sem liðin er en það breytir því ekki að margar stórar áskoranir blasa við íslensku samfélagi nú sem endranær.

Við höfum að undanförnu búið við þráláta verðbólgu og háa vexti. Almenningur finnur fyrir áhrifum þessa, hvort sem það er í matvöruversluninni eða í mánaðarlegum afborgunum húsnæðislána. Í liðinni viku tók peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands ákvörðun um að hækka ekki stýrivexti í ljósi óvissunnar sem ríkir vegna jarðhræringanna á Reykjanesskaga. Það eru mikilvæg skilaboð. Á sama tíma stendur til að ljúka afgreiðslu fjárlaga þar sem ríkisstjórnin hefur staðið við áform sín um að styðja við peningastefnuna með auknu aðhaldi í rekstri og aukinni tekjuöflun, einkum frá atvinnulífinu í landinu. Krónutölugjöld í fjárlagafrumvarpi ársins miðast við 3,5% og ekki verðlagsþróun. Skilaboðin eru skýr – verðbólguna skal slá niður.

Kjarasamningar framundan

Á sama tíma hvikum við ekki frá stefnu okkar. Við undanskiljum mikilvæga almannaþjónustu frá aðhaldi og verjum þau sem eiga erfiðast með að mæta áhrifum verðbólgunnar. Við fylgjumst vel með stöðu ólíkra hópa í núverandi ástandi. Staða íslensks hagkerfis um þessar mundir er sérstök; það er kraftur í hagkerfinu og atvinnuleysi lítið en verðbólga þrálát og vextir háir. Okkar sameiginlega verkefni er að vinna bug á verðbólgunni og skapa skilyrði fyrir lækkun vaxta sem léttir álagi af íslenskum heimilum. Þar munu komandi kjarasamningar skipta miklu en það er algjört lykilatriði að hér náist skynsamlegir langtímasamningar. Ég hef mikla trú á forystu verkafólks og atvinnurekenda í þessu verkefni og líkt og ég hef áður sagt munu stjórnvöld leggja sitt af mörkum til að greiða fyrir farsælli niðurstöðu í viðræðunum.

Þar skiptir miklu að halda áfram vinnu okkar í húsnæðismálum þannig að landsmenn allir hafi aðgang að öruggu húsnæði á viðráðanlegu verði. Þess vegna hefur ríkið stigið með fastari hætti en áður inn í húsnæðismálin og raunar er það svo að undanfarin ár hefur þriðjungur allra íbúða verið byggður með stuðningi ríkisins í gegnum stofnframlög til byggingar hagkvæms húsnæðis. Þetta er mikil breyting á aðkomu stjórnvalda að húsnæðismálum og sýnir auknar félagslegar áherslur í því hvernig stuðningi ríkisins er beitt. Þá höfum við tvöfaldað áætlanir okkar fyrir næstu tvö árin þannig að 2000 íbúðir verða byggðar á vegum ríkisins í stað 1000 íbúða áður árin 2024 og 2025. Við munum áfram forgangsraða húsnæðismálunum og endurskoða húsnæðisstuðning ríkisins og bæta réttarstöðu leigjenda.

Annað forgangsmál er staða barnafjölskyldna. Ríkisstjórnin hefur þegar ráðist í umfangsmiklar kerfisbreytingar á barnabótakerfinu til að það nái til fleiri fjölskyldna en áður. Þær breytingar eiga m.a. rætur að rekja til vinnu á vettvangi þjóðhagsráðs. Við munum byggja á þessum breytingum og halda áfram að styrkja þetta kerfi. En lífsgæði barnafjölskyldna byggja ekki eingöngu á tilfærslukerfunum. Það er mikilvægt að horfa á kjör þessa hóps í heildstæðu samhengi og skoða kerfisbreytingar sem geta bætt lífsgæði barnafólks til framtíðar. Til að mynda glíma margar barnafjölskyldur við lægri tekjur og aukna streitu þegar börnin eru ung – ekki síst þegar þau fá ekki leikskólapláss að loknu fæðingarorlofi. Ríkið steig fyrsta skrefið til að brúa umönnunarbilið með því að lengja fæðingarorlofið úr níu mánuðum í tólf en til þess að ljúka þessu verki þurfa sveitarfélögin að koma að málum með ríkinu. Þetta er mál sem þarf að taka til skoðunar. Aðrar aðgerðir sem gætu sannanlega bætt lífskjör barnafjölskyldna væri að létta af þeim útgjöldum sem sum hafa hækkað mjög að undanförnu. Þar mætti til dæmis skoða gjaldfrjálsar skólamáltíðir.  Þar með værum við ekki aðeins að ná fram kjarabótum heldur einnig að stíga marktæk skref til að draga úr fátækt barna – og við eigum að gera það enda fátt þjóðhagslega hagkvæmara en að útrýma fátækt barna.

Þó að efnahagsmálin séu fyrirferðarmikil eru önnur mál sem hafa yfirskyggt flest annað undanfarnar vikur. Jarðhræringarnar á Reykjanesskaga og verkefni sem fylgja því að heilt bæjarfélag hafi þurft að yfirgefa heimili sín eru í forgangi og markmiðið þar er að tryggja öryggi og velferð Grindvíkinga og mikilvægra innviða á svæðinu. Við höfum undanfarin ár unnið að því að kortleggja mikilvæga innviði um land allt og tryggja viðnámsþrótt okkar gegn náttúruvá af ýmsu tagi sem er hluti af lífi okkar sem hér búum. Sú vinna kemur sér vel núna.

Styrkur fullveldisins

Ísland varð fullvalda 1. desember 1918, undir lok fyrri heimsstyrjaldarinnar þegar hugmyndin um þjóðríki hlaut byr undir báða vængi í Evrópu. Kröfur Íslendinga um sjálfstæði þóttu alls ekki sjálfsagðar vegna smæðar þjóðarinnar en sóttu styrk sinn í sögu og menningu því að þrátt fyrir smæðina hafði íslenska þjóðin unnið menningarleg afrek sem sýndu hvað í henni bjó. Tungumálið var eitt af því sem við héldum á lofti í sjálfstæðisbaráttunni en í vikunni kynnti ríkisstjórnin aðgerðir í þágu íslenskrar tungu. Þó að áskoranir stundarinnar séu brýnar er ekki síður brýnt að horfa til lengri tíma og tryggja að íslensk tunga blómstri í gegnum þær miklu samfélagsbreytingar sem við höfum séð á undanförnum árum.

Í raun hafa forsendurnar fyrir fullveldi okkar ekki breyst svo mjög. Íslendingar eru enn fámenn þjóð sem aðeins er hlustað á ef við höfum eitthvað fram að færa. Enn þurfa fullveldið og sjálfstæðið líka að sanna ágæti sitt og við þurfum að hlúa að fullveldinu í öllum okkar verkum. Í mínum huga felst gildi fullveldisins ekki síst í nándinni. Þegar hluti þjóðarinnar verður fyrir áfalli eins og Grindvíkingar tökum við þátt í því áfalli og örlög samfélagsins verða ekki ráðin af embættismönnum í fjarlægu landi sem grundvalla sínar niðurstöður eingöngu á útreikningum um hagkvæmni.

Að sjálfsögðu verður það aldrei þannig að íslenska þjóðin verði sem einn maður. Við hugsum á fjölbreyttan hátt, hugðarefnin eru fjölbreytt og miklu getur munað á skoðunum okkar. En við eigum hér samleið á þessum stað, getum horfst í augu hvert við annað, rætt saman og skipst á skoðunum. Sú nálægð gerir fullveldið eftirsóknarvert og er ein helsta forsenda þess. Ekki síst þess vegna verðum við að leggja rækt við tungumálið og annað sem sameinar okkur en ekki síður við samhygðina með náunganum, hversu ólíkur okkur hann er. Ísland er vissulega ekki fullkomið frekar en nokkurt annað samfélag. En þegar reynir á finnum við að samfélag okkar býr yfir ótrúlegum styrk. Hann er ekki síst fullveldi okkar að þakka.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum