Hoppa yfir valmynd
%C3%9Arskur%C3%B0arnefnd%20velfer%C3%B0arm%C3%A1la%20-%20Atvinnuleysistryggingar%20og%20vinnumarka%C3%B0sa%C3%B0ger%C3%B0ir

Mál nr. 429/2021 - Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 429/2021

Fimmtudaginn 18. nóvember 2021

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 21. ágúst 2021, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 19. ágúst 2021, um að fella niður bótarétt hans í tvo mánuði.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um greiðslur atvinnuleysisbóta hjá Vinnumálastofnun í desember 2020 og var umsóknin samþykkt 29. desember sama ár. Þann 1. júlí 2021 fékk kærandi tölvupóst frá Vinnumálastofnun þar sem hann var boðaður í símaviðtal sem fara átti fram daginn eftir. Tekið var fram að ef ekki næðist í atvinnuleitanda þá teldist hann ekki í virkri atvinnuleit og að það gæti haft þær afleiðingar að greiðslur bóta yrðu felldar niður. Kærandi svaraði ekki þegar hringt var í hann á áður boðuðum tíma. Með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 4. ágúst 2021, var óskað eftir skriflegri afstöðu kæranda vegna þessa. Skýringar bárust ekki. Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 19. ágúst 2021, var kæranda tilkynnt að bótaréttur hans væri felldur niður í tvo mánuði á grundvelli 1. mgr. 58. gr. laga nr. 54/2006. 

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála þann 21. ágúst 2021. Með bréfi, dags. 24. ágúst 2021, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst með bréfi, dags. 17. september 2021. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 21. september 2021, var greinargerð Vinnumálastofnunar send kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust ekki. Með erindi úrskurðarnefndar, dags. 11. nóvember 2021, var óskað eftir að kærandi legði fram tölvupóstinn sem hann kvaðst hafa sent Vinnumálastofnun vegna símtalsins sem hann missti af. Umbeðinn tölvupóstur barst samdægurs.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að hann hafi fengið eitt símtal sem hann hafi því miður misst af þar sem hann hafi einfaldlega sofið yfir sig. Kærandi hafi sent tölvupóst þess efnis til Vinnumálastofnunar en ekki fengið nein svör við honum. Kærandi sé því mjög undrandi yfir þessari ákvörðun Vinnumálastofnunar.

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að þann 26. júní 2021 hafi Greiðslustofu Vinnumálastofnunar borist þær upplýsingar frá B að kærandi hefði ekki svarað síma sínum þegar reynt hafi verið að ná sambandi við hann vegna boðunar í atvinnuviðtal. Þann 1. júlí 2021 hafi ráðgjafi stofnunarinnar sent kæranda tölvupóst og greint honum frá því að atvinnurekandi hefði reynt að ná í hann vegna boðunar í atvinnuviðtal en kærandi hefði ekki svarað. Kæranda hafi jafnframt verið greint frá því að ráðgjafi Vinnumálastofnunar myndi hafa samband við hann í síma klukkan 10 daginn eftir. Í tölvupóstinum hafi verið áréttað að ef ekki næðist í atvinnuleitanda þá kynni hann vera metinn sem ekki í virkri atvinnuleit, sem gæti þá haft áhrif á greiðslu atvinnuleysistrygginga. Umræddur tölvupóstur hafi verið sendur á uppgefið netfang kæranda, auk þess sem hann hafi verið áréttaður með smáskilaboðum í uppgefið símanúmer kæranda. Þann 2. júlí 2021 hafi Greiðslustofu Vinnumálastofnunar borist þær upplýsingar að kærandi hefði ekki svarað símtali frá ráðgjafa Vinnumálastofnunar vegna boðaðs símafundar þann 2. júlí 2021. Kæranda hafi því með erindi, dags. 4. ágúst 2021, verið boðið að skila skýringum. Í umræddu erindi hafi verið ítrekað að skýringar kæranda þyrftu að berast Vinnumálastofnun innan sjö virkra daga. Aftur á móti hafi Vinnumálastofnun ekki borist neinar skýringar frá kæranda. Kæranda hafi því verið tilkynnt með erindi, dags. 19. ágúst 2021, að bótaréttur hans væri felldur niður í tvo mánuði á grundvelli 1. mgr. 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Vinnumálastofnun bendi á að skýringar kæranda til úrskurðarnefndarinnar séu einu skýringarnar sem hann hafi fært fram í málinu.

Lög nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna og sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verði atvinnulausir. Ágreiningur í máli þessu snúi að því hvort rétt hafi verið að beita kæranda viðurlögum á grundvelli 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar vegna þess að hann hafi ekki svarað símtali frá ráðgjafa Vinnumálastofnunar.

Í 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé kveðið á um almenn skilyrði fyrir atvinnuleysistryggingum launamanna. Í a. lið 1. mgr. 13. gr. sé kveðið á um það skilyrði að atvinnuleitandi skuli vera í virkri atvinnuleit. Samkvæmt h-lið 14. gr. felist virk atvinnuleit meðal annars í því að hafa vilja og getu til að taka þátt í þeim vinnumarkaðsaðgerðum sem standi til boða. Í 13. gr. laga nr. 55/2006 um vinnumarkaðsaðgerðir komi einnig fram skylda þess sem teljist tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar til að taka þátt í vinnumarkaðsúrræðum sem Vinnumálastofnun bjóði upp á. Ákvæðið sé svohljóðandi:

,,Atvinnuleitandi skal fylgja eftir áætlun um atvinnuleit og þátttöku í viðeigandi vinnumarkaðsúrræðum skv. 11. gr. og gera það sem í hans valdi stendur til að bæta vinnufærni sína til þess að verða virkur þátttakandi á vinnumarkaði. Þar á meðal skal atvinnuleitandi ávallt mæta í viðtöl til ráðgjafa Vinnumálastofnunar skv. 14. gr. og taka þátt í þeim vinnumarkaðsúrræðum er standa honum til boða. Atvinnuleitandi skal jafnframt tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunna að verða á vinnufærni hans eða aðstæðum að öðru leyti án ástæðulausrar tafar.“

Atvinnuleitendum beri samkvæmt 2. mgr. 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar að tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunni að verða á vinnufærni eða aðstæðum að öðru leyti samkvæmt 1. mgr. sömu greinar, þar á meðal um tilfallandi veikindi og fjarveru á boðaðan fund, án ástæðulausrar tafar. Fyrir liggi að kærandi hafi ekki tilkynnt Vinnumálastofnun um fjarveru á umræddan símafund.

Samkvæmt 7. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar skuli sá sem teljist tryggður á grundvelli laganna og eftir að umsókn hans hafi verið samþykkt og á þeim tíma sem hann fái greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögunum, hafa reglulegt samband við Vinnumálastofnun eftir nánara fyrirkomulagi sem stofnunin ákveði. Þegar Vinnumálastofnun upplýsi umsækjanda um að stofnunin hafi samþykkt umsókn um atvinnuleysisbætur skuli hún jafnframt upplýsa hlutaðeigandi um með hvaða hætti stofnunin muni koma upplýsingum eða öðrum boðum til hans á meðan á atvinnuleit standi. Komi Vinnumálastofnun upplýsingum eða boðum til umsækjanda með þeim hætti sem stofnunin hafi tiltekið við hlutaðeigandi teljist upplýsingarnar eða boðin hafa borist með sannanlegum hætti samkvæmt lögunum.

Þegar kærandi hafi sótt um greiðslu atvinnuleysistrygginga með umsókn, dags. 2. desember 2020, hafi honum verið greint frá því að Vinnumálastofnun myndi framvegis koma upplýsingum eða öðrum boðum til hans með rafrænum hætti. Athygli kæranda hafi jafnframt verið vakin á því að huga að því að allar upplýsingar, svo sem netfang og símanúmer, væru rétt skráðar þar sem stofnunin myndi til að mynda koma til með að senda honum mikilvægar upplýsingar í smáskilaboðum.

Eins og rakið hafi verið að framan hafi kærandi verið boðaður á umræddan símafund með bæði tölvupósti á uppgefið netfang hans og með smáskilaboðum í uppgefið símanúmer. Þær upplýsingar sem kærandi hafi fengið um umræddan símafund hafi verið skýrar, til að mynda upplýsingar um hvernig hann færi fram og hvenær. Með vísan til 7. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar hafi því allar nauðsynlegar upplýsingar um símafundinn borist kæranda með sannanlegum hætti.

Í 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé kveðið á um þegar þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum sé hafnað. Í ákvæðinu komi skýrt fram að hafni einstaklingur þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum skuli hann sæta tveggja mánaða biðtíma eftir atvinnuleysisbótum. Í greinargerð með frumvarpi því er varð að lögum um atvinnuleysistryggingar sé efni 58. gr. laganna nánar skýrt. Þar segi að Vinnumálastofnun annist skipulag vinnumarkaðsaðgerða og að litið sé svo á að þeim sem tryggðir eru innan atvinnuleysistryggingakerfisins sé skylt að taka þátt í vinnumarkaðsúrræðum. Þá sé jafnframt tekið fram í greinargerðinni að bregðist hinn tryggði þeirri skyldu leiði það til viðurlaga í formi biðtíma eftir atvinnuleysisbótum.

Þann 1. júlí hafi kærandi verið boðaður á umræddan símafund. Sérstaklega hafi verið tekið fram í umræddum tölvupósti að ef kærandi myndi ekki svara símtali ráðgjafa Vinnumálastofnunar kynni það að hafa áhrif á greiðslu atvinnuleysistrygginga. Þrátt fyrir það hafi kærandi ekki svarað símtali ráðgjafa stofnunarinnar. Skýringar kæranda þess efnis að hann hafi sofið yfir sig séu ekki réttlætanlegar í þessu samhengi að mati Vinnumálastofnunar.

Með vísan til alls framangreinds sé það afstaða Vinnumálastofnunar að kærandi skuli sæta viðurlögum á grundvelli 1. mgr. 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og að þær skýringar sem kærandi hafi veitt úrskurðarnefndinni geti ekki talist gildar í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar. Það sé því niðurstaða Vinnumálastofnunar að réttilega hafi verið staðið að ákvörðun stofnunarinnar um að kærandi skyldi sæta viðurlögum á grundvelli 1. mgr. 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar um að fella niður bótarétt kæranda í tvo mánuði á grundvelli 1. mgr. 58. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

Í 58. gr. laga nr. 54/2006 er kveðið á um viðurlög við því ef þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum er hafnað. Segir þar í 1. mgr. að sá sem hafnar þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum, sbr. lög um vinnumarkaðsaðgerðir, samkvæmt ákvörðun Vinnumálastofnunar eftir að hafa verið í atvinnuleit í að minnsta kosti fjórar vikur frá móttöku Vinnumálastofnunar á umsókn um atvinnuleysisbætur, skuli ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta samkvæmt VII. kafla laganna fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila. Hið sama gildir þegar hinn tryggði mætir ekki til Vinnumálastofnunar á áður boðuðum tíma samkvæmt 6. mgr. 9. gr., nú 7. mgr. 9. gr.,  3. mgr. 13. gr. eða 3. mgr. 18. gr. laganna.

Í athugasemdum greinargerðar við frumvarp það er varð að lögum nr. 134/2009, um breytingu á lögum nr. 54/2006, segir meðal annars um viðurlög við að virða ekki boðun Vinnumálastofnunar:

„Í ljósi þess að mikilvægt er að Vinnumálastofnun geti haldið reglulegu sambandi við þá sem fá greiddar atvinnuleysisbætur, ekki síst til að geta fylgst með gangi atvinnuleitar og hvort stofnunin þurfi að koma að frekari stuðningi við viðkomandi, er lagt til að það kunni að varða viðurlögum á grundvelli laganna í þeim tilvikum er atvinnuleitendur virða ekki boðun stofnunarinnar skv. 1. gr. frumvarps þessa. Á þetta ekki síst við þegar fá störf eru í boði og auknar líkur eru á að atvinnuleitin dragist á langinn. Jafnframt er lagt til að sama gildi þegar atvinnuleitendur eru boðaðir til stofnunarinnar í því skyni að kanna hvort sá hinn sami uppfylli enn skilyrði laganna, sbr. 4. og 6. gr. frumvarps þessa. Er því gert ráð fyrir að sömu viðurlög komi til og eiga við þegar þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum er hafnað.“

Í 7. mgr. 9. gr. kemur fram að sá sem telst tryggður á grundvelli laganna skuli eftir að umsókn hans hafi verið samþykkt og á þeim tíma sem hann fái greiddar atvinnuleysisbætur eða sæti biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögunum hafa reglulegt samband við Vinnumálastofnun eftir nánara fyrirkomulagi sem stofnunin ákveði. Þegar Vinnumálastofnun upplýsi umsækjanda um að stofnunin hafi samþykkt umsókn um atvinnuleysisbætur skuli hún jafnframt upplýsa hlutaðeigandi um með hvaða hætti stofnunin muni koma upplýsingum eða öðrum boðum til hans meðan á atvinnuleit hans standi. Komi Vinnumálastofnun upplýsingum eða boðum til umsækjanda með þeim hætti sem stofnunin hafi tiltekið við hlutaðeigandi teljast upplýsingarnar eða boðin hafa borist með sannanlegum hætti.

Þá segir í 3. mgr. 13. gr. laga nr. 54/2006 að Vinnumálastofnun sé heimilt að boða þann tryggða til stofnunarinnar með sannanlegum hætti á þeim tíma sem hann fái greiddar atvinnuleysisbætur eða sæti biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögunum, meðal annars til að kanna hvort breytingar hafi orðið á högum hans sem kunni að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögunum. Hinn tryggði skuli þá vera reiðubúinn að mæta til stofnunarinnar með mjög skömmum fyrirvara.

Í gögnum málsins liggur fyrir að ráðgjafi Vinnumálastofnunar hugðist taka símaviðtal við kæranda vegna tilkynningar frá atvinnurekanda um að ekki hafi náðst í hann vegna boðunar í atvinnuviðtal. Símaviðtalið átti að fara fram 2. júlí 2021 og var kæranda tilkynnt um það daginn áður með tölvupósti, smáskilaboðum og tilkynningu á „Mínum síðum“ stofnunarinnar. Tekið var fram að ef ekki næðist í hann teldist hann ekki í virkri atvinnuleit og það gæti haft þær afleiðingar að greiðslur bóta yrðu felldar niður. Kærandi svaraði ekki þegar hringt var í hann og hefur borið því við að hafa sofið yfir sig. Þá hefur kærandi vísað til þess að hafa sent Vinnumálastofnun tölvupóst vegna þessa sem ekki hafi verið svarað. Kærandi lagði fram tilgreindan tölvupóst en af honum má sjá að hann var ekki sendur á rétt netfang og barst því ekki Vinnumálastofnun.

Í máli þessu liggur fyrir að kærandi var boðaður til Vinnumálastofnunar með sannanlegum hætti, þ.e. með tölvupósti og skilaboðum á „Mínum síðum“. Í 1. mgr. 58. gr. laga nr. 54/2006 kemur skýrt fram að sá sem hafnar þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum skuli sæta viðurlögum á grundvelli ákvæðisins og hið sama gildi þegar hinn tryggði mætir ekki til Vinnumálastofnunar á áður boðuðum tíma. Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála hefur kærandi ekki fært fram viðunandi skýringar sem réttlæta að hann hafi ekki mætt í boðað símaviðtal hjá Vinnumálastofnun.

Að því virtu og með vísan til framangreinds er ákvörðun Vinnumálastofnunar um að fella niður bótarétt kæranda í tvo mánuði á grundvelli 1. mgr. 58. gr. laga nr. 54/2006, staðfest.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 19. ágúst 2021, um að fella niður bótarétt A í tvo mánuði, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum