Hoppa yfir valmynd
%C3%9Arskur%C3%B0arnefnd velfer%C3%B0arm%C3%A1la - Barnaverndarm%C3%A1l

Mál nr. 157/2021 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 157/2021

Föstudaginn 27. ágúst 2021

A

gegn

Barnaverndarnefnd B

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Björn Jóhannesson lögfræðingur og Guðfinna Eydal sálfræðingur

Með kæru, dags. 24. mars 2021, kærði C lögmaður, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála úrskurð Barnaverndarnefndar B frá 10. mars 2021 vegna umgengni hennar við dóttur sína, D.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Stúlkan, D, er rúmlega X ára gömul stúlka sem lýtur forsjá Barnaverndarnefndar B. Kærandi er kynmóðir stúlkunnar og var svipt forsjá hennar með dómi Héraðsdóms E þann 6. janúar 2021. Stúlkan er í varanlegu fóstri.

Mál stúlkunnar var tekið fyrir á fundi Barnaverndarnefndar B þann 4. mars 2021. Fyrir fundinn lá fyrir greinargerð starfsmanna barnaverndar, dags. 4. mars 2021. Í greinargerð starfsmanna kemur fram að ekki sé mælt með skipulagðri umgengni stúlkunnar við kæranda. Lagt sé til að stúlkan fái tækifæri til að vinna í sínum málum en óski hún eftir því að hitta kæranda eða ræða við hana í síma verði orðið við því.

Kærandi samþykkti ekki tillögur starfsmanna og var málið því tekið til úrskurðar þann 10. mars 2021. Úrskurðarorð hins kærða úrskurðar er svohljóðandi, auk þess sem þar er bent á kæruheimild til úrskurðarnefndar velferðarmála.

Barnaverndarnefnd B hafnar kröfu A, um umgengni við D sem lítur forsjá barnaverndarnefndar B, um lagaheimild vísast til 4. mgr. 74. gr. sbr. 2. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002“

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála þann 23. mars 2021 og frekari rökstuðning við kæru með bréfi 5. apríl 2021. Með bréfi úrskurðarnefndar velferðarmála, dags. 7. apríl 2021, var óskað eftir greinargerð Barnaverndarnefndar B ásamt gögnum málsins. Greinargerð Barnaverndarnefndar B barst nefndinni þann 8. júlí 2021. Með bréfi úrskurðarnefndar velferðarmála, dags. 12. júlí 2021, var greinargerðin send lögmanni kæranda til kynningar. Frekari athugasemdir bárust ekki.   

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi krefst þess aðallega að hún fái umgengni við D aðra hvora helgi frá föstudegi til sunnudags, en til vara aðra hvora helgi frá laugardegi til sunnudags.

Með dómi Héraðsdóms E þann 6. janúar 2021 var kærandi svipt forsjá dóttur sinnar, D. Í sama máli hafi verið hafnað að svipta hana forsjá yngri dóttur sinnar. Dómkvaddur matsmaður í framangreindu máli taldi að móðir uppfyllti alla viðmiðunarþætti sem horft sé til við mat á forsjárhæfni. Þá taldi matsmaðurinn að kærandi hefði unnið vel í sér og væri mjög meðferðarheldin. Matsmaðurinn tók einnig fram að eldri stúlkan væri í mikilli meðferðarþörf. Stúlkan væri með brotna sjálfsmynd, fyndi fyrir þunglyndi, reiði og óstöðugri líðan. Þá hafi stúlkan litla stjórn á tilfinningum og kunni fá ráð til að upplifa og viðhalda góðri líðan. Ljóst sé að stúlkan þurfi aðstoð við að vinna í sínum málum.

Frá 18. desember 2019 hefur [D] verið vistuð utan heimilis. Á þeim tíma hafi mjög lítil sem engin umgengni farið fram. Hafa barnaverndaryfirvöld á F borið ýmsu við, meðal annars ástandi stúkunnar, að hún þurfi ró og næði og eins að [kærandi] þurfi að mynda sterk tengsl við stúlkuna. Því sé ekki hægt að leggja til umgengni við stúlkuna að sinni.

Frá því að dómur héraðsdóms var kveðinn upp hafi kærandi enga umgengni fengið við stúlkuna né neinar upplýsingar um stöðu stúlkunnar eða hvort barnavernd sé byrjuð að vinna í málum stúlkunnar.

Réttur til umgengni

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. bvl. á barn í fóstri rétt á umgengni við kynforeldra og aðra sem séu því nákomnir. Kynforeldrar eiga með sama hætti rétt á umgengni við barn sitt samkvæmt 2. mgr. sömu lagagreinar, nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins og ósamrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt er að með ráðstöfun þess í fóstur. Við mat á þessu skal meðal annars taka tillit til þess hversu lengi fóstri er ætlað að vara. Samkvæmt 3. mgr. lagagreinarinnar skal taka afstöðu til umgengni barns, sem ráðstafað er í fóstur, við foreldra og aðra nákomna og skal taka mið af því hvað þjóni hagsmunum barnsins best. Samkvæmt 4. mgr. sömu lagagreinar hefur barnaverndarnefnd úrskurðarvald um ágreiningsefni er varða umgengni barns við foreldra og aðra nákomna, hvort sem það varðar rétt til umgengni, umfang umgengnisréttarins eða framkvæmd.

Lögum samkvæmt sé því alveg ljóst að móðir á rétt á umgengni við barn sitt og barnið á rétt á umgengni við móður sína og systur.

Ef neita eigi foreldri um umgengnisrétt með öllu eða ef það á að takmarka umgengnisréttinn verulega, verði barnavernd að sýna fram á með ótvíræðum hætti að það sé nauðsynlegt vegna hagsmuna barnsins. Slíkt hafi ekki verið gert í þessu máli. Það liggja engin gögn fyrir sem sýna að það sé andstætt hagsmunum barnsins að hitta móður sína og systur.

Meðalhóf

Í öllum barnaverndarmálum beri að hafa í huga meðalhófsregluna sem sé að finna í 7. mgr. 4. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 og er svohljóðandi:

„Barnaverndaryfirvöld skulu eftir föngum gæta þess að almenn úrræði til stuðnings fjölskyldu séu reynd áður en gripið er til annarra úrræða. Þau skulu jafnframt ávallt miða við að beitt sé vægustu ráðstöfunum til að ná þeim markmiðum sem að er stefnt. Því aðeins skal gert ráð fyrir íþyngjandi ráðstöfunum að lögmæltum markmiðum verði ekki náð með öðru og vægara móti.“

Það að móðir fái ekki að hitta barn sitt er verulega íþyngjandi ráðstöfun og gengur langt út fyrir allt meðalhóf. Það verði að liggja fyrir greinargóð gögn til að ætla að hafna því með öllu að úrskurða um umgengni, en í þessu máli sé ekki vísað til neinna gagna í úrskurði nefndarinnar. Einungis sé byggt á persónulegu mati starfsmanna.

Sjónarmið fósturforeldra

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. a. laganna, sem fjallar um réttarstöðu fósturforeldra við ákvörðun um umgengni, skal ávallt kanna viðhorf fósturforeldra til umgengni áður en gengið sé frá samningi eða kveðinn upp úrskurður um umgengni. Í 2. mgr. sömu lagagreinar er kveðið á um að fósturforeldrar barns í varanlegu fóstri séu aðilar að máli um umgengni samkvæmt 74. gr. Fósturforeldrar taka þannig þátt í gerð samnings um umgengni, geta óskað breytinga á áður ákvarðaðri umgengni, eru aðilar að úrskurðarmáli og geta skotið úrskurði um umgengni til úrskurðarnefndar velferðarmála.

Ekki sé að sjá í gögnum máls að leitað hafi verið eftir afstöðu fósturforeldra til umgengni barnsins við kæranda.

Sjónarmið barnsins

Afstaða barnsins komi ekki fram í gögnum málsins. Því sé einungis haldið fram að stúlkan hafi ekki viljað fá talsmann og að þá hafi hún ýmist ekki verið í ástandi til að ræða þessi mál eða ekki viljað tjá sig. Engu að síður sé því haldið fram í greinargerð starfsmanna [barnaverndar] að stúlkan hafi oft sýnt eftirlitsaðila meiri athygli en móður og að henni hafi liðið illa í umgengni. Þessu sé hafnað sem röngu.

Það verði að fá óháðan aðila til að afla afstöðu stúlkunnar. Börn skulu njóta réttinda í samræmi við aldur sinn og þorska og taka skuli réttmætt tillit til sjónarmiða þeirra eftir því sem aldur og þroski gefi tilefni til, sbr. 1. og 4. gr. bvl. Stúlkan sé á 16. aldursári og sé vel fær um að tjá sig.

Talsmaður barnsins

Starfsmenn hafi ekki skipað barninu talsmann að því að séð verður. Í 3. mgr. 46. gr. bvl. kemur skýrt fram að þegar barnaverndarnefnd hefur tekið ákvörðun um að hefja könnun máls, skuli hún kanna þörf fyrir að skipa barni talsmann. Að jafnaði skal skipa barni talsmann áður en gripið sé til úrræða samkvæmt 25., 27., 28. og 29. gr. bvl., nema barnið njóti aðstoðar lögmanns. Stúlkan hafi hvorki fengið talsmann né njóti hún aðstoðar lögmanns. Gera verði alvarlegar athugasemdir við þetta.

Hlutverk talsmanns, samkvæmt 31. gr. reglugerðar nr. 56/2004 um málsmeðferð fyrir barnaverndarnefnd, sé að ræða við barnið og koma á framfæri sjónarmiðum þess.

Hagsmunir og þarfir barnsins

Það sé meginregla í barnaverndarstarfi að hagsmunir barns skuli ávallt vera í fyrirrúmi og beita skuli þeim ráðstöfunum sem barni séu fyrir bestu. Við úrlausn þessa máls beri því að líta til þeirrar stöðu sem stúlkan sé í. Það sé gert til að unnt sé að taka ákvörðun um umgengni hennar við kæranda á þann hátt að hún þjóni hagsmunum hennar best, sbr. 3. mgr. 74. gr. bvl.

Í greinargerð með 74. gr. bvl. sé tekið skýrt fram að við ákvörðun um umgengni verði barnaverndarnefnd sem endranær að meta hagsmuni og þarfir barnsins í hverju máli. Í þessu máli sé enginn rökstuðningur af hálfu barnaverndarnefndar um niðurstöðu sína. Verður ekki séð að nefndin hafi metið hagsmuni barnsins, en ljóst má vera að þetta barn eins og flestöll önnur börn hefur hagsmuni af því að þekkja til uppruna síns. Þá ber að hafa í huga að barnið muni ekki einungis hitta móður sína í umgengni, heldur muni hún einnig hitta yngri systur sína sem hún sé mjög tengd.

Réttur foreldris til umgengni við barn sitt sé mjög ríkur. Einungis sé heimilt að hafna umgengni foreldris við barn sitt ef það sé verulega andstætt hagsmunum barnsins, en þá þurfi barnavernd að sýna fram á það með ótvíræðum hætti.

III.  Sjónarmið Barnaverndarnefndar B

Í greinargerð barnaverndarnefndarinnar kemur fram að um sé að ræða stúlku sem sé á X. aldursári sem lúti forsjá Barnaverndarnefndar B eftir að kærandi var svipt forsjá með dómi Héraðsdóms E frá 6. janúar 2021. Barnið sé í varanlegu fóstri. Vandi barnsins sé flókinn og fjölþættur. Mikil vanlíðan sé til staðar sem og sjálfsvígshugsanir og mikil áfallastreita. Barnið upplifir sig sem einskis virði og finnst henni hún ekki verðskulda ást af neinum toga. Nýlega hafi barnið uppgötvað breytta kynvitund sína og vilji gangast undir nafninu G. Barnið upplifir sig hvorki sem strák né stelpu og vill barnið nota fornöfnin hán og hann, þau eða þeir. Þó sé mál hennar ekki komið í neitt ferli hjá H og heitir barnið enn D í þjóðskrá. Til þess að einfalda skrif greinargerðar verði notast við bæði fornöfnin, þ.e. það barnið og hún.

Barnið hafi síðast verið í umgengni við kæranda 27. desember 2020. Síðan þá hafi barnið ekki viljað hitta kæranda. Barnið hafi ítrekað tjáð vilja sinn varðandi samskipti við móður sína við starfsmenn barnaverndar. Það sé mjög skýrt með það að hún treystir sér ekki til þess að hitta hana að svo stöddu. Í viðtali starfsmanna barnaverndar við barnið þann 28. júní 2021 kom fram að hún gæti mögulega hugsað sér að eiga símtal við móður sína ef það sé skipulagt fyrir fram og ef kærandi samþykki að ræða ekki þau málefni sem barninu þykir þungbært að ræða. Hún vill einnig að umræðuefni séu fyrir fram ákveðin. Hún vill ræða þessa hugmynd við meðferðaraðila sína áður en hún tekur endanlega ákvörðun um það hvort hún vilji eiga slík símtöl. Barnavernd hafi lagt ríka áherslu á að ganga ekki gegn vilja barnsins í þessum efnum, enda sé hún á 16. ári og sé aðili að eigin máli. Þar að auki sé alltaf mikilvægt að virða vilja barna og bera virðingu fyrir þeirra tilfinningum í viðkvæmum málum sem þessu. Líðan og staða barnsins sé með þeim hætti að lítið megi út af bera svo að það fari í alvarlegt ástand sem geti haft afdrifaríkar afleiðingar.

Barninu hafi ítrekað verið gefinn kostur á talsmanni en hafi alltaf neitað því boði. Síðast fékk hún boð um að hitta talsmann árið 2018. Hlutverk talsmanns hafi verið útskýrt fyrir því en engu að síður hafi það ekki viljað þiggja að fá talsmann. Hún vilji ræða við meðferðaraðila sinn á H og félagsráðgjafa hjá barnavernd.

Barnið hittir systur sína þegar systirin sé hjá föður sínum í I og séu þær í símasamskiptum. Barnið eigi enga vini sem það hefur viljað halda sambandi við á F að eigin sögn. Hún sé hins vegar í tengslum við fyrrum vistunaraðila sína á F, þau Í og J.

Barnið hafi verið í vistun hjá Í og J um nokkurt skeið áður en hún fór í fóstur. Hún hafi tengst þeim vel og sé sérstaklega mikið tengd Í sem hafi verið henni innan handar. Hún sé hjá þeim eina helgi í mánuði. Rætt hafi verið við Í og J í gegnum síma þann 5. júlí 2021 til þess að fá þeirra upplifun af umgengni barnsins við kæranda þar sem barnið hafi verið í vistun hjá þeim þegar umgengni fór fram. Þau segja frá því að þau upplifi hana hrædda við móður sína. Þau segja hana óörugga, hrædda og reiða í garð móður sinnar og að hún sýni einnig vantraust í garð móður og hreinlega forðist hana. Í lýsti því í símtalinu að í einhver skipti sem barnið hafi verið í vistun hjá þeim og umgengni fór fram, hafi barnið viljað vita nákvæmlega hvar Í væri svo að hún kæmist eins hratt í burtu og það gæti ef eitthvað kæmi upp á. Í segist einnig hafa farið með barninu í umgengi í einhver skipti. Þau segja frá því að þegar móðir hafi komið með gjafir handa barninu í umgengni og annað, hunsi hún alfarið þær gjafir. Þau segja að barnið hafi talað um það við þau að móðir fari alltaf að rífast við barnið þegar samskipti á milli mæðgnanna eiga sér stað. Í og J lýsa því yfir að eftir umgengni barnsins við móður komi fram mikil vanlíðan, mikill grátur og sjálfskaðandi hegðun hjá barninu. Þau hafi tjáð félagsráðgjafa að í sum skipti sem hún hafi verið í umgengni við móður hafi móðuramma barnsins verið í símanum og hafa samskiptin þar á milli verið í þá átt að koma inn sektarkennd hjá barninu. Þá sé ítrekað sagt að þetta sé allt henni að kenna og svo framvegis. Einnig viti þau af því að móðir hafi jafnframt talað við barnið á slíkan hátt. Þau segist upplifa mjög sterkt að barnið vilji ekki vera nema í mjög takmörkuðum samskiptum við móður sína sem og fjölskyldu hennar. Þau láti það í ljós að þau mæla ekki með umgengni barnsins við móður sína því að þau telja og upplifa að hvorki umgengni við móður né samskiptin þeirra á milli hafi verið uppbyggileg.

Stúlkan hafi verið í reglulegri þjónustu á H frá byrjun árs 2020. Hún eigi langa og þekkta áfallasögu og hafi glímt við ágengar sjálfsvígshugsanir og erfiðar tilfinningar en hafi verið í vinnu sem hafi skilað ákveðnum árangri. Í bréfi frá H komi fram að barnið hafi lýst því yfir að henni þykir erfitt að hitta móður sína, en þó komi fram að hún hafi ekki gefið afgerandi niðurstöðu í samtölum við meðferðaraðila sína á H um hvort hún vilji vera í umgengni við hana. Einnig komi fram í því bréfi að hún hefur lýst yfir vanlíðan við það að hitta móður sína, en einnig hefur fósturmóðir lýst því yfir að það hafi ekki góð áhrif á stúlkuna þegar hún hittir móður sína. H bendir þó á að þau séu ekki í stöðu til þess að taka afstöðu til umgengni. H geti hins vegar mælt með að afstaða stúlkunnar sé höfð að leiðarljósi þegar ákvörðun er tekin varðandi umgengni hennar við móður sína. Barnavernd barst bréf frá H þann 30. júní 2020 þar sem kom fram að stúlkan hefði verið lögð inn á legudeild H. Þar hafi verið metið svo að það væri ekki stúlkunni í hag að hitta móður í umgengni á næstunni.

Barnavernd hafi fengið nýja tilkynningu frá H 23. apríl 2021 þar sem komi fram að barnið hafi orðið fyrir ofbeldi af kynferðislegum toga af hendi móður sinnar. Greint sé frá því að móðir hafi snert barnið á bringu og kynfærasvæði á óviðeigandi hátt þegar það var yngri. Þegar móðir hafi verið beðin um að hætta hafi móðirin sagt að þetta væri í lagi því að hún væri móðir hennar. H bendir á í tilkynningunni að þetta sé enn eitt atriðið í ofbeldissögu stúlkunnar sem snúi að móður hennar.

Í málinu féll dómur í héraðsdómi þann 21. september 2020. Í þeim dómi hafi móðirin verið dæmd í 30 daga skilorðsbundið fangelsi fyrir ofbeldisbrot gagnvart stúlkunni.

Umgengni við kæranda hafi verið undir eftirliti. Í skýrslum frá eftirlitsaðila komi fram að barnið hafi oft verið til baka í samskiptum við móður og hafi ekki gefið mikið af sér og einnig komi fram að hún hafi oft nefnt að sér leiðist. Eftirlitsaðilinn hafi greint frá því í skýrslum að í eitt skiptið hafi barnið talað við móður sína um það að hún væri að upplifa breytingar á kynvitund sinni og upplifði sig hvorki sem strák né stelpu heldur kynsegin. Því sé lýst í skýrslunni að móðirin hafi ekki vitað hvað hún ætti að segja, en hafi síðan reynt að sannfæra barnið um að hún væri fyrir víst stelpa. Í eitt skiptið komi fram að barnið hafi stöðvað umgengni því að henni hafi ekki liðið vel.

Núverandi fósturforeldrar leggi mikla áherslu á að óskir barnsins varðandi umgengni við kæranda séu virtar. Þau hafi miklar áhyggjur og segja að samskipti við móðir hafi valdið henni vanlíðan. Þau hafi látið það í ljós í samræðum við starfsmann barnaverndar að þau vilji helst að það verði engin umgengni. Þau hafi þurft að leita með barnið á H eftir samskipti barnsins við fjölskyldu sína.

Í símtali við stúlkuna 7. júlí 2021 þar sem rætt hafi verið um umgengni við kæranda og möguleg símtöl þeirra á milli, hafi barnið tjáð starfsmanni barnaverndar það að hún væri alls ekki tilbúin að svo stöddu til að hitta móður sína. Hún væri hins vegar tilbúin til að fá símtal frá henni því að það væri betra en að hitta hana. Hún setji þá þau skilyrði að móðir hennar skuli ekki spyrja hana spurninga eins og ”elskarðu mig enn þá? Hvenær kemurðu heim? Af hverju ertu að gera þetta? Hvað með fjölskylduna?” og svo framvegis. Hún segir að sér þyki það mjög óþægilegt þegar móðir hennar spyrji hana slíkra spurninga og hafi móðirin gert það ítrekað í þeirra samskiptum. Stúlkan vilji einnig hafa símtalið fyrir fram ákveðið og einungis hálftíma að lengd. Hún segi að sér finnist einnig óþægilegt ef einhver annar sé að hlusta og sagðist láta barnavernd vita ef eitthvað óþægilegt kæmi upp í því símtali.

Barnaverndarnefnd leggur ríka áherslu á að óskir barnsins séu virtar. Barnið sé orðin aðili að barnaverndarmálinu sökum aldurs og hafi hennar vilji til þess að vera í umgengi við kæranda komið skýrt fram. Þó sé næsta skref í málinu að festa niður símtal barns við móður og ef vel gangi verði það reglulega.

IV. Afstaða stúlkunnar

Fram kemur í greinargerð starfsmanna Barnaverndarnefndar B að ítrekað hafi verið rætt við stúlkuna um umgengni við kæranda eftir að dómur féll í janúar 2021 og kærandi var svipt forsjá stúlkunnar. Stúlkan hafi ekki verið í ástandi til að ræða umgengnismál við kæranda eða ekki viljað tjá sig um þau. Henni hafi verið boðinn talsmaður og að ræða við hann en hún hafi hafnað því og þótt óþægilegt að ræða ein við enn einn aðilann um sín mál.

V. Afstaða fósturforeldra

Úrskurðarnefndin óskaði eftir afstöðu fósturforeldra til umgengni stúlkunnar við kæranda með símtali við fósturmóður 27. ágúst 2021. Fram kom í símtalinu að fósturmóður teldi að vegna aldurs stúlkunnar yrði hún sjálf að ákveða umgengni við kæranda og forsendur hennar. Símtöl við kæranda hafi gengið vel ef umræðuefni hefur verið ákveðið fyrir fram. Fósturmóður greindi frá því að stúlkunni liði betur núna en hún yrði að fá svigrúm til að vinna í sínum málum og umgengni við kæranda myndi raska því. Ef stúlkan myndi vilja hitta kæranda kvaðst fósturmóður styðja hana í því.

V.  Niðurstaða

Stúlkan D er rúmlega X ára gömul. Kærandi var svipt  forsjá hennar með dómi Héraðsdóms E 6. janúar 2021 og lýtur stúlkan nú forsjá Barnaverndarnefndar B. Stúlkan er í varanlegu fóstri.

Með hinum kærða úrskurði frá 10. mars 2021 var ákveðið að stúlkan skyldi ekki eiga umgengni við kæranda.

Í hinum kærða úrskurði kemur fram að vandi stúlkunnar sé fjölþættur og flókinn. Gríðarleg vanlíðan sé til staðar, mikil áfallaeinkenni og sjálfsvígshugsanir miklar og tíðar. Hún er í meðferð hjá sérfræðingi í K og fær einnig þjónustu hjá Barna- og unglingageðdeild, bæði á göngu- og bráðageðdeild. Þá nýtur hún stuðnings námsráðgjafa og fagaðila í skóla og einnig fósturforeldra sinna sem hún sé smám saman að tengjast. Þá kemur fram í hinum kærða úrskurði að stúlkan hafi hvorki sóst eftir né gefið samþykki sitt fyrir umgengni við kæranda.

Kærandi krefst þess aðallega að hún fái umgengni aðra hvora helgi frá föstudegi til sunnudags, en til vara aðra hvora helgi frá laugardegi til sunnudags. Í kæru kemur fram að afstaða stúlkunnar komi ekki fram í gögnum málsins. Kærandi telur að óháður aðili hefði átt að afla afstöðu stúlkunnar til umgengni við kæranda. Þá sé stúlkan á þeim aldri að hún sé vel fær um að tjá sig.

Samkvæmt 1. mgr. 46. gr. bvl. er barn sem náð hefur X ára aldri aðili barnaverndarmáls samkvæmt 74. gr. bvl. Í þessu felst að barnið á meðal annars rétt á að kynna sér gögn máls og tjá sig um það áður en ákvörðun er tekin. Þá er í 2. mgr. 46. gr. bvl. kveðið á um að barni skuli gefinn kostur á að tjá sig um mál sem það varðar í samræmi við aldur þess og þroska og taka skal réttmætt tillit til skoðana þess við úrlausn málsins.

Dóttir kæranda hefur ekki viljað tjá sig við talsmann og því liggur ekki fyrir skýrsla talsmanns í málinu. Í málinu liggja þó fyrir gögn sem gefa til kynna afstöðu stúlkunnar til umgengni við kæranda, meðal annars óskaði barnaverndarnefndin eftir því að rætt yrði við stúlkuna á H um umgengni við kæranda. Í bréfi H til barnaverndarnefndarinnar, dags. 14. júní 2021 kemur fram að það væri erfitt fyrir stúlkuna að hitta kæranda en ekki kæmi fram með afgerandi hætti hvort hún vilji eiga umgengni við kæranda. Þá lýsti stúlkan vanlíðan í kjölfar þess að hitta kæranda. Í bréfi H var ekki tekin afstaða til umgengni en tekið væri fram að mikilvægt væri að fá afstöðu stúlkunnar til umgengni við kæranda. Mælt væri með því að afstaða hennar væri höfð að leiðarljósi þegar ákvörðun væri tekin varðandi umgengni við kæranda. Með vísan til þess verður ekki fallist á að málsmeðferð barnaverndarnefndarinnar hafi verið ófullnægjandi hvað þetta atriði varðar.

Samkvæmt 74. gr. a. skal ávallt kanna viðhorf fósturforeldra til umgengni áður en gengið er frá samningi eða kveðinn sé upp úrskurður um umgengni. Af greinargerð barnaverndarnefndar má ráða að afstaða fósturforeldra til umgengni hafi verið könnuð í samræmi við ofangreint ákvæði barnaverndarlaga. Þá hefur úrskurðarnefnd einnig kannað viðhorf fósturforeldra til umgengni við kæranda þar sem fósturforeldrar hafa lagt ríka áherslu á að vilji stúlkunnar verði lagður til grundvallar við ákvörðun á umgengni við kæranda.

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 á barn í fóstri rétt á umgengni við kynforeldra og aðra sem eru því nákomnir. Kynforeldrar eiga með sama hætti rétt á umgengni við barn sitt samkvæmt 2. mgr. sömu lagagreinar, nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins og ósamrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt er að með ráðstöfun þess í fóstur. Við mat á þessu skal meðal annars taka tillit til þess hversu lengi fóstri er ætlað að vara. Samkvæmt 3. mgr. lagagreinarinnar skal taka afstöðu til umgengni barns við foreldra og aðra nákomna og skal taka mið af því hvað þjóni hagsmunum barnsins best. Samkvæmt 4. mgr. sömu lagagreinar hefur barnaverndarnefnd úrskurðarvald um ágreiningsefni er varða umgengni barns við foreldra og aðra nákomna, hvort sem það varðar rétt til umgengni, umfang umgengnisréttarins eða framkvæmd.

Það er meginregla í barnaverndarstarfi að hagsmunir barns skuli ávallt hafðir í fyrirrúmi og beita skuli þeim ráðstöfunum sem barni eru fyrir bestu. Við úrlausn þessa máls ber því að líta til þeirrar stöðu sem stúlkan er í. Það er gert til að unnt sé að taka ákvörðun um umgengni hennar við kæranda á þann hátt að hún þjóni hagsmunum hennar best, sbr. 3. mgr. 74. gr. bvl.

Samkvæmt því sem fram kemur í framangreindum lagaákvæðum ber að leysa úr kröfum kæranda með tilliti til þess hvað þjónar hagsmunum stúlkunnar best með tilliti til stöðu hennar.

Forsenda hinnar kærðu ákvörðunar var sú að ekki væri hægt að fallast á kröfur kæranda að svo stöddu með vísan til gagna málsins. Fram kemur í forsendum að stúlkan sæki sér aðstoð á H og í K. Hún sé aðili máls og telji barnaverndarnefndin mikilvægt að samþykki hennar fyrir umgengni liggi fyrir og verði henni því ekki gert að eiga umgengni við kæranda, án þess að samþykki hennar liggi fyrir.

Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála ber fyrst og fremst að líta til þess hvað þjóni  hagsmunum barnsins best við núverandi aðstæður. Úrskurðarnefnd velferðarmála telur með hliðsjón af gögnum málsins, þar á meðal viðhorfs og aldurs stúlkunnar og afstöðu þeirra sem hafa haft með mál hennar að gera undanfarið, að það sé bersýnilega andstætt hagsmunum og þörfum stúlkunnar að hafa umgengni við kæranda að svo stöddu.

Með vísan til alls framangreinds er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að umgengni við kæranda hafi verið ákveðin í samræmi við þau sjónarmið sem leggja beri til grundvallar samkvæmt 2., 3. og 4. mgr. 74. gr. bvl. þegar umgengni barna í fóstri við foreldra og aðra nákomna er ákveðin. Með vísan til alls þess, sem að framan greinir, ber því að staðfesta hinn kærða úrskurð Barnaverndarnefndar B.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Úrskurður Barnaverndarnefndar B frá 10. mars 2021 varðandi umgengni D, við A, er staðfestur.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

 

Kári Gunndórsson

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum