Hoppa yfir valmynd
Kærunefnd útlendingamála

Nr. 143/2024 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 14. febrúar 2024 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 143/2024

í stjórnsýslumáli nr. KNU23110035

 

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I.          Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Hinn 6. nóvember 2023 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari Bandaríkjanna ( hér eftir kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 25. október 2023, um að synja umsókn hans um dvalarleyfi á grundvelli náms, sbr. 2. mgr. 52. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

Af kæru má ráða að kærandi krefjist þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að honum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli náms.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

Lagagrundvöllur

Í máli þessu koma einkum til skoðunar ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016 ásamt síðari breytingum, reglugerð um útlendinga nr. 540/2017 ásamt síðari breytingum, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, ákvæði laga um landamæri nr. 136/2022, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, sbr. lög nr. 33/1944, mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994 auk annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

II.            Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi fékk fyrst útgefið dvalarleyfi hér á landi fyrir námsmenn, sbr. 65. gr. laga um útlendinga, 20. október 2022, með gildistíma til 31. mars 2023. Hinn 3. apríl 2023 sótti kærandi um dvalarleyfi á sama grundvelli og áður. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 25. október 2023, var umsókninni synjað. Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að fylgigögn með umsókn kæranda hafi verið ófullnægjandi. Útlendingastofnun hafi óskað eftir frekari fylgigögnum með tölvubréfum, dags. 25. maí og 16. júní 2023. Kærandi hafi lagt fram frekari gögn vegna málsins 5. júní 2023 en þau hafi verið metin ófullnægjandi af Útlendingastofnun. Hafi umsókn hans um dvalarleyfi því verið synjað með vísan til 2. mgr. 52. gr. laga um útlendinga. Ákvörðun Útlendingastofnunar var móttekin af kæranda 3. nóvember 2023 og kærði hann ákvörðunina til kærunefndar útlendingamála 6. nóvember 2023. Með tölvubréfum, dags. 19. og 20. nóvember 2023, lagði kærandi fram frekari gögn vegna málsins.

III.       Málsástæður og rök kæranda

Kærandi lagði ekki fram sérstaka greinargerð vegna málsins en lagði þess í stað áherslu á frekari fylgigögn samhliða stjórnsýslukæru. Meðal fylgigagna sem lögð voru fram á kærustigi eru inngöngubréf í Háskóla Íslands, dags. 23. maí 2022, umsóknareyðublað um atvinnuleyfi, undirritað 22. ágúst 2023, ráðningarsamningur, dags. 24. ágúst 2023, og námsferilsyfirlit fyrir haustmisseri 2023, dags. 17. nóvember 2023.

IV.       Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 1. mgr. 52. gr. laga um útlendinga tekur Útlendingastofnun ákvörðun um veitingu dvalarleyfis en Vinnumálastofnun um veitingu atvinnuleyfis. Þá skulu fylgja öll þau gögn og vottorð sem Útlendingastofnun og Vinnumálastofnun gera kröfu um til staðfestingar að umsækjandi uppfylli skilyrði sem lög, reglugerðir og önnur stjórnvaldsfyrirmæli kveða á um, sbr. 1. málsl. 2. mgr. 52. gr. laganna. Samkvæmt 3. mgr. ákvæðisins setur ráðherra reglugerð um nánari framkvæmd ákvæðisins, m.a. hvaða gögn og vottorð umsækjandi skuli leggja fram, hvaða kröfur skuli gerðar til framlagðra gagna, hver skuli leggja mat á gildi skjala og um undanþágu frá kröfu um gögn.

Í 10. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017, með síðari breytingum, hefur ráðherra útfært nánar reglur um fylgigögn með umsókn um dvalarleyfi. Í 1. mgr. 10. gr. segir að Útlendingastofnun geti krafist þeirra gagna sem nauðsynleg eru við vinnslu umsóknar, m.a. fæðingarvottorðs, hjúskaparstöðuvottorðs, forsjár- eða umgengnisgagna, heilbrigðisvottorðs, dánarvottorðs, og staðfestingu á dvalarstað hér landi. Þá geti stofnunin krafist ljósmynda, greinargerða, gagna um framfærslu og sakavottorðs í þeim tilvikum sem stofnunin meti það nauðsynlegt. Í 3. mgr. 10. gr. segir m.a. að umsækjandi afli sjálfur nauðsynlegra fylgigagna með dvalarleyfisumsókn. Þá skuli fylgigögn vera á því formi sem stofnunin geri kröfu um og staðfest með þeim hætti sem stofnunin telji nauðsynlegan. Í 5. mgr. 10. gr. er m.a. kveðið á um að Útlendingastofnun geti veitt undanþágu frá framlagningu gagna þegar lög krefjist ekki framlagningar og málefnalegar ástæður mæli með því, t.d. ef umsækjanda er ómögulegt að afla þeirra, svo sem vegna stríðsástands í heimaríki.

Eins og fram er komið lagði kærandi fram umsókn þann 3. apríl 2023 um dvalarleyfi vegna náms en áður hafði kærandi verið með slíkt dvalarleyfi frá 20. október 2022. Í bréfi Útlendingastofnunar, dags. 23. maí 2023, var kæranda bent á að nokkuð skorti á að hann hefði lagt fram fullnægjandi gögn með umsókn sinni. Í þessu sambandi kom fram að kærandi hefði ekki lagt fram gögn til sönnunar á getu hans til þess að framfæra sér, svo sem með upplýsingum um innistæðu á bankareikningi. Hygðist kærandi starfa hér á landi skorti að kærandi hefði lagt fram ráðningarsamning og umsókn um atvinnuleyfi. Þá var bent á að kærandi hefði ekki lagt fram staðfestingu menntastofnunar um inngöngu og fullt nám, ásamt námsferilsyfirliti. Samkvæmt gögnum málsins lagði kærandi fram ráðningarsamning, og umsókn um atvinnuleyfi 5. júní 2023, en samkvæmt tölvubréfi Útlendingastofnunar, dags. 16. júní 2023, voru gögnin ófullnægjandi að því leyti að áætlað starfshlutfall kæranda væri hærra en honum væri heimilt. Í kjölfarið mun kærandi hafa átt frekari samskipti við Útlendingastofnun og er meðal annars skráð í dagbók stofnunarinnar að lagt hafi verið fram atvinnuleyfi vegna vinnu.

Með hinni kærðu ákvörðun, dags. 25. október 2023, var kæranda síðan synjað um veitingu dvalarleyfis vegna náms. Í ákvörðuninni eru samskipti stofnunarinnar við kæranda rakin á þann hátt að fram hafi komið af hálfu stofnunarinnar að fylgigögn umsóknarinnar væru ófullnægjandi, honum hafi verið leiðbeint þar að lútandi en hann ekki lagt fram fullnægjandi gögn. Í niðurstöðukafla ákvörðunarinnar eru rakin ákvæði 52. gr. laga um útlendinga og 10. gr. reglugerðar um útlendinga. Umrædd ákvæði lúta að því að það sé Útlendingastofnun sem taki ákvörðun um veitingu dvalarleyfis og geti krafist nauðsynlegra gagna til að sýnt sé fram á að skilyrði dvalarleyfis séu uppfyllt. Þá sé það umsækjanda að afla fullnægjandi gagna í samræmi við kröfur Útlendingastofnunar. Þá kemur fram í hinni kærðu ákvörðun að þau gögn sem Útlendingastofnun hafi óskað eftir hafi ekki borist stofnuninni og því séu fylgigögn umsóknarinnar ófullnægjandi. Verði ákvörðun í málinu því að byggja á grundvelli fyrirliggjandi gagna.

Í íslenskum stjórnsýslurétti gildir sú meginregla að ákvarðanir stjórnvalda verða að vera efnislega svo ákveðnar og skýrar að aðilar máls geti skilið hana og metið réttarstöðu sína. Með vísan til þess að í hinni kærðu ákvörðun voru ekki veittar leiðbeiningar um heimild til að fá hana rökstudda verður að ganga út frá að framangreindu efni hinnar kærðu ákvörðunar hafi ætlað að vera rökstuðningur hennar í skilningi 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Er þar meðal annars mælt fyrir um að í rökstuðningi skuli vísað til þeirra réttarreglna sem ákvörðun stjórnvalds er byggð á. Að því marki sem ákvörðun byggist á mati, skal í rökstuðningi greina frá þeim meginsjónarmiðum sem voru ráðandi við matið. Þar sem ástæða er til skal í rökstuðningi rekja í stuttu máli upplýsingar um þau málsatvik sem höfðu verulega þýðingu við úrlausn málsins.

Eins og mál þetta liggur fyrir verður að líta svo á að nokkuð hafi skort á að farið væri eftir umræddum reglum íslenskum stjórnsýsluréttar þegar hin kærða ákvörðun var tekin. Hvergi í hinni kærðu ákvörðun kemur fram hvaða gögn það eru sem skorti á að kærandi legði fram til stuðnings umsóknar sinnar um dvalarleyfi. Var ákvörðunin að þessu leyti ekki nægjanlega skýr til að kærandi gæti metið réttarstöðu sína og var hin kærða ákvörðun að þessu leyti ekki í samræmi við skýrleikareglu stjórnsýsluréttar. Þrátt fyrir að tekið væri fram í hinni kærðu ákvörðun að ákvörðun í málinu yrði tekin á grundvelli fyrirliggjandi gagna var síðan hvergi fjallað um þau efnisskilyrði veitingu dvalarleyfis vegna náms sem kærandi uppfyllti ekki með vísan til umræddra gagna. Skorti því á að fylgt væri ákvæðum stjórnsýslulaga um efni rökstuðnings.

Vegna þessara annmarka á hinni kærðu ákvörðun er torvelt fyrir hvoru tveggja kæranda og kærunefndina að taka afstöðu til lögmæti hennar og hvaða gögn Útlendingastofnun taldi að skort hefði á að kærandi legði fram með umsókn sinni. Þá hefur kærandi nú lagt fram nýjan ráðningarsamning og umsókn um atvinnuleyfi, sem er ekki háður þeim annmörkum sem Útlendingastofnun benti kæranda á með tölvubréfi, dags. 16. júní 2023, sé tekið mið af b-lið 19. gr. laga nr. 56/2023 um breytingu á lögum um útlendinga sem öðluðust gildi 7. júlí 2023. Við meðferð málsins hjá kærunefnd lagði kærandi fram inngöngubréf í fullt meistaranám í jarðfræði við Háskóla Íslands eða 30 einingar á misseri. Þá lagði kærandi einnig fram námsferilsyfirlit, dags. 17. nóvember 2023. 

Í ljósi þeirra annmarka sem voru á hinni kærðu ákvörðun og að nú liggja fyrir gögn í máli kæranda sem áhrif geta haft á niðurstöðu máls hans, er það mat kærunefndar að nauðsynlegt sé að mál kæranda hljóti nýja meðferð hjá Útlendingastofnun þar sem lagt sé mat á þau gögn sem nú hafa verið lögð fram.

Að framangreindu virtu er ákvörðun Útlendingastofnunar felld úr gildi og lagt fyrir stofnunina að taka mál kæranda til nýrrar meðferðar.

 

Úrskurðarorð:

Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi.

Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka mál kæranda til meðferðar á ný.

 

The decision of the Directorate of Immigration is vacated.

The Directorate is instructed to reexamine the appellants‘case.

 

Valgerður María Sigurðardóttir

Gunnar Páll Baldvinsson                                                                                             Sandra Hlíf Ocares


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum