Hoppa yfir valmynd

Stjórnsýslukæra Rifsós hf. Stjórnsýslukæra Rifsós hf. um árlegt gjald í Umhverfissjóð sjókvíaeldis

Fiskeldi - umhverfissjóður sjókvíaeldis - gjaldtaka - sjókvíaeldi - skattlagningarheimild

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hefur kveðið upp svohljóðandi:

Úrskurð

Stjórnsýslukæra

Ráðuneytið vísar til stjórnsýslukæru Ólafs Rúnars Ólafssonar hrl., hjá PACTA lögmönnum Akureyri, dags. 18. janúar 2016, f.h. Rifós hf., þar sem kærð er til ráðuneytisins ákvörðun Matvælastofnunar, dags. 30. september 2015, um að Rifós skuli sæta álagningu gjalds í Umhverfissjóð sjókvíaeldis skv. 20. gr. e laga nr. 71/2008, um fiskeldi.


Kæruheimild er í 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 71/2008, um fiskeldi, og er kærufrestur þrír mánuðir skv. 27. gr. stjórnsýslulaga. Með tölvupósti, dags. 22. desember 2015, óskaði kærandi eftir að atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið lengdi kærufrest í málinu með vísan til 6. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga.Með tölvupósti dags. 23. desember 2015, lengdi ráðuneytið kærufrest í málinu fram til 11. janúar 2016. Kærandi óskaði eftir frekari lengingu á fresti með tölvupósti, dags. 5. janúar 2016. Ráðuneytið lengdi frest í málinu með tölvupósti, dags. 5. janúar 2016, til og með 18. janúar 2016. Kæra barst ráðuneytinu þann 18. janúar 2016. 

 

Kröfur kæranda

Kærandi krefst þess að ákvörðun Matvælastofnunar, dags. 30. september 2015, um að kærandi skuli greiða árgjald í Umhverfissjóð sjókvíaeldis, skv. 20. gr. e. í lögum nr. 71/2008, um fiskeldi, verði felld úr gildi. 

Þess er krafist að ráðuneytið úrskurði að Umhverfissjóður sjókvíaeldis endurgreiði kæranda 4.085.715 kr. með dráttarvöxtum af 2.149.797 kr. frá 8. janúar 2015 til 14. janúar 2016, og af 4.085.715 kr. frá 14. janúar 2016 til greiðsludags.

Þá krefst kærandi þess að á meðan á rekstri málsins stendur verði ekki af frekari álagningu gjaldsins og innheimtu frestað. Kærandi krefst einnig að vextir falli ekki á árgjald sem kann að vera gjaldfallið eða mun gjaldfalla áður en málið verður endanlega til lykta leitt.

Að lokum krefst kærandi þess að úrskurðað verði að hið kærða stjórnvald skuli greiða kæranda kærumálskostnað.

Málsatvik og málsmeðferð

Í stjórnsýslukæru er málsatvikum þannig lýst að kærandi rækti bleikju í kvíum eða búri í Lóni í Kelduhverfi og hafi til þess starfsleyfi frá Umhverfisstofnun og rekstrarleyfi frá Matvælastofnun eins og áskilnaður sé gerður um í 1. mgr. 4. gr. a. laga nr. 71/2008, um fiskeldi.  Starfsleyfi kæranda sé gefið út af Umhverfisstofnun, þann 19. júlí 2012, í samræmi við ákvæði laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir og reglugerðar nr. 785/1999, um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun. Starfsleyfi kæranda gildi til 31. desember 2027. Rekstrarleyfi kæranda sé nr. IS- 36119 og sé gefið út af Fiskistofu þann 12. nóvember 2012 í samræmi við ákvæði laga nr. 71/2008, um fiskeldi. Rekstrarleyfi kærandi gildi til 13. nóvember 2022.

Fram kemur að Matvælastofnun hafi með bréfi, dags. 12. september 2014, sent kæranda álagningarseðil vegna árgjalds í Umhverfissjóð sjókvíaeldis skv. 20. gr. e laga nr. 71/2008, um fiskeldi, vegna fiskeldis kæranda í Lóni í Kelduhverfi. Kærandi hafi óskað eftir niðurfellingu gjaldsins við Fiskistofu. Með bréfi, dags. 2. október 2014, hafi Fiskistofa hafnað beiðni kæranda á grundvelli þess að kærandi starfræki fiskeldi í sjókvíum sem staðsettar væru í Lóni í Kelduhverfi. Kærandi hafi þá sent bréf til Matvælastofnunar, dags. 23. október 2014, þar sem óskað var eftir fresti til greiðslu gjaldsins á meðan réttarstaða kæranda og lögmæti gjaldsins yrði metin.  Þann 1. nóvember 2014, hafi innheimtumaður ríkissjóðs skuldajafnað gjaldinu við innskatt sem kærandi hafi átt skv. lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Kærandi hafi mótmælt þeim skuldajöfnuði og krafist þess að hann væri látinn ganga til baka. 

Kærandi kveðst hafa sent bréf, dags. 16. janúar 2015, til Umhverfisjóðs sjókvíaeldis, þar sem fram hafi komið sjónarmið kæranda um að fiskeldi kæranda í Lóni í Kelduhverfi væri ekki sjókvíaeldi og því bæri kæranda ekki að greiða árgjald í Umhverfissjóð sjókvíaeldis. Í bréfinu hafi kærandi óskað eftir niðurfellingu gjaldsins. Með bréfi, dags. 20. febrúar 2015, var kæranda kynnt að erindi hans hefði verið áframsent til Matvælastofnunar í samræmi við 2. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga, nr. 371993, þar sem sú stofnun annaðist álagningu gjaldsins. Með bréfi, dags. 30. september 2015, hafi Matvælastofnun hafnað ósk kæranda um að fella niður gjaldið þar sem stofnunin taldi að fiskeldi kæranda í Lóni í Kelduhverfi væri sjókvíaeldi.

Kæra barst ráðuneytinu með bréfi, dags. 18. janúar 2016, og var send Matvælastofnun til umsangar með bréfi, dags. 26. janúar 2016. Einnig var óskað eftir staðfestu afriti af hinni kærðu ákvörðun auk annarra gagna sem Matvælastofnun kynni að hafa um málið. Umsögn Matvælastofnunar barst með bréfi, dags. 16. febrúar 2016, og var send til kæranda með bréfi, dags. 25. febrúar 2016, þar sem honum gefið færi á að koma með athugasemdir við umsögnina. Athugasemdir kæranda bárust með bréfi, dags. 17. mars 2016. Ekki þótti tilefni til að senda Matvælastofnun athugasemdir kæranda og er kæran tekin til úrskurðar á grundvelli framangreindra gagna.

Málsástæður og lagarök kæranda

Í kæru segir að fiskeldi kæranda sem rekið sé í Lóni við Kelduhverfi sé ekki sjókvíaeldi. Kærandi geti ekki fallist á að texti í meginmáli rekstrarleyfis frá Fiskistofu ráði niðurstöðu um gjaldtöku í Umhverfissjóð sjókvíaeldis. Líta verði til þeirrar starfsemi sem fram fari í fyrirtækinu í raun. Sú starfsemi sé ekki sama starfsemi og sé grundvöllur álagningar gjalds í Umhverfissjóð sjókvíaeldi skv. 20. gr. e. laga nr. 71/2008, um fiskeldi. 

Fram kemur að kærandi hafi starfsleyfi frá Umhverfisstofnun fyrir kvíaeldisstöð. Hvergi í því starfsleyfi sé getið um að starfsemi kæranda sé sjókvíaeldi. Starfsemi kæranda sé kvíaeldi, sbr. 14. tölul. 3. gr. laga nr. 71/2008, um fiskeldi og sé það grundvallaratriði í málinu. Réttara hefði verið að rekstrarleyfi kæranda hefði heitið leyfi til kvíaeldis. Þá mótmælir kærandi túlkun Matvælastofnunar, í hinni kærðu ákvörðun, um að kærandi stundi eldi sitt á svæði þar sem að einhverju leyti sé salt vatn. Ljóst sé að Matvælastofnun telji að samkvæmt skilgreiningu laganna á sjókví sé eldi í söltu vatni gjaldskylt. Þessi túlkun standist ekki skoðun og fari gegn meðalhófsreglu. Fyrir liggi að vatnsbolur lónsins sé lagskiptur, þar sem efra lag hans sé því sem næst ferskvatn og selta þess sé aðeins um 0,1 prómill. Hið rétta sé að eldi kæranda fari fram í kvíum og sé kvíaeldi, þ.e. fiskeldi í netkvíum (netbúrum) í fersku vatni eða söltu, sbr. skilgreiningu á kvíaeldi í 14. tl. 3. gr. laga nr. 71/2008, um fiskeldi. Kærandi bendir á að grunnforsenda fyrir álagningu Matvælastofnunar sé að eldið fari fram í vatni sem sé að einhverju leyti salt. Kærandi telur að ekki sé hægt að fallast á annað en að eldi kæranda sé kvíaeldi, enda sé efnasamsetning vatnsins skyldari ferskvatni en sjó.

Kærandi vísar til þess að ónákvæmni gæti í skilgreiningum á hugtökum í lögum nr. 71/2008, um fiskeldi, sem rekja megi til þess að farin hafi verið sú leið að skilgreina fleiri hugtök en færri. Því verði að gæta varúðar við strangri túlkun út frá skilgreiningu hugtaka, þar sem ekki hafi verið gefinn gaumur að því við lagasetningu að hugtök þessi yrðu síðar notuð sem grundvöllur skattlagningarheimildar. Hugtakið sjókvíaeldi sé skilgreint í 20. tl. 3. gr. laga nr. 71/2008, um fiskeldi, sem „eldi á fiski í netbúrum sem komið er fyrir í sjó eða söltu vatni“ en í 14. tl. sömu greinar sé hugtakið kvíaeldi skilgreint sem „fiskeldi í netkvíum (netbúrum) í fersku vatni eða söltu“. Kærandi telur að eldið í Lóni í Kelduhverfi falli undir síðari skilgreininguna þar sem lónið sé lagskipt, þ.e. efra lag þess sé ferskvatn (um 8. m dýpi) og neðra lag þess sé saltvatn. Fiskeldi kæranda fari að megninu til fram við yfirborð lónsins, þ.e. í ferskvatns hluta þess. Þó orðið sjókvíar sé notað í rekstrarleyfinu, þá geti það ekki verið grundvöllur skattskyldu kæranda.

Þá bendir kærandi á að eldi kæranda sé ekki á sjókvíaeldissvæði eins og það sé skilgreint í lögunum skv. 21. tl. 3. gr. laga nr. 71/2008, um fiskeldi. Þar segi að sjókvíaeldissvæði sé: Fjörður eða afmarkað hafsvæði fyrir sjókvíaeldi þar sem gert er ráð fyrir einum árgangi eldisfisks hverju sinni og möguleiki er að fleiri en einn rekstrarleyfishafi starfræki sjókvíaeldisstöðvar á sama svæði með skilyrtri samræmingu í útsetningu seiða og hvíld svæðisins.Kærandi telur að í skilgreiningunni komi fyrir lykilatriði um sjókvíaeldi sem skipti máli fyrir samhengi málsins, þ.e. að sjókvíaeldi sem skattlagt sé fari fram í firði eða á afmörkuðu hafsvæði. Slíkt eigi ekki við um fiskeldi kæranda, þar sem lón það sem kvíar kæranda séu staðsettar í sé ekki fjörður eða afmarkað hafsvæði. Af þeim sökum geti kvíaeldi kæranda ekki orðið sjóvkíaeldi í skilningi 20.gr. e. laga nr. 71/2008, um fiskeldi. 

Kærandi bendir á að fiskeldi kæranda sé á eignarjörð en ekki á opnu hafsvæði þar sem ekki þurfi að greiða leigu og Umhverfissjóði sjókvíaeldis sé ætlað að ná yfir. Kærandi greiði  allan kostnað við rannsóknir á mengun í nágrenni eldissvæðisins og sinni sjálfur vökun á helstu umhverfisþáttum í samræmi við starfsleyfi Umhverfisstofnunar. Með gjaldtökunni sé verið að leggja tvöfalt gjald á kæranda til að standa straum af kostnaði við óskylda starfsemi, þ.e. laxeldi í sjó og fjörðum.

Kærandi segist ekki geta séð hvers vegna Fiskistofa hafi á sínum tíma kosið að tilgreina í meginmáli rekstrarleyfisins að fiskeldi kæranda færi fram í sjókvíum, en ekki kvíum eins og rétt sé. Kærandi vísar til ritsins Lífríki Íslands þar sem Lón í Kelduhverfi sé flokkað sem strandvatn. Einkenni strandvatna sé að þau hafi engan ós til sjávar eða að sjór liggi það hátt að hann falli ekki inn í lónin, nema við sérstakar aðstæður. Þá einkennist strandvötn af lágu seltustigi við yfirborð. Lög nr. 49/2014 um breytingar á lögum um fiskeldi, hafi komið til vegna vaxtar í laxeldi, sem fari fram í sjó en ekki í lónum. Þó löggjafinn hafi ekki sett sérstakar reglur um eldi í lónum leiði það ekki til þess að eldi kæranda sé skilgreint sem sjókvíaeldi. Kærandi hafnar því alfarið að eldi í lónum sé lagt til jafns við eldi í sjó. Slík túlkun sé alls ekki tæk þegar um sé að ræða grundvöll skattlagningar.

Kærandi bendir á að bleikjan sem ræktuð sé í lóninu sé ferskvatnsfiskur sem alist upp við aðrar aðstæður en sjór býður uppá. Ef bleikja þrifist í sjó væri kærandi með starfsemi sína í sjó þar sem ekki þyrfti að borga leigu. Í lóninu streymi 50 rúmmetrar á sekúndu af fersku vatni úr aðliggjandi ám sem stuðli að því að svæðið sé kjörsvæði fyrir bleikjueldi. Ferska vatnið sé súrefnisríkt og við kjörhita bleikjueldis á meðan saltvatnslagið innihaldi lítið súrefni þar sem það liggi undir efra laginu og lítil endurnýjun er á því þar sem vatnsskipti þar eru takmörkuð vegna breytinga á rifinu á milli Ytra-Lónsins og sjávar. 

Málsástæður og lagarök Matvælastofnunar

Í umsögn Matavælastofnunar kemur fram að fiskeldi kæranda sem staðsett sé í Lóni í Kelduhverfi sé sjókvíaeldi, enda mætist í lóninu ferskvatn og sjór. Sjór flæði inn og út úr lóninu og fiskar eigi greiða leið inn í lónið og út úr því í gegnum árfarveg. Þá fari úrgangur frá fiskeldinu óheftur út í sjó og ef fiskar sleppi þá geti þeir valdið sömu umhverfisspjöllum og hjá öðrum sem stundi sjókvíaeldi. Matvælastofnun vísar til þess að þrátt fyrir að kærandi ali eingöngu upp bleikju þá heimili rekstrarleyfi kæranda einnig eldi á laxi. Sömu sjónarmið eigi við um bleikjueldi og laxeldi varðandi umhverfisspjöll á villtum stofnum.

Vísað er til þess að Umhverfissjóður sjókvíaeldis sé settur á stofn með það markmið að lágmarka umhverfisáhrif sjókvíaeldis og sé sjóðnum gert að standa undir kostnaði við burðarþolsrannsóknir, vöktun á hlutfalli eldisfiska í laxveiðiám og önnur verkefni sem sjóðurinn ákveði. Eðli þess fiskeldis sem kærandi hafi leyfi fyrir í Lóni í Kelduhverfi sé það sama og annað eldi á laxfiskum og lítill munur sé varðandi áhættu af völdum umhverfissjónarmiða hvort sem hún stafi af úrgangi frá fiskeldinu eða vegna slysasleppinga.

Um gjaldtöku til Umhverfissjóðs sjókvíaeldis bendir Matvælastofnun á að í 20. gr. e laga nr. 71/2008, um fiskeldi, komi fram að rekstrarleyfishafi sjókvíaeldis skuli greiða árlegt gjald að upphæð 12 SDR fyrir hvert tonn sem heimilt sé að framleiða samkvæmt rekstrarleyfi og renni það óskipt til Umhverfissjóðs sjókvíaeldis. Skilgreining á sjókvíaeldi sé „eldi á fiski í netbúrum sem komið er fyrir í sjó eða söltu vatni“. Starfsemi kæranda sé eldi á fiski í söltu vatni og falli því starfsemin undir 20. gr. e . laganna. Saltvatn sé ekki bundið við prómill og um leið og vatn sé að einhverju leyti salt þá sé það salt í skilningi 20. tl. 3. gr. laganna. Matvælastofnun fái ekki séð að hægt sé að falla frá gjaldskyldu fyrirtækisins á grundvelli saltmagns í hlutaðeigandi vatni.

Þá hafnar Matvælastofnun þeim rökum kæranda að fiskeldi í Lóni við Kelduhverfi sé kvíaeldi en ekki sjókvíaeldi. Vísað er til þess að kvíaeldi sé samheiti yfir sjóvkíaeldi og annað eldi í kvíum í fersku vatni. Þannig falli starfsemi kæranda einnig undir önnur hugtök sem skilgreind séu í 3. gr. laga nr. 71/2008, um fiskeldi, en það ráði engu um túlkun á 20. gr. e. laganna og gjaldskyldu kæranda. 

Matvælastofnun hafnar einnig þeim málatilbúnaði kæranda að fiskeldi kæranda sé ekki á sjókvíaeldissvæði og geti því ekki verið sjókvíaeldi þar sem ekki sé gerð krafa um slíkt í skilgreiningu á sjókvíaeldissvæði sbr. 21. tl. 3. gr. laga nr. 71/2008, um fiskeldi. Fram kemur að Matvælastofnun hafi skoðað hvort fella mætti gjaldið niður á kæranda vegna þeirrar sérstöðu sem fyrirtækið hefur vegna staðsetningar fiskeldisins, en mat stofnunarinnar hafi verið að starfsemin væri gjaldskyld með tilliti til áhættu og umhverfissjónarmiða. 

Að lokum bendir Matvælastofnun á að samkvæmt meginreglu í íslenskum rétti beri málsaðilar þann kostnað sjálfir sem þeir hafi af því að reka erindi fyrir stjórnvöldum, þ.m.t. kærumálum til æðra stjórnvalds nema lög kveði á um annað. Slíkt ákvæði sé ekki að finna í lögum nr. 71/2008, um fiskeldi, og því beri að hafna kröfu um kærumálskostnað.

 

Rökstuðningur

I. Kærufrestur

Kæruheimild er í 26. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 71/2008, um fiskeldi og er kærufrestur þrír mánuðir skv. 27. gr. stjórnsýslulaga. Með tölvupósti, dags. 22. desember 2015, óskaði kærandi eftir að atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið lengdi kærufrest í málinu með vísan til 6. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga. Með tölvupósti dags. 23. desember 2015, lengdi ráðuneytið kærufrest í málinu fram til 11. janúar 2016. Kærandi óskaði eftir frekari lengingu á fresti með tölvupósti, dags. 5. janúar 2016. Ráðuneytið lengdi frest í málinu með tölvupósti, dags. 5. janúar 2016, til og með 18. janúar 2016. Kæra barst ráðuneytinu þann 18. janúar 2016. Kæra telst því komin innan þess kærufrests sem gildir í máli þessu, sbr. 1. og 6. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga.

II. Gjaldskylda Rifóss í Umhverfissjóð sjókvíaeldis

Kærð er ákvörðun Matvælastofnunar, dags. 30. september 2015, um að Rifós sé skylt að greiða árgjald í Umhverfissjóð sjókvíaeldis skv. 20. gr. e. laga nr. 71/2008, um fiskeldi, vegna eldis í Lóni í Kelduhverfi. Kærandi telur ákvörðun Matvælastofnun byggða á röngum forsendum þar sem eldi kæranda sé ekki sjókvíaeldi og þar með falli eldið ekki undir ákvæðið.

Starfsleyfi kæranda er gefið út af Umhverfisstofnun, þann 19. júlí 2012, í samræmi við ákvæði laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir og reglugerðar nr. 785/1999, um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun. Starfsleyfi kæranda gildir til 31. desember 2027. Rekstrarleyfi kæranda, nr. IS- 36119, er gefið út af Fiskistofu þann 12. nóvember 2012 og gildir til 13. nóvember 2022. Sú gjaldtaka sem umþrætt er í málinu byggir á 20. gr. e. laga nr. 71/2008, um fiskeldi, þar sem segir að rekstrarleyfishafi sjókvíaeldis skuli greiða árlegt gjald að upphæð 12 SDR fyrir hvert tonn sem heimilt sé að framleiða samkvæmt rekstrarleyfi.

Samkvæmt framansögðu þá eru það rekstrarleyfin sem marka gjaldskyldu leyfishafanna í Umhverfissjóð sjókvíaeldis og fjárhæð gjaldsins. Í rekstrarleyfi kæranda, nr. IS-3611, kemur fram undir 1. tölul. að rekstrarleyfishafi sé Rifós hf., við Lónin í Kelduneshreppi, 671 Kópaskeri. Leyfið sé gefið út í samræmi við 7. gr. laga nr. 71/2008, um fiskeldi. Fram kemur að framsal, leiga og veðsetning á rekstrarleyfi til fiskeldis sé óheimil án samþykkis Fiskistofu (nú Matvælastofnunar) sbr. 17. gr. laganna. Þá segir að tilkynna skuli Fiskistofu um breytingar á eignaraðild og ef verulegar breytingar verða á forsendum fyrir rekstri fiskeldisstöðvar s.s. varðandi eldistegund eða eldisaðferð skuli sækja um rekstrarleyfi að nýju. Í 2. tölul. leyfisbréfsins, nánar tiltekið undirkafla 2.1. segir að með vísan til 7. gr. laga nr. 71/2008, um fiskeldi, heimili Fiskistofa hér með Rifósi hf. að stunda eldi á laxi og bleikju með sjókvíum í innra lóninu í Kelduhverfi, þar sem heimilt sé að framleiða allt að 1000 tonnum árlega, þar af lax að hámarki 600 tonn. Einnig sé gert ráð fyrir að heimilt verði að reka á staðnum seiðaeldi á laxi og bleikju án þess þó að farið verði yfir framangreint framleiðslumagn. Ársframleiðsla sé miðuð við almanaksár og að eingöngu sé heimilt að ala þær tegundir sem tilgreindar séu í rekstrarleyfi. Ráðuneytið getur ekki skilið rekstrarleyfi kæranda á annan hátt en um að leyfi til sjókvíaeldis sé að ræða, þó það orð sé ekki notað með beinum hætti í meginmáli rekstrarleyfisins, heldur vísað til eldis í sjókvíum. Álagning árgjalds kæranda og sú upphæð sem honum ber að greiða byggist því á heimild samkvæmt rekstarleyfi, sem er eldi á laxi eða bleikju í Lóni í Kelduhverfi í sjókvíum allt að 1000 tonnum og þar af 600 tonnum af laxi árlega.

III. Aðrar málsástæður kæranda

Kærandi heldur því fram að fiskeldi hans í Lóni í Kelduhverfi sé kvíaeldi en ekki sjókvíaeldi og að skilgreining á hugtökunum í lögunum sé ekki nægilega skýr og geti ekki orðið grundvöllur skattlagningarheimildar. Þá vísar kærandi einnig til þess að Lón í Kelduhverfi sé ekki á skilgreindu sjókvíaeldissvæði heldur á eignarjörð og að kærandi greiði sjálfur fyrir rannsóknir á umhverfisárhrifum á eldissvæðinu. Kærandi bendir á að Umhverfissjóður sjókvíaeldis sé sjálfstæður sjóður með það markmið að lágmarka umhverfisáhrif sjókvíaeldis og með sjóðnum skuli greiða kostnað við rannsóknir vegna burðaþolsmat, vöktunar og annarra verkefna sjóðsins. Með gjaldtökunni væri verið að láta kæranda taka þátt í kostnaði við rannsóknir á óskyldri starfsemi, þ.e. laxeldi í sjó eða fjörðum, án þess að létt verði af honum skyldu til að sinna vöktun í sinni starfsemi.

Ráðuneytið tekur undir sjónarmið kæranda um að skilgreining á hugtökunum kvíaeldi og sjókvíaeldi í lögum nr. 71/2008, um fiskeldi, sé ekki nægilega skýr og afmörkuð, sérstaklega varðandi eldi í söltu vatni. Bæði hugtökin eru skilgreind í 3. gr. laganna, sbr. 14. tl. sem skilgreinir kvíaeldi sem „fiskeldi í netkvíum (netbúrum) í fersku vatni eða söltu“ og 20. tl. sem skilgreinir sjókvíaeldi sem „eldi á fiski í netbúrum sem komið er fyrir í sjó eða söltu vatni“. Í báðum skilgreiningum er vísað til eldis í söltu vatni án frekari afmarkana eða vísbendinga um það hvenær eldi í söltu sé kvíaeldi eða sjókvíaeldi. Samkvæmt umsögn Matvælastofnunar þá er kvíaeldi yfirhugtak sem sjókvíaeldi fellur undir. Ráðuneytið fellst á þessa túlkun Matvælastofnunar og telur að þessi túlkun fái m.a. stoð í starfsleyfi kæranda frá Umhverfisstofnun. Í yfirskrift á leyfisbréfinu segir þá; Starfsleyfi fyrir kvíaeldisstöð Rifóss hf., Kelduhverfi. Í undirkafla 1.2., í leyfisbréfinu kemur fram að rekstraraðila sé heimilt að framleiða árlega samanlagt allt að 1000 tonnum af laxi og bleikju og þar af 600 tonnum af laxi á ári í sjókvíum í Innra-Lóninu í Kelduhverfi. Þannig er ljóst að í starfsleyfinu notar Umhverfisstofnun kvíaeldi sem yfirhugtak og afmarkar svo nánar hina leyfisskyldu starfsemi í meginmáli leyfisbréfsins og vísar til eldis sjókvíum. Sami háttur er hafður á í rekstrarleyfi kæranda, sem er grundvöllur álagningar gjalds í Umhverfissjóð sjókvíaeldis samanber umfjöllun hér að framan. Þá tekur ráðuneytið undir með Matvælastofnun að það sé hvorki skilyrði fyrir því að fiskeldi teljist sjókvíaeldi né er það skilyrði fyrir álagningu gjalds í Umhverfissjóð sjókvíaeldis, að eldi sé staðsett á sjókvíaeldissvæði. Vatnakerfi Lóns í Kelduhverfi er ekki einangrað vatnakerfi heldur tengist í sjó og eðli þess fiskeldis sem kærandi hefur leyfi fyrir samkvæmt rekstrarleyfi, nr. IS-36119, er það sama og annað fiskeldi á laxafiskum í sjó. Sömu umhverfissjónarmið eiga við varðandi sleppingar og losun úrgangs. Það að eldi kæranda sé á eignarjörð og að kærandi greiði fyrir rannsóknir er lúta að umhverfisáhrifum á því svæði, samkvæmt skilyrðum í starfsleyfi frá Umhverfisstofnun, hefur ekki áhrif á greiðsluskyldu kæranda á grundvelli 20. gr. e. laga nr. 71/2008, um fiskeldi. 


Með vísan til framanritaðs staðfestir ráðuneytið ákvörðun Matvælastofnunar, dags. 30. september 2015, um að Rifsós hf. sé skylt að greiða árgjald í Umhverfissjóð sjókvíaeldis skv. 20. gr. e. laga nr. 71/2008, um fiskeldi. 


Ráðuneytið biðst velvirðingar á þeim töfum sem hafa orðið við uppkvaðningu úrskurðarins en það má rekja til mikilla anna í ráðuneytinu.

Úrskurður

Ráðuneytið staðfestir  ákvörðun Matvælastofnunar, dags. 30. september 2015, um að Rifsós hf. sé skylt að greiða árgjald í Umhverfissjóð sjókvíaeldis skv. 20. gr. e. laga nr. 71/2008, um fiskeldi, vegna eldis í Lóni í  Kelduhverfi.Fyrir hönd sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra


Jóhann Guðmundsson

Erna Jónsdóttir

Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef
Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds.
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira