Hoppa yfir valmynd
%C3%9Arskur%C3%B0arnefnd%20velfer%C3%B0arm%C3%A1la%20-%20Barnaverndarm%C3%A1l

Mál nr. 499/2022-Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 499/2022

Mánudaginn 21. nóvember 2022

A

gegn

Barnaverndarnefnd B

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Björn Jóhannesson lögfræðingur og Guðfinna Eydal sálfræðingur.

Með kæru, dags. 11. október 2022, kærði C lögmaður, f.h. A til úrskurðarnefndar velferðarmála úrskurð Barnaverndarnefndar B frá 28. september 2022 vegna umgengni kæranda við dóttur kæranda, D.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Stúlkan D er X ára gömul. Kærandi er móðir stúlkunnar og fer ein með forsjá hennar.

Stúlkan hefur verið vistuð utan heimilis frá 22. september 2020 eftir að tilkynningar bárust barnavernd um áhyggjur af ofbeldi af hendi kæranda. Stúlkan er vistuð utan heimilis á grundvelli 28. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 (bvl.).

Mál stúlkunnar vegna umgengni við kæranda á tímabili vistunar var tekið fyrir á fundi Barnaverndarnefndar B þann 28. september 2022. Þar sem ekki náðist samkomulag við kæranda um umgengni var málið tekið til úrskurðar.

Úrskurðarorð hins kærða úrskurðar er svohljóðandi, auk þess sem þar er bent á kæruheimild til úrskurðarnefndar velferðarmála:

„Umgengni móður, A, við stúlkuna D, skal vera eitt skipti aðra hverja viku á heimili móður, í tvær klukkustundir í senn. Símatími skal vera einu sinni í viku. Umgengni verður undir eftirliti.“

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála 11. október 2022. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 11. október 2022, var óskað eftir greinargerð Barnaverndarnefndar B ásamt gögnum málsins. Greinargerð Barnaverndarnefndar B barst 25. október 2022 og með bréfi úrskurðarnefndar var hún send lögmanni kæranda til kynningar samdægurs. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi krefst þess aðallega að niðurstöðu hins kærða úrskurðar um umgengni verði hrundið og að umgengni hennar við dóttur sína verði aukin þannig að hún verði vikulega í þrjár klukkustundir í senn og að umgengni fari fram án eftirlits. Til vara gerir kærandi þá kröfu að umgengni hennar við dóttur sína verði aukin.

Í kæru kemur fram að dóttir kæranda hafi verið vistuð utan heimilis frá 22. september 2020 eftir að tilkynningar bárust barnavernd um áhyggjur af ofbeldi á heimilinu. Systkini stúlkunnar búa engu að síður öll á heimili kæranda og ekkert þeirra kannast við slíkar lýsingar. Stúlkan hefur í tvígang verið vistuð utan heimilis í allt að 12 mánuði en núverandi vistun, sem rennur út þann 10. nóvember 2022, hafi verið staðfest með úrskurði Landsréttar þann 18. mars 2022 í máli nr. 91/2022. Í kjölfar úrskurðar Landsréttar ákvað kærandi að skrifa undir samning um umgengni þann 20. mars 2022 þar sem lagt var upp með að umgengni færi fram aðra hvora viku á heimili móður í þrjár klukkustundir í senn. Þá átti kærandi að mæta í listmeðferð, bæði ein og með dóttur sinni, auk þess sem móðir átti kost á að hringja í dóttur sína í símatímum sem ákveðnir voru tvisvar í viku. Samningur þessi gilti til 31. maí 2022 og var lagt upp með að endurskoða umgengni að honum loknum. Kærandi hafi verið bjartsýn á að þá yrði unnt að auka umgengni hæfilega, jafnvel þannig að stúlkan kæmi í heimsókn yfir helgi.

Kærandi hafi verið boðuð á fund ásamt lögmanni sínum þann 22. júní 2022 til að ræða nýja umgengnisáætlun þar sem kærandi tjáði félagsráðgjafa að hún vildi fá dóttur sína heim og viðraði þá hugmynd að hún kæmi til með að prófa að gista, enda hafði umgengni gengið vel. Þegar ný umgengnisáætlun hafi verið send kæranda og lögmanni hafi á hinn bóginn verið lagt upp með að umgengni yrði áfram aðra hvora viku í þrjár klukkustundir í senn en reyna átti að hafa viðbótarumgengni í formi heimsóknar kæranda á fósturheimili. Kærandi hafnaði að skrifa undir nýja umgengnisáætlun og tilkynnti barnavernd ákvörðun sína þann 28. júlí 2022. Málið hafi ekki verið tekið fyrir hjá barnaverndarnefnd fyrr en tveimur mánuðum síðar, þ.e. þann 28. september 2022. Umgengni hélt engu að síður áfram aðra hvora viku líkt og ráð hafi verið gert fyrir samkvæmt fyrri áætlun. Á fundi barnaverndarnefndar hafi verið fallist á tillögu starfsmanna barnaverndar um umgengni aðra hvora viku í aðeins tvær klukkustundir hverju sinni.

Kærandi krefst þess aðallega að umgengni hennar við dóttur sína verði vikulega í þrjár klukkustundir í senn án eftirlits. Til vara gerir kærandi þá kröfu að umgengni hennar við dóttur sína verði aukin frá því sem hinn kærði úrskurður kveður á um og verði lengri hverju sinni, til dæmis þrjár klukkustundir líkt og áður. Kærandi telur sig njóta of lítillar umgengni og í of skamman tíma í senn. Stúlkan sætir tímabundinni vistun utan heimilis og enn sé stefnt að því að stúlkan snúi aftur heim. Núverandi vistun renni út 10. nóvember 2022 og því sé æskilegt að auka umgengni í því skyni að kanna hvort unnt sé að koma stúlkunni hægt og rólega inn á heimilið. Umgengni hafi gengið vel og ljóst sé af gögnum málsins að afstaða stúlkunnar til heimilisins sé jákvæð. Kærandi telji að sá árangur sem hafi náðst í tengslavinnu á milli hennar og dóttur sinnar sé tilkominn vegna góðrar umgengni. Önnur úrræði á borð við listmeðferð hafa ekki náð tilætluðum árangri í tengslavinnu þeirra og því sé nauðsynlegt að leggja meiri áherslu á það sem gengur vel. Það fyrirkomulag sem nú hafi verið úrskurðað um sé ekki til þess fallið að efla tengsl kæranda og dóttur hennar eða stuðla að því að stúlkan snúi aftur inn á heimilið í náinni framtíð.

Kærandi telji hinn kærða úrskurð illa rökstuddan og í allra besta falli sé engin rök þar að finna sem styðja eins litla og skamma umgengni hverju sinni og nú sé í gildi. Vísað sé til vilja stúlkunnar og auðvitað ber að taka tillit til hans eins og kostur er með tilliti til aldurs og þroska stúlkunnar. Kærandi fær á hinn bóginn ekki séð að meiri umgengni og lengri raski stöðugleika og ró barnsins. Kærandi telur svigrúm til að haga málum þannig að fjölskyldan fái að lágmarki þrjár klukkustundir í umgengni hverju sinni. Í málinu liggi fyrir nýleg skýrsla talsmanns þar sem fram komi að stúlkan sé til í að hafa umgengni tvisvar til þrisvar sinnum í mánuði frá kl. 16:00 til 19:00 þannig að það sé ljóst að vilji barnsins stendur ekki í vegi fyrir meiri umgengni en úrskurðað hafi verið um. Þvert á móti sé talsvert svigrúm til staðar til að auka umgengni með því bæði að fjölga skiptum mánaðarlega og auka lengd umgengni hverju sinni. Hinn kærði úrskurður minnist ekkert á framangreint og látið sé duga að vísa til þess að stúlkan hafi ávallt verið skýr í afstöðu sinni til takmarkaðrar umgengni við móður. Kærandi sé ekki að fara fram á umtalsvert meiri umgengni en stúlkan sjálf hafi greint frá að hún vilji. Jafnvel þó að fallist yrði á kröfur kæranda væri umgengni enn takmörkuð, en kærandi telji engu að síður nauðsynlegt að auka hana svo að unnt sé að halda áfram vinnu með þeirra tengsl, auk þess að halda tengslum stúlkunnar við systkini sín. 

Í hinum kærða úrskurði komi fram að kærandi hafi að mati starfsmanna barnaverndar verið lítið til samstarfs og að samkvæmt skýrslu tengslaráðgjafa sé áberandi að stúlkan vilji ekki tala við kæranda. Kærandi hafni því að hún sé ekki til samstarfs. Hún samþykkti til að mynda áætlun um umgengni í kjölfar þess að Landsréttur staðfesti vistun dóttur hennar utan heimilis og hafi reynt að sinna því sem af henni er ætlast eftir bestu getu. Staðreyndin sé á hinn bóginn sú að kærandi kunni einfaldlega ekki mikið á tölvur eða aðra tækni og eigi því erfitt með samskipti í gegnum tölvupóst. Lögmaður kæranda hafi ítrekað þurft að ganga erinda barnaverndar til að koma skilaboðum áleiðis þar sem kærandi sjái ekki alltaf tölvupósta eða svarar þeim á þann veg að svarið berst aðeins lögmanni eða svarar eldri póstum þannig að ekkert samhengi fæst í skilaboðin.

Kærandi hafi einnig sýnt að hún vilji vera til samstarfs og bæta sig með því að óska sjálf eftir fjárhagsaðstoð svo að hún geti sótt tíma hjá sálfræðingi, auk þess sem hún hafi ítrekað óskað eftir aðkomu spænskumælandi sálfræðings til að aðstoða við tengslamyndun á milli sín og dóttur sinnar. Á þetta hafi ekki verið hlustað og ritað í gögn málsins að kærandi stingi aldrei upp á neinu. Þá sé ávallt farið sömu leið og mæðgurnar sendar í listmeðferð, þrátt fyrir að það hafi lengi verið ljóst að það gangi ekki að efla tengsl mæðgna á þeim vettvangi. Markmiðið með þeirri vinnu hafi verið að efla tengsl þeirra en það hafi engan veginn gengið eftir og ljóst að mun betur gangi hjá þeim í umgengni á heimili kæranda. Stúlkan sjálf hafi stundum greint frá því að hún vilji ekki fara í umrædda listmeðferð en það sé engu líkara en að þetta sé eina úrræðið sem standi til boða þegar kemur að tengslamyndun. En sú sé ekki raunin. Hér á landi starfi fjöldi sálfræðinga sem sérhæfi sig í fjölskyldumeðferðum og sú starfstétt sé að öllum líkindum jafn vel til þess fallin, ef ekki betur til þess fallin, að efla tengsl mæðgna. Kærandi undrar sig á því hvers vegna aðrar leiðir hafi ekki verið reyndar í ljósi þess að um tímabundna vistun sé að ræða og markmiðið þar af leiðandi að stúlkan snúi aftur heim að henni lokinni.

Hvað varði heimsóknir kæranda og fjölskyldunnar á fósturheimilið í E sé það ekki rétt að það hafi alltaf strandað á kæranda. Hún hafi vissulega átt erfitt með að ímynda sér að fara í slíka heimsókn til að byrja með en hafi undanfarna tvo mánuði reynt að stinga upp á dagsetningum en þá hefur fósturfjölskyldan ekki getað tekið á móti þeim. Núna liggur fyrir að fósturfjölskylda segist ekki getað tekið á móti þeim neina helgi í október. Þá sé einnig ljóst að barnavernd hafði sjálf ekki hugsað málið til enda þar sem stungið var upp á því að fjölskyldan tæki strætó austur en ljóst sé að þá þurfi þau að gista þar sem strætó gangi aðeins einu sinni fram og til baka hvern dag. Slíkur ferðamáti hentar eðli máls samkvæmt ekki kæranda en barnavernd hafi af einhverjum ástæðum túlkað allt framangreint sem viljaleysi móður til að heimsækja dóttur sína. Taka þurfi tillit til þess að fósturheimilið sé ekki á höfuðborgarsvæðinu og kærandi eigi þegar erfitt með að ferðast innan þess þar sem hún keyri ekki sjálf og tali mjög takmarkaða íslensku sem geri henni erfitt fyrir þegar komi að samgöngum. Hún sé því að miklu leyti upp á fjölskyldu og vini komin þegar komi að ferðalögum og þetta eigi barnavernd að vita. Þó að kærandi sé boðin og búin til að fara í heimsókn á fósturheimili sé fullkomlega eðlilegt að aukin umgengni fari áfram fram á heimili kæranda í stað þess að hún þurfti að finna leið til að koma sér austur á E og til baka með alla fjölskylduna.

Mál þetta hafi tekið mikið á kæranda og nýleg skýrsla sálfræðings hennar staðfestir áhrif þessa á andlegan líðan hennar. Ákvörðun um eins litla umgengni og raun ber vitni sé ekki til þess fallin að bæta ástandið, þvert á móti geti þetta haft slæm áhrif á vinnslu málsins í heild. Kærandi kemur frá öðrum menningarheimi og upplifi þessar aðstæður eins og verið sé að taka dóttur hennar og eigi eðlilega erfitt með að sýna því skilning. Það sé nauðsynlegt að taka tillit til þessa líka, enda sé það barninu fyrir bestu að móðir þess sé í góðu jafnvægi þegar umgengni fari fram og það megi stuðla að því með rýmri umgengni heldur en ákvörðuð hafi verið.

Það sem að framan hafi verið rakið eigi eðli málsins samkvæmt bæði við aðal- og varakröfu kæranda en fari svo að ekki verði fallist á aðalkröfu þá vísar kærandi sérstaklega til þess að ekkert sé til staðar sem mæli gegn rýmri umgengni en úrskurðað hafi verið um. Stúlkan hafi verið vistuð utan heimilis til að leyfa henni að njóta vafans hvað varðar meint ofbeldi og þannig tryggja öryggi hennar. Umgengni fari að sama skapi fram undir eftirliti en það væri hægur leikur að lengja til dæmis umgengni hverju sinni með sama fyrirkomulagi, án þess að það færi gegn hagsmunum barnsins. Þvert á móti mæli hagsmunir barnsins með rýmri umgengni en nú sé við móður sína og systkini, enda sé markmið núgildandi vistunnar enn að stúlkan snúi aftur heim.

Kærandi byggir kröfur sínar á því að barn eigi rétt á umgengni við kynforeldra sína og aðra sem eru þeim nákomnir, sbr. 1. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Er sá réttur í samræmi við mannréttindaákvæði og alþjóðasamninga sem Ísland hefur fullgilt. Kærandi byggir jafnframt á því að kynforeldrar eigi rétt á umgengi við barn í fóstri, nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins samkvæmt 2. mgr. 74. gr. bvl. Kærandi bendir á að réttur barns til að njóta umgengni við kynforeldra sína sé sérstaklega ríkur, enda komi fram í greinargerð með frumvarpi því sem varð að barnaverndarlögum að „ef neita á um umgengnisrétt með öllu eða takmarka hann verulega verður þannig að sýna fram á að hann sé bersýnilega andstæður hagsmunum barnsins.“ Kærandi telji að ekkert sé fram komið sem sýni að sú umgengni sem farið sé fram á sé bersýnilega andstæð hagsmunum barnsins.

Þá telji kærandi að markmið fósturs standi ekki í vegi fyrir kröfu hennar þar sem krafan feli í sér mjög hóflega aukningu á umgengni og sé ekki til þess fallin að raska markmiðum þess fósturs sem nú stendur yfir. Þvert á móti sé krafan til þess fallin að auka líkur á því að markmið fóstursins um að stúlkan snúi aftur heim takist. Kröfur kæranda byggja enn fremur á meginreglu barnaverndarlaga um að hagsmunir barnsins skulu ávallt hafðir í fyrirrúmi, sbr. 1., 3. og 4. mgr. 4. gr. laganna, og vísast til ríkra hagsmuna barnsins af því að njóta tengsla við kynforeldri og systkini sín hvað það varðar.

Kærandi telji sig hafa getu og hæfni til að sinna dóttur sinni í umgengni. Kærandi elski dóttur sína og vilji gera allt sem í hennar valdi standi til að hún geti snúið aftur á heimilið. Það hafi reynst kæranda erfitt að vera svo mikið frá dóttur sinni og það sé einlægur vilji hennar að fá að umgangast dóttur sína meira en hún geri nú. Kærandi vilji í þessum efnum vera í fullu samstarfi við barnavernd og vistforeldra.

III.  Sjónarmið Barnaverndarnefndar B

Barnaverndarnefnd B krefst þess að úrskurður nefndarinnar frá 28. september 2022 verði staðfestur.

Í 51. gr. bvl. sé fjallað um málskot til úrskurðarnefndar velferðarmála. Heimild nefndarinnar nái einungis til þess að staðfesta, hrinda úrskurði barnaverndarnefndar eða að vísa máli aftur til efnislegrar meðferðar. Úrskurðarnefndin geti því ekki tekið aðra efnisákvörðun í málum sem til hennar er skotið. Því beri að synja kröfu kæranda um að úrskurði barnaverndarnefndar verði breytt og umgengni hennar aukin. 

Tildrög málsins séu rekin í kærumálsgögnum og sé einkum vísað til greinargerðar starfsmanns barnaverndar sem lögð var fyrir á fundi barnaverndarnefndar 28. september 2022 og úrskurð Héraðsdóms F í máli nr. U-2411/2021 sem kveðinn hafi verið upp 7. febrúar 2022. Stúlkan hafi nú verið vistuð utan heimilis í rúm tvö ár.

Fyrir liggi að Héraðsdómur F hafi fallist á kröfu barnaverndarnefndar um að dóttir kæranda yrði vistuð utan heimilis í allt að 12 mánuði. Sú vistun renni úr gildi 10. nóvember 2022. Á vistunartíma hafði barnavernd áform um að bæta samskipti og tengsl kæranda og dóttur hennar sem séu brotin. Eftir tveggja ára vistunartíma hafi tengslaeflandi meðferð mæðgnanna ekki skilað árangri og liggi fyrir að þann 1. nóvember 2022 taki Barnaverndarnefnd B fyrir tillögu starfsmanna barnaverndar um að farið verði fram á forsjársviptingu kæranda á grundvelli a. liðar 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga.

Á tímabili vistunar hafi stúlkan verið einurð í afstöðu sinni um að vilja hitta móður sem minnst en sæki hins vegar í samvistir við systkini sín. Stúlkan sé óörugg í umgengni sem birtist í því að hún vilji alltaf hafa eftirlit með sér og hafi sú afstaða hennar ekkert breyst á vistunartímanum, sbr. meðal annars skýrslu talsmanns, dags. 24. júní 2022.

Í ljósi þeirra aðstæðna sem stúlkan hafi búið við um árabil sé mikilvægt að mati barnaverndar að hún fái að upplifa að hlustað sé á hana og að skoðanir hennar séu virtar en ekki síður að treysta megi treysta fullorðna fólkinu. Í skýrslu tengslaráðgjafa, dags. 28. maí 2022, komi fram að áberandi sé að stúlkan hafi ekki viljað tala við móður sína og helst ekki horfa til hennar. Þá forðist hún alla snertingu og  vanlíðan í nærveru móður.

Á barnavernd hvílir sú skylda að gæta meðalhófs en jafnframt að virða skoðanir þeirra barna sem barnavernd hafi afskipti af og gæta hagsmuna þeirra. Í máli þessu hafi skýr afstaða stúlkunnar til umgengni verið talin vega þyngra en vilji kæranda til umgengni.

Með hliðsjón að ofangreindu sé það mat Barnaverndarnefndar B að umgengni eins og hún hafi verið ákveðin í úrskurði nefndarinnar þann 28. september 2022 sé hæfileg og í samræmi við hagsmuni stúlkunnar.

IV.  Sjónarmið stúlkunnar

Í málinu liggja fyrir tvær skýrslur talsmanns sem aflað var um afstöðu stúlkunnar til umgengni við kæranda. Í skýrslunum komi meðal annars fram að stúlkunni líði vel í umgengni á heimili móður og að hún myndi vilja halda umgengni áfram tvisvar til þrisvar í mánuði frá klukkan 16:00 til 19:00. Þá komi fram hjá henni að skemmtilegast þætti henni að hitta systkini sín í umgengni. Þá hafi stúlkan einnig tekið fram að hún myndi vilja búa áfram hjá fósturforeldrum.

V.  Niðurstaða

Stúlkan D er fædd árið X. Kærandi er móðir stúlkunnar.

Með hinum kærða úrskurði frá 28. september 2022 var ákveðið að umgengni stúlkunnar við kæranda skyldi vera eitt skipti aðra hvora viku á heimili móður, í tvær klukkustundir í senn, undir eftirliti. Símatími skyldi vera einu sinni í viku.

Kærandi krefst þess aðallega að niðurstöðu hins kærða úrskurðar um umgengni verði hrundið og að umgengni hennar við dóttur sína verði aukin þannig að hún verði vikulega í þrjár klukkustundir í senn og að umgengni fari fram án eftirlits. Til vara gerir kærandi þá kröfu að umgengni hennar við dóttur sína verði aukin.

Varðandi kröfu kæranda um að úrskurðarnefndin kveði á um aukna umgengni bendir úrskurðarnefndin á að samkvæmt 4. mgr. 51. gr. bvl. getur nefndin einungis staðfest úrskurð að niðurstöðu til eða hrundið honum að nokkru eða öllu leyti. Þá getur úrskurðarnefndin einnig vísað máli til meðferðar að nýju. Í þessu felst að úrskurðarnefndin getur ekki breytt hinum kærða úrskurði.

Samkvæmt 1. mgr. 81. gr. bvl. á barn sem vistað er á heimili eða stofnun samkvæmt 79. gr. bvl. rétt á umgengni við kynforeldra og aðra sem eru því nákomnir. Kynforeldrar eiga með sama hætti rétt á umgengni við barn sitt samkvæmt 2. mgr. sömu lagagreinar, nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins og ósamrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt er að með vistun. Samkvæmt 3. mgr. lagagreinarinnar skal barnaverndarnefnd leitast við að ná samkomulagi við þá sem umgengni eiga að rækja, að teknu tilliti til þeirra reglna sem gilda á viðkomandi heimili eða stofnun. Samkvæmt 4. mgr. sömu lagagreinar hefur barnaverndarnefnd úrskurðarvald um ágreiningsefni er varða umgengni barns við foreldra og aðra nákomna, hvort sem það varðar rétt til umgengni, umfang umgengnisréttarins eða framkvæmd.

Það er meginregla í barnaverndarstarfi að hagsmunir barns skuli ávallt hafðir í fyrirrúmi og beita skuli þeim ráðstöfunum sem barni eru fyrir bestu. Við úrlausn þessa máls ber að líta til þeirrar stöðu sem stúlkan er í. Það er gert til að unnt sé að taka ákvörðun um umgengni hennar við kæranda á þann hátt að hún þjóni hagsmunum hennar best.

Að mati úrskurðarnefndarinnar ber því fyrst og fremst að líta til hvaða hagsmuni stúlkan hefur af umgengni við kæranda. Í skýrslu G tengslaráðgjafa, dags. 28. maí 2022, kom fram að áberandi hafi verið að stúlkan vildi ekki tala við móður og helst ekki horfa til hennar, stúlkan hafi forðaðist alla snertingu og snertingar móður hafi augljóslega farið yfir mörk stúlkunnar. Í samantekt frá eftirlitsaðila í umgengni kom fram að stúlkan virðist lítið sækja í móður sína en sé ánægð með að leika við systkini sín. Þá hafi stúlkan beðið eftirlitsaðila um vera hjá sér þegar móður hafi viljað tala við hana.

Samkvæmt því, sem hér að framan greinir, fellst úrskurðarnefndin á ofangreind sjónarmið Barnaverndarnefndar B og telur að það þjóni hagsmunum stúlkunnar best við núverandi aðstæður að umgengni hennar við kæranda verði takmörkuð á þann hátt sem ákveðið var með hinum kærða úrskurði. Er þá litið til vilja stúlkunnar, takmarkaðra tengsla við kæranda og þeirrar stöðu sem stúlkan er í samkvæmt fyrirliggjandi gögnum og lýst er hér að framan. Með því að takmarka umgengni er tilgangurinn að skapa stöðugleika í lífi stúlkunnar og tryggja sem best hagsmuni hennar og öryggi.

Með vísan til alls framangreinds er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að umgengni við kæranda hafi verið ákveðin í samræmi við þau sjónarmið sem leggja beri til grundvallar samkvæmt 2., 3. og 4. mgr. 81. gr. bvl. þegar umgengni barns í vistun við foreldra og nákomna er ákveðin. Með vísan til alls þess, sem að framan greinir, ber því að staðfesta hinn kærða úrskurð Barnaverndarnefndar B er varðar umgengni stúlkunnar við kæranda

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Úrskurður Barnaverndarnefndar B frá 28. september 2022 varðandi umgengni A, við D, er staðfestur.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum