Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 45/2017

Tryggingarfé

ÁLIT

KÆRUNEFNDAR HÚSAMÁLA

í máli nr. 45/2017

Tryggingarfé.

I. Málsmeðferð kærunefndar

Með bréfi, dags. 10. apríl 2017, beindu A og B, hér eftir nefnd álitsbeiðendur, til nefndarinnar erindi vegna ágreinings við C, hér eftir nefndur gagnaðili.

Gagnaðila var gefinn kostur á að koma á framfæri við nefndina sjónarmiðum sínum og kröfum í samræmi við ákvæði 3. mgr. 85. gr. húsaleigulaga, nr. 36/1994.

Gagnaðili lét málið ekki til sín taka og var það tekið til úrlausnar á fundi nefndarinnar 31. ágúst 2017.

II. Helstu málsatvik og ágreiningsefni

Álitsbeiðendur tóku á leigu íbúð af gagnaðila með samningi dags., 13. júní 2014, og greiddu honum tryggingarfé, 660.000 kr. Fasteignin var seld á nauðungarsölu 30. ágúst 2016 og álitsbeiðendur afhentu hana 22. nóvember 2016. Gagnaðili hefur ekki endurgreitt tryggingarfé.

Krafa álitsbeiðenda er:

Að viðurkennt verði að gagnaðila beri að endurgreiða þeim tryggingarfé ásamt verðbótum.

Í álitsbeiðni kemur fram að gagnaðili hafi tilkynnt álitsbeiðendum um fyrirhugaða nauðungarsölu íbúðarinnar með fjögurra daga fyrirvara en eftir það hafi hann litlu svarað og í engu sinnt ítrekuðum óskum álitsbeiðenda um endurgreiðslu tryggingar. Gagnaðili hafi ekki gert kröfu í tryggingarféð og beri því að skila því tafarlaust.

III. Forsendur

Ákvæði 4. tölul. 1. mgr. 40. gr. húsaleigulaga, nr. 36/1994, kveður á um að leigusali skuli að leigutíma loknum tilkynna svo fljótt sem verða má hvort hann geri kröfu í tryggingarfé eða hafi uppi áskilnað um það. Ella skuli hann skila leigjanda tryggingarfénu ásamt verðbótum án ástæðulauss dráttar en tryggingarfé í vörslu leigusala skyldi, er samningur aðila var gerður, vera verðtryggt en ekki bera vexti. Þar sem gagnaðili hefur ekki látið málið til sín taka liggur ekki fyrir sönnun þess að hann hafi gert kröfu í tryggingarfé álitsbeiðenda innan nefndra tímamarka og ber honum því að endurgreiða þeim tryggingarféð, 660.000 kr., auk verðbóta.

IV. Niðurstaða

Það er álit kærunefndar húsamála að gagnaðila beri að skila álitsbeiðendum tryggingarfé, 660.000 kr., ásamt verðbótum skv. 4. tölul. 1. mgr. 40. gr. húsaleigulaga, nr. 36/1994.

Reykjavík, 31. ágúst 2017

Auður Björg Jónsdóttir

Valtýr Sigurðsson

Eyþór Rafn Þórhallsson

Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef
Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds.
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira