Hoppa yfir valmynd
Kærunefnd útlendingamála

Nr. 177/2023 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Hinn 30. mars 2023 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 177/2023

í stjórnsýslumáli nr. KNU23030022

 

Beiðni [...] um endurupptöku

 

I.          Málsatvik

Með úrskurði kærunefndar útlendingamála nr. 397/2022, dags. 11. október 2022, staðfesti nefndin ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 14. júlí 2022, um að synja einstaklingi er kveðst heita [...], vera fæddur [...] og vera ríkisborgara Sómalíu (hér eftir nefndur kærandi), um alþjóðlega vernd og dvalarleyfi á Íslandi. Niðurstaða kærunefndar var birt kæranda 11. október 2022.

Hinn 6. mars 2023 barst kærunefnd beiðni kæranda um endurupptöku á úrskurði kærunefndar frá 11. október 2022.

Beiðni kæranda um endurupptöku máls hans byggir á 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Aðalkrafa kæranda er að málið verði endurupptekið hjá kærunefnd útlendingamála og að honum verði veitt alþjóðleg vernd hér á landi.

Til vara gerir kærandi kröfu um að málið verði endurupptekið hjá kærunefnd útlendingamála og honum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga eða á grundvelli 78. gr. sömu laga.

II.         Málsástæður og rök kærenda

Í beiðni kæranda um endurupptöku eru spurningar kærunefndar til kæranda, dags. 15. september 2022, og svör hans frá 28. september 2022 við þeim spurningum rakin. Vísað er til þess að í úrskurði kærunefndar frá 11. október 2022 hafi nefndin talið skýringar kæranda til kærunefndar við því af hverju hann teldi sig í hættu af hálfu Al-Shabaab ekki tengjast spurningum nefndarinnar þar að lútandi. Kærandi mótmælir framangreindu mati kærunefndar. Kærandi vekur athygli á því að honum hafi ekki boðist aðstoð túlks þegar hann hafi skýrt frá máli sínu 28. september 2022. Þá vekur kærandi einnig athygli á því að efnismeðferðarviðtal við hann hjá Útlendingastofnun hafi farið fram í tvennu lagi og verið tekið af tveimur fulltrúum stofnunarinnar. Þá hafi símatúlkurinn ekki verið sá sami. Kærandi hafi greint talsmanni sínum frá því að honum hafi þótt erfitt að greina frá fortíð sinni. Kærandi hafi búist við því að þráðurinn í síðara viðtalinu yrði tekinn upp þar sem fyrra viðtalinu hafi lokið. Kærandi telur að með þessu fyrirkomulagi hafi ekki komist til skila samfelld frásögn af fortíð hans. Með vísan til framangreinds byggir kærandi á því að meginreglan um milliliðalausa málsmeðferð og rannsóknarregla 10. gr. stjórnsýslulaga hafi ekki verið virtar við meðferð máls hans hjá Útlendingastofnun og því beri að ógilda ákvörðun stofnunarinnar.

Beiðni kæranda um endurupptöku er aðallega reist á þeim grundvelli að úrskurður kærunefndar hafi byggst á ófullnægjandi og röngum upplýsingum um málsatvik. Þá er beiðnin jafnframt byggð á því að annmarkar hafi verið á málsmeðferð stjórnvalda við ákvarðanatöku og því jafngildi leiðréttingar kæranda nýjum upplýsingum í skilningi 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga.

Þá er beiðni kæranda einnig byggð á nýjum upplýsingum um öryggisástand í Sómalíu vegna árása Al-Shabaab, einkum skýrslu frá Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna frá 16. febrúar sl. Kærandi vísar til þess að í skýrslunni sé greint frá áhyggjum Öryggisráðsins af auknum árásum Al-Shabaab sem skaði óbreytta borgara og hafi margar þeirra alvarlegustu átt sér stað í Mógadisjú. Kærandi byggir á því að framangreind skýrsla Öryggisráðsins feli í sér nýjar upplýsingar um öryggisástandið í Mógadisjú sem beri að leggja til grundvallar í stað þeirra sem byggt er á í forsendum úrskurðarins. Þá gerir kærandi athugasemd við það að kærunefnd hafi byggt á dómum Mannréttindadómstóls Evrópu frá árunum 2014 og 2016 við mat sitt á því hvort aðstæður hann gætu fallið undir 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Þá vísar kærandi til fréttar af Shabelle Media Network frá 22. janúar 2023 þar sem greint sé frá skotárásum Al-Shabaab á markaðinn Bakara þar sem kærandi hafi starfað.

Í ljósi þess að kærandi hafi aðeins reynslu af því að vinna á markaði sé líklegra en ekki að hann muni fara aftur í þess konar starf snúi hann aftur til Mógadisjú. Kærandi telur að honum stafi meiri ógn af Al-Shabaab en öðrum borgurum heimaríkis þar sem hann hafi setið undir hótunum þeirra í um það bil þrjú ár og jafnframt verið rænt og beittur ofbeldi af þeirra hálfu. Kærandi sé ómenntaður og eigi ekkert bakland í heimaríki nema bróður sem sé einnig að flýja Al-Shabaab og því geti kærandi ekki fengið stuðning frá honum.

Að lokum byggir kærandi á því að andlegri heilsu hans hafi hrakað á síðustu misserum og hafi hann þurft að leita á bráðamóttöku geðsviðs. Kærandi vísar til þess að nú standi yfir frekari gagnaöflun um heilsufar hans og telur hann að þær upplýsingar muni leiða til þess að grundvöllur málsins muni breytast verulega. Með vísan til framangreinds telur kærandi að skilyrði 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga séu uppfyllt með vísan til félagslegra aðstæðna hans og heilsufars hans.

III.       Niðurstaða kærunefndar útlendingamála varðandi beiðni um endurupptöku

Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga á aðili máls rétt á því að mál sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Með úrskurði nr. 397/2022, dags. 11. október 2022, komst kærunefnd að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfyllti hvorki skilyrði 1. né 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga og því ætti hann ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga. Þá var það mat kærunefndar að aðstæður kæranda í heimaríki væru ekki með þeim hætti að veita bæri kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 74. gr. laga um útlendinga.

Kærandi byggir beiðni um endurupptöku málsins í fyrsta lagi á því að þar sem viðtöl við hann hjá Útlendingastofnun hafi verið framkvæmd af sitthvorum fulltrúanum og sitthvorum símatúlknum hafi frásögn hans ekki skilað sér með samfelldum hætti. Þá hafi kæranda ekki boðist túlkaþjónusta þegar hann hafi svarað spurningum kærunefndar.

Kærunefnd hefur farið yfir öll gögn málsins er lúta að viðtölum við kæranda. Verður ekki betur séð en að almennt hafi kærandi skilið sómalska túlkun þar sem hann veitti alla jafna viðeigandi svör við spurningum fulltrúa Útlendingastofnunar. Af endurritum viðtala við kæranda hjá Útlendingastofnun má sjá að við upphaf þeirra hafi kærandi verið spurður að því hvort hann skildi túlkinn sem hafi túlkað á sómölsku. Þá hafi kæranda einnig verið kynntar þær leiðbeiningar að láta fulltrúann vita ef hann skildi ekki túlkinn almennilega. Þá naut kærandi aðstoðar löglærðra talsmanna á báðum stjórnsýslustigum sem hvor um sig lagði fram greinargerð til stjórnvalda fyrir hans hönd. Samkvæmt framangreindu hafði kærandi tækifæri til að koma á framfæri ítarlegri og samfelldari frásögn en hann greindi frá í viðtölum hjá Útlendingastofnun teldi hann ástæðu til þess.

Hvað varðar málsástæðu kæranda um að hafa ekki notið aðstoðar túlks þegar hann hafi svaraði spurningum kærunefndar, þá tekur kærunefnd fram að ákvæði laga um útlendinga leggja ekki þá skyldu á kærunefnd að útvega talsmönnum kærenda túlkaþjónustu við almennar fyrirspurnir nefndarinnar en talsmenn geta aðstoðað kærendur við að útvega túlkaþjónustu telji þeir ástæðu til. Hefur slíkur kostnaður í einhverjum tilvikum verið greiddur af Útlendingastofnun. Þá verður ekki betur séð af svörum kæranda en að hann hafi skilið spurningar nefndarinnar vel og svarað í samræmi við þær. Er því ekki fallist á að úrskurður kærunefndar hafi byggt á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik.

Þá er beiðni kæranda einnig byggð á nýjum upplýsingum um öryggisástand í Sómalíu vegna árása Al-Shabaab, einkum skýrslu frá Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna frá 16. febrúar sl. Kærandi byggir á því að framangreind skýrsla feli í sér nýjar upplýsingar um öryggisástandið í Mógadisjú sem beri að leggja til grundvallar í stað þeirra sem byggt er á í forsendum úrskurðarins. Í úrskurði kærunefndar frá 11. október 2022 var fjallað um aðstæður í Mógadisjú. Fram kemur að í Mógadisjú sé ríkisstjórn Sómalíu við völd og sé sómalska lögreglan virk og sýnilega í borginni. Var vísað til dóma Mannréttindadómstóls Evrópu frá febrúar 2014 og og febrúar 2016 varðandi mat á aðstæðum í Mógadisjú þess efnis að almennt öryggisástand hefði farið batnandi á þeim árum frá því að stjórnvöld hefðu náð yfirráðum yfir borginni árið 2011. Var það mat kærunefndar að þau gögn sem kærunefnd hefði farið yfir við meðferð málsins, þau nýjustu frá febrúar og mars 2022, bentu ekki til þess að aðstæður í Mógadisjú hefðu breyst til hins verra frá þeim tíma að dómarnir hefðu verið kveðnir upp eða væru slíkar að kærandi myndi eiga á hættu meðferð sem bryti gegn 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Að mati kærunefndar gefa upplýsingar og heimildir um aðstæður í Mógadisjú sem kærunefnd hefur kynnt sér, þar á meðal hin tilvísaða skýrsla Öryggisráðsins frá 16. febrúar 2023, ekki til kynna að aðstæður í borginni hafi breyst verulega síðan kærunefnd úrskurðaði í máli kæranda þann 11. október 2022.

Þá byggir kærandi beiðni sína á því að félagslegar aðstæður hans muni verða erfiðara snúi hann aftur til heimaríkis þar sem hann sé ómenntaður og eigi ekki bakland þar. Kærandi er rúmlega fertugur karlmaður. Verður af gögnum málsins ekki annað ráðið en að kærandi sé almennt líkamlega heilsuhraustur og vinnufær.

Kærandi byggir einnig beiðni sína á því að andlegri heilsu hans hafi hrakað undanfarið. Með beiðninni lagði kærandi fram afrit af bréfi læknis á bráðadeild Geðdeildar Landspítalans, dags. 13. febrúar 2023, þar sem fram kemur að hann eigi tíma daginn eftir á bráðamóttöku geðsviðs á Landspítalanum. Í beiðni kæranda sem dagsett er 6. mars 2023 kemur fram að það standi yfir gagnaöflun um heilsufar hans. Kærandi telur að uppfærðar heilsufarsupplýsingar muni leiða til þess að grundvöllur málsins muni breytast verulega. Þar sem engin frekari gögn höfðu borist kærunefnd sendi nefndin 21. mars 2023 tölvubréf til talsmanns kæranda og gaf kæranda færi á að leggja fram frekari gögn. Sama dag barst barst kærunefnd svar frá talsmanni kæranda þar sem fram kom að hann væri að bíða eftir gögnum sem ættu að berast á næstu dögum.

Engin gögn bárust kærunefnd um andlegt heilsufar kæranda. Samkvæmt framangreindu er því óljóst hvort kærandi glími við andleg veikindi og ef svo er, hvers eðlis þau eru.

Í þeim gögnum sem kærunefnd hefur tekið til skoðunar er varða heilbrigðisþjónustu í Sómalíu, m.a. skýrslu breska innanríkisráðuneytisins Country Background Note: Somalia, frá desember 2020, er ljóst að geðheilbrigðisþjónusta hafi mætt afgangi í heimaríki kæranda og að fordómar ríki í garð einstaklinga með geðraskanir. Þrátt fyrir það þá kemur fram í þeim gögnum sem kærunefnd hefur tekið til skoðunar um heimaríki kæranda að íbúum Mógadisjú standi til boða geðheilbrigðisþjónusta. Er það jafnframt mat kærunefndar að framlögð gögn beri ekki með sér að kærandi glími við skyndilegan eða lífshættulegan sjúkdóm sem meðferð er við hér á landi en ekki í heimaríki hans. Þá verður ekki ráðið af gögnum málsins að kærandi sæki meðferð hér á landi sem sé læknisfræðilega óforsvaranlegt að rjúfa.

Að teknu tilliti til framangreinds er það mat kærunefndar að atvik í máli kæranda hafi ekki breyst verulega frá því að úrskurður kærunefndar frá 11. október 2022 var kveðinn upp þannig að taka beri mál hans upp að nýju á grundvelli 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Þá er ekkert sem bendir til þess að niðurstaða í máli kæranda hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik. Með vísan til alls framangreinds er beiðni kæranda um endurupptöku málsins hafnað.

 

Úrskurðarorð:

 

Kröfu kæranda um endurupptöku er hafnað.

The request of the appellant to re-examine his case is denied.

Tómas Hrafn Sveinsson

Þorbjörg I. Jónsdóttir                                                            Sindri M. Stephensen


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum