Hoppa yfir valmynd
%C3%9Arskur%C3%B0arnefnd%20velfer%C3%B0arm%C3%A1la%20-%20Barnaverndarm%C3%A1l

Mál nr. 536/2019 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 536/2019

Föstudaginn 20. mars 2020

A

gegn

B

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Björn Jóhannesson lögfræðingur og Guðfinna Eydal sálfræðingur.

Með kæru, dags. 16. desember 2019, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála, ákvörðun B dags. 15. október 2019, um að hafa ekki frekari afskipti af og loka máli samkvæmt 1. mgr. 23. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 (bvl.), vegna sonar kæranda, C.

Fjölskyldu- og velferðarráð B fer með málefni barnaverndarnefnda sveitarfélagana beggja.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Drengurinn C er X ára en hann er sonur kæranda og D. Foreldrarnir fara með sameiginlega forsjá drengsins en hann hefur átt lögheimili til skiptis hjá kæranda í X og hjá móður X.

Mál drengsins hófst hjá Fjölskyldu- og velferðarráði B þegar faðir tilkynnti þann X að hann hefði áhyggjur af umsjón og eftirliti með drengnum hjá móður X. Þann X barst tilkynning frá barnaverndaryfirvöldum í Xog í kjölfarið var farið í könnun máls samkvæmt 22. gr. bvl.

Í greinargerð um könnun máls, dags. X, var niðurstaða könnunar sú að þörf væri á áætlun ásamt stuðningsúrræðum fyrir drenginn. Var lögð fram sú tillaga í greinargerð að foreldrar drengsins tæki ákvörðun um búsetu drengsins og vísað til þess að drengnum virðist líða vel í skólanum í X. Á meðan drengurinn búi hjá móður var mælt með uppeldisráðgjöf fyrir móður ásamt aðstoð fyrir drenginn vegna vanlíðan og námsvanda.

Í greinargerð um lokun máls, dags. X, var niðurstaða X að loka málinu þar sem ekki væri þörf á úrræðum barnaverndar í ljósi upplýsinga frá foreldrum um samkomulag þeirra um búsetu drengsins í X.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi mótmælir lokun barnaverndarmáls vegna sonar hans, C, og krefst þess að málið verði tekið upp aftur. Málinu hafi verið lokað 15. október 2019 en kærandi hafi ekki borist tilkynning um lokun máls fyrr en X eftir að hann hafi haft samband við starfsmann barnaverndar.

Kærandi greinir frá ástæðum þess að hann fari fram á að málið verði tekið upp aftur. Vísar hann m.a. til greinargerðar E ráðgjafa barnaverndar þar sem fram komi að á meðan C búi hjá móður sé mælt með uppeldisráðgjöf fyrir móður ásamt því að útvega þurfi drengnum aðstoð vegna vanlíðan og námsvanda. Á meðan greinargerð hafi verið unnin hafi móðir C samþykkt að hann myndi flytja til föður í X fyrir árslok X. Í framhaldi af því virðist sem barnavernd hafi litið svo á að málinu væri lokið. Munnlegt samkomulag við móður hafi verið talið nóg en skrifa hafi átt undir samning áður en drengurinn kæmi. Þann X hafi kæranda borist skilaboð þar sem móðir hafi sagt að hún væri hætt við að senda C út.

Kærandi og móðir drengsins hafi slitið sambúð árið X og síðan þá hafi þau haft sameiginlega forsjá drengsins en hann hafi að mestu búið hjá móður sinni. Kærandi hafi í mörg ár haft áhyggjur af drengnum en það hafi snemma orðið ljóst að ef hann reyndi að ræða við móður hans, sérstaklega seinni árin, þá hafi hún alltaf tekið upp málið við drenginn. Kærandi hafi margreynt að fá móður til þess að halda málunum þeirra á milli en ekki gera þau að áhyggjuefnum fyrir drenginn en eins og fram komi í greinargerð E segi móðir að drengurinn hafi alltaf fengið að ráða og móðir virðist ræða flest mál við drenginn. Kærandi telji að drengurinn hafi ekki þroska til að taka þessar ákvarðanir og að í þessum málum ýti móðir ábyrgð sinni yfir á drenginn. Kæranda sé ljóst að þetta valdi drengnum mikilli togstreitu og vanlíðan.

Varðandi fullyrðingar móður um ítrekuð brot á umgengnissamningi þá hafi kærandi aðeins einu sinni ekki sent drenginn heim samkvæmt samkomulagi. Það hafi verið gert eftir ráðleggingu frá barnavernd í X og lögfræðingi kæranda. Þau hafi viljað meina að kærandi myndi eiga í erfiðleikum með að fá drenginn með sér aftur, sem hafi orðið raunin. Kærandi vilji taka það fram að móðir hafi sagst ætla kaupa flugmiða fyrir drenginn sem hún hafi ekki gert. Það hafi endað með að kærandi hafi keypt miða í góðri trú því hann viti að það sé mikilvægt fyrir drenginn að fá að hitta fjölskyldu sína á Íslandi.

Þau X ár sem kærandi hafi búið í X hafi drengurinn búið tvo vetur hjá honum. Móðir drengsins hafi ekki greitt fyrir neinn flugmiða fyrir drenginn, hvort sem hann búi í X eða á X. Drengurinn hafi að meðaltali ferðast á milli fjórum til fimm sinnum á ári. Í bæði skiptin sem drengurinn hafi búið hjá kæranda og fjölskyldu hans þurfi þau að byrja með að hjálpa honum með mikinn kvíða og ótta við allt og alla en það hafi nánast horfið þegar hann hafi flutt aftur til móður sinnar. Í X þegar drengurinn kom í annað skiptið til að búa hjá þeim, þá hafi þau þurft að hjálpa honum að komast í X og hafi hann verið með mjög neikvæða sjálfsmynd. Þann X hafi kæranda borist tölvupóstur frá heilsugæslu X um að drengurinn væri að X. Drengurinn hafi byrjað að X eftir að hann hafi flutt aftur til móður og hann sé kominn aftur í sama ástandið ef ekki verri.

Drengurinn og móðir hans hafi viljað hafa samkomulagið þannig að hann sé til skiptist eitt og eitt ár á hvorum stað. Drengurinn verði svekktur við kæranda þegar hann vilji ekki gangast við því. Rök kæranda fyrir því sé að það eyðileggi skólagöngu drengsins. Þó svo að skólakerfin séu svipuð í X og á Íslandi sé ekki allt kennt í sömu röð, sem þýði að göt geti komið í þekkingu drengsins. Hann þurfi líka mikla hjálp sem sé erfitt að veita honum þegar hann sé á flakki á milli skóla. Kærandi geti skilið að drengurinn átti sig ekki á þessu og sjái ekki vandamálið en það ætti móðir hans að gera.

Kærandi hafi reynt allt til þess að halda móður drengsins ánægðri til að gera lífið fyrir drenginn auðveldara. Þó að kærandi hafi verið ósáttur við margt hafi hann oftast getað sagt að drengnum líði vel, en það geti hann ekki í dag. Kærandi hafi miklar áhyggjur af drengnum, bæði heimilisaðstæðum og skóla. Móðir drengsins sé skilin og búi ein með X börn þar af X undir X ára. Hún virðist hafa gert elstu börnin að trúnaðarvinum sínum og ræði flest mál við þau, þar á meðal fjármál og fleira. Drengurinn sé góður og ábyrgðarfullur sem hafi mikla samkennd með móður sinni og taki vandamál hennar inná sig. Að mati kæranda eigi þau ekki og þurfi ekki að marka líf hans.

III.  Sjónarmið B

Í greinargerð B kemur fram að það liggi fyrir greinargerð um könnun máls, dags. X, samkvæmt 22. gr. bvl. og 21. gr. reglugerðar um málsmeðferð fyrir barnaverndarnefnd og greinargerð um lokun máls, dags. X. Málsmeðferð sé þar rakin nokkuð ítarlega og vísar ráðið til þeirra gagna til grundvallar ákvörðun sinni.

Í upplýsingum frá föður komi fram að barnaverndarmáli hafi verið lokað þann 15. október 2019 en tilkynning hafi ekki borist honum fyrr en X. Föður hafi verið sent bréf, dags. X, um lokun máls sem hann segist ekki hafa borist sér. Virðist sem að upplýsingar hafi vantað upp á skráningu á heimilisfang hans í X og gæti það verið skýringin. Barnavernd biðjist velvirðingar á þeim mistökum. Hann hafi fengið bréfið í hendur X. Hér beri þó að taka fram að hann hafi verið upplýstur um fyrirhugaða lokun máls í símtali við málastjóra þann X og hann hafi þá ekki verið mótfallinn þeirri ákvörðun.

Tilkynning hafi upphaflega borist í X frá föður samkvæmt 16. gr. bvl. Tilkynning barst einnig frá X barnaverndaryfirvöldum í gegnum Barnaverndarstofu í lok X. Þar komi fram að móðir hafi farið með barnið frá X án þess að faðir hafi gefið fyrir því samþykki. Barnaverndarstofa ítreki þá hlutverk barnaverndarnefndar sem snúi aðeins að því að taka ákvörðun út frá tilkynningunni sjálfri, kanna aðstæður barns og meta þörf á úrræðum. Faðir þurfi að höfða mál hérlendis og geti fengið aðstoð við það hjá dómsmálaráðuneytinu.

Könnun hafi leitt í ljós vanlíðan barns og virtist meginforsenda vera tíðir búferlaflutningar milli X og X. Í greinargerð um könnun máls frá því í X komi fram að þörf sé að veita drengnum stuðning. Fram komi að hluti málsins snúi að forsjárdeilu foreldra sem þau þurfi að taka ákvörðun um búsetu drengsins svo best henti hag og þörfum hans. Fram komi að drengnum líði vel á heimili föður og í X í X. Búi drengurinn á heimili móður sé mælt með uppeldislegri ráðgjöf og stuðning fyrir drenginn vegna vanlíðan og námsvanda.

Þann X hafi verið rætt við föður drengsins um líðan hans. Meðal annars rætt um að barnið lýsi því yfir að hann vilji ekki sjálfur þurfa taka ákvörðun um búsetu en að margt bendi til þess að honum líði betur í X. Þann X hafi móðir komið í viðtal á skrifstofu. Þar hafi verið einnig lögð áhersla á að móðir og faðir þyrftu að leysa úr forsjárdeilum sín á milli og að aðkoma barnaverndar væri fyrst og fremst að vera talsmaður drengsins og stuðla að því að honum líði vel í umhverfi sínu. Þann X komi fram í samtali við móður að drengurinn sé komin í samband við námsráðgjafa í skólanum og að hún ætli að panta tíma fyrir hann hjá sálfræðingi á Heilbrigðisstofnun X. Ítrekað að foreldrar þurfi að sammælast um framtíðarbúsetu drengsins.

Þann X komi fram í samtali við móður að drengurinn muni klára önnina í skólanum og fara svo til X til föður. Starfsmaður ítreki það sjónarmið barnsins að hann vilji ekki þurfa vera í miðjunni á ákvarðanatökum. Það sé ljóst að við lok könnunar og áður en að til áætlunar samkvæmt 23. gr. kom hafi málinu verið lokað enda forsendur breyst og ekki talin rök fyrir áframhaldandi vinnslu barnaverndarmáls. Greinargerð um lokun máls hafi verið lögð fram þann X.

Í málsmeðferð hafi fjölskyldu- og velferðarráð haft meginreglur barnaverndarstarfs að leiðarljósi. Það að almennt skuli beita almennum úrræðum til stuðnings fjölskyldu áður en gripið sé til meira íþyngjandi úrræða. Einnig skuli taka tillit til sjónarmiða og óska barna eftir því sem aldur þeirra og þroski gefi tilefni til.

VI.  Niðurstaða

X er X ára gamall og fara foreldrar hans með sameiginlega forsjá. Kærandi er faðir drengsins. Með hinni kærðu ákvörðun B var ákveðið að loka barnaverndarmáli drengsins í kjölfar könnunar máls.

Kærandi mótmælir lokun málsins og krefst þess að málið verði tekið upp aftur. Kærandi vísar til þess að móðir hafi samþykkt að drengurinn myndi flytja til X og því hafi málinu verið lokað. Kæranda hafi síðan borist skilaboð þann X um að móðir drengsins væri hætt við að senda hann til X.

Samkvæmt 22. gr. bvl. er það markmið könnunar máls að afla nauðsynlegra upplýsinga um aðstæður barns og meta þörf fyrir úrræði samkvæmt ákvæðum bvl., allt í samræmi við hagsmuni og þarfir barns. Í þessu skyni skal barnaverndarnefnd kappkosta að afla sem gleggstra upplýsinga um hagi barns, svo sem andlegt og líkamlegt ásigkomulag, tengsl við foreldra eða aðra, hagi foreldra, aðbúnað á heimili, skólagöngu, hegðun og líðan þess. Leita skal aðstoðar sérfræðinga eftir því sem þörf krefur. Um könnun máls, rannsóknarheimildir barnaverndarnefnda, skyldu til að láta barnaverndarnefndum í té upplýsingar og málsmeðferð fyrir barnaverndarnefnd almennt, gilda ákvæði VIII. kafla bvl.

Í 1. mgr. 41. gr. bvl. kemur fram að barnaverndarnefnd skuli sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því, sbr. einnig rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Með þessu er reynt að tryggja að ákvarðanir nefndanna séu bæði löglegar og byggðar á réttum grunni. Ekki verða settar fram nákvæmar reglur um það hvernig staðið skuli að könnun máls og hverra gagna skuli aflað, enda er það matsatriði og breytilegt eftir eðli máls hverju sinni. Í því sambandi ber þó að gæta að 2. mgr. 41. gr. bvl. þar sem fram kemur að könnun barnaverndarmáls skuli ekki vera umfangsmeiri en nauðsyn krefji og skuli henni hraðað svo sem kostur er. Í þessu felst meðal annars að barnaverndarnefnd skuli ekki ganga lengra í gagnaöflun og könnun máls hverju sinni en nauðsynlegt er. Í þessu felst einnig að ekki séu notaðar harkalegri aðferðir við könnun máls og öflun gagna en efni standa til.

Í 2. gr. bvl. segir að markmið laganna sé að tryggja að börn sem búa við óviðunandi aðstæður eða börn sem stofna heilsu sinni og þroska í hættu fái nauðsynlega aðstoð.

Í málinu liggur fyrir tilkynning frá X til barnaverndar frá kæranda. Þá liggur fyrir tilkynning frá X barnaverndaryfirvöldum frá X og í kjölfarið hófst könnun máls. Við meðferð máls var leitað upplýsinga frá móður, föður, rætt við drenginn og leitað upplýsinga frá skóla drengsins. Var það mat X að þörf væri á stuðningsúrræðum fyrir drenginn og lögð fram sú tillaga að foreldrar drengsins tæku ákvörðun um búsetu drengsins með hagsmuni hans í fyrirrúmi, sbr. greinargerð um könnun máls frá X. Málinu var í kjölfarið lokað vegna samkomulags foreldra um búsetu drengsins í X og því ekki talin þörf á frekari úrræðum barnaverndarnefndar, sbr. greinargerð um lokun máls frá X.

Samkvæmt gögnum málsins hefur staða drengsins og líðan verið með þeim hætti að það kallar á frekari könnun á högum hans og andlegu ástandi óháð búsetu. Þá er einnig til þess að líta að þær forsendur sem lágu að baki lokun málsins samkvæmt greinargerð frá X eru brostnar þar sem móðir drengsins hætti við að senda drenginn til X. Úrskurðarnefndin telur, með vísan til þess sem að framan er rakið, að fyrirliggjandi gögn málsins hafi ekki gefið tilefni til lokunar málsins.

Með vísan til framangreinds er hin kærða ákvörðun felld úr gildi og málinu vísað til B til nýrrar meðferðar.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun B, um að loka máli vegna C, er felld úr gildi og vísað til nýrrar meðferðar.

Kári Gunndórsson

 

                                         Björn Jóhannesson                                                     Guðfinna Eydal                                      

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum