Hoppa yfir valmynd
K%C3%A6runefnd%20%C3%BAtlendingam%C3%A1la

Nr. 203/2023 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 17. apríl 2023 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 203/2023

í stjórnsýslumáli nr. KNU22110048

 

Kæra […]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

I.       Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Hinn 14. nóvember 2022 kærði einstaklingur er kveðst heita […], vera fæddur […] og vera ríkisborgari Tadsíkistan (hér eftir nefndur kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 27. október 2022, um að synja honum um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga.

Kærandi krefst þess aðallega að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að honum verði veitt staða flóttamanns hér á landi með vísan til 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til vara krefst kærandi þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að honum verði veitt viðbótarvernd með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til þrautavara krefst kærandi þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að honum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða með vísan til 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Ráða má af kæru kæranda að hann krefjist þess til þrautaþrautavara að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að stofnuninni verði gert að taka málið til nýrrar meðferðar.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II.        Málsmeðferð

Kærandi lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd hér á landi 21. mars 2022. Kærandi kom í viðtal hjá Útlendingastofnun 27. apríl 2022 ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðun, dags. 27. október 2022, synjaði Útlendingastofnun kæranda um alþjóðlega vernd ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Var sú ákvörðun kærð til kærunefndar útlendingamála hinn 14. nóvember 2022.

III.      Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi byggi umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að hann sé í hættu í heimaríki sínu vegna ofsókna stjórnvalda vegna ætlaðrar aðildar frænda hans að meintum hryðjuverkasamtökum.

Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar í máli kæranda var sú að kærandi væri ekki flóttamaður og honum skyldi synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi samkvæmt ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kæranda var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt 74. gr. laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkis ekki í vegi.

Kæranda var vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Útlendingastofnun tilkynnti kæranda jafnframt að kæra frestaði réttaráhrifum ákvörðunarinnar, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga.

IV.      Málsástæður og rök kæranda

Í kæru kæranda kemur fram að hann sé 19 ára karlmaður sem sé fæddur og uppalinn í Tadsíkistan. Hann sé einhleypur og barnlaus. Kærandi hafi flúið heimaríki sitt í kjölfar ofsókna yfirvalda í garð fjölskyldu kæranda, en bróðir hans hafi fengið vernd hér á landi. Kærandi hafi því tengsl við Ísland. Kærandi og bróðir hans séu nánir og hafi kærandi lagt fram frumrit gagna hjá Útlendingastofnun sem sanni tengsl þeirra. Kærandi hafi sætt ofsóknum í heimaríki sínu vegna frænda síns sem sé álitinn hryðjuverkamaður af yfirvöldum í Tadsíkistan. Kærandi hafi verið fangelsaður og handleggsbrotinn af lögreglu. Kærandi mótmælir ákvörðun Útlendingastofnunar um að hann hafi ekki sýnt fram á ofsóknir, en eðli málsins samkvæmt geti hann ekki fengið sönnunargögn frá heimaríki sínu vegna ofsókna yfirvalda gegn honum. Gerir kærandi athugasemd við að synjun Útlendingastofnunar hafi einkum byggst á því að frásögn kæranda væri ósönn þar sem hún hafi ekki verið studd gögnum.

Kærandi krefst þess aðallega að honum verði veitt alþjóðleg vernd sem flóttamaður hér á landi, samkvæmt 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Hann eigi á hættu ofsóknir vegna aðgerða yfirvalda gagnvart fjölskyldu kæranda og geti ekki vegna slíks ótta fært sér í nyt vernd þess lands. Meta beri allan vafa kæranda í hag.

Verði ekki fallist á aðalkröfu málsins krefst kærandi þess til vara að honum verði veitt viðbótarvernd hér á landi með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Samkvæmt athugasemdum við ákvæðið teljist alvarlegur skaði og ógn gagnvart lífi eða persónu einstaklings uppfylla skilyrði ákvæðisins. Kærandi hafi sætt alvarlegu ofbeldi í heimaríki sínu, verið sviptur frelsi sínu og handleggsbrotinn, auk þess sem friðhelgi heimilis hans hafi ekki verið virt.

Til þrautavara krefst kærandi þess að honum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Ljóst sé af aðstæðum kæranda í heimaríki hans að hann hafi þörf fyrir vernd.

Kærandi telur að með endursendingu hans til heimaríkis yrði brotið gegn meginreglunni um bann við endursendingu, sbr. 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga. Að auki telur kærandi að slík ákvörðun brjóti í bága við 1. mgr. 68. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, sbr. lög nr. 33/1944, 2. og 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, 6. og 7. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og 33. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna.

V.        Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Lagagrundvöllur

Í máli þessu koma einkum til skoðunar ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016, reglugerð nr. 540/2017 um útlendinga, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

Auðkenni

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að til að sanna á sér deili hafi kærandi framvísað búsetuvottorði, afriti af fæðingarvottorði og ljósriti af vegabréfi sínu. Var það mat Útlendingastofnunar að kærandi hefði ekki sannað hver hann væri með fullnægjandi hætti og var því leyst úr auðkenni hans á grundvelli mats á trúverðugleika. Komst Útlendingastofnun að þeirri niðurstöðu að kærandi væri frá Tadsíkistan. Kærunefnd telur ekki ástæðu til að hnekkja framangreindu mati Útlendingastofnunar og verður því lagt til grundvallar að kærandi sé tadsískur ríkisborgari.

Landaupplýsingar

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður í Tadsíkistan m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum:

  • 2022 Country Report on Human Rights Practices: Tajikistan (U.S. Department of State, 20. mars 2023);
  • Amnesty International Report 2022/23 – Tajikistan (Amnesty International, 27. mars 2023);
  • BTI 2022 Country Report Tajikistan (Bertelsmann Stiftung, 23. febrúar 2022);
  • Cases decided by the UN Human Rights Committee concerning the allegation of Torture and other forms of Ill-treatments (articles 7 and 10) – a Compilation and Analysis of Views – Tajikistan (International Commission of Jurists, 20. desember 2019);
  • Civil Society Coalition against Torture and Impunity in Tajikistan – 2019 Annual Report (Civil Society Coalition against Torture and Impunity in Tajikistan, 27. apríl 2020);
  • Country Reports on Terrorism 2021 (U.S. Department of State, 27. febrúar 2023);
  • Country Security Report – Tajikistan (https://www.countrysecurityreport.com/tajikistan-country-security-report-travel-advisory/, skoðað 17. apríl 2023);
  • Freedom in the World 2022 – Tajikistan (Freedom House, 24. febrúar 2022);
  • Global Health (USAID, skoðað 17. apríl 2023);
  • Health Systems in Action: Tajikistan (WHO, 2022);
  • Human Rights in Eastern Europe and Central Asia – Review of 2019 - Tajikistan (Amnesty International, 16. apríl 2020);
  • Jailed Tajik Lawyer's Brother Gets Four Years in Prison on Charges Relatives Call Ungrounded (https://www.rferl.org/a/tajikistan-shamsiddinov-brother-prison/32230645.html, 19. janúar 2023)
  • Nations in Transit 2022 – Tajikistan (Freedom House, 20. apríl 2022);
  • Neither Check nor Balance: The Judiciary in Tajikistan (ICJ, desember 2020);
  • Tajikistan (https://minorityrights.org/country/tajikistan/, uppfært í mars 2023);
  • Tajikistan Accused of Intimidating Activists Abroad by Targeting Relatives Back Home (https://www.voanews.com/a/extremism-watch_tajikistan-accused-intimidating-activists-abroad-targeting-relatives-back-home/6199391.html, 9. desember 2020);
  • Tajikistan: Dissident’s Family Interrogated, Threatened (Human Rights Watch, 4. desember 2020);
  • Tajikistan: Escalating tensions & crackdown on human rights defenders & journalists (International Partnership for Human Rights, 15. september 2022);
  • Tadsjikistan: Gruppe 24 (Landinfo, 3. febrúar 2017);
  • Tajikistan: Severe Crackdown on Political Opposition (Human Rights Watch, 17. febrúar 2016);
  • Tajikistan: UN Declares Detention of Anti-Corruption Activist Saidnuriddin Shamsiddinov to be a Violation of International Law (https://www.freedom-now.org/tajikistan-un-declares-detention-of-anti-corruption-activist-saidnuriddin-shamsiddinov-to-be-a-violation-of-international-law/, 10. febrúar 2023);
  • The Alarming State of the Healthcare System in Tajikistan (International Partnership for Human Rights, 13. júlí 2020);
  • The World Factbook: Tajikistan (Central Intelligence Agency, síðast uppfært 28. mars 2023) og
  • World Report 2023 – Tajikistan (Human Rights Watch, 12. janúar 2023).

Samkvæmt World Factbook er Tadsíkistan forsetalýðveldi í mið-Asíu sem hlaut sjálfstæði árið 1991 eftir fall Sovétríkjanna. Samkvæmt skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins frá 2023 er ríkið þó einræðisríki. Íbúar landsins séu rúmar 9 milljónir og aðhyllist 98% þeirra íslamstrú. Þar af séu 95% þeirra súnní-múslimar. Hinn 2. mars 1992 gerðist Tadsíkistan aðili að Sameinuðu þjóðunum. Samkvæmt vefsíðu Mannréttindastofnunar Sameinuðu þjóðanna fullgilti ríkið samning Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu hinn 11. janúar 1995. Ríkið fullgilti alþjóðasamning um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi sem og alþjóðasamning um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi árið 1999. Ríkið fullgilti alþjóðasamning um afnám alls kynþáttamisréttis árið 1995 og samning Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu sama ár. Tadsíkistan fullgilti samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins árið 1993 og alþjóðasamning um afnám allrar mismununar gegn konum sama ár.

Samkvæmt World Factbook braust út borgarastyrjöld í landinu skömmu eftir að ríkið hlaut sjálfstæði árið 1992. Átökin hafi staðið yfir til ársins 1997 og kostað tugi þúsunda manns lífið. Landið hafi verið undir stjórn forseta landsins, Emomali Rahmon síðan 1992. Í ríkinu sé forsetalýðræði og sé forseti landsins í senn þjóðhöfðingi og æðsti handhafi framkvæmdavalds í landinu. Stjórnarskrá landsins geri ráð fyrir því að margir stjórnmálaflokkar séu starfræktir í landinu en ríkisstjórn landsins hafi í gegnum tíðina hins vegar hindrað fjölbreytileika stjórnmálaflokka og virka stjórnarandstöðu. Í desember 2015 hafi forsetinn lýst sig sem „leiðtoga þjóðarinnar“. Í kjölfarið hafi farið fram þjóðaratkvæðagreiðsla um breytingar á stjórnarskrá ríkisins sem hafi m.a. falið í sér afnám tímamarka á kjörtímabilum forsetans og ævilanga friðhelgi hans. Í forsetakosningum í október 2020 hafi Emomali Rahmon hlotið endurkjör með 91% atkvæða. Kosningar í landinu séu hvorki frjálsar né sanngjarnar.

Í skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins frá mars 2023 kemur fram að löggæsla landsins sé í höndum innanríkisráðuneytisins, Lyfjaeftirlitsstofnunar, ríkisstofnunar um fjármálaeftirlit og baráttu gegn spillingu (e. Anticorruption Agency), ríkisnefndar um þjóðaröryggi, skattanefndar ríkisins og tollgæslunnar. Málefni sem lúta að stjórnun lögreglu og eftirliti með allsherjarreglu séu aðallega á höndum innanríkisráðuneytisins en forsetinn fari þó með beint vald yfir lög- og tollgæslu. Í framangreindri skýrslu Freedom House kemur fram að dómskerfið í landinu sé undir miklum áhrifum frá ráðandi stjórnvöldum. Þá fari réttarhöld yfir pólitískum andstæðingum að jafnaði fram fyrir luktum dyrum. Fram kemur í framangreindum skýrslum að „öfgafullar skoðanir“ séu skilgreindar lauslega í lögum um það efni sem og hegningarlögum, sem opni á að hver sem sé álitinn andstæðingur stjórnvalda geti talist hafa slíkar skoðanir. Þá kemur fram í framangreindri skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins að spilling sé mikil á öllum sviðum samfélagsins. Samkvæmt lögum geti lögregla haldið einstaklingi í allt að 12 tíma áður en taka þurfi ákvörðun um hvort opna skuli sakamál gegn honum. Sé ekki gefin út ákæra að 12 tímum liðnum verði að láta einstaklinginn lausan úr haldi. Sé mál hins vegar höfðað gegn einstaklingi þá hafi lögreglan heimild til að halda honum í varðhaldi í allt að 72 tíma áður en þeim beri að fara með sakborning fyrir dómara. Þrátt fyrir að stjórnarskrá landsins leggi bann við pyntingum þá hafi áfram borist tilkynningar um pyndingar af hálfu yfirvalda, einkum gagnvart föngum og sakborningum í þeim tilgangi að ná fram játningum við yfirheyrslur.

Í skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins frá mars 2023 kemur fram að meðal helstu mannréttindabrota í landinu séu handahófskennd og ólögmæt morð, pyndingar og önnur ómannúðleg og vanvirðandi meðferð af hálfu yfirvalda, lífshættulegur aðbúnaður í fangelsum, geðþóttahandtökur og varðhald, fangelsun á pólitískum aðgerðasinnum, refsing fjölskyldumeðlima vegna meintra brota af hálfu ættingja og alvarlegar takmarkanir á frelsi borgara. Heimildir beri með sér að mörg dæmi séu um að yfirvöld beri rangar sakir á einstaklinga eða blási upp smávægileg atvik í því skyni að framkvæma handtökur vegna stjórnmálaskoðana. Ýmis dæmi séu um að fjölskyldumeðlimir aðgerðarsinna sem séu í útlegð hafi verið refsað fyrir meint brot framin af ættingjum sínum í þeim tilgangi að fá aðgerðasinna til að láta af starfsemi sinni erlendis. Fram kemur í skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins að einstaklingar í varðhaldi sem séu grunaðir um brot sem varði þjóðaröryggi eða tengsl við öfgahópa hafi verið haldið í lengri tíma án þess að vera formlega ákærðir. Samkvæmt skýrslu Amnesty International frá mars 2023 sæti baráttufólk fyrir mannréttindum, fjölmiðlafólk og meðlimir stjórnarandstöðuflokka handahófskenndum handtökum og óréttlátri málsmeðferð fyrir dómstólum. Margir hafi greint frá því að hafa sætt pyndingum. 

Í skýrslum bandaríska utanríkisráðuneytisins frá 2018 og 2023 kemur fram að árið 1999 hafi lög verið sett um baráttu við hryðjuverk og að ríkisstjórn landsins hafi notað þá löggjöf til að bæla niður stjórnarandstöðu. Þá haldi ríkisstjórn landsins lista yfir þá borgara sem séu skilgreindir sem hryðjuverkamenn. Hinn 9. október 2014 hafi hæstiréttur Tadsíkistan úrskurðað að stjórnarandstöðuflokkurinn Group 24 væri hryðjuverkasamtök eftir að flokkurinn hafi skipulagt friðsamleg mótmæli í landinu. Með því hafi aðild og tengsl við flokkinn verið gerð refsiverð. Eftir þingkosningar í landinu árið 2015, þar sem flokkur forsetans hafi hlotið afgerandi meirihluti þingsæta, hafi stjórnarandstöðuflokkurinn IRPT (The Islamic Renaissance Party of Tajikistan), verið bannaður og skilgreindur sem hryðjuverkasamtök af hæstarétti landsins. Yfirvöld hafi árið 2022 haldið áfram að framfylgja banni sínu gegn stjórnarandstöðuflokkunum IRPT, Group 24 og The National Alliance of Tajikistan. Þá hafi trúarlegir stjórnmálaflokkar jafnframt verið bannaðir í landinu, auk þess sem fréttaflutningur af framangreindum flokkum sé bannaður. Í skýrslu Human Rights Watch frá 2023 kemur fram að aðgerðir yfirvalda í Tadsíkistan til að bæla niður mannréttindi og frelsi íbúa hafi stigmagnast árið 2022. Friðsamlegum mótmælum hafi verið mætt af ofbeldi af hálfu yfirvalda og baráttufólk fyrir mannréttindum hafi verið handtekið og ákært fyrir upplognar sakir. Samkvæmt vefsíðu Freedom Now var stjórnarandstæðingurinn og lögfræðingurinn Shamsiddinov dæmdur í átta ára fangelsi í ágúst 2020. Í fréttagrein RFE/RL frá nóvember 2021 hafi hann aftur verið ákærður og sakfelldur fyrir meinta þátttöku sína í stjórnarandstöðuflokknum Group 24 sem yfirvöld flokki sem hryðjuverkahóp og hafi fangelsisvist hans verið lengd um átta mánuði. Hinn 19. janúar 2023 hafi bróðir hans verið sakfelldur fyrir meint tengsl við Group 24 og dæmdur í fjögurra ára fangelsi. Tugir meðlima Group 24 hafi verið handteknir síðan árið 2014 og margir þeirra hlotið langa fangelsisvist. Þá hafi stofnandi hópsins verið myrtur árið 2015.

Samkvæmt 38. gr. stjórnarskrár Tadsíkistan eiga allir rétt á heilbrigðisþjónustu. Samkvæmt skýrslu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) er greiðsla sjúklinga úr eigin vasa mjög há eða um 71,2% af heildarútgjöldum til heilbrigðiskerfisins. Hár kostnaður geri það að verkum að margir fresti því að sækja sér heilbrigðisþjónustu. Fátt heilbrigðisstarfsfólk sé starfandi í landinu samanborið við íbúafjölda, auk þess sem það sé dreift um landið á ójafnan hátt. Viss hópur njóti tiltekinnar endurgjaldslausrar heilbrigðisþjónustu, m.a. börn og fullorðnir með tilteknar fatlanir eða sjúkdóma, börn undir eins árs, munaðarlaus börn og einstaklingar yfir áttrætt. Langstærstur hluti heilbrigðiskerfisins er rekinn af hinu opinbera en einkareknar heilbrigðisstofnanir séu að færast í aukana.

Ákvæði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Í 1. mgr. 37. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir:

Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og bókun við samninginn frá 31. janúar 1967, sbr. einnig 38. gr. laga þessara.

Í 38. gr. laga um útlendinga eru sett fram viðmið um það hvað felist í hugtakinu ofsóknir samkvæmt 1. mgr. 37. gr., á hvaða grundvelli ofsóknir geta byggst og hvaða aðilar geta verið valdir að þeim. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:

Ofsóknir samkvæmt 1. mgr. 37. gr. eru þær athafnir sem í eðli sínu eða vegna þess að þær eru endurteknar fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samsafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.

Í 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga er fjallað um í hverju ofsóknir geta falist. Þá eru þær ástæður sem ofsóknir þurfa að tengjast skilgreindar nánar í 3. mgr. 38. gr. laganna.

Í 4. mgr. 38. gr. laga um útlendinga kemur fram að þeir aðilar sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð séu:

a. ríkið,

b. hópar eða samtök sem stjórna ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess,

c. aðrir aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar eða samtök samkvæmt b-lið, þ.m.t. alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem fellur undir 2. mgr. 37. gr., m.a. með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem fela í sér ofsóknir.

Orðasambandið „ástæðuríkur ótti við að vera ofsóttur“ í 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga inniheldur huglæga og hlutlæga þætti og þarf að taka tillit til hvors tveggja þegar mat er lagt á umsókn um alþjóðlega vernd. Mat á því hvort ótti umsækjanda sé ástæðuríkur getur verið byggt á persónulegri reynslu umsækjanda sem og á upplýsingum um ofsóknir sem aðrir í umhverfi hans eða þeir sem tilheyra sama hópi hafa orðið fyrir. Umsækjandi sem hefur sýnt fram á að hann hafi þegar orðið fyrir ofsóknum í heimaríki, sbr. 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga, eða beinum og marktækum hótunum um slíkar ofsóknir, yrði almennt talinn hafa sýnt fram á ástæðuríkan ótta við slíkar ofsóknir snúi hann aftur til heimaríkis nema talið verði að miklar líkur séu á því að slíkar ofsóknir yrðu ekki endurteknar, t.d. þar sem aðstæður í heimaríki hans hafi breyst. Þótt umsækjandi um alþjóðlega vernd skuli njóta vafa upp að ákveðnu marki, verður umsækjandinn með rökstuddum hætti að leiða líkur að því að hans bíði ofsóknir í heimaríki. Frásögn umsækjanda og önnur gögn um einstaklingsbundnar aðstæður hans verða því almennt að fá stuðning í hlutlægum og áreiðanlegum upplýsingum um heimaríki umsækjanda, stjórnvöld, stjórnarfar og löggjöf þess. Þá er litið til sambærilegra upplýsinga um ástand, aðstöðu og verndarþörf þess hóps sem umsækjandi tilheyrir eða er talinn tilheyra.

Kærunefnd hefur við mat sitt á umsókn kæranda haft til hliðsjónar handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um málsmeðferð og viðmið við mat á umsókn um alþjóðlega vernd (Handbook and Guidelines on Procedures and Criteria for Determining Refugee Status, Genf 2019). Þá hefur aðferðarfræði trúverðugleikamats kærunefndar tekið mið af skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og Flóttamannasjóðs Evrópusambandsins um trúverðugleikamat, eftir því sem við á (Beyond Proof: Credibility Assessment in EU Asylum Systems, Brussel 2013).

Kærandi byggir á því að hann hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir í heimaríki sínu sem rekja megi til þess að föðurbróður hans hafi verið álitinn hryðjuverkamaður af yfirvöldum í Tadsíkistan vegna meintra tengsla hans við stjórnarandstöðuhóp og hafi hann verið myrtur árið 2015. Faðir kæranda hafi jafnframt verið álitinn hryðjuverkamaður af tadsískum yfirvöldum vegna sömu meintu tengsla við stjórnarandstöðuhóp. Hann hafi því farið í felur í september 2015 og kærandi viti ekki hvort hann sé á lífi í dag. Þá hafi eldri bróðir kæranda verið handtekinn árið 2015 eða 2016 í þeim tilgangi að fá föður hans úr felum og sé honum ennþá haldið föngnum. Kærandi hafi sjálfur verið handtekinn og yfirheyrður af lögreglu nokkrum sinnum vegna föður síns og föðurbróður, síðast árið 2019 og hafi lögreglumenn brotið vinstri handlegg kæranda í yfirheyrslunni. Kærandi hafi í kjölfarið flúið heimaríki sitt.

Kærandi greindi frá því við komu sína til Íslands að bróður hans hefði verið veitt alþjóðleg vernd hér á landi. Greindi kærandi frá því í viðtali hjá Útlendingastofnun að hann væri reiðubúinn að undirgangast DNA rannsókn til að sýna fram á tengsl sín við bróður sinn. Í ákvörðun Útlendingastofnunar var þó byggt á því að tengsl kæranda við bróður sinn væru ósönnuð. Það var mat Útlendingastofnunar að ekki væri unnt að útiloka að kærandi og bróðir hans væru raunverulega skildir en þó væri ekki hægt að fullyrða að svo væri. Kærunefnd telur ástæðu til að gera athugasemd við rannsókn Útlendingastofnunar, enda bar stofnuninni samkvæmt rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga, sbr. 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga, að ganga úr skugga um það hvort þeir væru bræður, einkum í ljósi þess að lagt var til grundvallar í máli bróður kæranda að fjölskylda hans hafi sætt ofsóknum. Af þessari ástæðu óskaði kærunefnd eftir því hinn 20. janúar 2023 að framkvæmd yrði DNA rannsókn til að fá úr því skorið hvort kærandi og bróðir hans væru raunverulega bræður. Hinn 28. mars 2023 bárust kærunefnd niðurstöður rannsóknarinnar þar sem fram kom að þeir væru albræður. Niðurstaða kærunefndar tekur því mið af úrskurði nefndarinnar í máli bróður kæranda nr. 508/2018 frá 22. nóvember 2018 þar sem honum var veitt alþjóðleg vernd á grundvelli 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga vegna ofsókna af hálfu tadsískra yfirvalda.

Frásögn kæranda í viðtali hjá Útlendingastofnun var stöðug og skýr og kom heim og saman við þær heimildir sem kærunefnd hefur skoðað um aðstæður í Tadsíkistan. Nær fulls samræmis var jafnframt að gæta í framburði kæranda og bróður hans varðandi aðgerðir tadsískra yfirvalda gangvart þeim og fjölskyldu þeirra í heimaríki. Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að framburður kæranda hafi almennt verið skýr og þær upplýsingar sem fram hafi komið hafi almennt verið í samræmi við þær upplýsingar sem stofnunin hafi kynnt sér varðandi almennt ástand og aðstæður í heimaríki kæranda. Það var þó niðurstaða stofnunarinnar að frásögn kæranda yrði ekki lögð til grundvallar þar sem hann hafi verið ónákvæmur í svörum sínum og hafi ekki lagt fram gögn sem renndu stoðum undir frásögn hans. Taldi Útlendingastofnun ekki ósanngjarnt að gera þá kröfu að kærandi gæti lagt fram gögn sem tengdust máli hans og vísaði stofnunin í úrskurð kærunefndar nr. 130/2021 í máli nr. KNU21020033 í því samhengi. Kærunefnd bendir á að í því máli bar aðilinn ekki fyrir sig að meintir ofsóknaraðilar hans væru yfirvöld í heimaríki hans, auk þess sem frásögn hans í viðtölum hjá Útlendingastofnun var metin óskýr og í verulegu ósamræmi við upplýsingar um aðstæður í heimaríki hans. Jafnframt hafði hann ekki reynt að leita aðstoðar yfirvalda í heimaríki sínu. Aðstæður kæranda eru með engu móti sambærilegar aðstæðum aðilans í tilvísuðu máli KNU21020033. Gera verður athugasemd við framangreint mat Útlendingastofnunar, einkum í ljósi þess að stofnunin mat skort á gögnum kæranda í óhag þrátt fyrir skýra frásögn hans um að hann óttist tadsísk yfirvöld og að frásögn hans um ofsóknir yfirvalda hafi fengið stoð í almennum landaupplýsingum. Þær sönnunarkröfur sem Útlendingastofnun gerði voru ekki í samræmi við þær kröfur sem fram koma í handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og skýrslu stofnunarinnar og Flóttamannasjóðs Evrópusambandsins um trúverðugleikamat í umsóknum um alþjóðlega vernd.

Þau gögn sem kærunefnd hefur skoðað um aðstæður í heimaríki kæranda bera með sér að tadsísk yfirvöld nýti löggjöf um baráttu gegn hryðjuverkastarfsemi til að bæla niður stjórnarandstöðu í landinu. Stjórnarandstöðuflokkar og aðrir hópar sem séu andvígir stjórnvöldum hafi verið skilgreindir sem hryðjuverkasamtök af dómstólum landsins, sem séu undir miklum áhrifum frá stjórnvöldum. Gefa gögnin til kynna að réttarhöld yfir meintum andstæðingum stjórnvalda fari fram fyrir luktum dyrum og að stjórnvöld hafi hindrað aðgang þeirra að lögmannsaðstoð. Bera gögnin með sér að talsverður fjöldi einstaklinga sitji í fangelsi vegna aðildar að hreyfingum í stjórnarandstöðu og að þeir hafi mátt þola pyndingar, auk þess sem fjölskyldumeðlimir þeirra sem séu grunaðir um aðild að stjórnarandstöðuhreyfingum hafi verið handteknir og sætt varðhaldi. Með vísan til þeirra gagna sem rakin hafa verið um aðstæður í heimaríki kæranda og aðgerðir yfirvalda gegn einstaklingum sem álitnir eru stjórnarandstæðingar telur kærunefnd frásögn kæranda af afskiptum lögreglu af fjölskyldu hans og varðhaldi bróður hans vera trúverðuga. Þótt kærandi hafi ekki lagt fram gögn sem styðja beint við frásögn hans af ofsóknum stjórnvalda í garð hans og fjölskyldu hans verður trúverðugur framburður kæranda lagður til grundvallar við úrlausn málsins. Þá verður ekki séð af gögnum um heimaríki kæranda að aðstæður þar fyrir einstaklinga er stjórnvöld ætla að séu tengdir skráðum hryðjuverkasamtökum hafi breyst til betri vegar frá því að kærunefnd kvað upp úrskurð sinn í máli bróður hans.

Í umfjöllun í handbók flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um réttarstöðu flóttamanna um stjórnmálaskoðanir í skilningi alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna frá 1951 kemur fram að umsækjandi verði að sýna fram á að hann óttist að verða fyrir ofsóknum vegna þessara skoðana sinna. Gengið sé út frá því að stjórnmálaskoðanir umsækjanda feli í sér gagnrýni á stefnu eða aðferðir stjórnvalda sem séu stjórnvöldum ekki þóknanlegar. Einnig sé gert ráð fyrir að stjórnvöldum sé kunnugt um slíkar skoðanir eða að þau ætli að umsækjandi hafi þær. Við mat á því hvort umsækjandi um alþjóðlega vernd hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir á grundvelli stjórnmálaskoðana í skilningi samningsins er þannig ekki skilyrði að viðkomandi hafi skoðanir sem feli í sér gagnrýni á stjórnvöld, heldur aðeins að stjórnvöld ætli að umsækjandi hafi slíkar skoðanir. Samkvæmt e-lið 3. mgr. 38. gr. laga um útlendinga vísa stjórnmálaskoðanir í skilningi 1. mgr. 37. gr. laganna einkum til skoðana á stefnumótun og aðferðum stjórnvalda sem kunna að beita ofsóknum án tillits til þess hvort viðkomandi hefur aðhafst eitthvað til að tjá skoðanir sínar. Með vísan til þess sem fram kemur í umfjöllun í handbók flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna verður lagt til grundvallar að ætlaðar stjórnamálaskoðanir geti einnig fallið undir e-lið 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga.

Í viðtölum hjá Útlendingastofnun greindi kærandi frá því að lögregla í heimaríki hans hafi komið á heimili hans og fjölskyldu hans og handtekið móður hans og eldri bróður. Kvað kærandi bróður sinn ennþá vera í fangelsi og fengi hann ekki að hafa samband við fjölskyldu sína eða lögfræðing. Sagðist kærandi hafa verið yfirheyrður nokkrum sinnum vegna tengsla hans við meinta hryðjuverkamenn, þ.e. föðurbróður hans og föður, og kvaðst hann óttast að verða fangelsaður í heimaríki sínu líkt og bróðir sinn. Með hliðsjón af framburði kæranda í málinu verður byggt á því að stjórnvöld í heimaríki kæranda ætli honum skoðanir sem feli í sér gagnrýni á eða andstöðu við stjórnvöld.

Að virtum framburði kæranda um aðgerðir lögreglu gegn fjölskyldu hans, þeirra gagna og heimilda sem styðja við frásögn kæranda af aðgerðum stjórnvalda í heimaríki hans gegn einstaklingum sem teljast andstæðingar stjórnvalda og fjölskyldum þeirra, auk ætlaðra stjórnmálaskoðana kæranda, er það mat kærunefndar að kærandi hafi sýnt fram á ástæðuríkan ótta við ofsóknir af hálfu stjórnvalda vegna stjórnmálaskoðana í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. e-lið 3. mgr. 38. gr. laga um útlendinga. Þar sem ótti kæranda við ofsóknir stafar frá yfirvöldum í heimaríki hans er það mat kærunefndar að kærandi geti ekki flutt sig um set innanlands og fengið raunverulega vernd í öðrum landshluta í heimaríki, sbr. 4. mgr. 37. gr. laga um útlendinga.

Með vísan til framangreinds telur kærunefnd ljóst að kærandi uppfylli skilyrði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi og að hann hafi því rétt til alþjóðlegrar verndar hér á landi, sbr. 1. mgr. 40. gr. sömu laga.

Samantekt

Að öllu framangreindu virtu er fallist á aðalkröfu kæranda um að fella úr gildi ákvörðun Útlendingastofnunar og veita honum alþjóðlega vernd á Íslandi á grundvelli 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðsamnings um stöðu flóttamanna.

Í ljósi þess að kærunefnd útlendingamála hefur fallist á aðalkröfu kæranda verða aðrar kröfur kæranda ekki teknar til umfjöllunar í máli þessu.

                                                               

 

Úrskurðarorð:

Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi. Kæranda er veitt alþjóðleg vernd á grundvelli 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. 1. mgr. 40. gr. s.l. Lagt er fyrir stofnunina að veita kæranda dvalarleyfi á grundvelli 73. gr. laga um útlendinga.

 

The decision of the Directorate of Immigration is vacated. The appellant is granted international protection in accordance with Article 37, paragraph 1, and Article 40, paragraph 1, of the Act on Foreigners. The Directorate is instructed to issue him residence permit on the basis of Article 73 of the Act on Foreigners.

 

 

Tómas Hrafn Sveinsson

 

 

Sindri M. Stephensen                                                                   Þorbjörg I. Jónsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum