Hoppa yfir valmynd
K%C3%A6runefnd%20%C3%BAtlendingam%C3%A1la

Nr. 151/2023 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 23. mars 2023 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 151/2023

í stjórnsýslumáli nr. KNU23010046

 

Beiðni [...] um endurupptöku

 

  1. Málsatvik

    Hinn 6. október 2022 staðfesti kærunefnd útlendingamála ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 8. júlí 2022, um að taka umsókn einstaklings er kveðst heita [...], vera fæddur [...] og vera ríkisborgari Afganistan (hér eftir kærandi), um alþjóðlega vernd á Íslandi ekki til efnismeðferðar og vísa honum frá landinu. Niðurstaða kærunefndar var birt kæranda 7. október 2022. Hinn 23. janúar 2023 barst kærunefnd beiðni kæranda um endurupptöku. Þá barst viðbótarrökstuðningur 20. febrúar 2023.

    Krafa kæranda um endurupptöku byggir á 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

     

  2. Málsástæður og rök kæranda

    Kærandi byggir beiðni sína um endurupptöku aðallega á því að niðurstaða kærunefndar hafi verið röng þar sem íslenskum stjórnvöldum hafi borið að taka umsókn hans til efnismeðferðar hér á landi. Þegar úrskurður kærunefndar hafi verið kveðinn upp hafði mál hans verið til meðferðar í meira en 10 mánuði án þess að hægt væri að rekja tafir á málsmeðferðinni til hans í skilningi 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016, sbr. 32. gr. c reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017, með síðari breytingum. Kærandi vísar til þess að óumdeilt sé að þegar hann hafi lagt fram umsókn um alþjóðlega vernd hér á landi hafi hann verið [...] á meðan umsókn hans hafi verið til meðferðar. Ákvæði 32. gr. c reglugerðar um útlendinga tiltaki ekki við hvaða tímamark eigi að miða aldur umsækjanda, þ.e. við aldur umsækjanda við framlagningu umsóknar eða þegar 10 mánuðir séu liðnir frá umsókninni. Kærandi byggir á því að hann eigi að njóta þess vafa sem felist í ákvæðinu enda sé óumdeilt að hann hafi verið barn þegar hann lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd hér á landi. Annað væri ótækt því íslenskum stjórnvöldum væri þá í lófa lagið að tefja málsmeðferð fylgdarlauss ungmennis án þess að þurfa að virða sérreglur settar viðkomandi til verndar, m.a. um hámarkslengd málsmeðferðartíma. Stjórnvöldum hafi borið skylda til að endurskoða mál hans að eigin frumkvæði og taka mál hans til efnismeðferðar hérlendis með vísan til 10 mánaða reglu 32. gr. c reglugerðar um útlendinga.

    Kærandi byggir einnig á því að mat íslenskra stjórnvalda á aðstæðum hans við endursendingu til Grikklands hafi verið rangt og byggt á ófullnægjandi upplýsingum. Kærandi telur að matið hafi falið í sér brot gegn 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, sbr. sérákvæði 32. gr. a reglugerðar um útlendinga með vísan til ungs aldurs kæranda. Verulega hafi skort á rannsókn íslenskra stjórnvalda samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga og 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga. Frá endursendingu til Grikkalands hafi kærandi dvalið við ómannúðlegar aðstæður í Grikklandi undanfarna mánuði, sérstaklega m.t.t. ungs aldurs hans og viðkvæmrar stöðu. Þar hafi honum verið synjað um alla aðstoð enda m.a. með útrunnið dvalarleyfisskírteini.

    Þá vísar kærandi til þess í viðbótarrökstuðningi sínum að mál hans hafi ekki fengið sambærilega meðferð og önnur sambærileg mál, sbr. 11. gr. stjórnsýslulaga og nefnir í því sambandi úrskurð kærunefndar í máli nr. 92/2019 frá 13. mars 2019. Kærandi hafi haft réttmætar væntingar um að sambærilegt mat yrði framkvæmt í hans máli og þ.a.l. sambærileg niðurstaða.

  3. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga á aðili máls rétt á því að mál hans verði tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Í beiðni kæranda um endurupptöku byggir hann aðallega á því að taka beri mál hans til efnislegrar meðferðar á grundvelli 32. gr. c reglugerðar um útlendinga, með síðari breytingum.

Í 1. mgr. 40. gr. laga um útlendinga kemur fram að flóttamaður skv. 37. gr. laganna, sem er hér á landi eða kemur hér að landi, hefur samkvæmt umsókn rétt á að fá hér alþjóðlega vernd. Stjórnvöldum er þó heimilt, á grundvelli a-, b- og c-liðar 1. mgr. 36. gr. laganna, að taka umsókn ekki til efnismeðferðar við þær aðstæður sem tilgreindar eru í umræddum stafliðum.

Í 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga kemur fram að ef svo standi á sem greini í 1. mgr. skuli þó taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef útlendingurinn hefur slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd eða ef sérstakar ástæður mæli annars með því. Ef meira en 12 mánuðir hafa liðið frá því að umsókn um alþjóðlega vernd barst fyrst íslenskum stjórnvöldum og tafir á afgreiðslu hennar eru ekki á ábyrgð umsækjanda sjálfs skal taka hana til efnismeðferðar. Af lestri ákvæðisins er ljóst að skylda til þess að taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar hvílir á íslenskum stjórnvöldum, sem í þessu tilviki eru Útlendingastofnun og kærunefnd útlendingamála. Fer það eftir því hvar í málsmeðferðinni málið er statt, þ.e. hvort málið sé til vinnslu hjá Útlendingastofnun eða á kærustigi kærunefndar útlendingamála, hvaða stjórnvald það er sem taka skuli umrætt atriði til efnislegrar skoðunar.

Með breytingarreglugerð nr. 276/2018, dags. 15. mars 2018, var þremur ákvæðum bætt við reglugerð um útlendinga nr. 540/2017, 32. gr., 32. gr. a og 32. gr. b og fjalla þau um sérstakar ástæður og sérstök tengsl, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Ákvæðin eru sett með stoð í 4. mgr. 36. gr. laga um útlendinga og mæla fyrir um hvaða viðmið geti leitt til þess að uppi séu sérstakar ástæður eða sérstök tengsl í máli umsækjanda um alþjóðlega vernd hér á landi, sbr. 2. mgr. 36. gr. laganna.

Með breytingarreglugerð nr. 638/2019, dags. 6. júlí 2019, var ákvæði 32. gr. c bætt við í reglugerð um útlendinga. Í ákvæðinu kemur fram að Útlendingastofnun sé heimilt, á grundvelli sérstakrar beiðni eða að eigin frumkvæði, að taka til efnismeðferðar umsókn barns sem hefur fengið vernd í öðru ríki, séu meira en 10 mánuðir liðnir frá því að umsókn barst íslenskum stjórnvöldum og tafir á afgreiðslu hennar séu ekki á ábyrgð umsækjanda sjálfs. Af orðalagi ákvæðisins leiðir að það er aðeins á forræði Útlendingastofnunar að ákveða að taka til efnislegrar meðferðar umsókn barns þegar liðinn er sá tími sem mælt er fyrir um í ákvæðinu. Slík ákvörðun stofnunarinnar getur sætt kæru til kærunefndar útlendingamála á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga en að öðru leyti er ekki í lögum eða reglugerð um útlendinga að finna reglu sem mælir fyrir um að nefndinni sé heimilt að taka til skoðunar og mæla fyrir um að umsókn barns, sem svo háttar til sem mælt er fyrir um í 32. gr. c reglugerðar um útlendinga, verði tekin til efnismeðferðar. Er þetta í samræmi við það hvernig kærunefndin hefur túlkað t.a.m. 2. mgr. 103. gr. laga um útlendinga um heimild Útlendingastofnunar til að fresta framkvæmd ákvarðana við tilteknar aðstæður.

Í máli kæranda, sem lauk með úrskurði kærunefndar nr. 411/2022, dags. 6. október 2022, var ekki til skoðunar afstaða Útlendingastofnunar til þess hvort tilefni væri fyrir stofnunina að taka umsókn kæranda til efnismeðferðar með vísan til 32. gr. c reglugerðar um útlendinga. Samkvæmt framangreindu er það því mat kærunefndar að beiðni kæranda um efnismeðferð, með vísan til 32. gr. c reglugerðar um útlendinga, skuli beint til Útlendingastofnunar. Verður beiðni kæranda um endurupptöku máls hans á grundvelli 32. gr. c reglugerðar um útlendinga því vísað frá nefndinni.

Kærandi byggir beiðni sína um endurupptöku einnig á því að mat íslenskra stjórnvalda á aðstæðum hans í Grikklandi hafi verið rangt og byggt á ófullnægjandi upplýsingum. Skort hafi á rannsókn íslenskra stjórnvalda, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga, og þá hafi mál hans ekki fengið sambærilega meðferð og önnur sambærileg mál, sbr. 11. gr. stjórnsýslulaga og úrskurður kærunefndar nr. 92/2019 frá 13. mars 2019.

Eins og áður hefur komið fram kvað kærunefnd upp úrskurð í máli kæranda 6. október 2022. Með úrskurðinum komst nefndin að þeirri niðurstöðu að synjun á efnismeðferð umsóknar kæranda um alþjóðlega vernd á Íslandi og frávísun frá landinu bryti ekki gegn 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga, sbr. 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Þá var ekki talið að kærandi hefði slík tengsl við landið að nærtækast væri að hann fengi hér vernd eða að sérstakar ástæður mæltu annars með því að taka umsókn hans um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Í úrskurði kærunefndar í máli kæranda lagði nefndin mat á einstaklingsbundnar aðstæður hans og aðstæður handhafa alþjóðlegrar verndar í Grikklandi, meðal annars m.t.t. ungs aldurs kæranda. Eru í úrskurðinum tilgreindar fjölmargar heimildir sem mat nefndarinnar byggir á. Kærandi hefur engin ný gögn eða upplýsingar lagt fram með endurupptökubeiðni sinni. Að teknu tilliti til gagna málsins er það mat kærunefndar að ekkert bendi til þess að aðstæður kæranda hafi breyst svo verulega að tilefni sé til að endurupptaka úrskurð nefndarinnar í máli kæranda eða að úrskurðurinn hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, sbr. 1. og 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. laga um útlendinga.

Vegna tilvísunar kæranda til úrskurðar kærunefndar nr. 92/2019 frá 13. mars 2019 vísar kærunefnd til þess að í því máli var um að ræða andlega veikan einstakling og höfðu veikindi hans áhrif á heildarniðurstöðu þess máls. Kærunefnd áréttar að við meðferð mála hjá kærunefnd er heildarmat lagt á atvik í hverju máli fyrir sig á grundvelli einstaklingsbundinna aðstæðna kæranda í viðtökuríki. Að mati kærunefndar er ekki hægt að jafna stöðu kæranda í þessu máli við stöðu kæranda í framangreindum úrskurði þrátt fyrir að um sama viðtökuríki sé að ræða.

Að öllu framangreindu virtu er kröfu kæranda um endurupptöku málsins vegna skorts á rannsókn, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga og brots gegn jafnræðisreglu 11. gr. laganna því hafnað.

 

Úrskurðarorð:

Kröfu kæranda um endurupptöku með vísan til 32. gr. c reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017, með síðari breytingum, er vísað frá.

Öðrum kröfum kæranda um endurupptöku er hafnað.

 

The appellant‘s request regarding Article 32 c of the Regulation on Foreigners No. 540/2017, is dismissed.

Other requests to re-examine the case are denied.

 

Þorsteinn Gunnarsson

 

Bjarnveig Eiríksdóttir                                                Sandra Hlíf Ocares


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum