Hoppa yfir valmynd
K%C3%A6runefnd%20%C3%BAtlendingam%C3%A1la

Nr. 144/2023 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 16. mars 2023 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 144/2023

í stjórnsýslumáli nr. KNU23010008

 

Beiðni [...] um endurupptöku

 

  1. Málsatvik

    Með úrskurði kærunefndar útlendingamála nr. 219/2020, dags. 18. júní 2020, staðfesti nefndin ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 21. október 2020, um að synja [...], fd. [...], ríkisborgara Íraks (hér eftir nefndur kærandi), um alþjóðlega vernd og dvalarleyfi á Íslandi. Niðurstaða kærunefndar var birt kæranda þann 22. júní 2020. Þann 29. júní 2020 barst kærunefnd beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa á úrskurði nefndarinnar. Með úrskurði kærunefndar nr. 266/2020, dags. 14. júlí 2020, var beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa synjað.

    Hinn 3. febrúar 2021 barst kærunefnd beiðni kæranda um endurupptöku á úrskurði kærunefndar frá 18. júní 2020. Með úrskurði kærunefndar nr. 85/2021, dags. 25. febrúar 2021, var beiðni kæranda um endurupptöku á máli hans hafnað. Hinn 9. mars 2022 óskaði kærandi að nýju eftir endurupptöku málsins. Með úrskurði kærunefndar nr. 141/2022, dags. 24. mars 2022, var beiðni kæranda um endurupptöku á máli hans hafnað.

    Hinn 2. janúar 2023 barst þriðja beiðni kæranda um endurupptöku á máli hans. Hinn 4. janúar 2023 bárust kærunefnd fylgigögn frá kæranda.

    Beiðni kæranda um endurupptöku máls hans byggir á 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

    Aðalkrafa kæranda er að málið verði endurupptekið hjá kærunefnd útlendingamála og að lagt verði fyrir Útlendingastofnun að veita honum dvalarleyfi hér á landi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

    Til vara gerir kærandi kröfu um að málið verði endurupptekið hjá kærunefnd útlendingamála og máli hans verði vísað til nýrrar meðferðar hjá Útlendingastofnun í ljósi breyttra forsendna.

  2. Málsástæður og rök kærenda

    Í beiðni kæranda um endurupptöku kemur fram að samkvæmt læknabréfi, dags. 21. október 2022, hafi hann farið í aðgerð vegna fistils (e. fistula of intestine). Fram komi í læknabréfinu að kærandi sé með áralanga sögu um endurtekna perinal absxessa (í. djúp ígerðarsýking með holrúmi með greftri í vef eða líffæri hjá ristli). Í aðgerðinni hafi fistill verið fjarlægður og fyrirhugað að loka fistilganginum með laserbrennu í annarri aðgerð þegar gangurinn verði orðinn þurr. Rúmum þremur vikum eftir að fistillinn var fjarlægður hafi kærandi enn verið mjög verkjaður og hafi frekari myndrannsókn leitt í ljós að hann sé með annan fistil í gegnum innri sphincter (í. innri hringvöðvi) sem þurfi að fjarlægja í aðgerð. Í kjölfarið hafi kærandi verið settur á biðlista eftir annarri aðgerð.

    Með vísan til framangreinds byggir kærandi beiðni sína um endurupptöku máls hans á því að aðstæður hafi breyst verulega frá því að ákvörðun í máli hans hafi verið tekin. Í úrskurði kærunefndar nr. 219/2020 hafi verið lagt til grundvallar að kærandi væri heilsuhraustur sem eigi ekki við núna samanber það sem fram komi í framlögðum heilsufarsgögnum.

    Sjúkdómur sem kærandi þjáist af sé alvarlegur og lífshættulegur sjúkdómur sé hann ekki meðhöndlaður með lyfjum, aðgerðum og eftirfylgni heilbrigðisstarfsfólks. Talsmaður kæranda hafi haft samband við almennan lækni á heilsugæslunni í Mjódd sem hafi staðfest framangreint. Þá staðfesti aðgengilegar og áreiðanlegar upplýsingar á netinu einnig að sé einstaklingur með slíkan sjúkdóm ekki meðhöndlaður þá geti það meðal annars leitt til blóðeitrunar sem geti valdið dauða viðkomandi.

    Kærandi byggir á því að þessar sérstöku aðstæður hans séu þess eðlis að hann hafi ríka þörf fyrir vernd á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Ekki sé forsvaranlegt að rjúfa læknismeðferð hans á þessu stigi. Kærandi telur ljóst að hann hafi ekki kost á að sækja lífsnauðsynlega læknismeðferð við sjúkdómi sínum í heimaríki. Þá vísar kærandi til nýlegra úrskurða kærunefndar þar sem greint hafi verið frá að heilbrigðiskerfið í Írak hafi sætt gagnrýni, meðal annars vegna skorts á starfsfólki, lyfjum og almennu aðgengi.

  3. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála varðandi beiðni um endurupptöku

Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga á aðili máls rétt á því að mál sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Eins og áður hefur komið fram kvað kærunefnd upp úrskurð í stjórnsýslumáli nr. KNU19110027 hinn 18. júní 2020. Með úrskurðinum komst kærunefnd að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfyllti hvorki skilyrði 1. né 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga og því ætti hann ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga. Þá var það mat kærunefndar að aðstæður kæranda í heimaríki væru ekki með þeim hætti að veita bæri kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 74. gr. laga um útlendinga. Líkt og að framan er rakið hefur kærunefnd tvívegis áður synjað kæranda um endurupptöku máls hans.

Kærandi hefur að nýju lagt fram beiðni um endurupptöku máls hans. Kærandi byggir beiðni sína á því að aðstæður í máli hans hafi breyst verulega þar sem hann hafi fengið sjúkdóm sem hann glími enn við. Kærandi hafi gengist undir aðgerð hér á landi við sjúkdómnum en þurfi að fara í aðra aðgerð og sé á biðlista eftir henni. Í framlögðu læknabréfi kemur fram að kærandi sé með áralanga sögu um endurtekna perianal abscessa. Af framangreindu má ráða að hann hafi glímt við framangreindan heilsufarskvilla í tvö ár eða fleiri, hugsanlega einnig áður en hann hafi yfirgefið heimaríki. Er því ekki um að ræða skyndilegan sjúkdóm. Í þjónustuviðtali hjá Útlendingastofnun 9. mars 2019 kvaðst kærandi vera heilsuhraustur og ekki glíma við sjúkdóm eða veikindi og hafi ekki glímt við eða verið í meðferð við sjúkdómi síðustu sex mánuði. Líkt og fram hefur komið fékk kærandi endanlega niðurstöðu í máli sínu 18. júlí 2020 eða fyrir rúmum tveimur og hálfu ári síðan. Að mati kærunefndar er ekki óeðlilegt að einstaklingur á þeim aldri sem kærandi er á þrói með sér heilsufarskvilla sem þarfnist einhvers konar læknisfræðilegrar meðferðar. Í úrskurðum kærunefndar er lúta að aðstæðum í Írak og málsástæðum á grundvelli heilsufars umsækjenda hefur komið fram að samkvæmt heimildum, svo sem skýrslu breska innanríkisráðuneytisins frá 2021 (Country Policy and Information Note - Iraq: Medical and healthcare provision - UK Home Office, janúar 2021) sé írökskum ríkisborgurum tryggður aðgangur að heilbrigðiskerfi landsins. Samkvæmt aðgengilegum upplýsingum á vefnum hefur sjúkdómur kæranda verið rannsakaður í Írak og einstaklingar með hann gengist undir meðferðir vegna hans. Í grein Riyadh Mohamad Hasan, Incidence of fistula after management of perianal abscess, sem birt var í tímarititnu Journal of Coloproctology 5. júlí 2016, má sjá að Perianal fistula sé á meðal algengustu endaþarms sjúkdóma hjá fullorðnum, einkum hjá karlmönnum. Hafi til að mynda verið framkvæmd rannsókn í Bagdad á 68 einstaklingum sem gengist hafi undir aðgerð vegna sjúkdómsins frá 2000 til 2015. Að framangreindu virtu er það mat kærunefndar að kærandi hafi aðgang að viðeigandi meðferð við sjúkdómi sínum í heimaríki. Verður því ekki fallist á að kærandi glími nú við skyndilegan eða lífshættulegan sjúkdóm sem meðferð er til hér á landi en ekki í heimaríki hans. Þá er það mat kærunefndar, að virtum framlögðum gögnum, að kærandi sé ekki í meðferð sem sé læknisfræðilega óforsvaranlegt að rjúfa.

Að teknu tilliti til framangreinds er það mat kærunefndar að atvik í máli kæranda hafi ekki breyst verulega frá því að úrskurður kærunefndar frá 18. júní 2020 var kveðinn  upp þannig að taka beri mál hans upp að nýju á grundvelli 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Þá er ekkert sem bendir til þess að niðurstaða í máli kæranda hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik. Með vísan til alls framangreinds er það mat kærunefndar að hafna beri beiðni kæranda um endurupptöku málsins.

 

Úrskurðarorð:

 

Kröfu kæranda um endurupptöku er hafnað.

The request of the appellant to re-examine his case is denied.

 

 

Tómas Hrafn Sveinsson

 

Þorbjörg I. Jónsdóttir                                                            Sindri M. Stephensen


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum