Hoppa yfir valmynd

Nr. 25/2018 - Álit

ÁLIT

KÆRUNEFNDAR HÚSAMÁLA

 

í máli nr. 25/2018

 

 

 

I. Málsmeðferð kærunefndar

Með bréfi, dags. 27. mars 2018, beindi A, hér eftir nefndur álitsbeiðandi, til nefndarinnar erindi vegna ágreinings við B, hér eftir nefndir gagnaðili.

Gagnaðila var gefinn kostur á að koma á framfæri við nefndina sjónarmiðum sínum og kröfum í samræmi við ákvæði 3. mgr. 80. gr. laga um fjöleignarhús, nr. 26/1994.

Auk álitsbeiðni var greinargerð gagnaðila, dags. 13. apríl 2018, lögð fyrir nefndina.

Málið var tekið til úrlausnar á fundi nefndarinnar 24. apríl 2018.

 

II. Helstu málsatvik og ágreiningsefni

Um er að ræða fjöleignarhúsið C nr. X-Y, alls X eignarhluta. Álitsbeiðandi er eigandi íbúðar í C nr. Y. Ágreiningur er um hvort gagnaðili skuli einn greiða kostnað vegna gerðar nýrrar eignaskiptayfirlýsingar fyrir húsið.

Kærunefnd telur kröfu álitsbeiðanda vera:

     Að viðurkennt verði að gagnaðili skuli einn bera allan kostnað við gerð nýrrar      eignaskiptayfirlýsingar.

Í álitsbeiðni kemur fram að í báðum stigagöngum sé að finna eignir skráðar á gagnaðila sem séu félagslegar íbúðir. Formaður húsfélagsins hafi upplýst gagnaðila um að fyrir lægi að gera nýja eignaskiptayfirlýsingu og vísað til 6. mgr. 16. gr. laga um fjöleignarhús, nr. 26/1994, um að þegar um sé að ræða fjöleignarhús með félagslegum íbúðum skuli viðkomandi húsnæðisnefndir láta gera og þinglýsa eignaskiptayfirlýsingu fyrir húsið, eigendum að kostnaðarlausu. Gagnaðili hafi ekki talið sig eiga að greiða allan kostnað af nýrri eignaskiptayfirlýsingu heldur talið kostnað eiga að skiptast á eignarhluta í samræmi við hlutfallstölur í sameign.

Í greinargerð gagnaðila er túlkun álitsbeiðanda á 6. mgr. 16. gr. laga um fjöleignarhús mótmælt, enda standi hvorki laga- né efnisrök til þeirrar niðurstöðu. Ákvæðið taki til húsnæðisnefnda en ekki hlutafélaga á borð við gagnaðila. Umræddar íbúðir gagnaðila í húsinu falli ekki undir lög nr. 97/1993 um Húsnæðisstofnun ríkisins. Um sé að ræða breytingu á eignaskiptayfirlýsingum, sem þegar hafi verið gerðar, en ákvæðinu sé einungis ætlað að taka til upphaflegrar gerðar slíkra yfirlýsinga.

III. Forsendur

Í 6. mgr. 16. gr. laga um fjöleignarhús, nr. 26/1994, segir að þegar um sé að ræða fjöleignarhús með félagslegum íbúðum sem falli undir ákvæði V. og VI. kafla laga nr. 97/1993 um Húsnæðisstofnun ríkisins, með síðari breytingum, skuli viðkomandi húsnæðisnefndir láta gera og þinglýsa eignaskiptayfirlýsingu fyrir húsið, eigendum að kostnaðarlausu. Í athugasemdum í frumvarpi vegna ákvæðsins segir að ákvæðið hafi verið sett fyrir tilmæli Húsnæðisnefndar Reykjavíkur sem sagði meðal annars: „Við framkvæmd laganna hafa komið í ljós vandkvæði í sambandi við þinglýsingu skjala varðandi félagslegar eignaríbúðir. Samkvæmt ákvæðum laga nr. 97/1993, um Húsnæðisstofnun ríkisins, hafa húsnæðisnefndir kaupskyldu á fasteignum sem falla undir V. og VI. kafla laganna. Algengt er að eignaskiptayfirlýsingar séu ekki til vegna íbúða sem reistar voru af framkvæmdanefnd byggingaráætlunar, stjórnum verkamannabústaða og öðrum félögum sem á sínum tíma byggðu verkamannabústaði. Eigendur þessara fasteigna hafa margir hverjir ekki fjárhagslega getu til að greiða kostnað við gerð eignaskiptasamninga.“ 

Þegar af þeirri ástæðu að eignir gagnaðila eru ekki félagslegar eignaríbúðir telur kærunefnd að að 6. mgr. 16. gr. fjöleignarhúsalaga eigi ekki við í máli þessu og að ekki sé hægt að fallast á kröfu álitsbeiðanda.

IV. Niðurstaða

Það er álit kærunefndar að hafna beri kröfu álitsbeiðanda um að gagnaðili beri einn kostnað við gerð nýrrar eignaskiptayfirlýsingar fyrir húsið.

 

Reykjavík, 24. apríl 2018

 

Auður Björg Jónsdóttir
Valtýr Sigurðsson &
Eyþór Rafn Þórhallsson

Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum