Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 60/2013

ÁLIT

KÆRUNEFNDAR HÚSAMÁLA

í máli nr. 60/2013

 

Ákvarðanataka. Sérmerking bílastæða.

 

I. Málsmeðferð kærunefndar

Með bréfi, dags. 20. ágúst 2013, beindi A, hér eftir nefndur álitsbeiðandi, til nefndarinnar erindi vegna ágreinings við húsfélagið B 2, 4 og 6, hér eftir nefnt gagnaðili.

Gagnaðila var gefinn kostur á að koma á framfæri við nefndina sjónarmiðum sínum og kröfum í samræmi við ákvæði 3. mgr. 80. gr. laga um fjöleignarhús, nr. 26/1994.

Auk álitsbeiðni voru greinargerð gagnaðila, dags. 3. september 2013, athugasemdir áltisbeiðanda, dags. 15. september 2013, athugasemdir gagnaðila, dags. 23. september 2013, og viðbótarathugasemdir álitsbeiðanda, dags. 20. október 2013, lagðar fyrir nefndina. Málið var tekið til úrlausnar á fundi nefndarinnar 16. desember 2013.

 

II. Helstu málsatvik og ágreiningsefni

Um er að ræða fjöleignarhúsið B 2, 4 og 6, alls 128 eignarhlutar. Álitsbeiðandi er eigandi einnar íbúðar að B 4. Ágreiningur er um hvort stjórn gagnaðila hafi verið heimilt að ákveða að sérmerka tiltekin bílastæði á sameiginlegu bílastæði hússins.

Kærunefnd telur að krafa álitsbeiðanda sé:

Að viðurkennt verði að gagnaðila hafi verið óheimilt að sérmerka tiltekin bílastæði á sameiginlegu bílastæði hússins.  

Í álitsbeiðni kemur fram að stigagangar hússins séu þrír og beri hver sitt götunúmer, þ.e. B 2, 4 og 6. Stjórnarfyrirkomulag sé þannig að hver stigagangur hafi sitt húsfélag, sjálfstæðan fjárhag, sína kjörnu stjórn og skoðunarmann ársreiknings. Aðalfundur hvers stigagangs kjósi honum stjórn og skoðunarmann auk þess að sinna öðrum aðalfundarmálum. Húsfélagið B 2, 4 og 6 spanni svo heildina. Á aðalfundi þess félags sé meðal annars gerð grein fyrir heildarútkomu reksturs liðins starfsárs, ný áætlun lögð fram til umfjöllunar og samþykktar. Stjórn sé kosin.

Á bílastæði B 4 séu þrjú stæði merkt frátekin fyrir hreyfihamlaða. Í húsinu búi fimm handhafar svokallaðs stæðiskorts fyrir hreyfihamlaða, þar af fjórir sem séu bifreiðaeigendur. Álitsbeiðandi sé einn þeirra og dóttir hans sé einn þeirra, en hún sé of hreyfiskert til að geta ekið bíl. Við þessar aðstæður sé það gefið að einhver einn hljóti ávallt að verða útundan, hvað þetta snerti þegar allir séu heima. Það útaf fyrir sig sé slæmt. Nú hafi það hins vegar gerst að hússtjórnin virðist hafa ákveðið að það sé hennar að ráða því hverjir réthafanna verði eftirleiðis rétthærri en aðrir til notkunar stæðanna og tekið sér einhliða vald til að ákvarða það. Nú hafi verið límd glæra með bílnúmeri á tvö spjaldanna sem auðkenni að um stæði fyrir hreyfihamlaða sé að ræða. Þannig hafi tveir rétthafanna fengið algjöran forgang að notkun stæðanna.

Í greinargerð gagnaðila kemur fram að tilefni deilunnar sé að á bílastæði við B 4 séu þrjú stæði sérmerkt fyrir hreyfihamlaða. Stjórn húsfélagsins hafi nýverið sett bílnúmer tveggja fatlaðra kvenna aukreitis á tvö þeirra skilta sem einkenni slík stæði. Í erindi álitsbeiðanda sé í öllum aðalatriðum rétt skýrt frá gangi deilunnar fram til þessa.

Álitsbeiðandi hafi misnotað stæðiskort dóttur álitsbeiðanda áður en hann hafi orðið handhafi slíks korts sjálfur. Ekkert virðist hamla hreyfigetu álitsbeiðanda þegar hann sinni húsbíl fjölskyldunnar. Þá hafi álitsbeiðandi sótt mikið í notkun á tilteknu bílastæði þannig að hann leggi sig mjög fram um að taka það frá fyrir sína notkun. Hann hafi skilið fólksbíl sinn eftir í stæðinu þegar hann hafi farið í lengri eða skemmri ferðir á húsbíl sínum úr borginni. Þá hafi hann einnig hundsað tilmæli stjórnar gagnaðila um að fjarlægja bíl sinn þegar þrífa hafi þurft planið.

Þeir korthafar sem hafi fengið sérmerkt bílastæði séu mjög hreyfihamlaðar og hafi því mikinn hag af því að fá stæði sem næst inngangi hússins. Vegna þessa hafi stjórn gagnaðila ákveðið að sérmerkja bílastæðin.

Fyrir liggi ný skipulagsáætlun fyrir bílaplönin þar sem gert sé ráð fyrir tveimur stæðum fyrir hreyfihamlaða sem séu fjær en þessi stæði séu í dag. Stjórn gagnaðila hafi hins vegar ákveðið að fá sérmerktum stæðum fjölgað í fjögur.

Gagnaðili muni fjarlægja bílnúmeramerkingarnar og setja í stað þess upp skilti þar sem farið sé fram á að fólk sýni þeim tillitssemi sem mest þurfi á þeim að halda.

Í athugasemdum álitsbeiðenda kemur fram að gagnaðili hafi viðurkennt að þær aðgerðir að sérmerkja tvö bílastæði hafi verið ólöglegar og að umræddar bílnúmeramerkingar verði fjarlægðar. Álitsbeiðandi mótmælir sjónarmiðum gagnaðila og ítrekar fram komin sjónarmið.

Í athugasemdum gagnaðila kemur fram að framkvæmdir við bílastæði séu hafnar og ljúki á næstu dögum. Eftir þær lagfæringar verði einu blámáluðu bílastæði ætluðu hreyfihömluðum bætt við.

 

III. Forsendur

Krafa álitsbeiðanda í máli þessu lýtur að viðurkenningu á því að gagnaðila hafi verið óheimilt að sérmerkja tiltekin bílastæði á sameiginlegu bílaplani hússins.  Gagnaðili hefur fallist á að honum hafi verið óheimilt að sérmerkja bílastæðin og fallist á að fjarlægja merkingarnar. Samkvæmt 80. gr. laga um fjöleignarhús, nr. 26/1994, geta eigendur fjöleignarhúsa sem greinir á um réttindi og skyldur samkvæmt lögunum leitað álits kærunefndar húsamála. Hlutverk kærunefndar vegna ágreinings í fjöleignarhúsum er því bundið við það að leysa úr málum á grundvelli laga nr. 26/1994. Í 5. gr. reglugerðar um kærunefnd fjöleignarhúsamála, nr. 881/2001, kemur fram að gera skuli skýrar kröfur um tiltekna niðurstöðu fyrir nefndinni og skal rökstyðja kröfurnar með eins ítarlegum hætti og unnt er. Nefndin veitir ekki umsagnir um fræðilegar spurningar heldur tekur afstöðu til krafna aðila. Með vísan til þess að aðilar eru sammála um að gagnaðila hafi verið óheimilt að sérmerkja bílastæði og að gagnaðili hafi fallist á að fjarlægja sérmerkingarnar telur kærunefnda að ekki sé um raunverulegan ágreining að ræða. Kröfu álitsbeiðanda er því vísað frá kærunefnd.

 

IV. Niðurstaða

Málinu er vísað frá kærunefnd.

 

Reykjavík, 16. desember 2013

Þorsteinn Magnússon

Karl Axelsson

FjólaGuðrún Sigtryggsdóttir

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum