Hoppa yfir valmynd
%C3%9Arskur%C3%B0arnefnd%20velfer%C3%B0arm%C3%A1la%20-%20F%C3%A9lags%C3%BEj%C3%B3nusta%20og%20h%C3%BAsn%C3%A6%C3%B0ism%C3%A1l

Mál nr. 443/2019 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 443/2019

Þriðjudaginn 10. desember 2019

A

gegn

Íbúðalánasjóði

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 22. október 2019, kærði A til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Íbúðalánasjóðs, dags. 23. júlí 2019, um synjun á beiðni kæranda um lækkun vaxta og niðurfellingu uppgreiðsluþóknunar.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi er skuldari að ÍLS-veðbréfi sem gefið var út án heimildar til uppgreiðslu eða aukaafborgana nema gegn sérstakri þóknun. Með erindi til Íbúðalánasjóðs, dags. 27. júní 2019, fór kærandi fram á lækkun vaxta af láninu og niðurfellingu uppgreiðsluþóknunar. Þeirri beiðni var hafnað með ákvörðun Íbúðalánasjóðs frá 23. júlí 2019.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála þann 22. október 2019. Með bréfi, dags. 24. október 2019, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Íbúðalánasjóðs vegna kærunnar og gögnum málsins. Greinargerð Íbúðalánasjóðs barst með bréfi, dags. 13. nóvember 2019. Með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 14. nóvember 2019, var greinargerðin send kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi krefst lækkun vaxta í samræmi við þá vexti sem séu á húsnæðislánum þessa dagana og niðurfellingu uppgreiðsluþóknunar. Kærandi vísar til erindis síns til Íbúðalánasjóðs frá 27. júní 2019 sem og sanngirnissjónarmiða. Þrátt fyrir að heimild hafi verið fyrir svo hárri uppgreiðsluþóknun við lánveitingu sé það nú ólöglegt og ekkert annað en eignasvipting af hálfu sjóðsins. Kærandi kveðst að hún myndi glöð greiða fyrir þá uppgreiðsluprósentu sem nú sé leyfð, en rúmar 2,5 milljónir loki á alla möguleika til að búa sér og börnum sínum heimili.

III. Sjónarmið Íbúðalánasjóðs

Íbúðalánasjóður krefst þess að hinar kærðu ákvarðanir verði staðfestar. Hvað varðar kröfu um lækkun vaxta er vísað til þess að ÍLS-veðbréf kæranda beri vexti í samræmi við ákvörðun stjórnar Íbúðalánasjóðs á grundvelli ákvæða í lögum nr. 44/1998 um húsnæðismál, sbr. einnig 3. tölul. skilmála bréfsins. Við útgáfu bréfsins í september [2008] hafi verið í gildi 3. og 4. mgr. 21. gr. laganna en í gildandi lögum um húsnæðismál séu ákvæðin sambærileg og tiltekið sé í 4. mgr. 21. gr. Þar sé kveðið á um að vextir verðtryggða lána séu óbreytanlegir út lánstímann. Hið sama segi í 3. mgr. 11. gr. reglugerðar nr. 970/2016. Í því ljósi hafi Íbúðalánasjóður engar heimildir til að lækka vexti á láni kæranda og því beri að staðfesta þá ákvörðun sjóðsins.   

Í 23. gr. laga nr. 44/1998 sé fjallað um það að almennt sé útgefendum ÍLS-veðbréfa heimilt að greiða aukaafborganir af þeim eða endurgreiða að fullu fyrir gjalddaga. Í 2. mgr. sé fjallað um heimild ráðherra að ákveða að setja á uppgreiðsluþóknun og um það skuli geta í skilmálum bréfsins. Loks segi í 3. mgr. að þó sé heimilt að ákveða með reglugerð almenna heimild fyrir Íbúðalánasjóð til að bjóða skuldurum að afsala sér þessari heimild til aukaafborgana eða uppgreiðslu án þess að greiða uppgreiðsluþóknun og í staðinn verði vaxtaálag ÍLS-veðbréfsins lægra. Þóknunin skuli aldrei nema lægri fjárhæð en sem nemi kostnaði sjóðsins við uppgreiðslu. Þá heimild hefur ráðherra nýtt í reglugerð nr. 970/2016 um ÍLS-veðbréf og íbúðabréf, áður reglugerð nr. 522/2004. Heimildin sé í 3. mgr. 13. gr. reglugerðar nr. 970/2016 og í 4. mgr. sömu greinar segi að skuldari skuli greiða sérstaka þóknun til Íbúðalánasjóðs samkvæmt gjaldskrá hans ef um aukaafborganir eða uppgreiðslu skuldabréfa sé að ræða. Reiknireglu uppgreiðsluþóknunarinnar sé að finna í 7. gr. reglugerðar nr. 1016/2005 um gjaldskrá sjóðsins. Yfirlýsing þar sem kærandi afsali sér rétti til aukaafborgana eða uppgreiðslu ÍLS-veðbréfsins sé í 5. tölul. skilmála þess og hún hafi fengið í staðinn lægra vaxtaálag en ella. Engum heimildum sé til að dreifa til að lækka eða fella niður slíka uppgreiðsluþóknun. Af þeim sökum hafi Íbúðalánasjóði verið nauðugur sá kostur að synja beiðni kæranda um lækkun eða niðurfellingu uppgreiðsluþóknunar. Því beri einnig að staðfesta ákvörðun sjóðsins um þetta atriði.

IV. Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Íbúðalánasjóðs um synjun á beiðni kæranda um lækkun vaxta og niðurfellingu uppgreiðsluþóknunar af ÍLS-veðbréfi sem hún er skuldari að.

Í 3. mgr. 21. gr. laga nr. 44/1998 um húsnæðismál kemur fram að stjórn Íbúðalánasjóðs ákvarði vexti ÍLS-veðbréfa með hliðsjón af fjármögnunarkostnaði í reglulegum útboðum íbúðabréfa og fjármagnskostnaði vegna uppgreiddra lána samkvæmt 23. gr. að viðbættu vaxtaálagi samkvæmt 28. gr. Í 4. mgr. ákvæðisins segir að vextir af verðtryggðum ÍLS-veðbréfum skuli vera óbreytanlegir allan lánstímann en vextir af óverðtryggðum ÍLS-veðbréfum geti verið breytilegir. Samkvæmt fyrirliggjandi afriti af ÍLS-veðbréfi kæranda er um að ræða verðtryggt jafngreiðslulán. Að því virtu er ekki heimilt að lækka vexti á láni kæranda.

Í 1. mgr. 23. gr. laganna kemur meðal annars fram að skuldurum Íbúðalánasjóðsveðbréfa sé heimilt að greiða aukaafborganir af skuldabréfum sínum eða að endurgreiða skuldina að fullu fyrir gjalddaga. Í 2. mgr. 23. gr. laganna segir að við sérstakar aðstæður og að fenginni umsögn stjórnar Íbúðalánasjóðs sé ráðherra heimilt að ákveða að aukaafborganir og uppgreiðsla ÍLS-veðbréfa verði aðeins heimilar gegn greiðslu þóknunar sem jafni út að hluta eða að öllu leyti muninn á uppgreiðsluverði ÍLS-veðbréfs og markaðskjörum sambærilegs íbúðabréfs. Geta skuli um þessa heimild í skilmálum ÍLS-veðbréfa.

Þá kemur fram í 3. mgr. 23. gr. laganna að þrátt fyrir ákvæði 1. og 2. mgr. geti ráðherra heimilað Íbúðalánasjóði með reglugerð, í samræmi við almennar lagaheimildir á hverjum tíma, að bjóða skuldurum ÍLS-veðbréfa að afsala sér rétti til þess að greiða án þóknunar upp lán eða greiða aukaafborganir, gegn lægra vaxtaálagi. Jafnframt skuli í reglugerðinni kveðið á um hlutfall þóknunar sem Íbúðalánasjóður getur áskilið sér ef lántaki, sem afsalar sér umræddum rétti, hyggst greiða upp lán fyrir lok lánstíma. Slík þóknun skuli aldrei nema hærri fjárhæð en nemur kostnaði Íbúðalánasjóðs vegna uppgreiðslu viðkomandi láns.

Ráðherra hefur nýtt heimild 1. málsl. 3. mgr. 23. gr. laga nr. 44/1998 með setningu reglugerðar nr. 970/2016 um ÍLS-veðbréf og íbúðabréf, áður reglugerð nr. 522/2004. Samkvæmt 3. mgr. 13. gr. reglugerðarinnar er Íbúðalánasjóði heimilt að bjóða þeim, sem undirrita yfirlýsingu um að þeir afsali sér heimild til að greiða aukaafborganir af skuldabréfum sínum eða endurgreiða skuldina að fullu fyrir gjalddaga, lán með lægra vaxtaálagi sem nemur þeim hluta álagsins sem er ætlað að mæta vaxtaáhættu sjóðsins. Í 4. mgr. 13. gr. kemur fram að ef lántaki, sem tekið hefur lán með lægra vaxtaálagi en ella býðst, óski eftir því að greiða af láni aukaafborganir eða greiða skuldabréfið upp að fullu fyrir lok lánstímans skuli hann greiða sérstaka þóknun til Íbúðalánasjóðs samkvæmt gjaldskrá sjóðsins. Í 5. lið skilmála ÍLS-veðbréfs kæranda kemur fram að skuldari afsali sér með undirritun ÍLS-veðbréfsins heimild til að greiða aukaafborganir af skuldabréfum sínum eða að endurgreiða skuldina að fullu fyrir gjalddaga nema gegn sérstakri þóknun. Samkvæmt nefndu ÍLS-skuldabréfi hefur kærandi undirritað yfirlýsingu um að hún afsali sér heimild til að greiða aukaafborganir eða endurgreiða skuldina að fullu fyrir gjalddaga nema gegn sérstakri þóknun. Verður að telja að um sé að ræða yfirlýsingu samkvæmt 3. mgr. 13. gr. framangreindrar reglugerðar. Aukaafborgun kæranda eða endurgreiðsla að fullu fyrir gjalddaga er því óheimil nema gegn greiðslu uppgreiðsluþóknunar.

Með vísan til framangreinds er hin kærða ákvörðun staðfest.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Íbúðalánasjóðs, dags. 23. júlí 2019, um synjun á beiðni A um lækkun vaxta og niðurfellingu uppgreiðsluþóknunar er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum