Hoppa yfir valmynd
12.12.2023 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Framsöguræða félags- og vinnumarkaðsráðherra vegna frumvarps til laga um breytingu á lögum um greiðsluaðlögun einstaklinga

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra:

Virðulegi forseti.

Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um greiðsluaðlögun einstaklinga, nr. 101/2010.

Í sáttmála ríkisstjórnarinnar er meðal annars kveðið á um að efla almannaþjónustu með það að markmiði að bæta lífskjör þeirra sem verst standa. Greiðsluaðlögun er úrræði fyrir einstaklinga sem glíma við verulega fjárhagserfiðleika og er markmið laganna um greiðsluaðlögun að gera umsækjendum kleift að endurskipuleggja fjármál sín. Einstaklingar sækja um greiðsluaðlögun hjá embætti umboðsmanns skuldara sem annast framkvæmd úrræðisins.

Lög um greiðsluaðlögun einstaklinga voru sett árið 2010, þar sem knýjandi þörf var fyrir úrræði til að takast á við þann vanda sem til kom vegna bankahrunsins árið 2008 og efnahagskreppunnar sem fylgdi í kjölfarið. Markmiðið með lagasetningunni var jafnframt að lögfesta varanlegt úrræði til framtíðar handa einstaklingum í verulegum greiðsluerfiðleikum en Ísland innleiddi síðast allra Norðurlandaþjóðanna slíkt úrræði.

Markmiðið með frumvarpi þessu er að bæta úrræðið um greiðsluaðlögun og gera málsmeðferðina skýrari og skilvirkari, umsækjendum til hagsbóta. Mikil reynsla er komin á úrræðið en löggjöfin þarf að þróast í takt við breytt umhverfi og þarfir umsækjenda. Breytingarnar munu snerta fjölda fólks. Og þær skipta máli. Þær skipta máli því með þeim eflum við velferðarþjónustu við þau sem verst standa fjárhagslega í samfélaginu.

Virðulegi forseti.

Í frumvarpinu eru lagðar til nokkuð umfangsmiklar breytingar á ýmsum ákvæðum gildandi laga, nýjum ákvæðum bætt við og úrelt ákvæði eða ákvæði sem reynslan hefur sýnt að nýtast ekki sem skyldi eru felld brott.

Með frumvarpinu er lagðar til breytingar á meðferð veðskulda. Lagt er til að heimilt verði að kveða á um lægri greiðslur eða gjaldfrest af veðkröfum í samningi um greiðsluaðlögun, ef skuldari getur ekki greitt raunafborganir veðlána. Tilgangur með slíkri heimild er að mæta sérstökum aðstæðum á borð við hátt vaxtastig eða tímabundnum aðstæðum eins og tekjuleysi. Skal tímabil breytts greiðslufyrirkomulags þó alla jafna ekki vara lengur en eitt ár. Gildandi lagaákvæði heimila ekki gjaldfrest af veðlánum með skýrum hætti og þröngar heimildir eru fyrir greiðslu lægri afborgana. Hér er því um mikilvægar breytingar að ræða sem gagnast geta þeim einstaklingum sem lenda í verulegum greiðsluerfiðleikum vegna veðlána.

Þá er lagt til að sett verði ný málsmeðferðarákvæði vegna yfirveðsetningar á fasteignum, þar sem einstaklingar geta óskað eftir lækkun á veðsetningu þannig að hún miðist við markaðsverðmæti fasteignar, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Samkvæmt gildandi lögum fer lækkun á veðsetningu fasteignar samkvæmt lögum um tímabundna greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði, nr. 50/2009, en í frumvarpi þessu er tenging við þau lög felld brott. Samkvæmt nýjum ákvæðum skal málsmeðferð vegna slíkra umsókna fara fram á meðan greiðsluaðlögunar - umleitanir standa yfir, í stað þess að hún fari fram við lok greiðsluaðlögunar. Lækkun veðskulda er þó ekki framkvæmd fyrr en ljóst er að skuldari hefur staðið við skyldur samkvæmt samningi.

Með frumvarpinu eru lagðar til ákveðnar breytingar á meðferð krafna sem standa utan greiðsluaðlögunar, þannig að úrræðið verði heildstæðara. Í þessu felst að ákveðnar kröfur, t.d. virðisaukaskatt, fésektir og meðlagsskuldir, geta orðið hluti af greiðsluáætlun samnings, þrátt fyrir að ekki sé heimilt að kveða á um eftirgjöf á þeim. Með þessu móti þurfa einstaklingar ekki að semja sjálfir sérstaklega við hlutaðeigandi kröfuhafa hvað þessar ákveðnu kröfur varðar.

Virðulegi forseti.

Samkvæmt gildandi lögum falla námslán utan greiðsluaðlögunar ásamt ábyrgðarskuldbindingum námslána en í frumvarpinu er lagt til það nýmæli að virkar kröfur vegna ábyrgðarskuldbindinga á námslánum falli undir úrræðið þannig að hægt verði að kveða á um meðferð þeirra í samningi. Er talin brýn þörf fyrir að greiðsluaðlögun taki til þessara krafna þar sem engar aðrar lögbundnar lausnir eru til staðar fyrir ábyrgðarmenn sem lenda í greiðsluerfiðleikum vegna þessara skuldbindinga.

Í frumvarpi þessu eru lagðar til ákveðnar breytingar með það að markmiði að fleiri geti leitað greiðsluaðlögunar. Þetta er m.a. gert með því að rýmka skilyrði um búsetu og lögheimili á Íslandi og breytingu á aðstæðum sem leitt geta til synjunar á umsókn um greiðsluaðlögun. Einstaklingar sem eru ótímabundið búsettir erlendis geta nú leitað greiðsluaðlögunar vegna íslenskra krafna að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Þá er lagt til að ákveðnir synjunarliðir verði felldir brott úr lögunum, nýjum bætt við og aðrir gerðir skýrari.

Með frumvarpinu eru lagðar til nokkrar breytingar á málsmeðferð sem varða kröfuhafa. Lagt er til að skýrt komi fram hvaða efniskröfur eru gerðar til kröfulýsinga og að umboðsmaður skuldara hafi heimild til að telja kröfu vanlýsta ef þeim kröfum er ekki mætt. Þá er lagt til að eingöngu þeir kröfuhafar sem lýstu kröfum fái afhent svokallað frumvarp til greiðsluaðlögunar, sem er tillaga að samningi. Þá er lagt til að ákveðnir frestir sem varða kröfuhafa verði styttir, svo að málsmeðferðin verði fljótvirkari.

Í frumvarpinu eru einnig lagðar til breytingar á málsmeðferð vegna breytinga eða ógildingar á greiðsluaðlögunarsamningi, m.a. til að auka líkur á því að skuldari geti staðið við samninginn og auka skilvirkni gagnvart kröfuhöfum. Samhliða er lagt til að sett verði lagaheimild fyrir umboðsmann skuldara til að fá upplýsingar frá greiðslumiðlunarbönkum um vanskil samninga. Er það gert meðal annars til að embættið geti haft samband við viðkomandi einstaklinga og veitt þeim ráðgjöf um rétt til breytingar á samningi. Má þannig forða einstaklingum frá því að samningar þeirra verði ógiltir.

Virðulegi forseti.

Ég hef nú gert grein fyrir helstu efnisatriðum frumvarpsins. Úrræðið um greiðsluaðlögun hefur margsannað gildi sitt en mikil þörf er jafnframt fyrir þær breytingar sem mælt er fyrir um í frumvarpinu. Hér erum við að reyna að ná enn betur en áður til fólks sem stendur frammi fyrir verulegum fjárhagserfiðleikum – og það er gríðarlega mikilvægt Yfir 8.700 umsóknir um greiðsluaðlögun hafa borist frá upphafi, en á bak við hverja umsókn geta verið bæði einstaklingar og hjón eða sambúðarfólk.

Varðandi mat á fjárhagslegum áhrifaþáttum fyrir ríkið þá er hvorki gert ráð fyrir að frumvarpið hafi áhrif á tekjur né útgjöld. Samkvæmt greiningu gagna frá umboðsmanni skuldara eru líkur á því að efni frumvarpsins hafi meiri áhrif á konur en karla, á ákveðna samfélagshópa eins og öryrkja sem og yngri einstaklinga, en þessir hópar leita meira í úrræðið en aðrir. Þá er meginþorri umsækjenda í dag á leigumarkaði en sú staða kann að breytast á komandi misserum.

Virðulegi forseti.

Að lokinni þessari umræðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til háttvirtrar velferðarnefndar.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum