Hoppa yfir valmynd
K%C3%A6runefnd%20%C3%BAtlendingam%C3%A1la

Nr. 103/2021 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 23. febrúar 2022 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 103/2022

í stjórnsýslumáli nr. KNU21110094

 

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I.       Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Hinn 22. nóvember 2021 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari Albaníu (hér eftir nefndur kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 18. nóvember 2021, um að synja umsókn hans um að fella úr gildi endurkomubann til Íslands.

Kærandi krefst þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi.

Fyrrgreind ákvörðun var kærð á grundvelli 7. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II.        Málsatvik og málsmeðferð

Með bréfi, dags. 1. desember 2018, tilkynnti Útlendingastofnun kæranda um hugsanlega brottvísun og endurkomubann til Íslands vegna ólögmætrar dvalar hér á landi, sbr. a-lið 1. mgr. 98. gr. laga um útlendinga. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 15. október 2019, var kæranda brottvísað og ákveðið endurkomubann til Íslands í tvö ár. Kærunefnd staðfesti þá ákvörðun Útlendingastofnunar með úrskurði nr. 584/2019, dags. 11. desember 2019. Samkvæmt gögnum málsins yfirgaf kærandi landið hinn 17. janúar 2020 og hófst endurkomubannið því hinn sama dag, sbr. 4. mgr. 101. gr. laga um útlendinga. Kærandi, sem þá bar nafnið [...], snéri aftur hingað til lands hinn 20. nóvember 2020. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 8. desember 2020, var kæranda á ný brottvísað og ákveðið endurkomubann til landsins í þrjú ár. Samkvæmt gögnum málsins var kærandi fluttur til heimaríkis hinn 17. desember 2020. Ákvörðun Útlendingastofnunar var staðfest með úrskurði kærunefndar nr. 78/2021, dags. 17. febrúar 2021.

Samkvæmt gögnum málsins gekk kærandi í hjúskap með íslenskum ríkisborgara í heimaríki sínu hinn 26. maí 2021. Með bréfi til Útlendingastofnunar, dags. 30. júní 2021, óskaði kærandi eftir niðurfellingu á endurkomubanni til landsins. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 18. nóvember 2021, var beiðninni synjað. Kærandi kærði ákvörðunina til kærunefndar útlendingamála hinn 22. nóvember 2021 en meðfylgjandi kæru voru greinargerð kæranda ásamt fylgigögnum.

III.      Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar var vísað til 3. mgr. 101. gr. laga um útlendinga þar sem fram kemur að samkvæmt umsókn sé heimilt að fella úr gildi endurkomubann hafi aðstæður breyst frá því að ákvörðun var tekin. Er vísað til framgreindra ákvarðana stjórnvalda útlendingamála en tiltölulega stutt væri síðan að endurkomubann hans til landsins hefði tekið gildi. Þegar litið væri til þeirra óverulegu breytinga sem orðið hefðu á aðstæðum og fjölskylduhag kæranda borið saman við ítrekað og alvarlegt brot hans gegn ákvæðum laga um útlendinga var það niðurstaða Útlendingastofnunar að synja bæri umsókn hans um niðurfellingu á endurkomubanni.

IV.    Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð er vísað til þess að hinn 26. maí 2021 hafi kærandi gengið í hjúskap með íslenskum ríkisborgara í heimaríki hans og hafi hjúskapurinn verið staðfestur af íslenskum yfirvöldum og skráður í Þjóðskrá Íslands. Kærandi gerir verulegar athugasemdir við niðurstöðu Útlendingastofnunar og telur ljóst að þar sem töluverðar breytingar hafi orðið á aðstæðum og fjölskylduhag hans séu skilyrði fyrir niðurfellingu á endurkomubanni samkvæmt 3. mgr. 101. gr. laga um útlendinga til staðar. Af framkvæmd kærunefndar útlendingamála megi ráða að nefndin líti til þess að við matið beri að taka aðstæður aðila til heildstæðrar athugnar, þar sem breytingar á einstaklingsbundnum aðstæðum aðila séu vegnar á móti þeim sjónarmiðum sem brottvísun grundvallaðist á, sbr. t.d. niðurstöðu kærunefndar í máli nr. 369/2018. Í ljósi endurkomubanns kæranda hafi maki hans nú ferðast reglulega til heimaríkis hans í því skyni að heimsækja kæranda og verja tíma með honum. Hafi hún ferðast þrisvar á þessu ári og sjái jafnframt fram á að verja næsta sumri þar. Ljóst sé að sú fjölskyldusameining feli í sér tilheyrandi kostnað og þá hafi tengsl kæranda við stjúpbörn sín eflst verulega á þeim tíma sem liðið hafi frá brottvísun. Maki kæranda eigi tvö ung börn úr fyrri samböndum og hafi kærandi komið töluvert að uppeldi þeirra og átt í miklum samskiptum við þau. Þar sem feður barnanna séu í takmörkuðum samskiptum við þau hafi kærandi í reynd komið þeim í föðurstað og hafi mikil og regluleg samskipti átt sér stað. Enn fremur vísar kærandi til þess að maki hans sé að hluta til á örorkubótum og hafi því átt í erfiðleikum með rekstur heimilisins, sem einstætt foreldri. Sé nú svo komið að maki hans sjái fram á að bætur hennar muni skerðast á komandi ári og muni því fjárhagsleg byrði hennar aukast enn frekar. Telur kærandi því mikilvægt að hann fái hér dvalar- og atvinnuleyfi, þannig að hann geti unnið hér á landi og tekið þátt í rekstri heimilisins.

Auk framangreinds telur kærandi að í hinni kærðu ákvörðun séu brot kæranda er leiddu til brottvísunar og endurkomubanns metin með of íþyngjandi hætti og að aðstæður hafi ekki verið rannsakaðar með fullnægjandi hætti. Byggir kærandi á því að Útlendingastofnun hafi ekki fullnægt rannsóknarskyldu sinni, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, þar sem raunverulegar fjölskylduaðstæður hans hafi ekki verið skoðaðar og ekki hafi nægt tillit verið tekið til þess að kærandi sé nú í hjúskap með íslenskum ríkisborgara og hafi sterk fjölskyldutengsl við landið. Hin kærða ákvörðun byggi einna helst á því að kærandi hafi gerst sekur um alvarlegt brot á lögum um útlendinga þar sem vísað hafi verið til þess að kærandi hafi skipt um nafn til þess að komast hjá endurkomubanni og af þeim sökum hafi verið um alvarlegt brot að ræða. Kærandi mótmælir þessum röksemdum og vísar til rökstuðnings hjá stjórnvöldum þess efnis að nafnabreytinguna megi rekja til breytingar á hjúskaparstöðu hans. Kærandi telur ljóst að þau brot sem brottvísun og endurkomubann hans grundvallist á séu dvöl umfram það sem heimilt var og brot á því endurkomubanni. Megi í því samhengi benda á að kærandi hafi hvorki hlotið dóm fyrir refsiverða háttsemi hér á landi né annar staðar og hafi hann ekki komist í kast við lögin á annan hátt. Verði því að telja að þegar þau brot sem leiddu til endurkomubannsins séu borin saman við þær breytingar sem orðið hafi ásamt fjölskylduaðstæðum hans og tengslum við landið, sé grundvöllur fyrir því að fella endurkomubann hans til landsins úr gildi.

V.      Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Í 101. gr. laga um útlendinga er fjallað um áhrif brottvísunar og endurkomubann. Samkvæmt 2. mgr. ákvæðisins felur brottvísun í sér bann við komu til landsins síðar. Endurkomubannið getur verið varanlegt eða tímabundið en skal að jafnaði ekki gilda skemur en tvö ár. Á grundvelli 3 mgr. 101. gr. er heimilt að fella úr gildi endurkomubann samkvæmt umsókn, hafi aðstæður breyst frá því að ákvörðun um brottvísun var tekin.

Í athugasemdum við 3. mgr. 101. gr. í frumvarpi til laga um útlendinga kemur fram að sú heimild sé í samræmi við 3. mgr. 11. gr. tilskipunar 2008/115/EB um brottvísun útlendinga í ólögmætri dvöl, en í ákvæðinu er m.a. veitt heimild til að fella úr gildi endurkomubann á grundvelli mannúðarástæðna. Í tilskipuninni sé þó ekki gerð nánari grein fyrir því hvaða tilvik falli undir mannúðaraðstæður en ljóst sé að ríkjunum sé veitt svigrúm til túlkunar og mats á þeim aðstæðum sem fyrir hendi séu hverju sinni.

Í 3. mgr. 11. gr. tilskipunar 2008/115/EB segir m.a. að aðildarríki skuli taka til skoðunar hvort draga skuli tilbaka endurkomubann ef einstaklingur hefur yfirgefið Schengen-svæðið í fullu samræmi við ákvörðun þar að lútandi. Þá segir að aðildarríki geti á grundvelli mannúðarsjónarmiða tekið ákvarðanir um að veita ekki endurkomubann, draga endurkomubann til baka og heimila einstaklingi sem hefur verið vísað brott að heimsækja landið án þess að endurkomubann falli úr gildi. Í ákvæðinu segir jafnframt að aðildarríki geti dregið til baka endurkomubann í einstökum málum eða flokkum mála á öðrum grundvelli.

Eins og áður greinir felur 3. mgr. 101. gr. laga um útlendinga í sér heimild til að fella úr gildi endurkomubann. Í samræmi við orðalag ákvæðisins getur slíkt brottfall eingöngu komið til greina hafi aðstæður breyst frá því að ákvörðun um brottvísun var tekin. Að öðru leyti er hvorki í lögunum né lögskýringargögnum að finna frekari útfærslu á þeim sjónarmiðum sem ákvörðun um brottfall endurkomubanns verður byggð. Kærunefnd telur að heimild til að fella brott endurkomubann sé í eðli sínu meðalhófsúrræði. Beiting ákvæðisins verði því byggð á sambærilegum sjónarmiðum og heimildir stjórnvalda til að leggja á endurkomubann. Við mat á því hvort rétt sé að fella brott endurkomubann ber stjórnvöldum því að taka aðstæður aðila til heildstæðrar athugunar þar sem breytingar á einstaklingsbundnum aðstæðum hans eru vegnar á móti þeim sjónarmiðum sem voru grundvöllur brottvísunar.

Kæranda var með úrskurði kærunefndar útlendingamála nr. 78/2021 brottvísað og ákveðið endurkomubann til landsins í þrjú ár á grundvelli b-liðar 1. mgr. 98. gr. laga um útlendinga fyrir að hafa komið til landsins þrátt fyrir að vera í endurkomubanni til landsins, en kæranda hafði áður verið brottvísað og ákveðið endurkomubann með úrskurði kærunefndar nr. 584/2019. Var það mat kærunefndar að kærandi hefði með framangreindri háttsemi sinni brotið alvarlega gegn ákvæðum laga um útlendinga er varða bann við endurkomu til landsins. Kærandi var fluttur til heimaríkis af stoðdeild ríkislögreglustjóra hinn 17. desember 2020 og hófst þriggja ára endurkomubann kæranda til landsins hinn sama dag, sbr. 4. mgr. 101. gr. laga um útlendinga.

Við meðferð síðara máls kæranda hjá kærunefnd, sbr. úrskurð nr. 78/2021, var m.a. tekin afstaða til fjölskyldutengsla hans við landið, þ.e. tengsla hans við núverandi maka og barna hennar, en kærandi byggir á sömu tengslum í máli þessu. Framlögð gögn málsins bera ekki með sér að þau tengsl hafi breyst að öðru leyti en því að kærandi og maki gengu í hjúskap í heimaríki kæranda hinn 26. maí 2021 auk þess sem maki hafi heimsótt kæranda til heimaríkis. Stendur því ekkert til fyrirstöðu að maki kæranda geti heimsótt hann þar til endurkomubanni hans lýkur hinn 17. desember 2023. Með hliðsjón af þessu er það mat kærunefndar að aðstæður hafi ekki breyst frá því að ákvörðun um brottvísun var tekin í skilningi 3. mgr. 101. gr. laga um útlendinga.

Vegna tilvísunar kæranda til úrskurðar kærunefndar nr. 369/2018 var þar um eðlisólíkt mál að ræða. Í málinu hafði umsókn aðila málsins um alþjóðlega vernd verið metin bersýnilega tilhæfulaus og honum því verið ákveðið tveggja ára endurkomubann til landsins. Var það niðurstaða kærunefndar að aðstæður aðilans hefðu breyst þar sem hann væri í hjúskap með íslenskum ríkisborgara og að þau ættu von á barni. Tók kærunefnd fram að þegar hagsmunir aðilans af samvistum við maka í tengslum við væntanlega barnsfæðingu og samvistum við barn sitt á hér á landi væru vegnir á móti grundvelli brottvísunar hans, teldi kærunefnd rétt að fella úr gildi endurkomubann aðila til landsins. Fellst kærunefnd því ekki á málsástæðu kæranda þess efnis að um sambærilegt mál sé að ræða sem hafi fordæmisgildi fyrir mál kæranda.

Með vísan til alls framangreinds er hin kærða ákvörðun staðfest.

 

 

Úrskurðarorð:

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

 

 

Þorsteinn Gunnarsson

 

 

Gunnar Páll Baldvinsson                                                                  Sandra Hlíf Ocares

 

                                                                                                    


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum