Hoppa yfir valmynd
K%C3%A6runefnd%20%C3%BAtlendingam%C3%A1la

Nr. 100/2022 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 23. febrúar 2022 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 100/2022

í stjórnsýslumáli nr. KNU21110060

 

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I.       Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Hinn 16. nóvember 2021 kærði [...], kt. [...], ríkisborgari Jemen (hér eftir nefndur kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 27. október 2021, um að synja honum um endurnýjun á dvalarleyfi fyrir námsmenn.

Kærandi setti ekki fram kröfur eða lagði fram greinargerð til kærunefndar útlendingamála. Kærunefnd lítur svo á að kærandi krefjist þess að hin kærða ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi.

Fyrrgreind ákvörðun var kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II.        Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi fékk útgefið dvalarleyfi hér á landi fyrir námsmenn hinn 8. febrúar 2021 með gildistíma til 15. júlí 2021. Kærandi sótti um endurnýjun á því dvalarleyfi hinn 14. apríl 2021. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 27. október 2021, var umsókninni synjað. Kæranda var tilkynnt um ákvörðunina hinn 3. nóvember 2021 og hinn 16. nóvember 2021 kærði kærandi ákvörðunina til kærunefndar útlendingamála. Með tölvubréfi kærunefndar til kæranda, dags. 17. nóvember 2021, var kæranda veittur til að leggja fram greinargerð vegna kærunnar og frekari gögn. Engin greinargerð barst frá kæranda.

III.      Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar var vísað til þess að samkvæmt 6. mgr. 65. gr. laga um útlendinga væri heimilt að endurnýja dvalarleyfi samkvæmt ákvæðinu á námstíma ef útlendingur fullnægði áfram skilyrðum 1. og 2. mgr. og geti sýnt fram á viðunandi námsárangur þar sem þess sé krafist. Við fyrstu endurnýjun teljist námsárangur fullnægjandi hafi útlendingur lokið samanlagt a.m.k. 75% af fullu námi á námsárinu. Heimilt sé að víkja frá kröfunni um viðunandi námsárangur ef um sé að ræða óviðráðanlegar ytri aðstæður, svo sem slys eða alvarleg veikindi.

Í tölvubréfi frá kæranda til Útlendingastofnunar, dags. 8. september 2021, hefði kærandi vísað til þess að hann hefði ekki lokið neinum einingum á vormisseri 2021 Þá hefði komið fram í tölvubréfi kæranda til stofnunarinnar, dags. 13. september 2021, að hann hefði þurft að ferðast til heimaríkis á miðri önn vegna atvinnuaðstæðna en að frekari upplýsingar yrðu ekki veittar af hans hálfu. Í ljósi framangreinds var það mat Útlendingastofnunar að kærandi uppfyllti ekki skilyrði 6. mgr. 65. gr. laga um útlendinga, þar sem áskilnaður væri um 75% námsárangur, og var umsókn kæranda um endurnýjun dvalarleyfis því synjað.

IV.    Málsástæður og rök kæranda

Greinargerð barst ekki frá kæranda.

V.      Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Í 65. gr. laga um útlendinga er fjallað um dvalarleyfi vegna náms. Samkvæmt 6. mgr. ákvæðisins er heimilt að endurnýja dvalarleyfi skv. ákvæðinu á námstíma ef útlendingur fullnægir áfram skilyrðum 1. og 2. mgr. og getur sýnt fram á viðunandi námsárangur, þar sem þess er krafist. Við fyrstu endurnýjun dvalarleyfis telst námsárangur viðunandi hafi útlendingur lokið samanlagt a.m.k. 75% af fullu námi á námsárinu. Heimilt er að víkja frá kröfunni um viðunandi námsárangur ef um er að ræða óviðráðanlegar ytri aðstæður, svo sem slys eða alvarleg veikindi. Í athugasemdum við 65. gr. í frumvarpi því er varð að gildandi lögum um útlendinga segir m.a. að heimilt sé að endurnýja dvalarleyfi ef óviðráðanlegar ástæður valdi því að fullnægjandi námsárangri hafi ekki verið náð. Þurfa ástæðurnar að hafa verið óviðráðanlegar fyrir námsmanninn, svo sem alvarleg veikindi eða ef nauðsynleg námskeið falla niður. Við endurnýjun dvalarleyfis þurfi umsækjandi að sýna fram á fullnægjandi námsárangur en með því sé átt við að útlendingur hafi staðist samanlagt 75% af heildareiningarfjölda tveggja anna og sé nóg að leyfishafi nái t.d. 50% af heildareiningarfjölda fyrstu annar ef hann nær a.m.k. 100% á næstu önn.

Kærandi fékk útgefið dvalarleyfi fyrir námsmenn hinn 8. febrúar 2021 með gildistíma til 15. júlí 2021. Þannig er ljóst að við mat á því hvort hann hafi náð viðunandi námsárangri ber að miða við skólaárið 2021. Kærandi lagði ekki fram gögn um námsárangur til Útlendingastofnunar en í tölvubréfi til stofnunarinnar, dags. 8. september 2021, kemur fram að kærandi geti ekki sýnt fram á námsárangur þar sem hann hafi þurft að fresta þeim áföngum sem hann var í vegna vinnuaðstæðna í heimaríki. Í framlögðu námsyfirliti fyrir haustönn 2021 kemur fram að kærandi var skráður í 32 ECTS-einingar og sé lagt til grundvallar að kærandi hafi lokið þeim með fullnægjandi hætti er námsárangur hans fyrir árið samt sem áður einungis um 53%. Kærandi uppfyllir því ekki skilyrði 6. mgr. 65. gr. laga um útlendinga um viðunandi námsárangur.

Kemur þá næst til skoðunar hvort um óviðráðanlegar ytri aðstæður sé að ræða hjá kæranda í skilningi 3. málsl. 6. mgr. 65. gr. laganna. Þær skýringar sem kærandi lagði fram við meðferð málsins hjá Útlendingastofnun, sbr. áðurnefnt tölvubréf, eru ekki þess eðlis að þær réttlæti beitingu undanþáguheimildarinnar. Með vísan til framangreinds verður hin kærða ákvörðun því staðfest.

Samkvæmt upplýsingum frá Útlendingastofnun var kæranda veitt alþjóðleg vernd á Íslandi hinn 25. nóvember 2021 samkvæmt 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga og veitt dvalarleyfi til fjögurra ára. Er Er því ljóst að kærandi hefur leyfi til dvalar á landinu og á sá þáttur hinnar kærðu ákvörðunar um að kærandi yfirgefi landið því ekki lengur við.

 

 

 

Úrskurðarorð:

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

 

 

Þorsteinn Gunnarsson

 

 

Gunnar Páll Baldvinsson                                                                  Sandra Hlíf Ocares


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum