Hoppa yfir valmynd
Stj%C3%B3rns%C3%BDsluk%C3%A6rur%20-%20%C3%BArskur%C3%B0ir

Ákvörðun forstjóra [C] um niðurlagningu starfs kæranda (3)

Stjórnsýslukæra

Ráðuneytið vísar til stjórnsýslukæru [A] f.h. [B], dags. 8. maí 2020, sem barst ráðuneytinu 12. sama mánaðar, þar sem kærð er til ráðuneytisins ákvörðun forstjóra [C], dags. 21. nóvember 2019, um að leggja niður starf kæranda með 12 mánaða fyrirvara miðað við dagsetningu bréfsins í samræmi við ákvæði ráðningarsamnings og 43. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

Kröfur kæranda

Kærandi krefst þess að felld verði úr gildi ákvörðun forstjóra [C], dags. 21. nóvember 2019, um að leggja niður starf kæranda hjá [C] með 12 mánaða fyrirvara miðað við dagsetningu bréfsins.

Málsatvik

Málsatvik eru þau að kærandi var boðuð á fund símleiðis þann 21. nóvember 2019 með forstjóra og fjármálastjóra [C]. Þegar á fundinn var komið var auk framangreindra mætt þróunarstjóri stofnunarinnar. Í upphafi fundar kom fram að hagræða þyrfti í rekstri [C] og slíkt yrði gert með því að fækka sviðum, þ.á m. því sviði sem kærandi hafði stýrt og því yrði starf kæranda lagt niður. Forstjóri [C] lagði fyrir kæranda bréf, dags. 21. nóvember 2019, þar sem kæranda var tilkynnt að starf hennar væri lagt niður með 12 mánaða fyrirvara miðað við dagsetningu bréfsins í samræmi við ákvæði ráðningarsamnings og 43. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Starfslok voru samdægurs. Bent var á að hægt væri að óska eftir skriflegum rökstuðningi fyrir uppsögninni með vísan til 1. málsl. 2. mgr. 44. gr. framangreindra laga. Upplýst var að kærandi gæti fengið sérfræðingsstöðu hjá stofnuninni og þannig haldið launakjörum sviðsstjóra í 6 mánuði en fengi svo eftir það laun sérfræðings en ef ekki þá fengi kærandi biðlaun í ár. Kærandi óskaði eftir einnar klukkustundar umhugsunartíma hvort vilji væri til að starfa sem sérfræðingur við stofnunina en var neitað um umbeðinn frest. Þá hafnaði kærandi umræddu tilboði um starf sérfræðings og undirritaði ofangreint bréf um niðurlagningu starfsins.

Með tölvubréfi, dags. 26. nóvember 2019, óskaði kærandi eftir rökstuðningi frá forstjóra [C]. Með tölvubréfi, dags. 1. desember 2019, svaraði forstjóri [C] umræddri beiðni um rökstuðning. Með bréfi, dags. 15. janúar 2020, óskaði [A] f.h. kæranda eftir ítarlegri rökstuðningi fyrir ákvörðuninni. Í því bréfi var sérstaklega vísað til skyldu opinberra vinnuveitenda að rökstyðja niðurlagningu starfs skriflega sé þess óskað, sbr. 2. mgr. 44. gr. laga nr. 70/1996 og V. kafla stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og því haldið fram að sá rökstuðningur sem barst kæranda 1. desember 2019 hafi ekki uppfyllt ákvæði laga um efni rökstuðnings. Farið var fram á að forstjóri [C] rökstyddi ákvörðun um niðurlagningu starfs kæranda og að uppfylltum lagaákvæðum og að rökstuðningur stofnunarinnar innihéldi svör við 11 sundurliðuðum spurningum, þ. á m. var óskað eftir rökstuðningi fyrir hvernig forstjóri [C] teldi tilgreind ákvæði stjórnsýslulaga hafa verið uppfyllt við ákvörðunina, m.t.t. rannsóknarskyldu, jafnræðis- og meðalhófsreglu. Auk framangreinds var farið fram á að forstóri [C] afhenti öll gögn er varði kæranda er tengdust ákvörðun stofnunarinnar um að segja kæranda upp störfum eða leggja starf kæranda niður, ásamt afriti af þeirri aðgerðaáætlun sem unnið hafi verið eftir, sbr. m.a. 15. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Með bréfi, dags. 17. janúar 2020, barst bréf frá forstjóra [C]. Þar kom fram að samkvæmt nýsamþykktum fjárlögum og fjármálaáætlun þyrfti [C] að hagræða í sínum rekstri. Einnig segir þar að fagsviðum hafi verið fækkað úr fimm í fjögur og stoðsviðum úr fjórum í tvö og sviðsstjórum sem ekki urðu áfram sviðsstjórar hafi verið boðið áframhaldandi starf sem sérfræðingar. Eitt þessara starfa hafi verið starf kæranda en henni hafi verið boðið áframhaldandi starf við stofnunina sem sérfræðingur. Kærandi hafi kosið að þiggja það ekki og hætta hjá stofnuninni. Því hafi henni verið boðið að starfið yrði lagt niður og á þann hátt fengi hún biðlaun í 1 ár í stað uppsagnarfrests sem væri styttri.

Málsástæður í stjórnsýslukæru og málsmeðferð

Með stjórnsýslukæru [A] f.h. [B], dags. 8. maí 2020, er kærð til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra ákvörðun forstjóra [C], dags. 21. nóvember 2019, um að leggja niður starf kæranda með 12 mánaða fyrirvara miðað við dagsetningu bréfsins í samræmi við ákvæði ráðningarsamnings og 43. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

Í stjórnsýslukæru eru gerðar þær kröfur að framangreind ákvörðun, dags. 21. nóvember 2019, verði felld úr gildi. Í rökstuðningi með stjórnsýslukærunni er gerð grein fyrir starfsferli kæranda hjá [C]. Einnig kemur þar fram að rökstuðningur forstjóra [C] í bréfi, dags. 17. janúar 2020, uppfylli vart ákvæði 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 en ekkert hafi komið þar fram um ástæðu þess að kæranda var sagt upp störfum eða starf kæranda lagt niður annað en að sviðum hafi verið fækkað í ljósi meintra hagræðingarmarkmiða og/eða skipulagsbreytinga. Engin fagleg greining hafi verið gerð á áhrifum þess að leggja sviðið niður. Ekkert hafi komið fram um ástæðu þess að kæranda hafi ekki verið gefinn umbeðinn umhugsunarfrestur hvort hún myndi vilja taka stöðu sérfræðings. Í fyrirliggjandi gögnum sé annars vegar fjallað um niðurlagningu starfs, sbr. m.a. bréf, dags. 21. nóvember 2019, og hins vegar að kærandi hafi haft val um að starf hennar yrði lagt niður, að öðrum kosti myndu laun eingöngu vera greidd á grundvelli ákvæða um uppsagnarfrest. Óljóst sé því af gögnum málsins hvort um sé að ræða eiginlega uppsögn eða raunverulega niðurlagningu starfs. Ekki sé ljóst hvort uppsögn/niðurlagning starfs hafi tengst meintum hagræðingarkröfum, skipulagsbreytingum eða hvort fyrir liggi aðrar ástæður.

Einnig er í stjórnsýslukærunni vísað til rannsóknarreglu 10. gr., jafnræðisreglu 11. gr. og meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Ennfremur kemur þar fram að þegar litið sé til þeirra upplýsinga og gagna sem liggi fyrir virðist sem uppsögn eða niðurlagning starfs kæranda hafi í eðli sínu snúið að kæranda sjálfum og því eigi 2. málsl. 1. mgr. 44. gr. laga nr. 70/1996 ekki við. Uppsagnir á öðrum grundvelli, sem sé að finna í tilnefndum málslið, krefjist þess að áminningarferli fari fram áður, sbr. 1. mgr. 44. gr. og 21. gr. laganna, sbr. þó 45. gr. laganna. Í öllum tilvikum beri stofnun að veita starfsmanni andmælarétt, sbr. m.a. 21. gr. laganna og 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Kærandi hafi ekki fengið að tjá sig um uppsögn eða niðurlagningu starfsins og því hafi andmælaréttur kæranda ekki verið virtur. Þá segir í stjórnsýslukærunni að í íslenskum rétti gildi sú grundvallarregla, sem nefnd sé réttmætisreglan, en í henni felist að ákvarðanir í stjórnsýslu skuli vera byggðar á málefnalegum sjónarmiðum og að uppfylltum öðrum skilyrðum sem og í þessu tilviki að uppfylltum ákvæðum laga nr. 70/1996 og stjórnsýslulaga nr. 37/1993 enda teljist ráðningar og uppsagnir til stjórnvaldsákvarðana, þ.á m. beri stofnunum að veita rökstuðning fyrir slíkum ákvörðunum. Forstjóri [C] hafi ekki lagt fram nein gögn, upplýsingar eða rökstuðning þess efnis sem sýni að ákvörðun um uppsögn eða niðurlagningu starfs kæranda hafi verið byggð á málefnalegum sjónarmiðum eða ástæðum eða verið byggð á fullupplýstum grunni. Þess sé krafist að ráðuneytið taki ákvörðun forstjóra [C] til endurskoðunar, sbr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Einnig sé þess krafist að kærandi fái rökstuðning fyrir ákvörðun forstjóra [C], að kærandi fái afrit af öllum gögnum sem búið hafi að baki ákvörðun um að segja kæranda upp störfum eða leggja starf kæranda niður og að þeim spurningum sem félagið beindi til forstjóra verði svarað lið fyrir lið. Þegar litið sé til málavaxta og fyrirliggjandi gagna og upplýsinga þá teljist á rökstuðningur sem liggi fyrir, sbr. tölvubréf 1. desember 2019 og sá sem hafi borist [A] 17. janúar 2020, vart uppfylla ákvæði 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um rökstuðning fyrir slíkri íþyngjandi ákvörðun sem uppsögn eða niðurlagning starfs í eðli sínu sé. Þrátt fyrir beiðni þess efnis hafi forstjóri [C] ekki afhent þau gögn er varði kæranda eins og stjórnvöldum beri að gera samkvæmt 15. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 heldur vísað til þess að um samandregnar upplýsingar úr ótilgreindum gögnum sé að ræða. Ekki hafi komið fram að stofnunin hafi skoðað aðrar leiðir sem hefðu náð sama markmiði án þess að segja þyrfti upp kæranda eða leggja starf kæranda niður. Starfsmenn ríkisins skulu ráðnir til starfa ótímabundið með gagnkvæmum uppsagnarfresti og sé sá frestur þrír mánuðir, sbr. 1. mgr. 41. gr. laga nr. 70/1996, sbr. þó ákvæði 17. kafla kjarasamnings [A] og ríkisins. Að öllu framangreindu virtu sé ekkert sem bendi til þess að ákvörðun forstjóra [C] um uppsögn eða niðurlagningu starfs kæranda hafi verið byggð á málefnalegum ástæðum heldur þvert á móti bendi fyrirliggjandi upplýsingar og gögn til þess að ómálefnalegar ástæður hafi búið að baki ákvörðuninni sem og að ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og laga nr. 70/1996 hafi í raun og veru verið þverbrotin.

[A] fari fram á, fyrir hönd kæranda, að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra taki ákvörðun forstjóra [C] til endurskoðunar, sbr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þess sé krafist að ráðherra taki formlega afstöðu til uppsagnar og/eða niðurlagningar starfs kæranda, að kærandi fái rökstuðning fyrir ákvörðun forstjóra [C], að kærandi fái afrit af öllum gögnum er lágu að baki ákvörðun um að segja kæranda upp störfum eða leggja starf kæranda niður og að þeim spurningum sem [A} beindi til forstjóra verði svarað lið fyrir lið. Jafnframt sé farið fram á að [A] verði afhent aðgerðaáætlun sem unnin hafi verið með ráðuneytinu, sbr. meðfylgjandi glærur frá starfsmannafundi 21. nóvember 2019, og upplýsingar um hverjir hafi komið að henni, annars vegar af hálfu ráðuneytisins og hins vegar af hálfu [C]. [A telji að vegna háttsemi forstjóra [C] sé grundvöllur fyrir kröfu til miskabóta vegna ólögmætrar meingerðar gegn æru kæranda og persónu, sbr. 1. mgr. 26. skaðabótalaga nr. 50/1993.

Eftirtalin gögn fylgdu stjórnsýslukærunni í ljósritum: 1) Bréf, dags. 21. nóvember 2019. 2) Tölvupóstsamskipti, dags. 26. nóvember og 1. desember 2019. 3) Bréf, dags. 15. janúar 2020. 4) Bréf, dags. 17. janúar 2020. 5) Feril- og ritaskrá - enska. 6) Ferilskrá. 7) Starfslýsingar. 8) Verkáætlanir á sviði gagnagrunna- og upplýsingatækni fyrir árið 2020. 9) Innanhússauglýsing um störf sviðsstjóra maí - júní 2016. 10) Auglýsing um starf rannsóknamanns og doktorsnema, október 2019. 11) Glærur frá starfsmannafundi 21. nóvember 2019. 12) Skýrsla um úttekt á fjármálum [C].

Rökstuðningur

Um  starfslok opinberra starfsmanna gilda ákvæði laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

Í 1. málsl. 1. mgr. 43. gr. laganna er svohljóðandi ákvæði: "Forstöðumaður stofnunar hefur rétt til að segja starfsmanni upp störfum eftir því sem fyrir er mælt í ráðningarsamningi."

Í 1. mgr. 44. gr. laganna er svohljóðandi ákvæði: "Skylt er að veita starfsmanni áminningu skv. 21. gr. og gefa honum færi á að bæta ráð sitt áður en honum er sagt upp störfum ef uppsögn á rætur að rekja til ástæðna sem þar eru tilgreindar. Annars er ekki skylt að gefa starfsmanni kost á að tjá sig um ástæður uppsagnar áður en hún tekur gildi, þar á meðal ef uppsögn stafar af öðrum ástæðum, svo sem þeirri að verið sé að fækka starfsmönnum vegna hagræðingar í rekstri stofnunar. "Í 2. mgr. 44. gr. laganna segir: "Ef starfsmaður óskar skal rökstyðja uppsögn skriflega. Ef hún á rætur að  rekja til ástæðna sem tilgreindar eru í 21. gr. má bera hana undir hlutaðeigandi ráðherra."

Þá segir í 49. gr. laga nr. 70/1996: "Ákvörðunum stjórnvalda samkvæmt lögum þessum verður ekki skotið til æðri stjórnvalda, nema öðruvísi sé fyrir mælt í einstökum ákvæðum laganna."

Í hinni kærðu ákvörðun, dags. 21. nóvember 2019, tölvubréfi forstjóra [C], dags. 1. desember 2019 og bréfi forstjóra [C], dags. 17. janúar 2020, þar sem kemur fram rökstuðningur fyrir hinni kærðu ákvörðun og gerð er grein fyrir hér að framan kemur fram að niðurlagning starfs kæranda hjá [C] stafaði af því að verið var að fækka sviðum og starfsmönnum vegna hagræðingar í rekstri stofnunarinnar, sbr. 2. málsl. 1. mgr. 44. gr. laga nr. 70/1996.

Ákvæði laga nr. 70/1996 hafa ekki að geyma sérstaka kæruheimild til æðra stjórnvalds vegna framangreindrar ákvörðunar, dags. 21. nóvember 2019, en samkvæmt því er umrædd ákvörðun ekki kæranleg til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

Með vísan til framanritaðs er stjórnsýslukæru [B] í máli þessu vísað frá.

Úrskurður

Stjórnsýslukæru [B] í máli þessu er vísað frá.


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum