Hoppa yfir valmynd
%C3%9Arskur%C3%B0arnefnd velfer%C3%B0arm%C3%A1la - F%C3%A9lags%C3%BEj%C3%B3nusta og h%C3%BAsn%C3%A6%C3%B0ism%C3%A1l

Mál nr. 340/2022-Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 340/2022

Þriðjudaginn 11. október 2022

A

gegn

Velferðarþjónustu Árnesþings

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, móttekinni 1. júlí 2022, kærði B réttindagæslumaður, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála afgreiðslu Velferðarþjónustu Árnesþings á umsókn hans um húsnæðisúrræði.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi er fatlaður og hefur verið með virka umsókn um húsnæðisúrræði hjá Velferðarþjónustu Árnesþings frá júnímánuði 2010. Kærandi er búsettur á sambýli í C. Kærandi bíður úthlutunar húsnæðis og kærir því drátt á afgreiðslu málsins, sbr. 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Með bréfi, dags. 7. júlí 2022, óskaði úrskurðarnefnd velferðarmála eftir greinargerð Velferðarþjónustu Árnesþings ásamt gögnum málsins. Greinargerð Velferðarþjónustu Árnesþings barst úrskurðarnefndinni 12. september 2022 og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 13. september 2022. Athugasemdir bárust frá kæranda 15. september 2022 og voru þær kynntar Velferðarþjónustu Árnesþings samdægurs með bréfi úrskurðarnefndar. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru til úrskurðarnefndar velferðarmála er greint frá því að kærandi hafi lagt fram húsnæðisumsókn hjá Velferðarþjónustu Árnesþings þann 1. júní 2010 en hann sé búsettur á sambýli í C. Kærður sé annars vegar dráttur á afgreiðslu máls hans er varði umsókn um búsetuúrræði, þjónustu sem ekki hafi komið til framkvæmda 12 árum síðar. Óskað sé afstöðu úrskurðarnefndar velferðarmála á því hvort tafirnar samræmist málshraðareglu í 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Hins vegar sé kært að Velferðarþjónusta Árnesþings hafi ekki farið að málsmeðferðarreglum laga nr. 38/2018 um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, þá aðallega 3. mgr. 31. gr., 32. gr. og 1. mgr. 34. gr. sem og 2., 3. og 5. gr. reglugerðar nr. 1035/2018 um biðlista, forgangsröðun og úrræði á biðtíma eftir þjónustu.

Kærandi noti óhefðbundnar tjáskiptaleiðir og henti notkun símtækja illa, en hann hafi notast við „facetime“ með aðstoð. Á fundi réttindagæslumanns og kæranda hafi starfskona, sem kærandi treysti, aðstoðað við tjáskipti. Kærandi hafi tjáð réttindagæslumanni að hann hefði aldrei verið upplýstur um ástæður tafanna á framkvæmd þjónustu og hvenær fyrirhuguð þjónusta gæti hafist í samræmi við 1. mgr. 34. gr. laga nr. 38/2018 um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir og 1. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 1035/2018 um biðlista, forgangsröðun og úrræði á biðtíma eftir þjónustu. Kærandi hafi verið afskiptalaus og beðið í lausu lofti síðastliðin 12 ár. Sveitarfélögum beri að beita viðeigandi aðlögun til þess að tryggt sé að fatlað fólk fái notið eða geti nýtt sér, til jafns við aðra, öll mannréttindi og mannfrelsi, sbr. 3. mgr. 1. gr. laga um þjónustu við fatlað fólk. Frumkvæðisskylda hvíli á sveitarfélögum að kynna sér aðstæður fatlaðs fólks og gera því grein fyrir rétti sínum, sbr. 32. gr. laga um þjónustu við fatlað fólk. Kærandi vísar að öðru leyti til bréfs sem hafi verið sent til Velferðarþjónustu Árnesþings 31. janúar 2022.

Tekið er fram að kærandi hafi lýst vanlíðan á núverandi heimili en hann hafi búið þar í um 30 ár. Hann hafi verið beittur ólögmætri nauðung, nú síðast hvað varði reglur um takmörkun á símanotkun árið 2021 sem starfsfólk í C hafi nú fallið frá. Umrædd nauðung hafi verið tilkynnt til sérfræðiteymis þann 27. janúar 2022. Í dag hafi kærandi ekki aðgang að eldhúsi en á fundi þann 8. desember 2021 hafi komið fram að í sameiginlegu eldhúsi sé búr læst og ísskápar læstir svo að kærandi hafi ekki greiðan aðgang að því. Áður hafi verið ákveðnir tölvutímar þar sem leyfilegt hafi verið fyrir íbúa að fara á netið á milli kl. 17 og 18 tvisvar í viku. Kærandi hafi unnið lengi vel við bústörf í C gegn vilja sínum. Hann hafi nýlega fengið í gegn að fara í VISS þrisvar í viku á Flúðum. Ósk kæranda sé að fara í VISS á Selfossi þá daga sem ekki sé í boði að fara á Flúðir en hann hafi ekki fengið samþykkta akstursþjónustu til þess að sækja VISS á Selfossi.

Kærandi telji núverandi þjónustu brjóta í bága við 9. gr. laga um þjónustu við fatlað fólk. Það sé ekki að sjá að hann hafi notið þjónustu teymis fagfólks sem meti hans heildstæðu þörf fyrir þjónustu og hvernig veita megi þjónustu í samræmi við óskir hans, sbr. 3. mgr. 31. gr. laga um þjónustu við fatlað fólk. Að öðru leyti vísist í erindi kæranda til Gæða- og eftirlitsstofnunar sem varpi frekara ljósi á þá alvarlegu vankanta á þjónustu við hann.

Í athugasemdum kæranda vegna greinargerðar Velferðarþjónustu Árnesþings er tekið fram að gerðar séu athugasemdir við þá staðhæfingu að lítið hafi verið um önnur húsnæðisúrræði sem henti honum og hans stuðningsþörfum, á þeim 12 árum sem hann hafi verið á biðlista. Hvorki hafi verið gerð áætlun með honum í samræmi við 1. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 1035/2018 um biðlista, forgangsröðun og úrræði á biðtíma eftir þjónustu né 8. gr. reglugerðar nr. 370/2016 um húsnæðisúrræði fyrir fatlað fólk, en þjónustuaðila sé skylt að vinna slíkar áætlanir samkvæmt ákvæðunum. Óljóst sé á hvaða biðlista/biðlistum kærandi sé og hvaða einstaklingsmiðaða málavinnsla og málsmeðferð hafi farið fram á biðtímanum. Engu ljósi sé varpað á þetta í greinargerðinni. Honum hafi ekki verið gert ljóst hvar hann standi á listanum/listunum og hvenær hann megi eiga von á viðeigandi úrlausn. Þá hafi ekkert samráð verið haft við kæranda á biðtíma. Erfitt sé að sjá á hvaða mati og gögnum staðhæfingar í greinargerð Bergrisa bs. og Velferðarþjónustu Árnesþings séu byggðar þegar ekkert samráð hafi verið haft við kæranda. Á dagskrá sé að funda með kæranda til að kortleggja núverandi þarfir og framtíðaróskir.

Að höfðu tilliti til 2. mgr. 9. gr. laga nr. 38/2018 sé ekki hægt að binda þjónustu kæranda þeim skilyrðum að hann búi í tilteknu búsetuformi, þrátt fyrir að hann hafi til langs tíma verið til húsa í því sem jafngildi herbergjasambýli. Hann eigi rétt til þess að njóta fullnægjandi þjónustu í almennu íbúðarhúsnæði, til að mynda félagslegu eða almennu leiguhúsnæði. Einnig skuli hann fá skilvirka og faglega félagslega ráðgjöf, aðstoð, stoðþjónustu og viðeigandi aðlögun til að fá þau almennu gæði tryggð og viðhaldið. Eigi það við hvort heldur varðandi biðtíma eða til langframa. Samhengislausar skírskotanir til uppbyggingar sértækra búsetuúrræða, eða skorts á þeim, innan byggðasamfélagsins séu einstaklingsbundnum rétti kæranda til annars vegar húsnæðis og hins vegar þjónustu óviðkomandi. Með vísan til greinargerðar Velferðarþjónustu Árnesþings virðist sem svo að engar einstaklingsbundnar áætlanir séu reistar á reglubundnu samráði og heildstæðu faglegu einstaklingsmati til að vinna að bráðabirgðarákvæði II í lögum um þjónustu við fatlað fólk. Ákvæðið sé þess efnis að einstaklingum, eins og kæranda, sem búi á stofnunum eða herbergjasambýlum í byggðasamlaginu skuli bjóðast aðrir búsetukostir í samræmi við 9. gr. sömu laga og reglum þar að lútandi.

Athafnaleysi Velferðarþjónustu Árnesþings sé alvarlegt. Á þeim tíma sem byggðasamlagið hafi farið með ábyrgð þjónustunnar hafi markmið laganna verið skýrt um að hún skuli taka mið af alþjóðlegum mannréttindaskuldbindingum, ekki síst samningi Sameinuðu þjóðanna. Þau réttindabrot sem fylgi langvarandi búsetu á herbergjasambýlum, auk aukinnar hættu á vanrækt og átökum, séu margstaðfest og styðji við stefnu um lokun þeirra. Staðsetning C geti staðið til hindrunar á aðgengi kæranda til að fá notið tækifæra og hlutdeildar í gæðum, þjónustu og iðju á almennu sviði, svo sem heilbrigðisþjónustu, löggæslu, menningar og verslunar. Athafnaleysið sé þar að auki alvarlegt sökum þess að kærandi hafi lýst yfir mikilli vanlíðan á núverandi búsetustað og telji þjónustuna hvorki henta hans stuðningsþörfum né óskum. Ljóst sé að stuðningsþörfum kæranda sé ekki mætt í C og því sé tilefni til að velta upp hvernig stuðningsþarfir kæranda séu metnar af hálfu þjónustuaðila. Varhugavert þyki að Velferðarþjónusta Árnesþings bendi á að kærandi sé með svo sértækar stuðningsþarfir að ekki sé annað úrræði í boði fyrir hann þegar stuðningsþörfum hans hafi ekki verið mætt á núverandi búsetustað þar sem hann hafi búið í um 30 ár. Kærandi vilji hafa rólegt í kringum sig, búa í sjálfstæðri búsetu með aðstoð starfsfólks í formi NPA þjónustu.

Kærandi hafi óskað eftir því að fara alla virka daga í VISS á biðtímanum, þ.e. á Selfoss þá daga sem VISS á Flúðum sé lokað. Ekki hafi enn verið orðið að óskum kæranda hvað þetta varði.

Í greinargerð Bergrisa bs. og Velferðarþjónustu Árnesþings kemur fram að „Bergrisi bs. hafi hafið byggingu á íbúðarkjarna á Selfossi með það að markmiði að vinna á biðlista.“ Ekki sé að sjá að þær upplýsingar hafi einhverja þýðingu fyrir framkvæmd á þjónustu við kæranda. Upplýsingarnar gefi það ekki til kynna hvenær vænta megi þjónustunnar í samræmi við 1. mgr. 34. gr. laga um þjónustu við fatlað fólk. Í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur frá 16. júní 2021 í máli E-2712/2020 sé bent á að almennt tímasett uppbyggingaráætlun geti ekki komið í stað áætlunar um úrlausn umsókna einstakra umsækjenda. Héraðsdómur Reykjavíkur bendi á að slík uppbyggingaráætlun sé ekki gegnsæ þannig að einstaklingar geti rýnt hana og dregið ályktanir af því hvenær viðkomandi fái húsnæði.

Rétt sé að benda á að réttindagæsla fatlaðs fólks hafi fyrst gert athugasemdir við þjónustu fyrir hönd kæranda 31. janúar 2022. Þjónustuaðili hafi boðið kæranda á fund sjö mánuðum síðar, í kjölfar kæru hans til úrskurðarnefndar velferðarmála til þess að gæta samráðs við hann og kortleggja þarfir og framtíðaróskir.

III.  Sjónarmið Velferðarþjónustu Árnesþings

Í greinargerð Velferðarþjónustu Árnesþings kemur fram að umsókn kæranda sé virk á biðlista um húsnæði á Selfossi. Lítið sé um önnur húsnæðisúrræði fyrir kæranda á svæðinu sem henti honum og hans stuðningsþörfum eins og hafi verið undanfarin ár. Brugðist hafi verið við þeim aðstæðum með því að bjóða kæranda starf á Vinnu- og hæfingarstöðinni VISS á Flúðum til að auka fjölbreytni á biðtímanum.

Bergrisi bs., starfsvettvangur 12 sveitarfélaga um þjónustu við fatlað fólk á Suðurlandi, sé með í byggingu íbúðakjarna á Selfossi með það markmið að vinna á biðlista.

Verkefnastjóri málefna fatlaðs fólks hjá Árnesþingi í samráði við rágjafaþroskaþjálfa í Laugarási, starfsstöð velferðarþjónustunnar í Uppsveitum og Flóa, hafi bókað fund með kæranda í vikunni 12. til 16. september 2022 til nánari upplýsingaöflunar. Með þeim hætti sé vonast til þess að hægt sé að kortleggjs betur núverandi þarfir og framtíðaróskir.

IV.  Niðurstaða

Kærð er afgreiðsla Velferðarþjónustu Árnesþings á umsókn kæranda um húsnæðisúrræði sem er frá júní 2010. Kærandi bíður úthlutunar húsnæðis og kærir því drátt á afgreiðslu málsins, sbr. 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, en samkvæmt ákvæðinu er heimilt að kæra til æðra stjórnvalds óhæfilegan drátt á afgreiðslu máls.

Í 1. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 kemur fram sú meginregla að ákvarðanir í málum innan stjórnsýslunnar skuli teknar eins fljótt og auðið er. Í ákvæðinu kemur ekki fram hvaða tímafrest stjórnvöld hafa til afgreiðslu mála en af því leiðir að aldrei má vera um ónauðsynlegan drátt á afgreiðslu máls að ræða. Með hliðsjón af þessari meginreglu verður að telja að stjórnvöldum sé skylt að haga afgreiðslu þeirra mála sem þau fjalla um í samræmi við þessa meginreglu og gera eðlilegar ráðstafanir til þess að þau séu til lykta leidd af þeirra hálfu eins fljótt og unnt er. Hvað talist getur eðlilegur afgreiðslutími verður að meta í hverju tilviki fyrir sig. Þannig verður að líta til umfangs máls og atvika hverju sinni, auk þess sem mikilvægi ákvörðunar fyrir aðila getur einnig haft þýðingu í þessu sambandi.

Í III. kafla laga nr. 38/2018 um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir er fjallað um búsetu en þar segir í 1. mgr. 9. gr. að fatlað fólk eigi rétt á húsnæði í samræmi við þarfir þess og óskir og félagslegri þjónustu sem gerir því kleift að búa á eigin heimili og stuðlar að fullri aðlögun þess og þátttöku í samfélaginu. Í 2. mgr. 9. gr. kemur fram að fatlað fólk eigi rétt á því að velja sér búsetustað og hvar og með hverjum það býr, til jafns við aðra. Óheimilt sé að binda þjónustu við fatlað fólk því skilyrði að það búi í tilteknu búsetuformi.

Í 1. mgr. 34. gr. laga nr. 38/2018 kemur fram að ákvörðun um að veita þjónustu skuli taka svo fljótt sem kostur er. Sé ekki unnt að hefja þjónustu strax og umsókn er samþykkt skal tilkynna umsækjanda um ástæður þess og hvenær þjónustan verði veitt. Ef fyrirséð er að þjónustan sem sótt var um geti ekki hafist innan þriggja mánaða frá samþykkt umsóknar skal leiðbeina umsækjanda um þau úrræði sem hann hefur á biðtíma og aðra þjónustu sem er í boði.

Í 8. gr. reglugerðar nr. 370/2016 um húsnæðisúrræði fyrir fatlað fólk er kveðið á um biðlista eftir húsnæðisúrræði. Þar segir:

„Nú hefur umsókn um húsnæðisúrræði samkvæmt reglugerð þessari verið samþykkt en ljóst er að ekki muni unnt að útvega það innan þriggja mánaða, skal þá tilkynna umsækjanda um ástæður tafanna og hvenær fyrirhugað sé að húsnæðisúrræði geti verið tilbúið. Þá skal setja umsókn á biðlista. Þegar umsækjanda er tilkynnt um að hann sé kominn á biðlista skal unnin áætlun um útvegun viðeigandi húsnæðisúrræðis og hvort og þá hvers konar annað úrræði standi umsækjanda til boða á biðtíma. Sveitarfélag skal leggja biðlista eftir húsnæðisúrræðum til grundvallar við gerð húsnæðisáætlunar samkvæmt lögum um húsnæðismál.“

Í 9. gr. reglugerðarinnar er fjallað um röðun á biðlista. Þar segir að raða skuli á biðlista eftir sömu sjónarmiðum og komi fram í matsviðmiðum sveitarfélaga. Sveitarfélög skuli kveða skýrt á um það í reglum sínum á hvaða matsviðmiðum skuli byggt, hvernig samþykktum umsóknum skuli forgangsraðað eftir þörf viðkomandi, lengd biðtíma eftir húsnæðisúrræði og öðrum þeim úrræðum sem standi til boða á biðtíma. Við mat á þörf og forgangi skuli sveitarfélag líta til sömu viðmiða og varðandi úthlutun á félagslegu leiguhúsnæði, þar með talið núverandi húsnæðisaðstöðu umsækjanda og hversu brýna þörf viðkomandi hafi fyrir viðeigandi húsnæðisúrræði.

Þá segir í 10. gr. reglugerðarinnar að sveitarfélag skuli tryggja reglubundið samráð við umsækjanda á biðtíma. Umsækjandi skuli þá upplýstur um stöðu á biðlista, áætlaða lengd biðtíma og þau úrræði sem honum standi til boða á biðtímanum.

Í kæru er vísað til reglugerðar nr. 1035/2018 um biðlista, forgangsröðun og úrræði á biðtíma eftir þjónustu. Fram kemur í 2. mgr. 1. gr. reglugerðarinnar að hún gildi ekki um biðlista eftir húsnæðisúrræði samkvæmt 9. gr. laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir. Þar af leiðandi gildir umrædd reglugerð ekki í tilviki kæranda.

Velferðarþjónusta Árnesþings hefur vísað til þess að kærandi sé með virka umsókn um búsetuúrræði og sé á biðlista eftir slíku. Kærandi dvelur nú á sambýli í C og hefur Velferðarþjónusta Árnesþings vísað til þess að lítið hafi verið um húsnæðisúrræði á svæðinu undanfarin ár sem henti kæranda og hans stuðningsþörfum. Bergrisi bs. sé með í byggingu íbúðakjarna á Selfossi með það að markmiði að vinna á biðlista. Að öðru leyti er ekki að finna skýringar á þeirri töf sem hefur orðið á afgreiðslu máls kæranda og gögn málsins bera ekki með sér að unnið hafi verið sérstaklega og markvisst í húsnæðismálum hans síðustu ár. 

Að því virtu og á grundvelli þess að Velferðarþjónusta Árnesþings hefur ekki áætlað hvernig og hvenær leyst verði úr máli kæranda er það mat úrskurðarnefndar velferðarmála að afgreiðsla máls kæranda hafi dregist óhæfilega í skilningi 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga. Lagt er fyrir Velferðarþjónustu Árnesþings að hraða afgreiðslu málsins og veita kæranda samþykkta þjónustu svo fljótt sem auðið er. Ef fyrirséð er að á afgreiðslu málsins verðir frekari tafir ber sveitarfélaginu að skýra kæranda með reglubundnum hætti frá því og upplýsa um ástæður tafanna og auk þess hvenær ákvörðunar um úthlutun viðeigandi húsnæðis sé að vænta, sbr. 3. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Afgreiðsla Velferðarþjónustu Árnesþings í máli A, var ekki í samræmi við málshraðareglu 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Lagt er fyrir Velferðarþjónustu Árnesþings að hraða afgreiðslu máls kæranda og taka ákvörðun um úthlutun viðeigandi húsnæðis svo fljótt sem auðið er.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

_________________________________

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum