Hoppa yfir valmynd
Kærunefnd útlendingamála

Nr. 144/2024 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 14. febrúar 2024 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 144/2024

í stjórnsýslumáli nr. KNU23110060

 

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I.          Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Hinn 13. nóvember 2023 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari Singapúr ( hér eftir kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 3. nóvember 2023, um að synja umsókn hennar um dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið, sbr. 78. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

Af kæru kæranda má ráða að hún krefjist þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að henni verði veitt dvalarleyfi á Íslandi á grundvelli sérstakra tengsla við landið.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

Lagagrundvöllur

Í máli þessu koma einkum til skoðunar ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016 ásamt síðari breytingum, reglugerð um útlendinga nr. 540/2017 ásamt síðari breytingum, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, ákvæði laga um landamæri nr. 136/2022, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, sbr. lög nr. 33/1944, mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994 auk annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

II.            Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi hefur aldrei haft dvalarleyfi hér á landi. Hinn 31. mars 2023 lagði kærandi fram umsókn um dvalarleyfi hér á landi á grundvelli sérstakra tengsla við landið. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 3. nóvember 2023, var umsókn kæranda synjað. Í ákvörðuninni kemur fram að eftir heildarmat á aðstæðum kæranda hafi hún að mati stofnunarinnar ekki sýnt fram á að hún uppfylli skilyrði dvalarleyfis á grundvelli sérstakra tengsla við landið. Var það mat stofnunarinnar að ekki væri séð að aðstæður kæranda væru með þeim hætti að það væri bersýnilega ósanngjarnt að veita henni ekki dvalarleyfi hér á landi á grundvelli sérstakra tengsla, m.t.t. framfærslu og umönnunarsjónarmiða. Hafi umsókn hennar því verið synjað.

Ákvörðun Útlendingastofnunar var móttekin af kæranda 7. nóvember 2023. Kærandi kærði ákvörðunina með tölvubréfi til Útlendingastofnunar, dags. 8. nóvember 2023. Með tölvubréfi, dags. 13. nóvember 2023, framsendi stofnunin stjórnsýslukæru til kærunefndar útlendingamála, til samræmis við 2. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga.

III.       Málsástæður og rök kæranda

Kærandi lagði ekki fram sérstaka greinargerð vegna málsins. Í stjórnsýslukæru, dags. 8. nóvember 2023, kemur fram að kærandi sé ósammála hinni kærðu ákvörðun. Meginástæða umsóknar kæranda byggist á leiðbeiningum Útlendingastofnunar í ljósi þess að kærandi geti ekki fengið dvalarleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar vegna aldurs síns, sbr. 2. mgr. 72. gr. laga um útlendinga. Dvalargrundvöllur og tengsl kæranda er sameining við dóttur og barnabarn sem dveljast á Íslandi og telur kærandi það næga ástæðu fyrir sérstökum tengslum við Ísland. Kærandi vilji sinna umönnun barnabarns síns þar sem aðrir ættingjar þess á Íslandi hafi hvorki vilja né getu til þess að aðstoða barnið. Það komi ekki til greina fyrir dóttur umsækjanda að segja upp starfi sínu til þess að annast barnauppeldi. Loks bendir kærandi á að tengsl sín við heimaríki eigi ekki að hafa áhrif á tengsl hennar við Ísland, þar sem hún ætli sér ekki að setjast varanlega að hér á landi. Hún vilji eingöngu verja tíma með barnabarni sínu þar til hún nái aldri til þess að sjá um sig sjálfa, eða að önnur lausn verði fundin hennar vegna. Kærandi geti áfram viðhaldið samböndum sem hún hefur við heimaríki með fjarskiptum. Í ljósi þess bendir kærandi á að hún óski eingöngu eftir dvalarleyfi til eins árs, en ekki til framtíðar.

IV.       Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 1. mgr. 78. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi dvalarleyfi á grundvelli þess að hann teljist hafa sérstök tengsl við landið, að fullnægðum skilyrðum 1. og 2. mgr. 55. gr. laganna, sé hann eldri en 18 ára og falli ekki undir ákvæði um önnur dvalarleyfi samkvæmt lögum þessum eða fullnægi ekki skilyrðum þeirra. Í 2. mgr. 78. gr. sömu laga kemur fram að til sérstakra tengsla geti m.a. talist tengsl sem útlendingur hefur stofnað til meðan á dvöl hans hér á landi hefur staðið samkvæmt útgefnu dvalarleyfi sem verður ekki endurnýjað eða hefur verið afturkallað vegna breyttra aðstæðna eða annarra atvika. Í 3. mgr. 78. gr. er kveðið á um að heildstætt mat skuli fara fram á tengslum umsækjanda við landið. Við það mat skuli að jafnaði horft til lengdar lögmætrar dvalar. Jafnframt sé heimilt að líta til fjölskyldutengsla, þ.e. fjölskyldusamsetningar umsækjanda með tilliti til umönnunarsjónarmiða, sbr. a-lið 3. mgr. 78. gr. laga um útlendinga, og félagslegra og menningarlegra tengsla við landið á grundvelli atvinnuþátttöku eða annarra sambærilegra tengsla, sbr. b-lið 3. mgr. 78. gr. laganna. 

Fyrir liggur að kærandi hefur aldrei haft dvalarleyfi hér á landi og hefur því ekki myndað tengsl við landið í lögmætri dvöl á grundvelli dvalarleyfis. Þrátt fyrir að útlendingur hafi ekki dvalist hér á landi getur hann í undantekningartilvikum talist hafa sérstök tengsl við landið þegar heildstætt mat á aðstæðum hans leiðir til þess, t.d. ef rík umönnunarsjónarmið eru til staðar og bersýnilega væri ósanngjarnt að veita umsækjanda ekki dvalarleyfi á grundvelli þeirra, sbr. 4. mgr. 78. gr. laga um útlendinga. Þetta getur t.d. átt við þegar einstaklingur er einn eftir án fjölskyldumeðlima í heimaríki og þarfnast umönnunar og aðstoðar fjölskyldumeðlima sem búa hér á landi. Samkvæmt 9. mgr. 78. gr. laga um útlendinga getur ráðherra sett reglugerð um nánari skilyrði fyrir veitingu dvalarleyfis samkvæmt 78. gr., m.a. hvenær geti komið til beitingar undantekningarreglu 4. mgr. ákvæðisins. 

Í 20. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017, með síðari breytingum, hefur ráðherra útfært við hvaða aðstæður getur komið til veitingar dvalarleyfis á grundvelli sérstakra tengsla þegar umsækjandi hefur ekki búið á Íslandi. Kemur þar fram að útgáfa slíks dvalarleyfis sé heimil eigi umsækjandi uppkomið barn eða foreldri sem búi á Íslandi og sé íslenskur ríkisborgari eða hafi ótímabundið dvalarleyfi eða dvalarleyfi sem geti myndað grundvöll fyrir ótímabundið dvalarleyfi. Umsækjandi þurfi að sýna fram á að hann hafi verið á framfæri þessa aðstandanda í að minnsta kosti ár og að fjölskyldu- og félagsleg tengsl hans við heimaríki séu slík að bersýnilega ósanngjarnt væri að veita honum ekki dvalarleyfi hér á landi. Þá kemur fram að umönnunarsjónarmið önnur en framfærsla þurfi að jafnaði að mæla með veitingu dvalarleyfis. 

Dvalarleyfisumsókn kæranda grundvallast einkum á fjölskyldutengslum og umönnunarsjónarmiðum en hún kveðst eiga dóttur, tengdason og barnabarn hér á landi. Þá hafi barnabarnið þörf fyrir umönnun en ekki komi til greina fyrir dóttur umsækjanda að hætta að stunda atvinnu. Var því talið heppilegra að kærandi myndi óska eftir dvalarleyfi til þess að aðstoða barnið. Samkvæmt gögnum málsins er ljóst að barnabarn kæranda er á 11. aldursári og stundar því grunnskólanám og hefur aðgengi að íþrótta- og tómstundastarfi, og frístundastarfi eftir atvikum. Þá er ekkert í gögnum málsins sem bendir til þess að félags- eða heilsufarsástæður barnabarns kæranda séu með þeim hætti að hún þurfi á sérstakri aðstoð að halda. Gögn málsins benda ekki til annars en að kærandi eigi sterk tengsl við heimaríki, þar sem hún á m.a. maka, tvo syni, tengdadóttur, tvö barnabörn og aðra ættingja og vini. Gögn málsins bera ekki með sér að kærandi hafi notið framfærslu aðstandenda sinna á Íslandi, né að hún hafi þörf fyrir slíka framfærslu. Umönnunarsjónarmiðum, öðrum en þeim sem kærandi vísar til varðandi aðstoð við uppeldi barnabarns síns, er heldur ekki til að dreifa í málinu.

Þá benda gögn málsins ekki til þess að fyrir hendi séu slík félagsleg-, menningarleg- eða önnur sambærileg tengsl að veita beri kæranda dvalarleyfi á grundvelli 78. gr. laga um útlendinga. Þvert á móti hefur kærandi sterk tengsl við heimaríki sitt, einkum m.t.t. fjölskylduaðstæðna og fyrri búsetu. Að öllu framangreindu virtu er það mat kærunefndar að aðstæður kæranda séu ekki slíkar að bersýnilega ósanngjarnt væri að veita henni ekki dvalarleyfi hér á landi, sbr. 4. mgr. 78. gr. laga um útlendinga, sbr. og 20. gr. reglugerðar um útlendinga. Verður hin kærða ákvörðun Útlendingastofnunar því staðfest.

Úrskurðarorð:

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

Valgerður María Sigurðardóttir

Gunnar Páll Baldvinsson                                                                                             Sandra Hlíf Ocares


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum