Hoppa yfir valmynd
%C3%9Arskur%C3%B0arnefnd%20velfer%C3%B0arm%C3%A1la%20-%20Atvinnuleysistryggingar%20og%20vinnumarka%C3%B0sa%C3%B0ger%C3%B0ir

Mál nr. 440/2021 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 440/2021

Fimmtudaginn 2. desember 2021

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 30. ágúst 2021, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 19. ágúst 2021, um að fella niður bótarétt hans í tvo mánuði.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um greiðslur atvinnuleysisbóta hjá Vinnumálastofnun í febrúar 2020 og var umsóknin samþykkt þann 27. apríl sama ár. Þann 28. júlí 2021 fékk kærandi tölvupóst og smáskilaboð frá Vinnumálastofnun þar sem hann var boðaður í símaviðtal sem fara átti fram daginn eftir. Tekið var fram að ef ekki næðist í atvinnuleitanda þá teldist hann ekki í virkri atvinnuleit og að það gæti haft þær afleiðingar að greiðslur bóta yrðu felldar niður. Kærandi svaraði ekki þegar hringt var í hann á áður boðuðum tíma. Með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 12. ágúst 2021, var óskað eftir skriflegri afstöðu kæranda vegna þessa. Skýringar bárust frá kæranda þann 12. og 17. ágúst 2021. Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 19. ágúst 2021, var kæranda tilkynnt að bótaréttur hans væri felldur niður í tvo mánuði á grundvelli 1. mgr. 58. gr. laga nr. 54/2006. 

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála þann 30. ágúst 2021. Með bréfi, dags. 1. september 2021, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst með bréfi, dags. 16. september 2021. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 20. september 2021, var greinargerð Vinnumálastofnunar send kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust ekki.

 

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að hann hafi átt bókað símaviðtal hjá Vinnumálastofnun en hann hafi ekki fengið nein símtöl. Hann hafi verið á ferðalagi um Norðurland. Kærandi hafi ekki vitað ástæðu þess að hann hafi ekki fengið símtal og því farið á skrifstofu Vinnumálastofnunar og spurt hvers vegna hann hafi ekki fengið símtal. Kærandi hafi orðið hissa þegar honum hafi verið tjáð að Vinnumálastofnun hafi reynt að ná á hann en hann hafi ekki svarað. Vinnumálastofnun hafi fellt niður bótarétt kæranda í tvo mánuði en eftir það hafi hann komist að því að það hafi verið vandamál með símkortið hans, kærandi hafi ekki náð símasambandi til þess að hringja eða komast á internetið. Þá hafi það einnig tekið langan tíma að tengjast rafrænum skilríkjum. Kærandi hafi haft samband við Nova vegna málsins. Nú eigi kærandi engan pening til að lifa og ef hann greiði ekki leigu þennan mánuðinn muni leigusali hans segja upp leigusamningi hans. Kærandi óski því eftir aðstoð úrskurðarnefndar velferðarmála.

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að þann 28. júlí 2021 hafi kærandi fengið tilkynningu frá ráðgjafa Vinnumálastofnunar sem send hafi verið með tölvupósti á netfang kæranda. Smáskilaboð hafi einnig verið sent í símanúmer kæranda. Kæranda hafi verið tilkynnt að þann 29. júlí 2021 milli klukkan 9 og 16 ætti kærandi von á símtali frá ráðgjafa stofnunarinnar. Vinnumálastofnun hafi einnig bent kæranda á að ef ekki myndi nást í hann þá myndi hann ekki teljast í virkri atvinnuleit sem leitt gæti til þess að greiðslur bóta myndu falla niður. Þann 29. júlí 2021 hafi ráðgjafi stofnunarinnar hringt í kæranda fjórum sinnum en kærandi hafi ekki svarað í síma. Þá hafi einnig verið reynt að ná í kæranda þann 30. júlí 2021, án árangurs, og ljóst hafi verið að símanúmer kæranda hafi ekki verið virkt.

Þann 8. ágúst 2021 hafi kærandi sent tölvupóst til stofnunarinnar og vísað til þess að hann hafi ekki hafa fengið símtal frá stofnuninni og hafi óskað eftir að fá annan símafund við stofnunina. Með erindi, dags. 12. ágúst 2021, hafi kæranda verið tilkynnt að afgreiðslu umsóknar hans um greiðslu atvinnuleysistrygginga hefði verið frestað. Kæranda hafi verið tjáð að þar sem hann hafi ekki svarað símtölum stofnunarinnar væri óljóst hvort hann teldist vera í virkri atvinnuleit í skilningi laga nr. 54/2006. Þá hafi verið óskað eftir skriflegri afstöðu kæranda um hvers vegna hann hafi ekki svarað í síma. Þann sama dag hafi kærandi mætt á þjónustuskrifstofu stofnunarinnar í Keflavík þar sem hann hafi sagst ekki hafa fengið neitt símtal frá stofnuninni. Kærandi hafi fengið annan símafund í Reykjavík þann 16. ágúst 2021, klukkan 9. Þá hafi honum einnig verið tjáð að ítrekað hefði verið reynt að ná í hann en hann ekki svarað.

Þann 17. ágúst 2021 hafi Vinnumálastofnun borist skýringar frá kæranda. Í skýringum kæranda komi fram að hann hafi ekki fengið neitt símtal frá stofnuninni. Þá segi kærandi meðal annars; „I was in trip in the north east Iceland because nice weather i missed sun and warm, I was driving in off-road and comping taking pics and sleep in the tente and in this areas the single of GSM is weak and sometimes is available.“

Með erindi, dags. 19. ágúst 2021, hafi kæranda verið tilkynnt að þar sem ekki hafi tekist að ná í hann vegna umrædds símaviðtals, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir, hafi bótaréttur hans verið felldur niður í tvo mánuði. Ákvörðunin hafi verið tekin á grundvelli 1. mgr. 58. gr. laga nr. 54/2006. Skýringar kæranda hafi ekki verið metnar gildar. Þann 30. ágúst 2021 hafi kærandi sent inn ný gögn til stofnunarinnar sem hann hafði fengið frá fjarskiptafyrirtækinu Nova þann 9. ágúst 2021. Þar komi fram: „I can see that there is no signal or internet on the number. Try to change the phone if doesn‘t work so you have to come any branch nova get new SIM card.“ Þann 2. september 2021 hafi fyrri ákvörðun stofnunarinnar frá 19. ágúst 2021 verið staðfest, enda hafi sú ákvörðun að geyma efnislega rétta niðurstöðu, þrátt fyrir að ný gögn í máli kæranda hafi borist.

Lög nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna og sjálfstætt starfandi einstaklinga þegar þeir verði atvinnulausir. Mál þetta lúti að ákvörðun Vinnumálastofnunar um að stöðva greiðslur atvinnuleysistrygginga til kæranda þar sem hann hafi ekki svarað símanum þegar ráðgjafi Vinnumálastofnunar hafði samband við kæranda.

Samkvæmt a-lið 13. gr. og g-lið 1. mgr. 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé eitt af skilyrðum fyrir atvinnuleysistryggingum launamanna að viðkomandi sé virkur í atvinnuleit og í því felist meðal annars að hafa vilja og getu til að taka þátt í þeim vinnumarkaðsaðgerðum sem standi til boða. Í 13. gr. laga nr. 55/2006 um vinnumarkaðsúrræði komi einnig fram skylda þess sem teljist tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar til að taka þátt í vinnumarkaðsúrræðum og mæta í viðtöl hjá ráðgjöfum Vinnumálastofnunar. Ákvæðið sé svohljóðandi:

,,Atvinnuleitandi skal fylgja eftir áætlun um atvinnuleit og þátttöku í viðeigandi vinnumarkaðsúrræðum skv. 11. gr. og gera það sem í hans valdi stendur til að bæta vinnufærni sína til þess að verða virkur þátttakandi á vinnumarkaði. Þar á meðal skal atvinnuleitandi ávallt mæta í viðtöl til ráðgjafa Vinnumálastofnunar skv. 14. gr. og taka þátt í þeim vinnumarkaðsúrræðum er standa honum til boða. Atvinnuleitandi skal jafnframt tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunna að verða á vinnufærni hans eða aðstæðum að öðru leyti án ástæðulausrar tafar.“

Í 1. mgr. 58. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar segi svo:

„Sá sem hafnar þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum, sbr. lög um vinnumarkaðsaðgerðir, samkvæmt ákvörðun Vinnumálastofnunar eftir að hafa verið í atvinnuleit í a.m.k. fjórar vikur frá móttöku Vinnumálastofnunar á umsókn um atvinnuleysisbætur skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila, sbr. þó 4. mgr. Hið sama gildir þegar hinn tryggði mætir ekki til Vinnumálastofnunar á áður boðuðum tíma skv. 6. mgr. 9. gr., 3. mgr. 13.gr. eða 3. mgr. 18. gr.“

Í 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar komi skýrt fram að hafni einstaklingur þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum skuli hann sæta tveggja mánaða biðtíma eftir atvinnuleysisbótum. Hið sama gildi þegar hinn tryggði mæti ekki til Vinnumálastofnunar á áður boðuðum tíma.

Það liggi fyrir að kærandi hafi ekki svarað í síma þegar Vinnumálastofnun hafi haft samband við hann. Af framangreindri málsatvikalýsingu sé ljóst að einkar erfiðlega hafi gengið að ná sambandi við kæranda í gegnum síma. Ráðgjafi stofnunarinnar hafi þó leitað margra leiða til að ná sambandi við kæranda. Skýringar kæranda hafi ekki verið metnar gildar, einkum í ljósi þess að ráðgjafi stofnunarinnar hafi hringt í það símanúmer sem kærandi hafi gefið upp ásamt því að kærandi hafi verið látinn vita með smáskilaboðum og tölvupósti að hann ætti von á símtali frá ráðgjafa milli klukkan 9 og 16 þann 29. júlí 2021.

Þá liggi fyrir að kærandi hafi ekki tekið þátt í viðtali hjá ráðgjafa Vinnumálastofnunar þann 29. júlí 2021 en honum hafi verið send boðun í viðtal með tölvupósti og í uppgefið símanúmer hans þann 28. júlí 2021, klukkan 8:44. Í skýringum til Vinnumálastofnunar og í kæru til úrskurðarnefndarinnar komi fram að hann hafi ekki fengið símhringingu vegna boðunarinnar og að hann hafi mögulega verið á stað þar sem ekkert símasamband hafi verið. Þá komi fram í upplýsingum frá fjarskiptafyrirtækinu Nova frá 9. ágúst 2021 að ekkert símasamband né netsamband sé á síma hans og hafi honum verið bent á að skipta um síma eða fá nýtt simkort hjá fyrirtækinu.

Vinnumálastofnun bendi á að í umsókn sinni um atvinnuleysisbætur þann 9. febrúar 2020 hafi kæranda borið að skrá inn bæði netfang og símanúmer svo að stofnuninni væri unnt að senda honum nauðsynlegar upplýsingar vegna umsóknar hans, þar með talið boðanir á fundi og viðtöl á vegum stofnunarinnar. Boðun vegna símaviðtals við ráðgjafa stofnunarinnar hafi verið send á skráð netfang og símanúmer kæranda hjá stofnuninni þann 28. júlí 2021, klukkan 8:44. Þá hafi kærandi einnig getað nálgast umrædda boðun á „Mínum síðum“ Vinnumálastofnunar.

Hvað athugasemdir kæranda um boðun á fund stofnunarinnar varði skuli í fyrsta lagi nefna að umrædd boðun hafi bæði verið send á netfang, birt á „Mínum síðum“ og send í síma kæranda. Í öðru lagi beri að nefna að kærandi hafi óskað eftir rafrænum samskiptum við Vinnumálastofnun. Kæranda ætti því að vera ljóst að rétt skráning á netfangi og símanúmeri sé nauðsynleg til að stofnunin geti komið mikilvægum upplýsingum til skila. Eðli máls samkvæmt sé auk þess mikilvægt að sími kæranda sé í símasambandi og að símanúmer kæranda sé ekki ótengt/óvirkt svo dögum skipti.

Í samræmi við 6. mgr. 9. gr. laga hafi Vinnumálastofnun óskað eftir afstöðu atvinnuleitanda til samskiptamáta við stofnunina. Þegar atvinnuleitendur óski eftir rafrænum samskiptum við stofnunina hafi Vinnumálastofnun komið upplýsingum og boðum til þeirra atvinnuleitenda með tölvupósti, smáskilaboðum og tilkynningu á „Mínum síðum“. Það sé mat Vinnumálastofnunar að kærandi geti ekki borið fyrir sig að hann hafi ekki vitað af umræddu símaviðtali eða borið fyrir sig að sími hans hafi ekki verið í símasambandi eða símanúmer hans verið óvirkt, enda hafi ítrekað verið reynt að ná í kæranda, auk þess hafi stofnunin nýtt sér þær samskiptaleiðir sem kærandi hafði óskað eftir.

Þá sé í 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar fjallað um það þegar umsækjandi láti hjá líða að veita upplýsingar eða láti hjá hjá líða að tilkynna breytingar á högum sínum. Þar segi í 1. mgr. ákvæðisins:

„Sá sem lætur hjá líða að veita nauðsynlegar upplýsingar skv. 14. gr. eða um annað það sem kann að haa áhrif á rétt hans samkvæmt lögum þessum skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila, sbr. þó 4. mgr. Hið sama á við þegar hinn tryggði hefur látið hjá líða að tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunna að verða á högum hans á því tímabili sem hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum eða annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögum þessum, sbr. 3. mgr. 9. gr. og 2. mgr. 14. gr. Skal honum jafnframt verða gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur skv. 39. gr.“

Samkvæmt framangreindu beri kæranda skylda til að veita stofnuninni fullnægjandi upplýsingar, þar með talið að skráðar séu réttar upplýsingar um netfang og símanúmer umsækjanda, enda annars örðugleikum bundið að boða atvinnuleitanda á fundi, í viðtöl eða önnur úrræði á vegum stofnunarinnar.

Í ljósi þess að rík skylda hvíli á umsækjendum um atvinnuleysisbætur til þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum og að tilkynna Vinnumálastofnun um allar þær breytingar sem verði á högum þeirra, sé það mat Vinnumálastofnunar að skýringar þær sem kærandi hafi fært fram teljist ekki gildar í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar og að með því að svara ekki símtölum frá stofnuninni hafi hann brugðist skyldum sínum samkvæmt 58. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar. Það sé því niðurstaða Vinnumálastofnunar að kærandi skuli sæta viðurlögum á grundvelli 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Með vísan til framangreindra sjónarmiða sé það afstaða Vinnumálastofnunar að kærandi skuli sæta biðtíma eftir greiðslum atvinnuleysisbóta á grundvelli 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar um að fella niður bótarétt kæranda í tvo mánuði á grundvelli 1. mgr. 58. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

Í 58. gr. laga nr. 54/2006 er kveðið á um viðurlög við því ef þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum er hafnað. Segir þar í 1. mgr. að sá sem hafnar þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum, sbr. lög um vinnumarkaðsaðgerðir, samkvæmt ákvörðun Vinnumálastofnunar eftir að hafa verið í atvinnuleit í að minnsta kosti fjórar vikur frá móttöku Vinnumálastofnunar á umsókn um atvinnuleysisbætur, skuli ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta samkvæmt VII. kafla laganna fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila. Hið sama gildir þegar hinn tryggði mætir ekki til Vinnumálastofnunar á áður boðuðum tíma samkvæmt 6. mgr. 9. gr., nú 7. mgr. 9. gr.,  3. mgr. 13. gr. eða 3. mgr. 18. gr. laganna.

Í athugasemdum greinargerðar við frumvarp það er varð að lögum nr. 134/2009, um breytingu á lögum nr. 54/2006, segir meðal annars um viðurlög við að virða ekki boðun Vinnumálastofnunar:

„Í ljósi þess að mikilvægt er að Vinnumálastofnun geti haldið reglulegu sambandi við þá sem fá greiddar atvinnuleysisbætur, ekki síst til að geta fylgst með gangi atvinnuleitar og hvort stofnunin þurfi að koma að frekari stuðningi við viðkomandi, er lagt til að það kunni að varða viðurlögum á grundvelli laganna í þeim tilvikum er atvinnuleitendur virða ekki boðun stofnunarinnar skv. 1. gr. frumvarps þessa. Á þetta ekki síst við þegar fá störf eru í boði og auknar líkur eru á að atvinnuleitin dragist á langinn. Jafnframt er lagt til að sama gildi þegar atvinnuleitendur eru boðaðir til stofnunarinnar í því skyni að kanna hvort sá hinn sami uppfylli enn skilyrði laganna, sbr. 4. og 6. gr. frumvarps þessa. Er því gert ráð fyrir að sömu viðurlög komi til og eiga við þegar þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum er hafnað.“

Í 7. mgr. 9. gr. kemur fram að sá sem telst tryggður á grundvelli laganna skuli eftir að umsókn hans hafi verið samþykkt og á þeim tíma sem hann fái greiddar atvinnuleysisbætur eða sæti biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögunum hafa reglulegt samband við Vinnumálastofnun eftir nánara fyrirkomulagi sem stofnunin ákveði. Þegar Vinnumálastofnun upplýsi umsækjanda um að stofnunin hafi samþykkt umsókn um atvinnuleysisbætur skuli hún jafnframt upplýsa hlutaðeigandi um með hvaða hætti stofnunin muni koma upplýsingum eða öðrum boðum til hans meðan á atvinnuleit hans standi. Komi Vinnumálastofnun upplýsingum eða boðum til umsækjanda með þeim hætti sem stofnunin hafi tiltekið við hlutaðeigandi teljast upplýsingarnar eða boðin hafa borist með sannanlegum hætti.

Þá segir í 3. mgr. 13. gr. laga nr. 54/2006 að Vinnumálastofnun sé heimilt að boða þann tryggða til stofnunarinnar með sannanlegum hætti á þeim tíma sem hann fái greiddar atvinnuleysisbætur eða sæti biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögunum, meðal annars til að kanna hvort breytingar hafi orðið á högum hans sem kunni að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögunum. Hinn tryggði skuli þá vera reiðubúinn að mæta til stofnunarinnar með mjög skömmum fyrirvara.

Í gögnum málsins liggur fyrir að ráðgjafi Vinnumálastofnunar hugðist taka símaviðtal við kæranda þann 29. júlí 2021 og var kæranda tilkynnt um það daginn áður með tölvupósti, smáskilaboðum og tilkynningu á „Mínum síðum“ stofnunarinnar. Tekið var fram að ef ekki næðist í hann teldist hann ekki í virkri atvinnuleit og það gæti haft þær afleiðingar að greiðslur bóta yrðu felldar niður. Kærandi svaraði ekki þegar hringt var í hann og hefur borið því við að síminn hans hafi ekki náð símasambandi á meðan hann hafi verið á ferðalagi um landið og því hafi hann ekki fengið símtal frá stofnuninni.

Í máli þessu liggur fyrir að kærandi var boðaður til Vinnumálastofnunar með sannanlegum hætti, þ.e. með tölvupósti og skilaboðum á „Mínum síðum“. Í 1. mgr. 58. gr. laga nr. 54/2006 kemur skýrt fram að sá sem hafnar þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum skuli sæta viðurlögum á grundvelli ákvæðisins og hið sama gildi þegar hinn tryggði mætir ekki til Vinnumálastofnunar á áður boðuðum tíma. Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála hefur kærandi ekki fært fram viðunandi skýringar sem réttlæta að hann hafi ekki mætt í boðað símaviðtal hjá Vinnumálastofnun.

Að því virtu og með vísan til framangreinds er ákvörðun Vinnumálastofnunar um að fella niður bótarétt kæranda í tvo mánuði á grundvelli 1. mgr. 58. gr. laga nr. 54/2006, staðfest.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 19. ágúst 2021, um að fella niður bótarétt A, í tvo mánuði, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum