Hoppa yfir valmynd
Kærunefnd útlendingamála

Nr. 180/2024 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 12. mars 2024 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 180/2024

í stjórnsýslumáli nr. KNU23110126

 

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I.          Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Hinn 27. nóvember 2023 kærði [...], kt. [...], ríkisborgari Sómalíu ( hér eftir kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 13. nóvember 2023, um að synja umsókn hans um ótímabundið dvalarleyfi, sbr. 58. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

Af kæru má ráða að kærandi krefjist þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að honum verði veitt ótímabundið dvalarleyfi.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

Lagagrundvöllur

Í máli þessu koma einkum til skoðunar ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016 ásamt síðari breytingum, reglugerð um útlendinga nr. 540/2017 ásamt síðari breytingum, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, sbr. lög nr. 33/1944, mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, auk annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

II.            Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi fékk fyrst útgefið dvalarleyfi hér á landi á grundvelli alþjóðlegrar verndar, sbr. 73. gr. laga um útlendinga, 28. febrúar 2019 með gildistíma til 28. febrúar 2023. Leyfið hefur verið endurnýjað einu sinni, með gildistíma til 27. febrúar 2027. Hinn 25. febrúar 2023 sótti kærandi um ótímabundið dvalarleyfi. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 13. nóvember 2023, var kæranda synjað um ótímabundið dvalarleyfi, með vísan til þess að hann uppfyllti ekki skilyrði um námskeið í íslensku, sbr. c-lið 1. mgr. 58. gr. laga um útlendinga. Ákvörðun Útlendingastofnunar var móttekin af kæranda 15. nóvember 2023. Hinn 27. nóvember 2023 kærði kærandi ákvörðunina til kærunefndar útlendingamála. Með tölvubréfi, dags. 1. desember 2023, lagði kærandi fram frekari gögn vegna kæru sinnar.

III.       Málsástæður og rök kæranda

Kærandi lagði ekki fram sérstaka greinargerð vegna málsins en í kæru kemur fram að umsókn hans hafi verið synjað vegna þess að hann hafi ekki lokið námskeiði í íslensku. Að sögn kæranda myndi hann ljúka íslenskunámskeiði innan nokkurra daga og myndi leggja fram staðfestingu þess efnis þegar hún lægi fyrir.

Með tölvubréfi, dags. 1. desember 2023, lagði kærandi fram staðfestingar frá [...], dags. 3. maí og 28. nóvember 2023, þess efnis að kærandi hefði lokið námskeiðunum íslenska sem annað mál 3 og 4, en hvort námskeið væri 40 klukkustundir.

IV.       Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Í 58. gr. laga um útlendinga er fjallað um ótímabundið dvalarleyfi. Samkvæmt 1. mgr. 58. gr. er heimilt að veita útlendingi ótímabundið dvalarleyfi hafi hann dvalist hér á landi samfellt síðustu fjögur ár samkvæmt dvalarleyfi sem getur verið grundvöllur ótímabundins dvalarleyfis. Eins og að framan greinir hefur kærandi dvalið hér á landi samkvæmt dvalarleyfi sem getur verið grundvöllur ótímabundins dvalarleyfis frá 21. febrúar 2019, sbr. 3. mgr. 73. gr. laga um útlendinga.

Frekari skilyrði fyrir útgáfu ótímabundins dvalarleyfis eru m.a. tilgreind í stafliðum a-e í 1. mgr. 58. gr. laga um útlendinga. Samkvæmt c-lið er það skilyrði að útlendingur hafi sótt námskeið í íslensku fyrir útlendinga, sbr. þó 9. mgr. sama ákvæðis. Samkvæmt 9. mgr. 58. gr. laga um útlendinga ber ráðherra að setja í reglugerð nánari ákvæði um ótímabundið dvalarleyfi, þar á meðal um námskeið í íslensku fyrir útlendinga skv. 1. mgr. Þar skal kveðið á um lengd námskeiðs, lágmarkstímasókn og vottorð til staðfestingar á þátttöku. Samkvæmt 4. málsl. ákvæðisins er í reglugerðinni m.a. heimilt að kveða á um undanþágur frá skyldu til þátttöku í námskeiði.

Í 14. gr. reglugerðar um útlendinga, með síðari breytingum, er fjallað um námskeið í íslensku vegna umsóknar um ótímabundið dvalarleyfi. Samkvæmt 1. mgr. 14. gr. skal umsækjandi um ótímabundið dvalarleyfi hafa sótt námskeið hjá námskeiðshaldara sem mennta- og menningarmálaráðuneytið viðurkennir, að lágmarki samtals 150 stundir.

Samkvæmt gögnum málsins hafði kærandi lokið 120 stundum í íslenskunámi þegar Útlendingastofnun tók ákvörðun sína, dags. 13. nóvember 2023, um að synja kæranda um ótímabundið dvalarleyfi. Samkvæmt bréfi stofnunarinnar, dags. 26. september 2023, var kæranda bent á að hann hefði ekki lokið því lágmarksnámi í íslensku sem 14. gr. reglugerðar um útlendinga kveður á um. Kæranda var jafnframt veittur 15 daga frestur til þess að bæta úr og leggja fram staðfestingu á ástundun íslenskunáms, að lágmarki 150 stundir.

Eins og þegar hefur komið fram lagði kærandi fram staðfestingar, dags. 3. maí og 28. nóvember 2023, þess efnis að hann hafi lokið frekara íslenskunámi. Með hliðsjón af staðfestingu, dags. 9. febrúar 2023, sem kærandi lagði fram hjá Útlendingastofnun bera gögn málsins með sér að kærandi hafi nú lokið 160 stunda íslenskunámi. Samkvæmt framansögðu kemur c-liður 1. mgr. 58. gr. laga um útlendinga því ekki í veg fyrir að kæranda verði veitt ótímabundið dvalarleyfi. Í hinni kærðu ákvörðun var ekki tekin afstaða til annarra skilyrða 58. gr. laga um útlendinga. Verður hin kærða ákvörðun því felld úr gildi og lagt fyrir stofnunina að taka umsókn kæranda til nýrrar meðferðar.

Úrskurðarorð:

Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi. Lagt er fyrir stofnunina að taka mál kæranda til meðferðar á ný.

 

The decision of the Directorate of Immigration is vacated. The Directorate is instructed to re-examine the appellants’ case.

Valgerður María Sigurðardóttir

Gunnar Páll Baldvinsson                                                                                             Sandra Hlíf Ocares


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum