Hoppa yfir valmynd
Kærunefnd útlendingamála

Nr. 214/2024 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 29. febrúar 2024 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 214/2024

í stjórnsýslumáli nr. KNU23120115

 

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

I.       Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Hinn 26. desember 2023 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari Indlands (hér eftir kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 31. október 2023, um að synja henni um vegabréfsáritun til Íslands.

Af kæru má ráða að kærandi krefjist þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og fallist verði á beiðni hennar um vegabréfsáritun til Íslands.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 og barst kæran fyrir lok kærufrests.

Lagagrundvöllur

Í máli þessu gilda einkum ákvæði laga um útlendinga, reglugerð um útlendinga nr. 540/2017, ásamt síðari breytingum, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, reglugerð um vegabréfsáritanir nr. 795/2022, með síðari breytingum, Schengen-samningurinn og verklagsreglur þess samnings.

II.        Málsatvik og málsmeðferð

Með umsókn, dags. 13. október 2023, óskaði kærandi eftir vegabréfsáritun til Íslands og Schengen-svæðisins fyrir níu daga dvöl frá 12. til 20. nóvember 2023. Umsókn kæranda var synjað með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 31. október 2023. Kærandi kveðst hafa móttekið ákvörðun Útlendingastofnunar 4. nóvember 2023. Með tölvubréfi, dags. 15. nóvember 2023, óskaði kærandi eftir rökstuðningi fyrir ákvörðun Útlendingastofnunar, sbr. 1. mgr. 21. gr. stjórnsýslulaga. Með tölvubréfi Útlendingastofnunar, dags. 11. desember 2023, var kæranda afhent bréf sem innihélt rökstuðning fyrir ákvörðun stofnunarinnar. Með tölvubréfi, dags. 26. desember 2023, barst kærunefnd kæra frá kæranda ásamt greinargerð og fylgigögnum. Með hliðsjón af 3. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga var kæra móttekin innan kærufrests sem veittur er, sbr. 7. gr. laga um útlendinga. Með tölvubréfum, dags. 29. desember 2023 og 5. janúar 2024, lagði kærandi fram frekari gögn og skýringar vegna málsins.

III.    Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð vísar kærandi til umsóknar sinnar og þeirrar synjunarástæðu sem ákvörðun Útlendingastofnunar byggist á. Kærandi telji ákvörðun Útlendingastofnunar efnislega ranga og óskar þess að kærunefnd felli hina kærðu ákvörðun úr gildi. Raknar eru skýringar Útlendingastofnunar í rökstuðningsbréfi, dags. 11. desember 2023, og málsástæður sem kærandi telji hrinda mati stofnunarinnar. Hvað skattskýrslur varðar er vísað til indversks skattaréttar og kveðst kærandi ekki bera skyldu til þess að telja til skatts þar sem tekjur hennar séu undir þröskuldum sem framtalsskyldan nær til. Í því samhengi bendir kærandi á að fulltrúi VFS global hafi ekki gert athugasemdir við þetta þegar umsókn hennar var lögð fram. Eins vísar kærandi til þess að bankayfirlit hennar hafi verið lögð fram og að skattskýrslur séu viðbótargögn við mat á framfærslufé, en að eigið fé hennar sé nægilegt auk þess sem frænka hennar, sem er áætlaður ferðafélagi muni standa straum af útgjöldum kæranda vegna fyrirhugaðrar ferðar.

Hvað áreiðanleika fylgigagna kæranda varðar hafnar kærandi því að bankayfirlit hennar kunni að vera óáreiðanleg. Vísað er til þess að gögnin hafi verið útbúin af viðeigandi bönkum og undirrituð og stimpluð í viðeigandi útibúum. Kærandi hafi óskað eftir því við útibússtjóra umræddra banka að bankayfirlit hennar verði send með beinum hætti til kærunefndar. Hvað trúðverðugleika um tilgang umsóknar varðar bendir kærandi á að frænka hennar sé [...] ríkisborgari og hin meintu tengsl við [...] eigi sér ekki stoð í raunveruleikanum. Kærandi standi við upplýsingar sem fram koma í kynningarbréfi hennar þess efnis að hún eigi enga aðstandendur í Evrópu. Þá hafnar kærandi því að flug- og ferðaáætlun hennar sé ótrúverðug og telur tíu borgir í níu löndum í níu daga ferð hvorki vera ómögulega né óvenjulega og vísar til mismunandi ferðaáætlana sem ferðaskrifstofur bjóða upp á í heimaríki kæranda.

Loks vísar kærandi til þess að hún og ferðafélagi hennar vilji sjá norðurljósin, Gullfoss og Geysi og fara Gullna hringinn. Kærandi og ferðafélagi hennar ætli sér að taka bílaleigubíl við komu á Keflavíkurflugvelli að kvöldi, og fara samstundis á útsýnisstaði í kringum Reykjavík í leit að norðurljósum. Morguninn eftir hafi þær hug á því að fara Gullna hringinn áður en þær fljúgi til Amsterdam síðdegis sama dag.

Meðal fylgigagna sem lögð voru fram á kærustigi eru flugáætlun, bankayfirlit kæranda, ásamt gögnum um ferðafélaga kæranda.

IV.    Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 1. mgr. 20. gr. laga um útlendinga þurfa útlendingar að hafa vegabréfsáritun til að koma hingað til lands, nema annað sé ákveðið í reglum sem ráðherra setur. Ríkisborgarar Indlands þurfa vegabréfsáritun til Íslands, sbr. viðauka 8 við reglugerð um vegabréfsáritanir. Í 6. mgr. 20. gr. laga um útlendinga koma fram skilyrði til útgáfu vegabréfsáritunar og í 33. gr. reglugerðar um vegabréfsáritanir er tilgreint hvenær synja skuli um vegabréfsáritun. Heimilt er samkvæmt fyrrgreindri 6. mgr. 20. gr. að veita útlendingi vegabréfsáritun sem gildir á öllu Schengen-svæðinu ef grunnskilyrðum a - h liða sömu greinar er fullnægt.

Samkvæmt 7. mgr. 20. gr. laga um útlendinga skal vegabréfsáritun ekki veitt ef ástæða er til að vefengja uppgefinn tilgang ferðar útlendings hingað til lands eða réttmæti upplýsinga sem hann hefur veitt. Er þessi regla áréttuð í 8. mgr. ákvæðisins en þar kemur fram að við mat á umsókn um vegabréfsáritun skuli, auk þjóðernis, taka tillit til félagslegrar stöðu og hættu á að útlendingur dvelji lengur á Schengen-svæðinu en honum er heimilt. Með aðild að Schengen-samstarfinu tókust íslensk stjórnvöld á hendur skyldu til að fylgja samræmdum reglum um útgáfu vegabréfsáritana. Hafa stjórnvöld sem annast afgreiðslu umsókna um vegabréfsáritanir mótað tilteknar verklagsreglur til að styðjast við, byggðar á efnisreglum Schengen-samningsins. Í athugasemdum með frumvarpi til laga um útlendinga kemur fram að við mat á einstökum atriðum sé nauðsynlegt að taka tillit til reynslu og framkvæmdar annarra Schengen-ríkja. Leiði það af eðli samstarfsins að mikilvægt sé að samræmis sé gætt á þessu sviði svo sömu skilyrði gildi um vegabréfsáritanir á Schengen-svæðinu.

Samkvæmt 33. gr. reglugerðar um vegabréfsáritanir skal með fyrirvara um 1. mgr. 25. gr. reglugerðarinnar synjað um vegabréfsáritun í tilteknum tilvikum. Meðal þeirra tilvika sem tilgreind eru í ákvæðinu er ef umsækjandi getur ekki fært rök fyrir tilgangi eða skilyrðum fyrirhugaðrar dvalar sinnar, sbr. ii.-lið a-liðar ákvæðisins, eða ef rökstudd ástæða sé til að draga í efa að fylgiskjöl, sem umsækjandi leggur fram, séu ósvikin eða að innihald þeirra sé rétt, eða áreiðanleika framburðar umsækjanda eða ásetning hans til að yfirgefa yfirráðasvæði aðildarríkjanna áður en vegabréfsáritunin sem sótt er um rennur út, sbr. b-lið ákvæðisins.

Synjunarform Útlendingastofnunar er staðlað form sem öll þátttökuríki Schengen-samstarfsins notast við. Í forminu er hægt að merkja við reiti á bilinu 1-17, þ.e. ástæður þess að umsóknum sé synjað. Í ákvörðun kæranda er merkt í reiti 2, 10, og 12 vegna synjunar á umsókn, þ.e. að ekki voru færð rök fyrir tilgangi og skilyrðum fyrirhugaðrar dvalar, upplýsingar um tilgang og skilyrði fyrirhugaðrar dvalar voru óáreiðanlegar, auk þess sem rökstudd ástæða væri til að draga í efa áreiðanleika fylgiskjala sem lögð voru fram, þ.e. hvort þau væru ósvikin eða sannleiksgildi efnis þeirra. Í ákvörðun kæranda má líka finna frekari athugasemdir, þar sem vísað er til þess að skort hafi skattskýrslur, bankayfirlit hafi verið óáreiðanleg og raunverulegur efi um ferðaáætlun. Uppfyllti kærandi þar með ekki skilyrði 20. gr. laga um útlendinga sem og 33. gr. reglugerðar um vegabréfsáritanir.

Með vísan til 21. gr. stjórnsýslulaga var kæranda jafnframt leiðbeint um að hún gæti óskað eftir skriflegum rökstuðningi innan 14 daga frá tilkynningu ákvörðunar. Með tölvubréfi kæranda til Útlendingastofnuar, dags. 15. nóvember 2023, óskaði hún eftir skriflegum rökstuðningi. Í bréfi stofnunarinnar, dags. 11. desember 2023, eru færð rök fyrir ákvörðun stofnunarinnar og þau heimfærð á synjunarástæður sem tilgreindar eru í ákvörðuninni. Hvað tilgang og skilyrði dvalar varðar kemur fram að kærandi hafi ekki lagt fram skattskýrslur frá heimaríki en á gátlista er tekið fram að umsækjum ber að leggja fram skattskýrslur sem hafa að geyma framtalsupplýsingar síðustu tveggja ára. Varðandi áreiðanleika fylgiskjala kemur fram að bankayfirlit kæranda hafi verið metið óáreiðanlegt af fulltrúa sendiráðsins, sem hafi þjálfun í mati á indverskum bankayfirlitum. N.t.t. voru atriði í skjalinu sem bentu til fölsunar. Hvað trúverðugleika umsóknar og tilgang ferðar varðar kemur fram að í athugasemdum þjónustuaðila kvaðst umsækjandi vera að ferðast með dóttur sinni, sem búi í [...], en í kynningarbréfi hennar hafi komið fram að hún þekki engan í Evrópu. Loks hafi flugáætlun kæranda verið dregin í efa þar sem hún hafi ætlað að lenda á Íslandi 12. nóvember, kl. 23:55, yfirgefa landið degi síðar, 13. nóvember, kl. 14:25, eftir að hafa gist eina nótt á hóteli í Reykjavík. Samkvæmt ferðaáætlun hafi kærandi ætlað að ferðast til sjö landa og gista aðeins í eina nótt á hverjum stað.

Meðferð umsóknar kæranda fór fram hjá íslenska sendiráðinu í Nýju Delí, sbr. 10. mgr. 20. gr. laga um útlendinga. Þyki skilyrði ekki fyrir hendi til útgáfu áritunar er mál lagt fyrir Útlendingastofnun til ákvörðunar.

Kærunefnd hefur nú yfirfarið hina kærðu ákvörðun og rökstuðning Útlendingastofnunar og metið málatilbúnað kæranda. Hvað ferðaáætlun kæranda varðar hyggst kærandi samkvæmt áætluninni lenda á Keflavíkurflugvelli um miðnætti og yfirgefa landið rúmum 14 klukkutímum síðar. Innan þess tíma ætli kærandi sér að sjá norðurljósin, ferðast um Gullna hringinn, gista nótt á hóteli, og verja nauðsynlegum tíma í ferðalög, vegabréfaeftirlit, innritun á flugvelli, og eftir atvikum tollskoðun og umsýslu með farangur. Að lokinni dvöl á Íslandi ætli kærandi sér að ferðast til tíu borga í átta löndum á sjö dögum. Kærandi hafi lagt fram ferðaáætlanir tiltekinna ferðaskrifstofa máli sínu til stuðnings og telur ekkert athugavert við ferðaáætlun sína í ljósi þess. Ferðaáætlun kæranda á margt sammerkt með hinum framlögðu ferðaáætlunum en ferðin til Íslands er þó frávik frá þeim. Í rökstuðningi Útlendingastofnunar er einkum fundið að ferðaáætlun kæranda varðandi dvöl hennar á Íslandi. Kærunefnd hefur yfirfarið ferðaáætlun kæranda og telur fyrirhugaða dvöl hennar á Íslandi vera ótrúverðuga, einkum í ljósi áætlana hennar innan afar skamms dvalartíma. Tekur nefndin því undir mat Útlendingastofnunar hvað þann þátt málsins varðar.

Hin kærða ákvörðun grundvallast á fjórum forsendum og heimfærir Útlendingastofnun þær undir þrjár synjunarástæður samkvæmt stöðluðu synjunarformi en hver og ein forsenda telst nægjanleg til þess að synja kæranda um veitingu vegabréfsáritunar. Með vísan til þess að kærunefnd hefur fallist á mat Útlendingsastofnunar hvað varðar ferðaáætlun kæranda og að hún teljist ótrúverðug er þegar að þeirri ástæðu ekki tilefni til að fjalla um aðra þætti málsins.

Að öllu framangreindu virtu tekur kærunefnd undir það mat Útlendingastofnunar að ekki hafi verið færð rök fyrir tilgangi og skilyrðum fyrirhugaðrar dvalar sbr. ii-lið a-liðar 1. mgr. 33. gr. reglugerðar um vegabréfsáritanir. Hafi þannig verið ástæða til að vefengja uppgefinn tilgang ferðar kæranda hingað til lands, sbr. 7. mgr. 20. gr. laga um útlendinga. Verður hin kærða ákvörðun um að synja kæranda um vegabréfsáritun til landsins því staðfest.

Loks bendir kærunefnd á að kærandi geti sótt um vegabréfsáritun að nýju, telji hún sig uppfylla skilyrði fyrir útgáfu vegabréfsáritunar.

Athugasemdir við ákvörðun Útlendingastofnunar

Kærunefnd beinir því til Útlendingastofnunar að gæta að lögbundnum málshraða er varðar rökstuðning fyrir stjórnvaldsákvörðunum, sbr. 3. mgr. 21. gr. stjórnsýslulaga.

 

Úrskurðarorð:

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

 

Fyrir hönd kærunefndar útlendingamála,

 

Valgerður María Sigurðardóttir, varaformaður


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum