Hoppa yfir valmynd
Kærunefnd útlendingamála

Nr. 170/2023 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 30. mars 2023 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 170/2023

í stjórnsýslumáli nr. KNU23020018

 

Beiðni [...] um endurupptöku

I.                Málsatvik

Með úrskurði nr. 455/2022 í stjórnsýslumáli nr. KNU22090041, uppkveðnum 24. nóvember 2022, staðfesti kærunefnd útlendingamála ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 5. september 2022, um að synja einstaklingi er kveðst heita [...], vera fædd [...], ríkisborgara Pakistan, um alþjóðlega vernd og dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016. Úrskurður kærunefndar var sendur talsmanni kæranda 25. nóvember 2022. Hinn 1. desember 2022 barst kærunefnd beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa á úrskurði nefndarinnar. Beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa var synjað af kærunefnd með úrskurði nr. 37/2023, uppkveðnum 13. janúar 2023.

Hinn 5. desember 2022 barst kærunefnd beiðni kæranda um endurupptöku á úrskurði kærunefndar frá 24. nóvember 2022. Með úrskurði kærunefndar nr. 56/2023, uppkveðnum 2. febrúar 2023, var beiðni kæranda um endurupptöku máls hennar hafnað. Hinn 4. febrúar 2023 lagði kærandi fram nýja beiðni um endurupptöku máls hennar ásamt fylgigögnum. Dagana 15., 17. og 20. febrúar 2023 bárust kærunefnd frekari athugasemdir og gögn frá kæranda.

Af beiðni kæranda um endurupptöku máls hennar má ráða að hún byggi á 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

II.               Málsástæður og rök kæranda

Í beiðni kæranda um endurupptöku máls hennar kemur fram að hún telji að úrskurður kærunefndar frá 2. febrúar 2023 hafi verið rangur. Kærandi telur að með úrskurðinum hafi jafnræðisregla stjórnsýslulaga, sbr. 11. gr. laganna, verið brotin þar sem mál hennar hafi ekki fengið sambærilega meðferð og önnur mál þar sem aðilum hafi verið veitt vernd á grundvelli 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Því til stuðnings vísar kærandi í úrskurð kærunefndar nr. 30/2020, uppkveðinn 23. janúar 2020. Kærandi vísar til þess að í framangreindu máli hafi aðili málsins vísvitandi afvegaleitt íslensk stjórnvöld og lagt fram falsað vegabréf en kærandi hafi hins vegar aðeins gefið rangar upplýsingar um lífkenni í Svíþjóð en ekki falsað vegabréf. Einnig vísar kærandi til úrskurðar kærunefndar nr. 100/2018, uppkveðinn 1. mars 2018. Í framangreindum úrskurði hafi það verið niðurstaða kærunefndar að börn aðila málsins hefðu ekki fengið niðurstöðu í málum sínum innan 15 mánaða og var það mat nefndarinnar að ekkert hefði komið fram í málinu sem gæfi til kynna að 2. mgr. 74. gr. gilti ekki um börnin þrátt fyrir að frásögn foreldra þeirra hefði verið metin ótrúverðug.

Í beiðni um endurupptöku  skoraði kærandi á kærunefnd að afhenda henni ákvarðanir Útlendingastofnunar í málum nr. 2016-06137, 2016-04376 og 2016-06138 og tannlæknaskýrslur tengdar málunum. Að mati kæranda væru málsatvik í framangreindum málum sambærileg máli hennar. Til stuðnings kröfu sinni um að fá afhent framangreind gögn vísaði kærandi til 1., 5. og 8. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Þá vísaði kærandi einnig í dóm Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. E-[...], uppkveðinn 12. júní 2020, og dóm Landsréttar í máli nr. [...], uppkveðinn 5. nóvember 2021, þar sem framangreindur dómur Héraðsdóms Reykjavíkur var staðfestur.

Gerir kærandi þá kröfu að íslensk stjórnvöld samþykki þau kennivottorð sem hún hafi lagt fram til stuðnings auðkenni sínu eða leggi til grundvallar að hún sé ríkisfangslaus líkt og lagt var til grundvallar í framangreindum dómum.

Til stuðnings beiðni um endurupptöku lagði kærandi fram afrit af vottorði um heimilisfesti hennar í Khyber Tribal District, dags. 14. febrúar 2023. Þá lagði kærandi fram afrit af fréttum fjölmiðla þar sem fjallað er um aldursgreiningar með tanngreiningum. Auk þess lagði kærandi fram sameiginlega athugasemd nefndar um vernd réttinda allra innflytjenda sem séu verkamenn og fjölskyldumeðlima þeirra og nefndar um vernd réttinda barna frá 16. nóvember 2017. Kærandi vísar einkum til II. kafla í athugasemdinni þar sem til umfjöllunar er lagaleg skylda aðildarríkja til þess að tryggja réttindi barna í samhengi við alþjóðlega fólksflutninga inn á þeirra landsvæði.

III.           Niðurstaða kærunefndar útlendingamála varðandi beiðni um endurupptöku

Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga á aðili máls rétt á því að mál sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Eins og áður hefur komið fram kvað kærunefnd upp úrskurð í stjórnsýslumáli nr. KNU22090041 24. nóvember 2022. Með úrskurðinum komst kærunefnd að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfyllti hvorki skilyrði 1. né 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga og því ætti hún ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga. Þá var það mat kærunefndar að aðstæður kæranda í heimaríki væru ekki með þeim hætti að veita bæri henni dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Jafnframt var það mat kærunefndar að skilyrði b. og d.-liðar 2. mgr. 74. gr. laganna væru ekki uppfyllt þar sem auðkenni kæranda væri ekki upplýst og vegna skorts á vilja kæranda til að veita aðstoð við úrlausn málsins.

Líkt og áður greinir lagði kærandi áður fram beiðni um endurupptöku máls hennar 5. desember 2022. Til stuðnings beiðninni lagði kærandi fram fjölda gagna og vísaði til úrskurða kærunefndar sem hún taldi vera fordæmisgefandi fyrir mál sitt. Í úrskurði kærunefndar, nr. 56/2023, dags. 2. febrúar 2023, ítrekaði nefndin að það hefði verið heildstætt mat nefndarinnar í úrskurði nr. 455/2022 að vegna gagna í máli kæranda og annarra meintra fjölskyldumeðlima hennar hér á landi, upplýsinga frá sænskum stjórnvöldum og aldursgreiningar kæranda hafi verið ástæða til að fara í ítarlegt mat á auðkenni kæranda. Þá ítrekaði kærunefnd einnig að kæranda hefði ekki eingöngu verið synjað um dvalarleyfi á grundvelli b-liðar 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga vegna þess að hún hefði ekki sannað auðkenni sitt heldur hefði það einnig verið niðurstaða nefndarinnar að kærandi hefði ekki veitt upplýsingar og aðstoð við úrlausn málsins og því hefðu skilyrði d-liðar 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga heldur ekki verið uppfyllt.

Endurupptökubeiðni kæranda nú er byggð á sams konar málsástæðum og gögnum og byggt var á í endurupptökubeiðni hennar frá 5. desember 2022. Verður af beiðni og gögnum ráðið að kærandi sé ósammála niðurstöðu kærunefndar í kærumáli hennar hvað varðar mat á auðkenni hennar og aldri.

Samhliða beiðni sinni um endurupptöku lagði kærandi fram talsvert magn gagna, meðal annars afrit af vottorði um heimilisfesti hennar í Khyber Tribal District, dags. 14. febrúar 2023 og afrit af fréttum fjölmiðla þar sem fjallað er um aldursgreiningar með tanngreiningum. Jafnframt vísaði kærandi til tveggja úrskurða kærunefndar nr. 100/2018 og nr. 30/2020 sem hún telur vera fordæmisgefandi fyrir mál sitt. Í úrskurði kærunefndar nr. 455/2022 komst kærunefnd að þeirri niðurstöðu að vafi væri á lögmæti þeirra gagna sem lægju til grundvallar útgáfu pakistanskra skilríkja og vegabréfa kæranda. Framangreint afrit um heimilisfesti kæranda í Pakistan er ekki til þess fallið að hagga framangreindu mati kærunefndar einkum í ljósi þess að það virðist gefið út á grundvelli sömu gagna og framlögð vegabréf og auðkenniskort kæranda og kærunefnd hefur metið ótraust, sbr. úrskurð nefndarinnar nr. 455/2022.

Þau gögn sem kærandi hefur lagt fram til stuðnings beiðni sinni um endurupptöku hafa ekki að geyma nýjar upplýsingar sem gefi tilefni til þess að endurupptaka málið. Þá er það mat kærunefndar að málsatvik í tilvísuðum úrskurðum séu ekki sambærileg atvikum í máli kæranda. Verður ráðið af niðurstöðu í úrskurði kærunefndar nr. 30/2020 að gögn þess máls hafi ekki gefið tilefni til að framkvæma ítarlegra mat á auðkenni aðila málsins þar sem ekkert benti til þess að útgáfa framlagðra gagna um auðkenni væri grundvölluð á röngum eða ótraustum gögnum líkt og í máli kæranda. Í úrskurði kærunefndar nr. 100/2018 var börnum aðila veitt vernd á grundvelli 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga þar sem þau fengu ekki niðurstöðu í málum sínum innan þeirra tímamarka sem getið er í ákvæðinu.

Í beiðni sinni skoraði kærandi á kærunefnd að útvega sér ákvarðanir Útlendingastofnunar í málum nr. 2016-06137, 2016-04376 og 2016-06138 sem hún taldi sambærilegar sínu máli og tannlæknaskýrslur tengdar málunum. Með tölvubréfi kærunefndar 13. febrúar 2023 til kæranda greindi nefndin henni frá því að framangreindar ákvarðanir væru ekki sérstaklega skráðar í gagnarunni nefndarinnar. Þar sem Útlendingastofnun hefði tekið framangreindar ákvarðanir leiðbeindi kærunefnd kæranda að leggja fram beiðni um aðgang að framangreindum gögnum til Útlendingastofnunar í samræmi við 16. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012.

Þá vísaði kærandi í beiðni sinni til dóms Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. [...] og dóms Landsréttar í máli nr. [...], þar sem fyrrgreindur dómur Héraðsdóms Reykjavíkur var staðfestur. Taldi kærandi dóminn vera fordæmisgefandi fyrir sitt mál. Í málinu byggði stefnandi á því að hann væri ríkisfangslaus. Hafi kærunefnd með hliðsjón af trúverðugleika aðila málsins og gagna málsins talið að ekkert hefði komið fram í málinu sem gæfi tilefni til að draga í efa mat Útlendingastofnunar á pakistönsku þjóðerni hans. Var það hins vegar mat kærunefndar að aðili málsins hefði ekki sannað auðkenni sitt og ætti þar með ekki rétt á dvalarleyfi hér á landi á grundvelli 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Landsréttur felldi úr gildi úrskurð kærunefndar meðal annars á þeim forsendum að mál aðilans hefði ekki verið nægjanlega upplýst af hálfu stjórnvalda við ákvarðanatöku og að stjórnvöld hefðu ekki rannsakað, fjallað um og tekið rökstudda afstöðu til ákveðins gagns er stefndi hefði lagt fram.

Líkt og fram hefur komið í fyrri úrskurðum kærunefndar í máli kæranda, s.s. nr. 455/2022 þá hefur ýmislegt bent til þess að útgefin skilríki kæranda hafi verið gefin út á grundvelli falsaðra eða ótraustra gagna. Hafa íslensk stjórnvöld lagt í mikla rannsóknarvinnu varðandi þau gögn er kærandi hefur lagt fram máli sínu til stuðnings, farið ítarlega yfir öll gögn mála kæranda og meintrar fjölskyldu hennar hér á landi, ásamt því að kynna sér um 30 skýrslur um aðstæður í Pakistan, þ. á m. skýrslur um skráningar barna og íbúaskráningar þar í landi. Með vísan til alls framangreinds er það mat kærunefndar að mál kæranda hafi verið rannsakað á fullnægjandi hátt af íslenskum stjórnvöldum og breyti framangreindur dómur engu um það mat.

Kærunefnd hefur þá farið yfir öll framlögð gögn með beiðni kæranda um endurupptöku og er það mat nefndarinnar að upplýsingar í þeim séu ekki til þess fallnar að breyta mati og niðurstöðum nefndarinnar í úrskurðum nr. 455/2022 og nr. 56/2023.

Samantekt

Að teknu tilliti til framangreinds verður ekki fallist á að úrskurður kærunefndar frá 24. nóvember 2022 hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða atvik máls hafi breyst verulega frá því að úrskurðurinn var kveðinn upp, sbr. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Skilyrði 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga eru ekki uppfyllt og kröfu kæranda um endurupptöku málsins því hafnað.

Úrskurðarorð:

 

Kröfu kæranda um endurupptöku er hafnað.

The request of the appellant to re-examine his case is denied.

Tómas Hrafn Sveinsson

Þorbjörg I. Jónsdóttir                                                            Sindri M. Stephensen


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum