Hoppa yfir valmynd

Nr. 36/2018 - Álit

ÁLIT

KÆRUNEFNDAR HÚSAMÁLA

 

í máli nr. 36/2018

 

Vatnsdæla: Hávaði.

 

I. Málsmeðferð kærunefndar

Með bréfi, mótteknu 16. apríl 2018, beindi A, hér eftir nefnd álitsbeiðandi, til nefndarinnar erindi vegna ágreinings við B, hér eftir nefnd gagnaðili.

Gagnaðila var gefinn kostur á að koma á framfæri við nefndina sjónarmiðum sínum og kröfum í samræmi við ákvæði 3. mgr. 80. gr. laga um fjöleignarhús, nr. 26/1994.

Auk álitsbeiðni voru greinargerð gagnaðila, dags. 27. apríl 2018, athugasemdir álitsbeiðanda, dags. 9. apríl 2018, og athugasemdir gagnaðila, dags. 17. maí 2018, lagðar fyrir nefndina.

Málið var tekið til úrlausnar á fundi nefndarinnar 6. júní 2018.

II. Helstu málsatvik og ágreiningsefni

Um er að ræða fjöleignarhúsið B, alls 31 eignarhluta. Álitsbeiðandi er eigandi íbúðar í húsinu. Ágreiningur er um hávaða frá vatnsdælu sem er staðsett í sameign hússins.

Kærunefnd telur kröfu álitsbeiðanda vera:

     Að viðurkennt verði að gagnaðila beri að gera lagfæringar á vatndælu hússins í þeim            tilgangi að minnka hávaða sem stafar frá henni.

Í álitsbeiðni kemur fram að ágreiningur snúist um vatnsdælu sem sé staðsett beint fyrir neðan svefnherbergi álitsbeiðanda. Rétt eftir aldamótin hafi verið skipt um dælu. Sú dæla hafi verið talin mjög góð, en verið ívið hávaðasamari en sú fyrri. Á sama tíma og loft á sorpgeymslu fyrir neðan íbúð á annarri hæð hafi verið klætt (einangrað), hafi loft í dælukompu einnig verið einangrað. Sá sem hafi gert það hafi sagt að hávaðinn bærist meira með rörunum en á milli hæða.

Á síðasta ári hafi dælan verið farin að gefa sig og eitthvað verið átt við hana. Hljóðið hafi breyst í dælunni frá því að vera stöðugt yfir í það að hún kveiki og slökkvi á sér í sífellu, sem sé vandamálið. Hafi þetta hljóðtruflun í för með sér, einkum fyrir álitsbeiðanda, íbúa íbúðarinnar við hliðina á hennar og íbúðarinnar fyrir ofan. Aðrir íbúar hafi fundið minna fyrir þessu. Aðallega sé hávaði um helgar þegar fólk komi seint heim og sturti niður. Þá sé dælan endalaust að kveikja og slökkva á sér með trukki í lokin.

Álitsbeiðandi hafi greint gagnaðila frá því að eitthvað væri bilað. Hún hafi fengið þau svör að það hafi verið skipt um dælu en að það hefði verið svo dýrt að hafa dæluna í gangi allan sólarhringinn. Álitsbeiðandi hafi reynt að tala um dæluna á húsfundi í desember 2017 án árangurs. Álitsbeiðanda hafi liðið mjög illa vegna þessa og geti ekki sofið í svefnherbergi sínu.

Álitsbeiðandi telji að í það minnsta ætti að vera hægt að breyta stillingu dælunnar eða kaupa nýja. Dælur í dag séu mun hljóðlátari en sú sem sé í notkun í húsinu tilheyri fornöld.

Í greinargerð gagnaðila segir að þegar þörf hafi verið á að loka fyrir vatn í húsinu, hvort sem það hafi verið heitt eða kalt vatn, hafi það orsakað vandræði á vatnsrennsli á húsinu. Þetta eigi einkum við á efri hæðum hússins. Í maí 2017 hafi ástandið verið sérstaklega bagalegt þar sem heilt og kalt vatn hafi skipt um farveg. Eftir athugun og ráðleggingar pípulagningarmanns hafi verið sett upp þensluker til þess að tryggja jafnan vatnsþrýsting á allar hæðir hússins. Það sé það eina sem gert hafi verið í vatnsmálum hússins í tíð núverandi hússtjórnar. Það hafi verið álit fagmanna sem hafi unnið verkið að núverandi dæla væri í fínu lagi og góðu ástandi og hljóðið í henni væri eins og gengur og gerist um vatnsdælur. Það væri því engin ástæða til að skipta henni út fyrir aðra eins.

Í stóru fjölbýlishúsi sé margt sem geti angrað íbúa. Þetta hús sé engin undantekning frá því. Hvort sem staðið sé fyrir utan herbergið þar sem vatnsinntakið sé eða inni í því heyrist frekar lágvært suð í dælunni. Það sé því erfitt að átta sig á því hvað valdi þeirri truflun sem lýst sé í álitsbeiðni. Aðrar íbúar hafi ekki kvartað undan dælunni.

Í athugasemdum álitsbeiðenda er áréttað að það sé stilling á gangi dælunnar sem hún geri athugasemdir við. Hávaðinn frá dælunni sé verstur þegar hljótt sé í húsinu. Verst sé þegar dælan fari í gang eftir langa þögn. Þá komi einni hljóðhnykkur þegar hún slökkvi á sér.

Í athugasemdum gagnaðila segir að eftir að lokað hafi þurft fyrir vatn í húsið hafi þrýstirofi verið lagaður og sett upp þensluker. Þeir pípulagningarmenn sem hafi unnið verkið hafi sagt að hvorug þessara aðgerða hafi haft áhrif á hljóðið í dælunni. Þeir hafi jafnframt skoðað dæluna og þenslukerið og ekki fundið neitt athugavert sem gæti leitt til umrædds hávaða.

Dælan sé svokölluð hraðadæla og því sé ekki hægt að stilla hraða hennar á neinn hátt enda segi fagmenn að ný dæla myndi eftir sem áður kveikja og slökkva á sér líkt og núverandi dæla geri og yrði ekki lágværari.

Sú spurning hafi komið upp hvort hljóðið í dælunni magnist upp í gegnum vatnsrörin en fagmenn ekki átt svar við því. Rörin sem liggi næst þenslukerinu séu úr plasti og liggi ekki upp við vegg. Það eigi að koma í veg fyrir leiðni hljóðs. Þá hafi ekki verið hreyft við tengingum næst dælunni að neinu leyti.

III. Forsendur

Í máli þessu er deilt um hvort ráðast skuli í lagfæringar á vatnsdælu hússins vegna hávaða sem stafar frá henni. Álitsbeiðandi lýsir því að gert hafi verið við dæluna og eftir þá viðgerð hafi hljóðmengun frá henni aukist. Áður hafi hávaðinn verið stöðugur en nú komi hann eftir því sem dælan kveiki eða slökkvi á sér. Óumdeilt er að vatnsdælan tilheyrir sameign hússins.

Stjórn húsfélags er rétt og skylt að taka hvers kyns ákvarðanir sem lúta að venjulegum daglegum rekstri og hagsmunagæslu vegna sameignarinnar og getur látið framkvæma á eigin spýtur minni háttar viðhald og viðgerðir og bráðnauðsynlegar og brýnar ráðstafanir sem þola ekki bið. Sé hins vegar um að ræða ráðstafanir og framkvæmdir sem ganga lengra ber stjórn, áður en í þær er ráðist, að leggja þær fyrir húsfund til umfjöllunar og ákvörðunar. Það á undantekningarlaust við um framkvæmdir sem eru verulegar hvað varðar kostnað, umfang og óþægindi. Gildir hér einu þótt um æskilegar og jafnvel nauðsynlegar ráðstafanir sé að tefla, sbr. 70. gr. laga um fjöleignarhús, nr. 26/1994. Er því ekki á valdsviði gagnaðila að láta fara fram lagfæringar á vatnsdælu heldur húsfundar.

Ekki liggur fyrir í máli þessu að gagnaðili hafi tekið til sérstakrar meðferðar og úrlausnar athugasemdir álitsbeiðanda og til að mynda fengið mat á hávaða frá vatnsdælunni og hvort unnt sé að minnka hann. Að mati kærunefndar er eðlilegt að þetta falli undir verksvið hússtjórnar.

IV. Niðurstaða

Það er álit kærunefndar að gagnaðila beri að taka kvörtun álitsbeiðanda til meðferðar og úrlausnar.

Reykjavík, 6. júní 2018

Auður Björg Jónsdóttir

Valtýr Sigurðsson

Eyþór Rafn Þórhallsson

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum