Hoppa yfir valmynd
%C3%9Arskur%C3%B0arnefnd%20velfer%C3%B0arm%C3%A1la%20-%20Atvinnuleysistryggingar%20og%20vinnumarka%C3%B0sa%C3%B0ger%C3%B0ir

Mál nr. 249/2021 - Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 249/2021

Fimmtudaginn 26. ágúst 2021

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 19. maí 2021, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 16. mars 2021, um að fella niður bótarétt hennar í tvo mánuði og innheimta ofgreiddar bætur.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun þann 13. ágúst 2020. Með bréfi, dags. 5. mars 2021, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda að við samkeyrslu tölvugagna stofnunarinnar og Ríkisskattstjóra hafi virst sem hún hafi haft tekjur í desember 2020 frá B samhliða greiðslum atvinnuleysisbóta og án þess að tilkynna það til stofnunarinnar. Kæranda var veittur sjö daga frestur til að skila inn gögnum um þær tekjur. Þann 16. mars 2021 var kæranda tilkynnt ákvörðun Vinnumálastofnunar um að bótaréttur hennar yrði felldur niður frá og með þeim degi í tvo mánuði á grundvelli 1. mgr. 59. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar þar sem hún hafi látið hjá líða að veita upplýsingar í skilningi ákvæðisins. Kærandi var einnig krafin um endurgreiðslu ofgreiddra atvinnuleysisbóta samkvæmt 3. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006 að fjárhæð 10.879 kr. fyrir tímabilið nóvember 2020 til febrúar 2021. Þann 23. mars 2021 bárust skýringar frá vinnuveitanda kæranda og sama dag skráði kærandi sig í 20% hlutastarf hjá umræddum vinnuveitanda. Með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 31. mars 2021, var kæranda tilkynnt að beiðni um að mál hennar yrði tekið fyrir að nýju með tilliti til nýrra gagna væri synjað.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála þann 19. maí 2021. Með bréfi, dags. 20. maí 2021, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst 28. júní 2021 og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 30. júní 2021. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að hafa byrjað að vinna sjálfboðavinnu hjá B samhliða greiðslu atvinnuleysisbóta. Stuttu seinna hafi hún verið ráðin þangað tímabundið. Vinnuveitandinn hafi haft samband við Vinnumálastofnun til að ræða hvað kærandi gæti fengið í laun án þess að hún myndi missa atvinnuleysisbæturnar. Kærandi hafi talið að allt væri klárt en þá hafi hún fengið bréf frá Vinnumálastofnun um ofgreiddar bætur. Ofgreiðslan hafi verið hærri en hún ætti að vera en það hafi gerst vegna þess að Vinnumálastofnun hafi ekki í upphafi útskýrt fyrir kæranda eða vinnuveitanda hennar hvað þyrfti að gera eða hvaða laun hún gæti þegið. Kærandi hafi fengið staðfestingu á að allt væri í lagi og því verið viss um að það væri í lagi að hún fengi bæði launin og bæturnar. Síðar hafi hún komist að því að svo væri ekki.

Kærandi og vinnuveitandi hennar hafi gert ráð fyrir að um samskiptaörðugleika væri að ræða. Eftir að bætur til kæranda hafi verið stöðvaðar hafi Vinnumálastofnun ráðlagt þeim að skila skýringarbréfi inn á „Mínar síður“ en því hafi verið synjað strax. Kærandi hafi haft samband við Vinnumálastofnun og hafi verið beðin um senda bréfið aftur og henni sagt að tiltekinn fulltrúi stofnunarinnar myndi sjá um mál hennar. Sá fulltrúi hafi fullvissað kæranda um að hann myndi fara með mál hennar fyrir fund og að það yrði haft samband við hana eftir tvær vikur. Eftir tvær vikur hafi ekkert borist og hafi kærandi þá reynt að hafa samband við fulltrúann, án árangurs. Kærandi hafi þá aftur haft samband við Vinnumálastofnun og hún hafi verið beðin afsökunar, mál hennar hafi verið tekið aftur og henni lofað að það myndi fara fyrir fund og hún yrði látin vita hvernig færi. Það hafi aldrei verið haft samband við kæranda og þegar hún hafi hringt í Vinnumálastofnun hafi hún fengið þær upplýsingar að ekki væri vitað hvað ætti að gera næst. Kærandi hafi verið beðin afsökunar aftur og henni sagt að hafa samband við úrskurðarnefnd velferðarmála.

Vegna samskiptaörðugleika við upphaf málsins og aðgerðarleysis Vinnumálastofnunar séu nú komir tveir mánuðir síðan kærandi hafi fengið atvinnuleysisbætur. Kærandi hafi sýnt mikla þolinmæði og skilning á því að þetta tæki tíma. Nú hafi þetta tekið of langan tíma og kærandi geti ekki sætt sig við að hafa misst atvinnuleysisbætur sínar vegna rangra og misvísandi upplýsinga.

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að upphafleg skuld kæranda, 10.879 kr., hafi verið tilkomin vegna tilfallandi tekna, sem skráðar hafi verið á kæranda í kjölfar samkeyrslu tölvugagna Vinnumálastofnunar og Ríkisskattstjóra. Í ljósi þess að kærandi hafi síðar skráð sig í 20% hlutastarf hafi upphaflega skuldin verið felld niður. Þess í stað hafi einungis verið miðað við skráningu kæranda í hlutastarf og skuld hennar reiknuð út frá því. Heildarskuld kæranda standi þann 28. júní 2021 í 162.765 kr. og sé sú upphæð tilkomin vegna ofgreiðslu atvinnuleysisbóta fyrir tímabilið nóvember 2020 til febrúar 2021. Skuld kæranda hafi hækkað töluvert frá því sem hún hafi verið upphaflega, enda reiknist skuldin hærri þegar miðað sé við starf hennar í 20% starfshlutfalli.

Fyrir liggi í málinu að kærandi hafi fengið greidd laun frá B þar sem hún hafi starfað í 20% starfshlutfalli á tímabilinu nóvember 2020 til febrúar 2021. Kærandi hafi ekki tilkynnt Vinnumálastofnun um starf sitt eða tekjur. Í 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé fjallað um umsókn launamanna og sjálfstætt starfandi einstaklinga um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar. Í 3. mgr. 9. gr. segi orðrétt:

,,Sá sem telst tryggður á grundvelli laga þessara skal upplýsa Vinnumálastofnun um allar breytingar sem kunna að verða á högum hans á þeim tíma er hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum eða annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögum þessum, svo sem um námsþátttöku, tekjur sem hann fær fyrir tilfallandi vinnu og hversu lengi vinnan stendur yfir.“

Samkvæmt 3. mgr. 9. gr. hafi kæranda borið að tilkynna Vinnumálastofnun um umræddar tekjur. Í 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé kveðið á um viðurlög þeirra sem hafi látið hjá líða að veita Vinnumálastofnun upplýsingar eða látið hjá líða að tilkynna um breytingar á högum. Þar segi orðrétt:

,,Sá sem lætur hjá líða að veita nauðsynlegar upplýsingar skv. 14. gr. eða um annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögum þessum skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila, sbr. þó 4. mgr. og 59. gr. a. Hið sama á við þegar hinn tryggði hefur látið hjá líða að tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunna að verða á högum hans á því tímabili sem hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum eða annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögum þessum, sbr. 3. mgr. 9. gr. og 2. mgr. 14. gr. Skal honum jafnframt verða gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur skv. 39. gr.“

Kærandi hafi ekki tilkynnt Vinnumálastofnun um umræddar tekjur líkt og henni hafi verið skylt að gera samkvæmt 3. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Því hafi hún verið beitt viðurlögum samkvæmt 59. gr. og bótaréttur hennar felldur niður í tvo mánuði þann 16. mars 2021.

Eins og áður greini hafi kærandi starfað hjá B í 20% starfshlutfalli samhliða greiðslu atvinnuleysisbóta. Í 17. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé fjallað um atvinnuleysistryggingar samhliða minnkuðu starfshlutfalli. Í 1. mgr. 17. gr. segi orðrétt:

,,Launamaður, sbr. a-lið 3. gr., sem missir starf sitt að hluta telst hlutfallslega tryggður samkvæmt lögum þessum og nemur tryggingarhlutfallið mismun réttar hans hefði hann misst starf sitt að öllu leyti, sbr. 15. gr., og þess starfshlutfalls sem hann gegnir áfram, frá þeim tíma er hann missti starf sitt að hluta nema annað leiði af lögum þessum. Hið sama gildir þegar launamaður missir starf sitt en ræður sig til starfa í minna starfshlutfall hjá öðrum vinnuveitanda.“

Samkvæmt 17. gr. laganna séu atvinnuleysistryggingar atvinnuleitanda sem starfi í hlutastörfum samhliða greiðslu atvinnuleysisbóta skertar með þeim hætti að fyrst sé starfshlutfall viðkomandi dregið frá bótarétti hans. Útreiknaður bótaréttur kæranda sé 49%. Kærandi hafi starfað hjá B í 20% starfshlutfalli frá nóvember 2020 til febrúar 2021. Bótaréttur kæranda á því tímabili hafi því réttilega átt að vera 29%. Þar sem Vinnumálastofnun hafi ekki borist upplýsingar um umrætt hlutastarf fyrr en í mars 2021, hafi kærandi fengið greiddar hærri atvinnuleysisbætur en hún hafi átt rétt á á tímabilinu nóvember 2020 til febrúar 2021.

Samkvæmt 2. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006 skuli atvinnuleitandi, sem hafi fengið hærri atvinnuleysisbætur samkvæmt 32. eða 33. gr. en hann hafi átt rétt á, endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd hafi verið að viðbættu 15% álagi. Fella skuli niður álagið ef atvinnuleitandi færi rök fyrir því að honum verði ekki kennt um þá annmarka sem hafi leitt til ákvörðunar Vinnumálastofnunar. Samkvæmt framangreindu ákvæði sé mælt fyrir um heimild Vinnumálastofnunar til að innheimta ofgreiddar atvinnuleysisbætur. Í athugasemdum með 39. gr. frumvarps þess sem hafi orðið að lögum um atvinnuleysistryggingar sé sérstaklega áréttað að leiðrétting eigi við í öllum tilvikum sem kunni að valda því að atvinnuleitandi hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur. Hver sé ástæða þess að atvinnuleitandi hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur hafi með öðrum orðum ekki áhrif á skyldu viðkomandi til að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd hafi verið. 

Skuld kæranda sundurliðist með eftirfarandi hætti. Fyrir nóvembermánuð 2020 hafi myndast skuld upp á 57.902 kr. vegna skráningar kæranda í 20% hlutastarf. Að frádregnum gjöldum í lífeyrissjóð og stéttarfélag, ásamt bakfærslu á skuld vegna tilfallandi tekna hafi skuld kæranda vegna hlutastarfs í nóvember 2020 verið 51.700 kr. Vegna desembermánaðar 2020 hafi myndast skuld upp á 57.902 kr. vegna skráningar kæranda í 20% hlutastarf. Að frádregnum gjöldum í lífeyrissjóð og stéttarfélag hafi skuld kæranda vegna hlutastarfs og tilfallandi tekna í desember 2020 verið 64.553 kr. Síðar hafi verið bakfærðar 12.853 kr. vegna þeirra skuldar sem hafi myndast vegna tilfallandi tekna. Heildarskuld kæranda vegna desembermánaðar 2020 hafi því verið 51.700 kr. Vegna janúarmánaðar 2021 hafi myndast skuld upp á 61.486 kr. vegna skráningar kæranda í hlutastarf. Að frádregnum gjöldum í lífeyrissjóð og stéttarfélag, ásamt bakfærslu á skuld vegna tilfallandi tekna hafi skuld kæranda vegna hlutastarfs í janúar 2021 verið 38.841 kr. Hið sama eigi við um febrúarmánuð 2021.

Heildarskuld kæranda nemi 204.815 kr. Þar af séu 193.935 kr. vegna skráningar hlutastarfs og  10.879 kr. vegna tilfallandi tekna. Heildarskuld kæranda vegna tilfallandi tekna hafi verið felld niður. Samtals hafi 42.050 kr. verið bakfærðar, skuldajafnaðar eða felldar niður. Heildarskuld kæranda nemi því í dag 162.765 kr.

Það sé niðurstaða Vinnumálastofnunar að kæranda beri að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur að fjárhæð 162.765 kr. samkvæmt 3. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

 

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar um að fella niður bótarétt kæranda í tvo mánuði á grundvelli 1. mgr. 59. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar og innheimta ofgreiddar bætur samkvæmt 3. mgr. 39. gr. laganna.

Ákvæði 1. mgr. 59. gr. laga nr. 54/2006 er svohljóðandi:

„Sá sem lætur hjá líða að veita nauðsynlegar upplýsingar skv. 14. gr. eða um annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögum þessum skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila, sbr. þó 4. mgr. og 59. gr. a. Hið sama á við þegar hinn tryggði hefur látið hjá líða að tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunna að verða á högum hans á því tímabili sem hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum eða annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögum þessum, sbr. 3. mgr. 9. gr. og 2. mgr. 14. gr. Skal honum jafnframt verða gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur skv. 39. gr.“

Ákvæðið ber meðal annars að túlka með hliðsjón af ákvæði 3. mgr. 9. gr. laga nr. 54/2006, en samkvæmt því skal sá sem telst tryggður á grundvelli laganna upplýsa Vinnumálastofnun um allar breytingar sem kunna að verða á högum hans á þeim tíma er hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögunum, svo sem um námsþátttöku, tekjur sem hann fær fyrir tilfallandi vinnu og hversu lengi vinnan stendur yfir. Í 2. mgr. 14. gr. laganna kemur einnig fram að hinn tryggði skuli tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunna að verða á vinnufærni hans eða aðstæðum að öðru leyti samkvæmt 1. mgr., án ástæðulausrar tafar.

Í máli þessu liggur fyrir að kærandi starfaði hjá B í 20% starfshlutfalli frá október 2020 og að hún tilkynnti Vinnumálastofnun ekki um umrætt starf. Kærandi hefur vísað til þess að Vinnumálastofnun hafi hvorki veitt henni né vinnuveitanda hennar fullnægjandi leiðbeiningar vegna þeirrar vinnu.

Þann 14. ágúst 2020 var kæranda tilkynnt að Vinnumálastofnun hefði móttekið umsókn hennar um atvinnuleysisbætur. Kæranda var greint frá því að ítarlegar upplýsingar um réttindi hennar og skyldur væri að finna á heimasíðu Vinnumálastofnunar. Þá var kæranda bent á að hún þyrfti að láta Vinnumálastofnun vita á „Mínum síðum“ um allar breytingar á högum sínum, þar á meðal um alla vinnu sem hún tæki að sér og tekjur sem hún fengi. Sama dag var kæranda sent erindi á ensku þar sem hún var beðin um að fara yfir glærur með upplýsingum um réttindi sín og skyldur á meðan hún fengi greiddar atvinnuleysisbætur. Með hliðsjón af framangreindu telur úrskurðarnefndin að kærandi hefði mátt vita, eða að minnsta kosti haft tilefni til þess að afla sér frekari upplýsinga um skyldu sína til að tilkynna Vinnumálastofnun um framangreint starf.

Í ljósi framangreindrar upplýsingaskyldu laga nr. 54/2006 verður fallist á það með Vinnumálastofnun að kærandi hafi brotið gegn skyldum sínum er hún tilkynnti ekki stofnuninni um starf sitt og tekjur. Að því virtu bar Vinnumálastofnun að láta kæranda sæta viðurlögum samkvæmt 1. mgr. 59. gr. laganna.

Mál þetta lýtur einnig að þeirri ákvörðun Vinnumálastofnunar að innheimta ofgreiddar bætur vegna tekna sem kærandi aflaði á tímabilinu nóvember 2020 til febrúar 2021. Í 39. gr. laga nr. 54/2006 er kveðið á um leiðréttingu á atvinnuleysisbótum. Þar segir í 2. mgr. að hafi hinn tryggði fengið hærri atvinnuleysisbætur samkvæmt 32. eða 33. gr. laganna en hann hafi átt rétt á samkvæmt álagningu skattyfirvalda eða af öðrum ástæðum beri honum að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd hafi verið að viðbættu 15% álagi. Hið sama gildi um atvinnuleysisbætur sem hinn tryggði hafi fengið greiddar fyrir tímabil er hann uppfyllti ekki skilyrði laganna. Í sömu málsgrein segir einnig að fella skuli niður álagið samkvæmt málsgreininni færi hinn tryggði rök fyrir því að honum verði ekki kennt um þá annmarka er leitt hafi til ákvörðunar Vinnumálastofnunar.

Samkvæmt framangreindu er ljóst að endurkröfuheimild Vinnumálastofnunar er meðal annars bundin við það að einstaklingur hafi fengið greiddar hærri atvinnuleysisbætur en hann átti rétt á. Þar sem kærandi tilkynnti ekki um tekjur sínar á framangreindu tímabili fékk hún greiddar hærri atvinnuleysisbætur en hún átti rétt á. Ákvæði 2. mgr. 39. gr. laganna er fortakslaust að því er varðar skyldu til þess að endurgreiða ofgreiddar bætur. Aftur á móti skal fella niður 15% álag færi hinn tryggði rök fyrir því að honum verði ekki kennt um þá annmarka er leitt hafi til ákvörðunar Vinnumálastofnunar. Líkt og áður greinir tilkynnti kærandi ekki Vinnumálastofnun um starf sitt hjá B og er því að mati úrskurðarnefndarinnar ekki tilefni til að fella niður álagið sem lagt var á endurgreiðslukröfuna.

Með vísan til framangreinds er hin kærða ákvörðun staðfest.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 16. mars 2021, um að fella niður bótarétt A, í tvo mánuði og innheimta ofgreiddar bætur, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum