Hoppa yfir valmynd
%C3%9Arskur%C3%B0ir%20um%20sj%C3%A1var%C3%BAtveg%20og%20fiskeldi

Ákvörðun Fiskistofu um að hafna umsókn um úthlutun byggðakvóta

Stjórnsýslukæra

Ráðuneytið vísar til stjórnsýslukæru [A], dags. 15. apríl 2021, sem barst ráðuneytinu með tölvubréfi sama dag, þar sem kærð er til ráðuneytisins ákvörðun Fiskistofu, dags. 13. apríl 2021, um að hafna umsókn kæranda um úthlutun byggðakvóta á Suðureyri í Ísafjarðarbæ fyrir fiskveiðiárið 2020/2021 til bátsins [B].

Kæruheimild er í 8. mgr. 10. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða.

 

 

Kröfur kæranda

Kærandi krefst þess að felld verði úr gildi hin kærða ákvörðun Fiskistofu, dags. 13. apríl 2021 um að hafna umsókn kæranda um úthlutun byggðakvóta á Suðureyri í Ísafjarðarbæ fyrir fiskveiðiárið 2020/2021 til bátsins [B] og að lagt verði fyrir Fiskistofu að úthluta byggðakvóta fyrir fiskveiðiárið 2020/2021 til bátsins í samræmi við kröfur og málsástæður í stjórnsýslukæru.           

 

Málsatvik

Málsatvik eru þau að með auglýsingu, dags. 16. mars 2021, sem birt var á vefsíðu Fiskistofu: www.fiskistofa.is auglýsti Fiskistofa eftir umsóknum um úthlutun byggðakvóta fyrir fiskveiðiárið 2020/2021 í nokkrum byggðarlögum, m.a. Suðureyri í Ísafjarðarbæ en auglýsingin var byggð á 8. mgr. 10. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, sbr. og 5. gr. reglugerðar nr. 728/2020, um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa á fiskveiðiárinu 2020/2021. Umsóknarfrestur var til og með 30. mars 2021. Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hafði þá úthlutað 1.091 þorskígildistonnum af byggðakvóta til Ísafjarðarbæjar sem skiptust á byggðarlögin Flateyri, 300 þorskígildistonn, Hnífsdal, 178 þorskígildistonn, Ísafjörð, 140 þorskígildistonn, Suðureyri, 192 þorskígildistonn og Þingeyri, 281 þorskígildistonn. Úthlutunin var tilkynnt Ísafjarðarbæ með bréfi, dags. 30. nóvember 2020.

Kærandi sótti um byggðakvóta á Suðureyri fyrir bátinn [B] með umsókn til Fiskistofu, dags. 23. mars 2021.

Hinn 13. apríl 2021 tilkynnti Fiskistofa eigendum og útgerðaraðilum báta á Suðureyri í Ísafjarðarbæ ákvarðanir sínar um úthlutun byggðakvóta til einstakra fiskiskipa eða höfnun umsókna um úthlutun. Kæranda, [A], var tilkynnt að hafnað væri umsókn hans um úthlutun byggðakvóta til bátsins [B]. Ákvörðun Fiskistofu var byggð á því að báturinn uppfyllti ekki skilyrði b-liðar 1. mgr. 1. gr. reglugerðar nr. 728/2020, um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa á fiskveiðiárinu 2020/2021, um að hafa verið skráður í viðkomandi byggðarlagi 1. júlí 2020.

Þá kom þar fram að ákvörðunin væri kæranleg til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins og að kærufrestur væri tvær vikur frá framangreindri tilkynningu Fiskistofu um ákvörðunina, sbr. 8. mgr. 10. gr. laga nr. 116/2006.

 

 

Málsástæður í stjórnsýslukæru og málsmeðferð

Með stjórnsýslukæru, dags. 15. apríl 2021, sem barst ráðuneytinu með tölvubréfi sama dag, kærði [A] til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins ákvörðun Fiskistofu, dags. 13. apríl 2021, um að hafna umsókn kæranda um úthlutun byggðakvóta á Suðureyri í Ísafjarðarbæ fyrir fiskveiðiárið 2020/2021 til bátsins [B].

Í stjórnsýslukærunni segir m.a. að óskað sé eftir að umsókn kæranda, [A], vegna byggðakvóta verði aftur tekin til afgreiðslu vegna misskráningar á byggðarlagi sem eigi að vera Ísafjörður en ekki Suðureyri.

Engin gögn fylgdu stjórnsýslukærunni.

Með tölvubréfi, dags. 16. apríl 2021, óskaði ráðuneytið eftir umsögn Fiskistofu um málið, staðfestu afriti af hinni kærðu ákvörðun auk annarra gagna sem Fiskistofa kynni að hafa um málið.

Í umsögn Fiskistofu, dags. 5. maí 2021, segir m.a. að ákvörðun Fiskistofu, dags. 13. apríl 2021, byggist á því að bátur kæranda hafi ekki uppfyllt skilyrði fyrir úthlutun byggðakvóta samkvæmt b-lið 1. mgr. 1. gr. reglugerðar nr. 728/2020, um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa á fiskveiðiárinu 2020/2021, um að vera skráður í viðkomandi byggðarlagi. Almennt gildi að miðað sé við 1. júlí ef ekki sé annað tekið fram í auglýsingu. Fiskistofa hafi 16. mars 2021 auglýst eftir umsóknum um byggðakvóta til fiskiskipa í nokkrum byggðarlögum, m.a. á Ísafirði og Suðureyrihttp://www.fiskistofa.is/ samkvæmt 5. gr. reglugerðar nr. 728/2020. Umsóknarfrestur hafi verið til og með 30. mars 2021. Kærandi hafi sótt um byggðakvóta með umsókn, dags. 23. mars 2021, fyrir skipið [B] en skipið sé skráð á Ísafirði þann 1. júlí 2020. Úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa sé úthlutun takmarkaðra gæða sem séu eftirsóknarverð og feli í sér verðmæti og sé Fiskistofu falið að úthluta byggðakvóta samkvæmt reglugerð nr. 728/2020. Hvorki í lögum né í reglugerðinni sé að finna heimild til handa Fiskistofu til að líta framhjá því skilyrði sem synjun Fiskistofu sé byggð á. Fiskistofu sé ekki heimilt að úthluta byggðakvóta þegar skilyrði úthlutunar séu ekki uppfyllt og því sé ákvörðunin ekki úr hófi heldur þvert á móti í samræmi við gildandi reglur. Með hliðsjón af  framangreindu telji Fiskistofa að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun.

Umsögn Fiskistofu til ráðuneytisins fylgdu eftirtalin gögn í ljósritum: 1) Bréf Fiskistofu, dags. 13. apríl 2021. 2) Yfirlýsing um vinnslu afla vegna byggðakvóta. 3) Afrit af skráningu og skipasögu [B]. 4) Auglýsing á vefsíðu Fiskistofu, dags. 16. mars 2021.

Með tölvubréfi, dags. 11. maí 2021, sendi ráðuneytið ljósrit af umsögn Fiskistofu til kæranda og veitti honum kost á að gera athugasemdir við umsögnina, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Með tölvubréfi, dags. 24. maí 2021, bárust ráðuneytinu athugasemdir frá kæranda við framangreinda umsögn Fiskistofu. Þar segir að kærandi hafi sótt um byggðakvóta en heimahöfn báts hans hafi verið skráð á Suðureyri sem hafi verið mistök en hafi átt að vera á Ísafirði og sé óskað eftir að tekið verði tillit til þess.  

 

Rökstuðningur

Um úthlutun byggðakvóta fyrir fiskveiðiárið 2020/2021 gildir ákvæði 10. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum. Í 5. mgr. greinarinnar er ráðherra falið að setja með reglugerð almenn skilyrði fyrir úthlutun aflaheimilda til fiskiskipa innan einstakra byggðarlaga. Skulu þau skilyrði m.a. varða skráningarstað, skráningartíma, eignarhald, skiptingu milli fiskiskipa, lágmarksverð, tryggingar fyrir greiðslum og framkvæmd úthlutunar.

Á grundvelli framangreinds ákvæðis hefur ráðherra sett reglugerð nr. 728/2020, um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa á fiskveiðiárinu 2020/2021. Í 1. gr. reglugerðarinnar eru talin upp almenn skilyrði fyrir úthlutun byggðakvóta á fiskveiðiárinu 2020/2021 sem eru: a) að skip hafi haft leyfi til veiða í atvinnuskyni við lok umsóknarfrests, sbr. 4. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, b) að skip hafi verið skráð í viðkomandi byggðarlagi 1. júlí 2020 og c) að skip hafi verið í eigu eða leigu einstaklinga eða lögaðila með heimilisfang í viðkomandi byggðarlagi 1. júlí 2020. Miðað skal við lögheimili einstaklinga samkvæmt þjóðskrá og heimilisfang lögaðila samkvæmt fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra.

Samkvæmt 5. mgr. 10. gr. laga nr. 116/2006 getur ráðherra heimilað á grundvelli rökstuddra tillagna sveitarstjórnar að sett verði sérstök viðbótarskilyrði fyrir úthlutun aflaheimilda í einstökum byggðarlögum enda séu þau byggð á málefnalegum og staðbundnum ástæðum og í samræmi við hagsmuni viðkomandi byggðarlaga. Sambærilegt ákvæði er í 2. gr. reglugerðar nr. 728/2020.

Sett hafa verið sérstök viðbótarskilyrði fyrir úthlutun byggðakvóta í Ísafjarðarbæ, m.a. á Suðureyri fyrir fiskveiðiárið 2020/2021 samkvæmt framangreindu ákvæði með auglýsingu nr. 271/2021, um (1.) staðfestingu reglna sveitarfélaga um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa á fiskveiðiárinu 2020/2021. Þar kemur fram m.a. að ákvæði reglugerðar nr. 728/2020 gildi um úthlutun byggðakvóta í Ísafjarðarbæ með þeirri breytingu að ákvæði c-liðar 1. mgr. 1. gr. reglugerðarinnar breytist og verður: Eru í eigu eða leigu einstaklinga eða lögaðila með heimilisfang í sveitarfélaginu 1. júlí 2020.

Um skilyrði fyrir úthlutun byggðakvóta til einstakra fiskiskipa á Suðureyri í Ísafjarðarbæ fyrir fiskveiðiárið 2020/2021 fer því eftir 10. gr. laga nr. 116/2006, reglugerð nr. 728/2020 og auglýsingu nr. 271/2021.

Kærandi er með lögheimili á Ísafirði í Ísafjarðarbæ en sótti um úthlutun byggðakvóta á Suðureyri, sbr. framangreint ákvæði b-liðar auglýsingar nr. 271/2021, en önnur ákvæði auglýsingarinnar hafa ekki áhrif á úrlausn þessa máls.

Báturinn [B] var skráður á Ísafirði í Ísafjarðarbæ 1. júlí 2020 og uppfyllti því ekki skilyrði b-liðar 1. mgr. 1. gr. reglugerðar nr. 728/2020 fyrir úthlutun byggðakvóta fiskveiðiárið 2020/2021 á Suðureyri. Þegar af þeirri ástæðu eru ekki skilyrði fyrir að fallast á kröfur kæranda í máli þessu.

Telur ráðuneytið að það hefði verið í samræmi við góða stjórnsýsluhætti að Fiskistofa hefði kannað það sérstaklega, áður en kæranda var send ákvörðun um höfnun umsóknar um úthlutun byggðakvóta á Suðureyri, og í samræmi við rannsóknarskyldu og leiðbeiningaskyldu stjórnsýsluréttarins, sbr. 7. og 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, að leita eftir afstöðu kæranda til þess hvort hann ætlaði að sækja um úthlutun byggðakvóta á Suðureyri eða á Ísafirði, sem er innan sama sveitarfélags. Leiða má að því líkur að um mistök hafi verið að ræða af hálfu kæranda við umsókn um byggðakvóta sem auðvelt hefði verið að leiðrétta áður en ákvörðun var tekin í málinu. Þó er bent á að aðilar sem stunda útgerð, sem ber að uppfylla íslensk lög og stjórnvaldsfyrirmæli á sviði fiskveiðistjórnar, ættu að þekkja vel til þeirra reglna sem um útgerðina og úthlutun aflaheimilda gilda.

Með vísan til framanritaðs er það niðurstaða ráðuneytisins að ekki séu skilyrði fyrir að úthluta af byggðakvóta Suðureyrar í Ísafjarðarbæ fyrir fiskveiðiárið 2020/2021 til bátsins [B] enda verður að telja að ákvörðunin hafi verið í samræmi við gildandi lög og reglur sem gilda eiga um úthlutunina en samkvæmt því ber að staðfesta hina kærðu ákvörðun Fiskistofu, dags. 13. apríl 2021, um að hafna umsókn kæranda, [A], um úthlutun byggðakvóta til bátsins. Tilmæli ráðuneytisins til Fiskistofu um að tilefni sé til að viðhafa vandað vinnulag þar sem stofnunin rannsaki og leiðbeini umsækjendum betur þegar tekið er við umsóknum eru áréttuð en þykir sá annmarki ekki varða því að ógilda beri ákvörðunina, enda er um að ræða aðila í atvinnugrein þar sem þekking á helstu reglum sem gilda um atvinnugreinina er eðlilegur hluti af útgerð.

Beðist er velvirðingar á þeim töfum sem hafa orðið á uppkvaðningu þessa úrskurðar en þær er að rekja til mikilla anna í ráðuneytinu.

 

 

Úrskurður

Ráðuneytið staðfestir ákvörðun Fiskistofu, dags. 13. apríl 2021, um að hafna umsókn kæranda, [A], um úthlutun byggðakvóta fyrir fiskveiðiárið 2020/2021 til bátsins [B] .

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum