Hoppa yfir valmynd
Kærunefnd útlendingamála

Nr. 124/2024 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 14. febrúar 2024 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 124/2024

í stjórnsýslumáli nr. KNU23110026

 

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I.          Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Hinn 3. nóvember 2023 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari Marokkó ( hér eftir kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 20. október 2023, um að synja umsókn hennar um dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar, sbr. 70. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

Af kæru kæranda má ráða að hún krefjist þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að henni verði veitt umbeðið dvalarleyfi.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

Lagagrundvöllur

Í máli þessu koma einkum til skoðunar ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016 ásamt síðari breytingum, reglugerð um útlendinga nr. 540/2017 ásamt síðari breytingum, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, ákvæði laga um landamæri nr. 136/2022, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, sbr. lög nr. 33/1944, mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994 auk annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

II.            Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi hefur aldrei haft dvalarleyfi hér á landi. Samkvæmt gögnum málsins gekk hún í hjúskap með [...], ríkisborgara [...] (hér eftir maki kæranda) 13. september 2022, en maki kæranda er með dvalarleyfi hér á landi fyrir foreldra, sbr. 72. gr. laga um útlendinga. Kærandi sótti um dvalarleyfi á grundvelli hjúskaparins 3. febrúar 2023. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 20. október 2023, var umsókn kæranda synjað með vísan til 1. mgr. 69. gr. laga um útlendinga þar sem að lagaákvæðið heimilar ekki fjölskyldusameiningu við einstaklinga sem dveljast hér á landi á grundvelli 72. gr. laga um útlendinga. Ákvörðun Útlendingastofnunar var móttekin af kæranda 26. október 2023. Hinn 3. nóvember 2023 kærði kærandi ákvörðunina til kærunefndar útlendingamála. Kæranda var veittur frestur til 17. nóvember 2023 til að leggja fram greinargerð, en greinargerð var ekki lögð fram vegna málsins.

Með tölvubréfi, dags. 31. janúar 2024, óskaði kærunefnd eftir upplýsingum frá Útlendingastofnun um hvort niðurstaða lægi fyrir varðandi umsókn maka kæranda um ótímabundið dvalarleyfi. Samkvæmt upplýsingum Útlendingastofnunar, dags. 1. febrúar 2024, var umsókn maka kæranda um ótímabundið dvalarleyfi móttekin 5. september 2023. Við uppkvaðningu úrskurðar þessa hefur stofnunin tekið til vinnslu umsóknir um ótímabundin dvalarleyfi sem mótteknar voru í júlí 2023 og er niðurstaða umsóknar maka kæranda því ekki fyrirliggjandi að svo stöddu.

III.       Málsástæður og rök kæranda

Kærandi lagði ekki fram sérstaka greinargerð vegna málsins. Í kæru vísaði hún til þess að maki hennar hafi sótt um ótímabundið dvalarleyfi 5. september 2023 og hafi hún því kært ákvörðun Útlendingastofnunar vegna málsins.

IV.       Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Fjallað er um dvalarleyfi vegna fjölskyldusameiningar í 1. mgr. 69. gr. laga um útlendinga. Þar kemur fram að nánasti aðstandandi íslensks eða annars norræns ríkisborgara sem er með fasta búsetu hér á landi eða útlendings sem dvelst hér á landi á grundvelli dvalarleyfis skv. 61.-65., 70., 73., 74. og 78. gr. eða ótímabundins dvalarleyfis skv. 58. gr. getur með umsókn fengið dvalarleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar að fullnægðum skilyrðum 55. gr. og VIII. kafla. Hið sama gildir um nánasta aðstandanda bresks ríkisborgara sem hefur dvalarleyfi á grundvelli ákvæðis til bráðabirgða XI. Til nánustu aðstandenda teljast maki, sambúðarmaki, börn viðkomandi yngri en 18 ára í forsjá hans og á framfæri og foreldrar 67 ára eða eldri. Sama gildir um maka, sambúðarmaka og börn þeirra sem stunda framhaldsnám á háskólastigi, doktorsnám og rannsóknir hér á landi á grundvelli 65. gr.

Samkvæmt gögnum málsins er maki kæranda handhafi dvalarleyfis fyrir foreldra, sbr. 72. gr. laga um útlendinga en leyfið veitir ekki heimild til fjölskyldusameiningar, sbr. 1. mgr. 69. gr. sömu laga. Þá mæla önnur ákvæði laga um útlendinga ekki fyrir um undanþágu frá framangreindu í tilviki hjúskaparmaka. Með hliðsjón af framangreindu getur kærandi ekki byggt rétt sinn til fjölskyldusameiningar á dvalarleyfi maka síns.

Að framangreindu virtu verður ákvörðun Útlendingastofnunar, um að synja umsókn kæranda um dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 69. gr. laga um útlendinga, staðfest.

Í kæru vísar kærandi til þess að maki sinn hafi sótt um ótímabundið dvalarleyfi, sbr. 58. gr. laga um útlendinga, 5. september 2023. Samkvæmt upplýsingum Útlendingastofnunar hefur umsóknin ekki verið tekin til efnislegrar vinnslu en við uppkvaðningu úrskurðar þessa hefur stofnunin hafið vinnslu umsókna sem voru mótteknar í júlí 2023. Ótímabundið dvalarleyfi getur verið grundvöllur fjölskyldusameiningar, sbr. 1. mgr. 69. gr. laga um útlendinga. Er kæranda því leiðbeint um að hún geti sótt um dvalarleyfi vegna hjúskapar að nýju fái maki hennar útgefið ótímabundið dvalarleyfi. Með þessum leiðbeiningum hefur kærunefnd þó ekki tekið afstöðu til þess hvort kærandi uppfylli önnur skilyrði fyrir útgáfu dvalarleyfis, sbr. einkum 70. gr. laga um útlendinga.

Úrskurðarorð:

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

 

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

 

Valgerður María Sigurðardóttir

Gunnar Páll Baldvinsson                                                                                             Sandra Hlíf Ocares


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum