Hoppa yfir valmynd
%C3%9Arskur%C3%B0arnefnd%20velfer%C3%B0arm%C3%A1la%20-%20F%C3%A9lags%C3%BEj%C3%B3nusta%20og%20h%C3%BAsn%C3%A6%C3%B0ism%C3%A1l

Mál nr. 545/2019 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 545/2019

Fimmtudaginn 2. apríl 2020

A

gegn

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun

Ú R S K U R Ð U R 

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, móttekinni 19. desember 2019, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Íbúðalánasjóðs, dags. 26. nóvember 2019, um endurkröfu ofgreiddra húsnæðisbóta.

Þann 1. janúar 2020 tók Húsnæðis- og mannvirkjastofnun við hlutverki, verkefnum og skyldum Íbúðalánasjóðs, sbr. lög nr. 137/2019 um Húsnæðis- og mannvirkjastofnun.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi þáði húsnæðisbætur á árinu 2018. Við lokauppgjör húsnæðisbóta kom í ljós að eignastaða kæranda hafði hækkað umfram eignaskerðingarmörk laga nr. 75/2016 um húsnæðisbætur vegna happdrættisvinnings sem kom til greiðslu 28. nóvember 2018. Með ákvörðun, dags. 24. september 2019, var kæranda birt lokauppgjör vegna ársins 2018 þar sem fram kom að hann hafi fengið ofgreiddar húsnæðisbætur að fjárhæð 299.340 kr. Kæranda var leiðbeint um heimild til að sækja um niðurfellingu kröfunnar að fullu eða að hluta ef sérstakar aðstæður væru fyrir hendi. Kærandi fór fram á niðurfellingu kröfunnar og með ákvörðun, dags. 26. nóvember 2019, var samþykkt að fella niður endurkröfu vegna tímabilsins janúar til október 2018, að fjárhæð 248.060 kr. Eftir stóð krafa fyrir tímabilið nóvember til desember 2018, að fjárhæð 51.280 kr., sem kæranda bæri að greiða.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála 19. desember 2019. Með bréfi, dags. 20. desember 2019, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Íbúðalánasjóðs ásamt gögnum málsins. Greinargerð Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar barst með bréfi, dags. 8. janúar 2020, og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 9. janúar 2020. Athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að hann eigi að endurgreiða húsnæðisbætur vegna nóvember og desember 2018 þar sem hann hafi verið yfir eignamörkum. Eignir kæranda hafi hins vegar ekki verið yfir eignamörkum fyrr en 28. nóvember 2018 og því ætti hann ekki að endurgreiða húsnæðisbætur fyrir nóvembermánuð.

III.  Sjónarmið Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar

Í greinargerð Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS) er vísað til þess að ágreiningur málsins lúti að endurkröfu á hendur kæranda vegna ofgreiðslu húsnæðisbóta fyrir nóvember og desember 2018. Kærandi geri kröfu um að stofnunin falli frá endurkröfunni fyrir nóvember þar sem eignastaða hans hafi ekki farið umfram skerðingamörk fyrr en 28. nóvember 2018. HMS hafi þegar samþykkt niðurfellingu á endurkröfunni að hluta en vegna happdrættisvinnings kæranda, dags. 31. október 2018, hafi stofnunin metið sem svo að kærandi hafi ekki verið í góðri trú um rétt sinn til greiðslna fyrir nóvember og desember 2018 þar sem hann hafi ekki upplýst stofnunina um breyttar aðstæður hjá sér. Af þeim sökum hafi kærandi ekki uppfyllt skilyrði 3. mgr. 22. gr. reglugerðar nr. 1200/2016 vegna fyrrgreindra mánaða.

HMS vísar til þess að húsnæðisbætur séu greiddar á grundvelli áætlunar um tekjur og eignir umsækjanda og heimilismanna á því almanaksári sem húsnæðisbætur séu greiddar, sbr. 1. mgr. 20. gr. laga um húsnæðisbætur. Stofnuninni sé heimilt samkvæmt 1. mgr. 15. gr. og að fengnu skriflegu umboði að afla nauðsynlegra upplýsinga um tekjur og eignir umsækjanda og heimilismanna, 18 ára og eldri, frá skattayfirvöldum og fleirum. Þá beri umsækjandi ábyrgð á því að slík áætlun endurspegli raunstöðu á tekjum og eignum heimilismanna og honum beri skylda til að veita HMS allar þær upplýsingar og gögn þeim til staðfestingar til að unnt sé að staðreyna rétt hans til húsnæðisbóta, sbr. 1. mgr. 14. gr. laganna. Að sama skapi sé umsækjanda skylt að tilkynna HMS um allar þær breytingar sem kunni að verða á högum hans eða heimilismanna eða öðrum þeim atriðum sem kunni að hafa áhrif á rétt hans til húsnæðisbóta svo unnt sé að endurmeta rétt viðkomandi, sbr. 3. mgr. sömu greinar. HMS haldi úti ,,Mínum síðum“ á vefsíðunni www.hms.is en þar gefist umsækjendum tækifæri til að fylgjast með umsókn sinn og eiga í rafrænum samskiptum við stofnunina. Á þeirri síðu geti umsækjendur meðal annars fylgst með hvaða tekju- og eignaforsendur liggi til grundvallar greiðslum húsnæðisbóta hverju sinni og sent inn athugasemdir ef einhverjar eru. Einnig geti umsækjendur átt samskipti við stofnunina í gegnum síma eða tölvupóst.

Ljóst sé að umsækjendur beri skýra ábyrgð samkvæmt 3. mgr. 14. gr. laganna að upplýsa stofnunina um breytingar á eignum eða öðrum aðstæðum sem geti haft áhrif á greiðslur húsnæðisbóta. Kæranda hafi því borið samkvæmt lögbundinni skyldu að tilkynna HMS um breytingar á eignastöðu sinni sem kunni að hafa áhrif á greiðslur húsnæðisbóta, en það hafi kærandi hins vegar ekki gert þegar upplýsingar hafi legið fyrir um happdrættisvinninginn 31. október 2018.

HMS tekur fram að ein af þeim forsendum sem lagðar séu til grundvallar útreikningi húsnæðisbóta séu eignir. Í 1. mgr. 18. gr. laga um húsnæðisbætur komi fram að eignir, sem fari umfram skilgreind eignamörk laganna, hafi áhrif til lækkunar á grunnfjárhæð húsnæðisbóta. Á árinu 2018 hafi skilgreind eignamörk laganna verið 6.500.000 kr. og byrji húsnæðisbætur því að skerðast þegar eignir fari umfram þá fjárhæð uns þær falli alveg niður við 60% hærri fjárhæð, þ.e. 10.400.000 kr. Við útreikning húsnæðisbóta skuli, samkvæmt 2. mgr. sömu greinar, miða við eignir í lok þess almanaksárs þegar greiðslur húsnæðisbóta hafi staðið yfir en með eignum sé átt við allar eignir samkvæmt 72. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt að frádregnum skuldum samkvæmt 1. mgr. 75. gr. sömu laga, sbr. 3. mgr. 18. gr. laga um húsnæðisbætur.

Þann 28. nóvember 2018 hafi kærandi fengið greiddan happdrættisvinning að fjárhæð 9.162.870 kr. og eignastaða kæranda samkvæmt skattframtali hafi numið samtals 10.650.584 kr. í árslok. Við endurreikning vegna lokuppgjörs kæranda sé HMS skylt að líta til upplýsinga í skattframtali hans og stofnuninni beri við endurreikning, óháð því hvenær happdrættisvinningurinn hafi komið til greiðslu, að miða við eignir kæranda í lok bótaárs, sbr. 2. mgr. 18. gr. laganna. HMS árétti að það sé á ábyrgð kæranda að gæta að því að upplýsa stofnunina um breytta eignastöðu, sbr. 1. mgr. 14. gr. laganna. Samkvæmt því hafi stofnunin enga heimild til þess að virða að vettugi upplýsingar um eignastöðu kæranda sem komi fram í skattframtali hans, þrátt fyrir að eignastaða hafi ekki breyst vegna útgreiðslu happdrættisvinnings fyrr en í nóvember 2018.

Í 2. mgr. 25. gr. laga um húsnæðisbætur komi fram að HMS skuli endurreikna fjárhæð húsnæðisbóta þegar endanlegar upplýsingar um tekjur og eignir næstliðins almanaksárs liggi fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum. Komi í ljós við endurreikning að húsnæðisbætur hafi verið ofgreiddar beri umsækjanda að endurgreiða þann hluta bótafjárhæðinnar sem hann hafi ekki lögbundinn rétt til að njóta og fari því um innheimtu samkvæmt 26. gr. laganna. Þar komi fram sú skylda HMS að innheimta ofgreiddar húsnæðisbætur. Sú skylda sé áréttuð í 1. mgr. 22. gr. reglugerðar nr. 1200/2016. Undantekning frá þessari meginreglu, varðandi þær kröfur sem myndist við endurreikning húsnæðisbóta, sé að finna í 3. mgr. 22. gr. reglugerðarinnar. Í ákvæðinu felist að við ákvörðun um hvort falla skuli frá innheimtu eigi að fara fram mat, annars vegar á fjárhagslegum og félagslegum aðstæðum umsækjanda, með tilliti til greiðslugetu, og hins vegar á því hvort umsækjandi hafi verið í góðri trú um greiðslurétt sinn þegar hann hafi þegið hinar ofgreiddu húsnæðisbætur. Aðstæður þurfi því að vera sérstakar svo að undanþáguheimild 3. mgr. 22. gr. reglugerðarinnar eigi við og samkvæmt almennum lögskýringarreglum beri að skýra ákvæðið þröngt.

Umsókn kæranda um niðurfellingu á innheimtu vegna ofgreiddra húsnæðisbóta hafi verið tekin til afgreiðslu 26. nóvember 2019. Við afgreiðslu málsins hafi fyrirliggjandi gögn verið skoðuð, meðal annars tilurð ofgreiðslunnar, upplýsingar frá Ríkisskattstjóra um tekjur og eignir kæranda, auk upplýsinga um fjárhag og félagslega aðstöðu hans sem aflað hafi verið úr tölvukerfi stofnunarinnar. Við könnun á því hvort kærandi uppfyllti skilyrði til niðurfellingar á ofgreiddum húsnæðisbótum samkvæmt 3. mgr. 22. gr. reglugerðar nr. 1200/2016, skuli sem fyrr segir, fara fram mat á fjárhagslegum og félagslegum aðstæðum og hvort hann hafi verið í góðri trú um greiðslurétt sinn. Við mat á aðstæðum kæranda hafi verið litið til allra þessa þátta og samþykkt að fella niður endurkröfu vegna tímabilsins janúar til október 2018 á grundvelli góðrar trúar, enda hafi kærandi ekki getað vitað að hann myndi hljóta happdrættisvinning 31. október 2018 og því verið í góðri trú um rétt sinn til greiðslna fram að því. HMS geti hins vegar ekki fallist á beiðni kæranda um að fella niður endurkröfuna vegna nóvember 2018 þar sem skilyrði reglugerðarinnar um góða trú verði að skoða í ljósi ábyrgðar kæranda á því að veita réttar upplýsingar hverju sinni. Einnig þyki rétt að nefna að kærandi hafi verið metinn greiðsluhæfur á grundvelli þeirra gagna sem stofnunin hafi aðgang að og sé því fullfær til þess að endurgreiða kröfuna, að teknu tilliti til fjárhæðar hennar sem nemi 51.280 kr. 

Líkt og ofangreind umfjöllun beri með sér sé það á ábyrgð kæranda, sem njóti réttar til húsnæðisbóta, að upplýsa HMS um breyttar aðstæður svo forsendur húsnæðisbóta séu í samræmi við raunverulegar aðstæður hans. Það hafi kærandi ekki gert, þrátt fyrir að upplýsingar um útgreiðslu happdrættisvinningsins hafi legið fyrir þann 31. október 2018 né þegar komið hafi að útgreiðslu hans 28. nóvember 2018. Að framangreindu virtu verði því ekki séð að skilyrði um góða trú sé uppfyllt í máli þessu vegna húsnæðisbótagreiðslna til kæranda fyrir nóvember og desember 2018. Stofnunin krefjist þess að hin kærða ákvörðun verði staðfest.

IV. Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Íbúðalánasjóðs, nú Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, dags. 26. nóvember 2019, um endurkröfu ofgreiddra húsnæðisbóta að fjárhæð 51.280 kr. vegna tímabilsins nóvember og desember 2018. Endurkrafan var tilkomin vegna happdrættisvinnings sem kærandi vann 31. október 2018 en fékk útgreiddan 28. nóvember sama ár. Þá hækkaði eignastaða hans umfram skerðingarmörk laga nr. 75/2016 um húsnæðisbætur.

Í 8. gr. laga nr. 75/2016 um húsnæðisbætur kemur fram að húsnæðisbætur séu mánaðarlegar greiðslur sem greiðast til umsækjanda, sbr. þó 4. mgr. 21. gr., og skuli ákvarðaðar og reiknaðar út miðað við grunnfjárhæðir sem miðast við fjölda heimilismanna, sbr. 3. tölul. 3. gr., að teknu tilliti til tekna, sbr. 17. gr., eigna, sbr. 18. gr. og greiðsluþátttöku í húsnæðiskostnaði, sbr. 19. gr. Samkvæmt 14. gr. laga nr. 75/2016 er umsækjanda skylt að veita framkvæmdaraðila allar þær upplýsingar og gögn þeim til staðfestingar sem óskað er eftir og nauðsynlegar eru til að staðreyna rétt hans til húsnæðisbóta. Enn fremur er skylt að upplýsa um allar breytingar sem kunna að verða á högum hans eða heimilismanna eða öðrum þeim atriðum sem kunna að hafa áhrif á rétt viðkomandi til húsnæðisbóta samkvæmt lögunum á þeim tíma sem hann fær greiddar húsnæðisbætur. Af framangreindu verður ráðið að sú skylda hvíli á greiðsluþegum að upplýsa Húsnæðis- og mannvirkjastofnun um meðal annars eignir á bótagreiðsluári sem kunna að hafa áhrif á bótarétt.

Í 18. gr. laga nr. 75/2016 segir að grunnfjárhæðir samkvæmt 2. mgr. 16. gr., eftir atvikum að teknu tilliti til lækkunar vegna tekna samkvæmt 17. gr., lækki sem nemi hlutfalli af samanlögðum eignum allra heimilismanna, 18 ára og eldri, sem fari umfram 6.500.000 kr. uns þær falli alveg niður við 60% hærri fjárhæð (eða 10.400.000 kr.) Samkvæmt 2. mgr. 18. gr. laganna skal miða við eignir í lok þess almanaksárs þegar greiðslur húsnæðisbóta stóðu yfir. Þá kemur fram í 3. mgr. 18. gr. að með eignum í lögunum sé átt við allar eignir samkvæmt 72. gr. laga um tekjuskatt að frádregnum skuldum samkvæmt 1. mgr. 75. gr. sömu laga, sbr. þó 2. málsl. 2. mgr. Í 2. mgr. 72. gr. laga um tekjuskatt segir að framtalsskyldar eignir séu allar fasteignir, lausafé og hvers konar önnur verðmæt eignarréttindi, með þeim takmörkunum sem um ræði í 74. gr., og skipti ekki máli hvort eignirnar gefi af sér arð eða ekki.

Í 25. gr. laganna er kveðið á um endurreikning á húsnæðisbótum. Þar segir í 1. mgr. að rétt til húsnæðisbóta megi endurskoða hvenær sem er og endurreikna fjárhæð húsnæðisbóta þannig að húsnæðisbætur verði í samræmi við þær breytingar sem orðið hafa á aðstæðum umsækjanda eða annarra heimilismanna. Í 2. mgr. kemur fram að þegar endanlegar upplýsingar um tekjur og eignir næstliðins almanaksárs samkvæmt 17. og 18. gr. liggi fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum skuli framkvæmdaraðili endurreikna fjárhæðir húsnæðisbóta vegna þess almanaksárs á grundvelli þeirra upplýsinga. Í 3. mgr. kemur fram að leiði endurreikningur samkvæmt 1. og 2. mgr. til breytinga á fjárhæð húsnæðisbóta skuli leiðrétta húsnæðisbæturnar samkvæmt 26. gr. laganna. Þar segir í 1. mgr. að hafi umsækjandi fengið hærri húsnæðisbætur en honum bar á umræddu tímabili beri honum að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd var. Sú skylda er áréttuð í 1. mgr. 22. gr. reglugerðar nr. 1200/2016 um húsnæðisbætur en í 3. mgr. ákvæðisins er kveðið á um undantekningu frá þeirri meginreglu. Þar segir:

„Þrátt fyrir að endurreikningur húsnæðisbóta skv. 25. gr. laga um húsnæðisbætur leiði í ljós að húsnæðisbætur hafi verið ofgreiddar er [Húsnæðis- og mannvirkjastofnun] heimilt að falla frá kröfu um endurgreiðslu þeirrar fjárhæðar sem ofgreidd var að fullu eða að hluta og afskrifa hana ef sérstakar aðstæður eru fyrir hendi sem mæla með því. Í því sambandi skal einkum litið til fjárhagslegra og félagslegra aðstæðna umsækjanda og þess hvort hann hafi verið í góðri trú um rétt sinn til greiðslna. Hið sama gildir um dánarbú umsækjanda, eftir því sem við á.“

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun hefur vísað til þess að samþykkt hafi verið að fella niður endurkröfu vegna tímabilsins janúar til október 2018 á grundvelli góðrar trúar kæranda, enda hafi hann ekki getað vitað að hann myndi hljóta happdrættisvinning 31. október 2018 og því verið í góðri trú um rétt sinn til greiðslna fram að því. Kærandi hafi einnig verið metinn greiðsluhæfur.

Líkt og að framan greinir er það á ábyrgð greiðsluþega húsnæðisbóta að upplýsa Húsnæðis- og mannvirkjastofnun um allar breytingar sem kunna að hafa áhrif á rétt viðkomandi til greiðslna. Þá liggur fyrir að þegar endanlegar upplýsingar um meðal annars eignir næstliðins almanaksárs liggja fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum skal framkvæmdaraðili endurreikna fjárhæðir húsnæðisbóta vegna þess almanaksárs á grundvelli þeirra upplýsinga. Ljóst er að það var gert í tilviki kæranda og hann endurkrafinn um ofgreidda fjárhæð. Kærandi fór fram á að fallið yrði frá endurgreiðslukröfunni og var það gert að stórum hluta, en ekki vegna þess hluta ársins eftir að hann vann happdrættisvinninginn sem breytti eignastöðu hans. Að mati úrskurðarnefndar mátti kærandi vita að sú breyting sem happdrættisvinningurinn sem hann vann 31. október 2018 myndi hafa áhrif á eignastöðu hans og þar með áhrif á fjárhæð húsnæðisbóta til hans. Kærandi var því ekki í góðri trú vegna greiðslna húsnæðisbóta í nóvember og desember 2018. Samkvæmt 26. gr. laga nr. 75/2016 er meginreglan sú að endurgreiða ber ofgreiddar húsnæðisbætur. Undantekningar frá þeirri meginreglu ber að skýra þröngt samkvæmt almennum lögskýringarreglum. Með vísan til þess er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að kæranda beri að endurgreiða ofgreiddar húsnæðisbætur fyrir nóvember og desember 2018. Hin kærða ákvörðun er því staðfest.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Íbúðalánasjóðs, nú Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, dags. 26. nóvember 2019, um endurkröfu ofgreiddra húsnæðisbóta til handa A, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum